Kennsluaðferðir fyrir fullorðna

Úr Wikibókunum

Verkefni unnið á námskeiðinu: Fullorðinsfræðsla við KHÍ Haustið 2006

Almennt um kennsluaðferðir[breyta]

Þegar skipuleggja skal námskeið fullorðinna þá er það ekki léttvægt í undirbúningi hvaða kennsluaðferðum verði beitt í kennslunni. Mikið er lagt í markmiðssetningu með náminu og gerð kennsluáætlunar auk þess þarf að gæta að því að umhverfið sé í góðu lagi. Þegar kemur að því að kenna þá er kennsluaðferðin oft bundin við vana, spilað er af fingrum fram eða látið ráðast af einhverri aðferð sem er ,,inni” í það skiptið. Kennsluaðferðir eiga að stuðla að námi fullorðinna því verður að velja þær af kostgæfni út frá markmiðum kennslunnar, allt frá kynningu í byrjun námskeiðs til enda. Þetta byggist ekki aðeins á því að koma innihaldi efnisins til skila heldur líka að koma á góðu félagslegu sambandi á milli aðila námskeiðsins, bæði milli leiðbeinanda og þátttakenda og einnig innbyrðis milli þátttakenda. Það er nauðsynlegt hverjum leiðbeinanda að hafa kynnt sér fjölbreyttar aðferðir í kennslu og tileinkað sér þær aðferðir sem hann telur að henti sér og því efni sem hann þarf að koma til skila til námskeiðum sínum. En hann þarf einnig að gefa sér tíma til að ígrunda hvernig best sé að nota aðferðirnar við ákveðnar aðstæður, út frá reynslu og þeirri staðreynd að það eru ekki allar kennsluaðferðir sem henta fullornum eða það er ekki sama hvernig þeim er beitt. Því er gott að spyrja sig spurninga eins og ,,hvernig á ég að gera þetta?” ,,ef ég nota þessa kennsluaðferð hvaða afleiðingar getur það haft?” Það þarf að reyna að sjá fyrir sér hvernig námskeiðið geti þróast með þeim aðferðum sem hugnast hefur að nota í kennslunni og út frá þeim stíl sem hver leiðbeinandi hefur tamið sér. Leiðbeinandinn verður að vera sáttur við sitt val og finnast hann ráða við þær aðferðir sem nota skal. Einnig er gott að leiðbeinendur hafi prófað og tileinkað sér kennsluaðferðir sem falla vel að persónuleika þeirra og þeim finnst hafa heppnast vel. Auðveldara er að breyta yfir í misjafnar aðferð eftir því sem þurfa þykir miðað við hvern hóp sem kennt er hverju sinni. Kennsluaðferðir eru verkfæri leiðbeinandans eins og sníðaskærin klæðskeranum, verkið verður ekki unnið vel ef verkfærin eru léleg eða verkhafinn kann ekki að beita þeim. Einnig þarf að fylgjast vel með því að aðferðirnar hafi skilað tilætluðum árangri. Leiðbeinandinn þarf að huga að því að kennsluaðferðirnar sem hann ætlar sér að nota séu ekki lítillækkandi fyrir þátttakendur, að þær byggi upp sjálfstraust og virði reynslu þeirra auk þess sem taka þarf tillit til námsaðferða, námsörðugleika og möguleika á mótstöðu fullorðinna í náminu. Einnig þarf að forðast að hindra eðlilega þróun í samskiptum innan hópsins og að þvinganir komi ekki í veg fyrir menntun þátttakenda. Þegar leiðbeinendur hafa kynnt sér vel ýmsar kennsluaðferðir, ígrundað notagildi þeirra og séð hvað hægt er að fá fram með notkun þeirra þá geta þeir farið að færa rök fyrir þeim. Það er nauðsynlegt að geta gert það því sú staða getur komið upp að þátttakendur eða aðrir sem koma að námskeiðahaldinu vilja fá að vita af hverju leiðbeinendur nota þessa eða hina aðferðina en ekki einhverja aðra við kennsluna (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx). --Ragnheiður G 15:29, 25 nóvember 2006 (UTC)

Kennsluaðferðir í upphafi námskeiðs[breyta]

Þegar undirbúin er kennsla fyrir fullorðna þá er gott að kynna sér þátttakendur áður en námskeiðið hefst. Áður en ákvarðanir eru teknar um kennsluaðferðir þá kemur sér vel að vita úr hvaða umhverfi þátttakendur koma, hver starfsvettvangur þeirra er, hvaða nám þeir hafa stundað og hvað þeir ætlast til að fá út úr námskeiðinu. Þetta er hægt að gera með því að senda nokkrar spurningar í tölvupósti, senda þeim þær í bréfaformi, hringja í þá eða fá þá í viðtal. Nú hefur leiðbeinandinn gert sér grein fyrir reynslu og væntingum þátttakenda námskeiðisins og velur út frá því efni og kennsluaðferðir sem kemur á móts við væntingar sem flestra. Hann getur gefið sér að ekki er hægt að uppfylla óskir allra og að þátttakendur viti að þeir geta ekki fengið allt sem þeir vilja út úr námskeiðinu. Gott getur verið að senda út til þátttakenda nána lýsingu á námskeiðinu þannig að þeir komi upplýstari í fyrsta skipti og viti á hverju þeir eiga von þannig að kynningar verði einfaldari og fyrr hægt að takast á við viðfangsefni námskeiðsins. Þegar ákveða skal húsnæðið eða kennslustofu fyrir námskeiðið verður það að miðast við hvaða kennsluaðferðum verði beitt í námskeiðinu. Ef hreyfing þarf að vera á uppröðun borða og stóla þá festir maður ekki staðlaðan fyrirlestrasal fyrir námskeiðið. Ef notast á við hópleiki eða hlutverkaleiki í kennslunni þá þarf gott rými og góða loftræstingu auk þess þarf að tryggja að þátttakendur hafi aðstöðu til að matast eða drekka kaffi saman í pásum það stuðlar einnig að því að þátttakendur kynnist innbyrgðis.Það er að mörgu að hyggja er kennsluaðferðir eru ákveðnar t.d. hverning er námsefnið sem á að kenna. Það þarf að aðlaga kennsluaðferðirnar að efninu. Þegar kemur að því að taka á móti þátttakendum í fyrsta sinn þá þarf að beita aðferðum sem stuðla að kynningu á milli leiðbeinandans og þátttakenda annars vegar og hins vegar milli þátttakenda innbirðis. Hver hópur er ólíkur þeim fyrri og einstaklingar hópsins eru misjafnir. Einhverjir innan hópsins eru óöruggir með sig aðrir frakkir og hafa þörf fyrir að láta taka eftir sér, enn aðrir eru aftur á bak og hafa sig lítið í frammi og allir hafa einhverja reynslu að baki en ólíka. Á öllu þessu þarf að taka til að virkja hópinn og gera hann áhugasaman um efnið og samveruna í námskeiðinu. Margar aðferðir eru til í byrjun námskeiðs og nefni ég nokkrar í því tilviki. Hægt er að kanna væntingar. Ef ekki hefur verið gerð könnun á væntingum þátttakenda fyrir námskeiðið þá er hægt að byrja á því í fyrsta tíma með ýmsu móti. Þátttakendum er skipt upp í litla hópa eða tveggja manna tal þar sem þeim er ætlað að kynna sig fyrir hvort öðru og ræða saman um þær væntingar og jafnvel þann ótta sem þeir hafa gagnvart þessu námskeiði. Síðan rita þau eitt eða tvö atriði niður á blað varðandi þetta. Er