Fara í innihald

Hlutverk leiðbeinenda í símenntun

Úr Wikibókunum

Ef einstaklingur lærir ekki á þann hátt sem kennarinn kennir verður kennarinn að kenna á annan hátt svo að einstaklingurinn læri. Prófessor Rita Dunn, St. John´s University N.Y. Prófessor Kenneth Dunn, Queen´s College N.Y.


Verkefni unnið á námskeiðinu: Fullorðinsfræðsla við KHÍ Haustið 2006

Inngangur[breyta]

Þegar leiðbeinandi byrjar kennslu fyrir fullorðna námsmenn, hvort sem það er styttri eða lengri námskeið eða námsáfangi þá þarf hann að huga að ýmsum þáttum. Honum er nauðsynlegt að fá upplýsingar um samsetningu nemendahópsins sem hann er að fara að kenna, er hann að fara að kenna námskeið sem var umbeðið af fyrirtæki eða stofnun eða koma nemendur í námið af því að þeir óska eftir því sjálfir. Hvert námsefnið er þarf leiðbeinandinn að þekkja og setja sér markmið með kennslunni, hvað eiga nemendur að kunna að náminu loknu? og hvernig ætlar leiðbeinandinn að mæla það. Hvaða kennsluaðferð mun henta námsefninu og nemendahópnum og hvernig getur leiðbeinandinn hvatt nemendur sína og verið til staðar fyrir þá. Hér á eftir mun verða farið ýtarlegra í þessi atriði hvert fyrir sig.


Þarfagreining[breyta]

Í fullorðinsfræðslu þarf að huga vel að hverjar þarfir nemendanna eru því fullorðnir einstaklingar hafa mismunandi bakgrunn, færni og reynslu sem þeir koma með inn í námið. Mikil aukning hefur orðið í sí- og endurmenntun á Íslandi og hafa námsframboð í starfstengdum greinum aukist mikið hvort sem er fyrir ófaglært eða faglært starfsfólk á vinnumarkaði. Fyrirtæki og stofnanir eru farin að huga meira og betur að því að efla starfsfólk sitt með aukinni menntun sem skilar sér í starfi. Raunfærni og raunfærnimat eru ný hugtök í fullorðinsfræðslu hér á landi en orðin þekktari í nágrannalöndum okkar (Sölvi Sveinsson, 2004). Með raunfærni er átt við að meta fólk með stutta skólagöngu, óformlegt nám eins og námskeið og styttri starfsleiðir og þá reynlsu sem einstaklingar hafa aflað sér í gegnum lífið og störf. Með því leggja vinnu í að skoða og meta þá þekkingu og færni sem býr í starfsfólki fyrirtækja og stofnana t.d. með gátlistum og/eða færnimöppu þar sem hver starfsmaður safnar saman upplýsingum um færni sína hvort sem hún er vinnutengd eða ekki. Út frá þessum upplýsingum geta fyrirtæki eða stofnanir metið hvernig starfsþjálfun og menntun muni skila meiri þekkingu og færni inn í starfssemina til að gera hana öflugri og einnig að nýta þann þekkingarauð sem fyrir er. Mismunandi er hvort leiðbeinandinn sjálfur geri þessa þarfagreininu eða fær upplýsingar í hendur, hann þarf að vinna úr þeim til að skipuleggja framhaldið. Ef leiðbeinandinn gerir þarfagreiningu ekki sjálfur þá eru algengustu upplýsingar sem hann fær um nemendur sína um aldursamsetningu, hvað þeir eiga sameiginlegt með því að sækja þetta námskeið t.d. koma frá ákveðnu fyrirtæki eða stofnun, við hvað þeir vinna og eftir hverju er verið að leita með því að senda þá á námskeið eða í nám. Þegar leiðbeinandi er kominn með allar nauðsynlegar upplýsingar byrjar hann að vega og meta hvernig hann ætlar að setja námsefnið fram, hvaða markmiðum hann ætlar að vinna að og hvaða kennlsuðaferðir henda best til að uppfylla þarfir nemendanna.

Setja markmið með kennslunni[breyta]

Fullorðnir námsmenn vilja að markmið með þeirri kennslu sem þeir sækja séu skýr og stefni að aukinni færni og þekkingu fyrir þá hvort sem er í einkalífinu eða vinnutengt. Leiðbeinandinn þarf að gefa sér tíma til að fara yfir þau markmið sem eru til t.d. í námskrá um það námsefni sem hann er að fara að kenna eða að setja sér ný markmið út frá þeim hóp nemenda sem hann er að fara að kenna og námsefni. Oft eru leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu að kenna sama námsefnið aftur og aftur og er þ.a.l. með ákveðin markmið sem hann þarf þó að aðlaga að hverjum nýjum nemendahóp sem hann kennir. Þegar leiðbeinandinn hittir nemendahópinn í fyrsta skipti er nauðsynlegt að hann gefi sér góðan tími til að fara yfir markmiðin sem hann er búin að setja og fari vel yfir þau með nemendunum. Þegar leiðbeinandi er búin að útskýra markmiðin fyrir nemendum er gott að taka upp umræðu um þau í hópnum og heyra hvaða nemendunum finnst. Fullorðnir námsmenn vilja fá að hafa skoðun á því námi sem þeir sækja og eitthvað um það að segja því er gott fyrir leiðbeinandann að heyra þeirra álit áður en að kennslan byrjar. Einnig er hvetjandi fyrir leiðbeinandann og nemendur að skipta nemendum í hópa og láta þá ræða saman að hvaða markmiðum þeir vilja vinna að á meðan á náminu stendur og skrifa þau á stórt blað sem mun hanga upp á vegg til að minna á og vera hvetjandi fyrir nemendurna. Þegar náminu lýkur er svo farið yfir þau markmið sem kennarinn setti fyrir námið og einnig nemendur og rætt um hver þeirra náðust, hver ekki og afhverju þau náðust ekki og jafnvel ný markmið sem koma fram þegar líða fór á námið.


Skipulag kennslu og kennsluaðferðir[breyta]

Kennsluaðferðir eru lykill að kennslu og námi. Leiðbeinandi þarf að velja kennsluaðferð sem hann telur henta sínu námsefni, til miðlunar svo að sérhver nemandi fái skilning á því. Í gegnum aldirnar hafa margar kennsluaðferðir komið fram og þær tekið breytingum og þróast eftir rannsóknum og hvaða árangri þær hafa skilað í námi. Ýmsar kennsluaðferir eru til og hafa verið nýttar í fullorðinsfræðslu eru eins og útlistunarkennsla, verkleg kennsla, umræðu- og spurnaraðferðin, hópavinnubrögð og fleiri (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Undanfarna áratugi hafa margar kenningar komi fram um kennslu fullorðinna. Einn af þekktari fræðimönnum á sviði fullorðinsfræðslu er Malcom Knowles, [1] hann setti fram hugmyndir á sjöunda áratugnum og hafa þær verið nýttar til grundvallar um kennslu fullorðinna. Í Gátt ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins frá árinu 2004 skrifar Sigrún Jóhannesdóttir um að Knowels setti fram sex atriðið um fullorðna námsmenn sem leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu ættu að hafa í huga þegar þeir eru að skipuleggja kennslu. Þessi atriði eru: • Fullorðnir hafa þörf fyrir að vita hvernig staðið verði að námi, að hvaða árangir er stefnt og afhverju. • Fullorðnir hafa sterka tilfinningu um sjálfsforræði. • Lífsreynsla hefur margvísleg áhrif á nám. • Fullorðnir eru fúsir til náms. • Viðhorf fullorðinna til náms tengjast gjarnan ákveðnum verkefnum eða störfum frekar en efni og fögum. • Þó ytri hvatar eins og betri störf og hærri laun í kjölfar menntunar séu mikilvægir eru innri hvatar, eins og aukin starfsánægja, sjálfstraust og almenn lífsleikni þó þyngri á metunum hjá fullorðnum.

Þau þessi sex atriði séu bara litið brot af þeim hugmyndum og kenningum sem komið hafa fram um þá eru þau mjög góðir útgangs punktar við skipulagningu.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennsluhættir eru þó mun meira notaðir en áður og er með því reynt að mæta þörfum hvers nemenda. [2]Leiðbeinandi þarf að hafa í huga á hvaða aldri nemendur hans eru því það er munur á kennlsuháttum og kennslufyrirkomulagi barna, unglinga eða fullorðinna. Fullorðnir nemendur sem hafa ekki langa skólagöngu að baki meðal annars vegna félagslegra þátta, námsörðuleika, atvinnumissis eða annarra áhrifa þátta búa yfir mikilli reynslu af lífinu sem þeir nýta sér í námi. Fullorðnir nemendur hafa skoðanir á því sem þeir eru að læra og hvernig þeir mundu vilja læra og láta þær í ljós og því er nauðsynlegt fyrir kennara að vera opinn fyrir fjölbreytni í kennslu sinni til að mæta þörfum fullorðinna nemenda.

Námsmat[breyta]

Námsmat er tæki sem leiðbeinandi notar til að meta hvort nemendur hafa náð þeim markmiðum sem hann setti sér í upphafi kennslutímabilsins og hvort sú aðferð sem notuð var til kennslunar henti til að markmiðum sé náð. Með hugtakinu námsmat er yfirleitt átt við “öflun upplýsinga um námárangur og framvindun náms einstakra nemenda” (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Námsmat á að veita leiðbeinendum og fullorðnum nemendum upplýsingar um námsframvindu, hvernig þeim tekst að ávinna sér þá þekkingu sem markmið í upphafi tímabils gerði ráð fyrir, hvort kennsluaðferðum sem beitt eru séu réttar fyrir hverja námsgrein og hvort markmið sem sett eru séu raunhæf fyrir þann nemendahóp sem þau eru sett fyrir. Í fullorðinsfræðslu hefur meira verið litið til heildræns námsmats. Hvað er heildrænt námsmat? “Námsmat er heildrænt þegar það felur í sér að nemendur kljást við verkefni sem hafa raunverulega þýðingu og merkingu og eiga erindi. Slíkt námsmat ber keim af raunverulegum viðfangsefnum, en líkist ekki hefðbundnum prófum. Viðfangsefnin reyna á hugsun og að beitt sé víðtækrni þekkingu. Lögð er rík áhersla á að gefa nemendum sem best til kynna hvað lagt er að grundvallar matinu þannig að þeim sé sem best ljóst að hverju er keppt” (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Innan heildræns námsmats falla margar aðferðir þ.a.m. vettvangsathuganir, mat á frammistöðu nemenda, sýnis- og ferilsmöppum, sjálfsmat nemenda, félaga-, foreldra- og jafningjamat, greiningar á úrlausnum, próf og fleira. Leiðbeinandi verður að velja þá/þær aðferð/ir sem hann telur að henti námsefninu og þeim nemendahóp sem hann er að kenna. Leiðbeinandinn þarf að útskýra í upphafi náms fyrir nemendum sínum í upphafi náms hvernig námsmat mun fara fram og hverju hann sé að óska eftir.


Vera hvetjandi og virkja nemendur[breyta]

Þegar leiðbeinandi hittir nemendahóp sinn í fyrsta skipti er nauðsynlegt fyrir hann að fara vel yfir hvað er í vændum. Nemendum í fullorðinsfræðslu eru oft einstaklingar sem hafa stutta skólagöngu að baki og eiga ekki góðar minningar frá skólagöngu eða glíma við námsörðuleika af einhverju tagi. Ingvar Sigurgeirsson (1999) skrifar í bók sínni Litróf kennsluaðferða að nauðsynlegt að huga að þrem atriðum þegar kennsla er að byrja, “Í fyrsta lagi þarf að gera nemendum grein fyrir tengslum efnisins við önnur viðfangsefni, t.d. námsefni sem áður hefur verið fjallað um, í öðru lagi þarf að gera grein fyrir markmiðum og í þriðja lagi er mikilvægt að draga athygli nemenda að efninu og vekja áhuga.” Kveikjur er kennslufræðilegt hugtak sem hefur verið notað um þær aðferðir sem leiðbeinendur nota til að draga athygli nemenda að námsefninu. Nokkrar aðferði eru til, t.d.: höfða til reynslu nemenda, góðar spurningar, klípusögur, gátur, þrautir, hlutir eða myndir og fleira, [3] Fullorðnir námsmenn búa yfir mikilli reynslu og leiðbienandi þarf að hvetja nemendur sína til að nýta hana í náminu. Þegar leiðbeinandi er að miðla námsefni er ein leið að fá nemendur til að taka þátt með umræðum og þeirra upplifun er tengist umræðuefninu og nota hópverkefni sem nemendur munu svo kynna fyrir samnemendum sínum. Fullorðnir námsmenn eru að bæta við sig þekkingu og færni með námi sínu, hvort sem það er sí- eða endurmenntun eða starfstengd menntun. Í dag hefur starfstengt nám aukis mjög mikið og er meiri hvatning til einstaklinga á vinnumarkaði að auka við sig þekkingu og færni.


Vera til staðar fyrir nemendur[breyta]

“Fullorðnir læra öðruvísi” (Hróbjartur Árnason, 2005) og því þarf að huga að þeirra sérþörfum og leiðbeinandi þarf að vera til staðar fyrir þá. Fullorðnir koma í nám af áhuga og innri hvötum til að bæta við sig þekkingu og færni og einnig með ytri hvötum með það í huga að bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Þó áhuginn sé til staðar og hvati í umhverfi nemenda þá eru þeir oft óöryggir með sig í námsaðstæðunum. Leiðbeinandi og/eða skipuleggjandi námsins þarf að vera í góðum samskiptum við nemendur sína og veita þeim stuðning og hvattningu með því að ræða við hópinn eða hvern einstakling fyrir sig. Þegar leiðbeinandi/skipuleggjandi er til staðar fyrir nemendur sína er hægt að vinna fljótt úr misskilning eða öðrum missáttum sem geta koma upp og oft undið upp á sig og orðið stórmál ef ekki er rætt um og unnið úr fljótt. Einnig þegar nemendur fá þá tilfinningu að þeir ráða ekki við námið og sá tímapunktur kemur að þeir sjá ekki tilganginn þá þarf leiðbeinandinn/skipuleggjandi námsins að ræða við nemendur og veita þeim þann stuðning að finna leiðir og sjá hvað námið getið veitt þeim bæði starfslega séð og ekki síður persónulega. Fullorðnir námsmenn eiga sér líf fyrir utan og þarf að aðstoða nemendur að finna samhæfingu á milli einkalífs og námsins. Það getur leiðbeinandinn gert með því að fara í námstækni og skipulögð vinnubrögð með nemendum sínum til að veita þeim leiðir til að finna sér sína leið til að sameina einkalíf, vinnu og skóla.


Lokaorð[breyta]

Hér að ofan hefur verið farið í nokkur atriði sem leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu þurfa að huga að í vinnu sinni með fullorðnum námsmönnum. Von mín er sú að þessi skrif geti veitt leiðbeinendum í fullorðinsfræðslu aðstoð og leiðbeiningar um hlutverk sitt í fullorðinsfræðslu og hvað þarf að hafa í huga. Þessi skrif eru hvergi nærri tæmandi vegna þess að leiðbeinandi sem vinnur með fullorðnu námsfólki þarf að vega og meta sinn nemendahóp og vinna út frá hans þörfum. Kennsla í fullorðinsfræðslu er ekki bara á annan veginn þ.e.a.s. frá kennara til nemenda heldur á báða vegu því leiðbeinandinn getur lært mjög mikið og fengið nýjar hugmyndir um leiðir til að leggja námsefnið fram. Það er mikið gleðiefni í okkar nútíma, hraða þjóðfélagi að meira sé farið að horfa til starfstengts náms og fleiri leiða til náms fyrir fullorðið fólk og tel ég að þessi þróun muni skila sér út í atvinnulífið og ekki síður vera hvetjandi fyrir fullorðna einstaklinga til að bæta við sig færni og þekkingu.


Helga Björk Pálsdóttir

Verkefni nemenda á námskeiðinu Fullorðinsfræðsla. Námskeiðið skiptist í sjö þemu. Nemendur fjalla á almennan hátt um þessi þemu í þessari Wikibók: