Fyrirlestur

Úr Wikibókunum

Fyrirlestrar eru ein algengasta kennsluaðferðin notuð í háskólum en hún er einnig ein sú umdeildasta. Þrátt fyrir það eru fyrirlestrar oft hentug aðferð til að miðla upplýsingum um námsefni í stórum hópi námsmanna, gefa yfirlit og eða kynna aðalatriði. Eins og með aðrar kennsluaðferðir er galdurinn að vita hvenær aðferðin á betur við en einhver önnur. Reyndur fyrirlesari spyr sig hvernig námsumhverfi hann vill skapa og hvert markmið kennslunnar sé. Fyrirlestrar reyna mjög á flytjandann sem þarf að huga að mörgum þáttum á meðan flutningi stendur. Fyrir utan að miðla þekkingu sinni á efninu þarf hann að kveikja áhuga, örva hugsun og vekja forvitni. Þar sem fyrirlestrar eru kennaramiðaðir þarf flytjandinn að vera mjög meðvitaður um afleiðingu þess fyrir nemendur að setjast niður í hlutverk óvirks hlustanda. Flytjandinn þarf að huga að getu nemenda til að halda athygli sinni vakandi og festa námsefnið í minni við þær aðstæður. Oft eru aðrar kennsluaðferðir tvinnaðar saman við fyrirlesturinn. Til dæmis er hvatt til umræðna og jafnvel búnir til litlir vinnuhópar.--Arnybirg 19:37, 13 desember 2006 (UTC)