þau hafa gert það þá getur átt sér stað kynning hjá hverjum og einum á sjálfum sér fyrir allan hópin með því að standa upp, segja til nafns og lesa upp það sem þau rituðu á blaðið eða næsti við hliðina sér um kynninguna og svo koll af kolli. Einnig er hægt að safna blöðunum saman og flokka þau eftir væntingum. Væntingar verða þar með sýnilegar fyrir öllum og ekki síst fyrir leiðbeinandanum. Það má ekki gleyma að hann hefur einnig eitthvað um innihald námskeiðisins að segja og þarf að koma sínum skoðunum á framfæri. Með þessar upplýsingar er síðan hægt að finna út á hvað skal leggja áherslu í námskeiðinu og reyna að koma til móts við alla að einhverju leiti. Gott er að láta þátttakendur geyma blöðin sín, sem lýstu væntingum þeirra, þá geta þeir notað þau þegar kemur að því að meta námskeiðið í lokin. Til eru svo kallaðir ,,ísbrjótar” sem góðir eru til að fá þátttakendur til að kynnast, opna sig og tjá sig, vera með. Ísbrjótar eru ákveðnar aðferðir, einskonar leikir, notaðir í fyrstu tímum til að draga úr spennu og kvíða auk þess að reyna að gera alla þátttakendur virka í námskeiðinu. Dæmi um ísbrjóta eru: Að skiptast á aurum/að skiptast á hugmyndum, bingó, persónulýsing, fræg persóna, nafnspjald, hvernig líður þér, nafnakeðja og nágrannaviðtal. Fullornir námsmenn vilja hafa eitthvað til málanna að leggja þegar kemur að skipulagningu námskeiðsins. Leiðbeinandinn getur rætt við þá í byrjun námskeiðsins um sameiginleg markmið með náminu, hvernig haga skuli framvindu námskeiðsins, hvernig verkefni þátttakendur vilja að séu sett fyrir þá t.d. stutt verkefni í tímum, heimaverkefni, ritgerðir, kynningar og þess háttar og hvenær skiladagar skuli vera á þeim og hvort áhugi sé fyrir lokaprófi auk þess hvenær og hve margar pásur skuli taka. Í þessu tilviki er hægt að notast við aðferðina ,,kláraðu setninguna” þar sem leiðbeinandinn kemur með hálf kláraða spurningu sem þátttakendur eiga síðan að botna. Botninn er skrifaður á töfluna eða færður fram á einhvern annan veg, leiðbeinandinn kemur einnig með sína botna. Dæmi um óbotnaða spurningu er: ,,Ég vona að við munum á þessu námskeiði….” Með því að leyfa þeim að taka þátt í sameiginlegum ákvarðanatökum af þessu tagi þá er möguleiki á að ná upp betra andrúmslofti í náminu og skapa gagnkvæmt traust innan hópsins. Í upphaf hverrar kennslustundar er gott að koma með skriflega dagskrá yfir það sem fjalla á um þann daginn í kennslunni, hvernig skiptingin er í henni, hvenær eru pásur og annað í þeim dúr. Nemendur geta fylgst með hvernig yfirferðin gengur og hvað bíður þeirra. Hægt er að hengja dagskrána skráða á pappír upp á vegg eða rita hana á töfluna. Þátttakendur og leiðbeinandi bera þar með sameiginlega ábyrgð á framgangi námskeiðsins (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx). --Ragnheiður G 15:30, 25 nóvember 2006 (UTC)

Kennsluaðferðir í aðalnámsefni[breyta]

Það þarf að koma þátttakendum af stað í námskeiðinu, gera þá að virkum þátttakendum. Margt glepur huga þeirra, flestir hafa ekki stundað nám lengi, þeir eru ný komnir úr vinnu og eru með hugann við viðfangsefni dagsins, áhyggjur af heimili eða hugurinn á reyki í ýmsar áttir. Það þarf að koma huga þeirra inn á eina braut, að nýja efninu sem takast á við á námskeiðinu. Þátttakendur eru látnir taka þátt í hugflæði (brainstorming) eða öðru nafni þankahríð. Leiðbeinandi kemur fram með kynningu eða spurningu sem varðar efnið og fær þátttakendur til að hugsa um hana, leita svara við henni og láta uppi jafn óðum þau svör eða þær hugmyndir sem þeir fá. Einnig er hægt að láta þá skrifa hugmyndirnar niður á blað eða kort sem úthlutað hefur verið til þeirra. Þetta er svokölluð kortaspurningaaðferð. Þarna fá þátttakendur möguleika á að tjá sig óhindrað og án áhrifa frá leiðbeinanda eða öðrum þátttakendum án þess að hafa áhyggjur af því að gert verði lítið úr hugmyndum þeirra. Þarna koma fram margar hugmyndir sem birtar eru hópnum sem síðan er hægt að ræða um út frá efni námskeiðsins. Til eru alls konar hugarþrautir sem hægt er að leggja fyrir þátttakendur til að fá hugann í gang og gera hann móttækilegri fyrir komandi nám. kveikjur hafa gagnast mörgum vel til að skapa umræðu um afmarkað efni. Þær geta verið í formi sérfræðings sem kemur með kynningu eða fyrirlestur, sýnd er kvikmynd, hlustað á hljómband eða sett upp sýning í skólastofunni. Á eftir þessu er komið af stað opinni umræðu eða hópvinnu (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx).

     Hópvinna er óbein kennsluaðferð sem reynist vel í fullorðinsfræðslu. Æskilegur fjöldi í hópum eru þrír til fimm. Ýmsar aðferðir eru til fyrir leiðbeinanda að para þátttakendur niður í hópa svo sömu aðilar lendi ekki alltaf saman í hópi. Hópvinnu þarf að undirbúa vel frá hendi leiðbeinanda. Öll verkfæri þurfa að vera til taks, það þarf jafnvel að raða borðum og stólum upp á nýtt svo vel fari um þátttakendur. Markmið hópvinnunar þarf að vera skýrt og hvaða efni á að fjalla um. Leiðbeinandinn leggur fyrir hópana afmarkað verkefni eða spurningar sem hóparnir fjalla um og reyna að leysa. Hóparnir eiga að fá frið fyrir leiðbeinandanum á meðan á hópvinnu stendur. Ákveða þarf tímann sem hópvinnan á að taka og gera ráð fyrir umræðu um niðurstöður vinnunar. Hægt er að birta niðurstöður hópanna með ýmsum hætti s.s. á veggspjaldi, í hugarkorti, í Power point kynningu eða að einn eða fleiri úr hópnum upplýsa aðra þátttakendur námskeiðsins um niðurstöður síns hóps. Eftir birtingu niðurstaðna er höfð almenn umræða um þær. 

Fyrirlestur í fullorðinsfræðslu getur vel gengið ef hann er stuttur. Ef fyrirlesturinn er langur er hætt við að áhugi þátttakandans dali fljótt. Stuttir fyrirlestrar eru góðir í bland með öðrum kennsluaðferðum sem kveikja eða sem kynning á efni sem taka á fyrir eða hafa sýnikennslu á. Skilyrði er að þátttakendur fái að reyna sjálfir það sem verið er að fjalla um eða sýnikennsla hefur verið á til að þeir geti tengt efnið fyrri reynslu og efnið festist inni. Af fyrirlestra-aðferðum henta óbeinir fyrirlestrar best í fullorðinsfræðslu þar sem leiðbeinandinn hefur frammsögn um kennsluefnið en þátttakendum er frjálst að spyrja hann jafnóðum ef eitthvað er óskýrt eða miðla af reynslu sinni um umfjöllunarefnið auk þess sem almenn umræða á sér stað jafn óðum innan hópsins. Þar sem leiðbeinendur eru með vefsíðu í gangi í tengslum við námskeiðið gæti verið hentugt að þeir væru búnir að lesa inn fyrirlestra þar, því það kemur þátttakendum vel að vera búnir að hlusta á veffyrirlestur frá þeim, um efnið sem taka á fyrir í næsta tíma, og þar með geta ráðið tíma sínum í hlustun þessa sjálfir og jafnvel tekið fyrirlesturinn inn í nokkrum hlutum eftir því sem hentar þeim hverju sinni í stað þess að eitt sé löngum tíma af næstu kennslustund í fyrirlesturinn. Spurnaraðferð eða ,,listin að spyrja” er ekki öllum leiðbeinendum auðveld. Spurningar verða að vera markvissar og eiga að beina þátttakendum rétta leið að ákveðinni niðurstöðu. Fyrstu spurningarnar eiga oft að vekja áhuga, nokkurs konar kveikjur sem síðan koma af stað umræðu. Þarna eru notaðar ,,opnar spurningar” en það þýðir að þar er ekkert eitt ákveðið svar rétt eða rangt en svörin geta verið misgóð. Þegar málið hefur verið rætt og ákveðin atriði hafa komið fram þá eru lagðar fram spurningar sem reyna meira á hugann og beinast sérstaklega að þeim atriðum sem ákveðið var að leggja áherslu á og ígrunda betur. Þarna þarf að skoða málið frá ýmsum sjónarhornum og vega og meta þær lausnir sem fást við það. Lokaspurningar í þessu ferli eiga síðan að draga efnið saman, þá þurfa þátttakendur að draga ályktanir og setja saman niðurstöður. Spurningar geta verið hvetjandi fyrir þátttakendur til sjálfsnáms. Sem dæmi um þannig aðferð er lausnarleitaraðferðin sem byggist á því að þátttakandinn er hvattur áfram með spurningum. Hann fær spurningu sem kemur honum af stað í leit að upplýsingum eða niðurstöðu á ákveðnum vanda. Þegar hann telur sig hafa fundið eitthvað sem bendir til svars eða niðurstöðu þá ber hann það undir leiðbeinanda sinn. Leiðbeinandinn svarar honum líklega með nýrri spurningu sem leiðir hann síðan áfram í leitinni og svona koll af kolli þar til lausnin er fundin. Lausnarleitaraðferðin nýtist bæði í hópvinnu og í einstaklingsmiðuðu námi. Hlutverkaleikur geta komið sér vel sem kennsluaðferð í fullorðinsfræðslu ef þátttakendur eru tilbúnir í þannig fyrirkomulag í náminu. Í hlutverkaleik er hægt að þjálfa þátttakendur í töluðu máli, sjá atburðarrás skýrar með því að setja sig í spor annara og reyna að skilja viðhorf og skoðanir annara(Ingvar Sigurgeirsson. 1999. Litróf kennsluaðferða. Reykjavík: Æskan ehf.). Margar fleiri kennsluaðferðir er hægt að nota til að koma efninu til þátttakenda og er hægt að skoða þær aðferðir á öðrum stað hér á Wiki. Endurgjöf er nauðsynleg í báðar áttir. Leiðbeinandi þarf að vita hvort kennsluaðferðirnar eru að skila efni námskeiðsins til þátttakenda auk þess sem þátttakendur þurfa að vita hvort þeir eru á réttri leið í námskeiðinu. Það skiptir miklu máli hvernig endurgjöfin er gerð og hvernig við henni er tekið. Leiðbeinandinn verður að vera maður til að taka við bæði jákvæðri og neikvæðri endurgjöf, hann þarf að vera faglegur. Þegar hefur vera fjalla um ákveðið efni í einhvern tíma og komið er að því að snúa sér að öðru þá er gott að kanna viðbrögð þátttakenda við því sem lokið er. Teknar eru síðustu mínútur tímans í að láta þátttakendur, hvern fyrir sig, segja hinum hvernig þeim fannst umfjöllunin hafa tekist til og hvort efnið hafi skilað sér til þeirra og/eða hvað hafi verið merkilegast í efninu að þeirra dómi. Þessi aðferð er kölluð blossi. Önnur aðferð til að kanna hvort kennslan hefi skilað einhverju til þátttakandans er Hvað ertu með í pokanum? Þá fá þátttakendur mynd á blaði af stórum sekk eða manni að burðast með hann og í sekkinn skal þátttakandinn skrifa þau atriði sem hann telur sig hafa lært í tímanum eða heimanáminu (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx). --Ragnheiður G 15:32, 25 nóvember 2006 (UTC)

Heimanám[breyta]

Oftast þurfa þátttakendur að undirbúa sig undir kennslustundir með lestri á efni því sem fjalla á um í námskeiðinu. Nokkrar kennsuaðferðir eru til sem hvetja þátttakendur til heimanáms. Ein aðferðin er að þátttakendur eru beðnir um að skrifa aðalatriði heimalestursins niður á spjaldskrárkort sem þeir síðan sýna leiðbeinanda sínum í næstu kennslustund og hann stimplar kortin. Þátttakendur halda kortum sínum og geta bætt á þau aðalatriðum. Þegar nálgast fer próf afhenda þeir kortin sín á skrifstofu skólans og fá síðan kortin afhend í prófinu. Að nota hugarkort við heimalestur er ekki ósvipuð aðferð. Þátttakendur samþykkja í upphafi námskeiðs að skila inn hugarkorti yfir aðalatriði heimanámsins fyrir hverja kennslustund til leiðbeinandans. Síðan er hægt að nota þessi hugarkort í hópvinnu til að taka enn betur saman aðalatriði kennsluefnisins og fá umfjöllun um það. Það þarf að gefa upp heimavinnu tímanlega annað hvort á blaði eða á vef námskeiðsins svo þátttakendur geti skipulagt sig miðað við tíma þann sem þeir ætla fyrir námskeiðið. Þetta skiptir máli fyrir fullorðin námsmann því hann vill í flestum tilfellum fá að stjórna sínu námi út frá sínum forsendum (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx). --Ragnheiður G 15:32, 25 nóvember 2006 (UTC)

Námsmat[breyta]

Námsmat getur farið fram á ýmsan hátt. Algengasta formið er að þátttakendur taki skyndipróf, leysi verkefni og taki lokapróf. Stundum er þetta nauðsynlegt þar sem ljúka þarf stöðluðu námsferli eins og ökuprófi eða einhvers konar stöðuprófi. En það eru til aðrar kennsluaðferðir til að meta námsárangur. Fyrst er að nefna símat þar sem stöðugt er í gangi mat á vinnu þátttakenda þar inn í kemur mæting þeirra, þátttaka þeirra í hópvinnu og umræðu í tímum, verkefnaskil, ritgerðarsmíði, hugarkortagerð, ferilmöppugerð og öll vinna sem þeir hafa lagt fram í námskeiðinu. Einnig er hægt að fylgjast með hvernig þátttakendum vegnar í námskeiðinu með því að leggja fyrir þá punktaspurningar. Þar er verið að kanna viðhorf þátttakenda til ákveðna málefna eða að þeir eiga að velja á milli nokkura möguleika. Önnur aðferð er að meta hvort markmið námskeiðsins hafi náðst í lok þess. Markmiðin eru skrifuð á spjöld eða markmiðsspjöldin sem gerð voru í upphafi námskeiðs dregin aftur upp og hengd upp á töflu. Undir þeim eru settir spjaldrenningar í líki hitamælis sem þátttakendur og leiðbeinandi merkja á hvað þeim fannst um hvernig til hefði tekist með hvert markmið námskeiðsins (http://setur.khi.is/fullordinsfraedsla/fullordinsfraedsla/tarefni/Forms/AllItems.aspx). --Ragnheiður G 15:33, 25 nóvember 2006 (UTC)

Lokaorð[breyta]

Það sem komið hefur fram í skrifum hér á undan er að í fullorðinsfræðslu þurfa kennsluaðferðirnar að miðast að því að virkja þátttakendur eins og hægt er. Fá þá til að tengja námsefnið við fyrri reynslu sína og einnig að þeir viti í lok námskeiðs hvernig þeir eiga að nýta sér þá vitneskju sem þeir öfluðu. --Ragnheiður G 15:34, 25 nóvember 2006 (UTC)

Tenglar[breyta]

Kennt í gegnum tölvur – fjarnám

Verkefni nemenda á námskeiðinu Fullorðinsfræðsla. Námskeiðið skiptist í sjö þemu. Nemendur fjalla á almennan hátt um þessi þemu í þessari Wikibók: