Fara í innihald

Sandgerði

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

ATHUGA !!! Hver er höfundur þessa wikibókar? Hver er notandinn Gullanna?

Höfnin í Sandgerði

Sandgerði er vestast á Reykjanesskaganum og er aðeins í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og um 50 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Sandgerði er útgerðarbær og snýst mannlífið að miklu leyti um sjávarútveg en einnig einkennist það af metnaðarfullu skólastarfi og fjölbreytileika í atvinnulífi. Við þjóðveginn til Sandgerðis er listaverkið Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndlistarkonu. Verkið er minnisvarði um sjómenn. Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið er eilíft, en maður úr pottstáli sem ryðgar táknar að maðurinn er forgengilegur. Sandgerði fékk kaupstaðarréttindi árið 1990 og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Í Sandgerði eru tveir veitingastaðir, Vitinn og Mamma mía, og tvær sjoppur og eru yfir þrjátíu fyrirtæki skráð starfandi í bæjarfélaginu. Rétt fyrir utan Sandgerði, á Þóroddstöðum, er hægt að kaupa gistingu í litlum sætum sumarhúsum en það mun vera eini staðurinn, enn sem komið er, þar sem ferðamenn geta keypt sér gistingu í Sandgerði. Síðustu helgina í ágúst eru haldnir Sandgerðisdagar ár hvert og koma þá bæjarbúar saman og skemmta sér og öðrum. Í Sandgerði búa um 1600 manns en íbúum hefur farið fjölgandi mjög síðustu ár og byggðin stækkað mjög í kjölfarið. Sandgerðisbær er ríkt bæjarfélag en helstu tekjur þess koma frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar en flugstöðin er í landi Sandgerðis. Í ár, 2007, fagnar Sandgerðisbær 100 ára afmæli vélbátaútgerðar en í því tilefni verður minnismerki afhjúpað á Sjómannadaginn. Fysti vitinn sem byggður var í Sandgerði var í einkaeigu aðila sem átti tvo vélbáta. Hann lét ljós skína á vitanum þar til hans bátar voru komnir í höfn en þá var slökkt á vitanum. Frá Sandgerði er einstakt útsýni vestur á Snæfellsnes en Snæfellsjökull rís úr hafi eins stórglæsilegur og hann er.

Jamestown

[breyta]

Að morgni sunnudags, 26. júní árið 1881 hefur mönnum í Höfnum á Suðurnesjum brugðið heldur betur í brún. Heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þetta var skipið Jamestown. Skipið var mannlaust og hafði það verið á reki í um eitt ár þegar það rak á Íslandsstrendur. Skipið mun hafa verið um 4000 tonn og engin smásmíði, líklegast það stærsta sem hingað til lands hafði komið á þessum tíma. Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, líklegast frá Boston og af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður og voru mörg hús á Suðurnesjum byggð úr farmi þess. Elsta hús Sandgerðis, Efra Sandgerði, er byggt úr farmi þess en húsið er í eigu Lionsklúbbs Sandgerðis og hefur verið gert upp.

Fræðasetrið

[breyta]

Fræðasetrið í Sandgerði er umhverfistengt sýnasafn og Háskólasetur Suðurnesja. Þar er hægt að finna sýni frá rannsóknarstöðinni í Sandgerði, botndýr sem hvergi er annars staðar að finna, lifandi dýr í sjóbúrum og ferskvatnsbúrum, uppstoppaða fugla, eggjasafn, steinasafn, plöntusafn, skordýrasafn, bókasafn, kort, tæki eins og víðsjár, sjónauka, myndbönd, háfa og tangir og fróðleik í texta og myndum. Fræðasetrið er fyrst og fremst náttúrugripasafn þar sem leitast er við að tengja mann og náttúru. Innan veggja Fræðasetursins eiga gestir kost á að skoða hluta af náttúru Íslands í návígi. Vísindamenn koma víða að úr heiminum til að fá að vinna með sýnin í Rannsóknarstöðinni í Sandgerði og nú þegar hafa fundist nýjar tegundir fyrir heiminn.

Þann 25. apríl 2007 opnaði sýniningin „Heimskautin heilla“ sem er viðamikil vísindasöguleg sýning um ævi og starf franska heimskautafarans, leiðangursstjórans og læknisins Jean-Baptiste Charcot. Safnið er byggt upp sem hluti af skipi hans, Pourquoi-pas?, og er þar að finna ýmsa dýrgripi sem voru í hans eigu en fjölskylda hans og franska ríkisstjórnin áttu hugmyndina á því að opna safnið í Sandgerði. Charcot lifði fyrir rannsóknir á botndýrum og eins og áður hefur komið fram er viðamikil rannsóknarstofa í Fræðasetrinu sem hefur að geyma safn botndýra sem hvergi er að finna annarsstaðar í heiminum. Þar er fengist við sömu rannsóknir og Charcot fékkst við og því þótti tilvalið að velja safninu stað í Sandgerði.

Leitast var við að endurskapa það magnaða andrúmsloft sem ríkti um borð í rannsóknarskipunum á sínum tíma en auk þess er þar að finna margvíslegan fróðleik í máli og myndum um ævi Charcots og störf. Opnun sýningarinnar er hluti af menningarhátíðinni Pourquoi-pas? Franskt vor á Íslandi og er jafnframt framlag Háskóla Íslands til Vetrarhátíðar 2007.

Hér er hægt að finna verkefni í tengslum við sýninguna Heimskautin heilla sem sniðugt er að láta nemendur glíma við samfara heimsókn í safnið sem Erla Björg Rúnarsdóttir og Jóhanna Pálsdóttir, nemendur Kennaraháskóla Íslands, bjuggu til í tengslum við kennsluáætlunarverkefnið sitt.

Hópur 1

Hópur 2

Áhugaverðir staðir í Sandgerði

[breyta]

Í Sandgerði og nágrenni eru margir merkir sögustaðir sem í aldanna rás hafa verið vettvangur merkra atburða. Þar er að finna skemmtilegar gönguleiðir sem liggja um söguríkar slóðir þar sem mikil sjósókn og verslun fóru fram og tengjast fjölmargar þjóðsögur og ævintýri þessum slóðum.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn (afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en tókst loks að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.

Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði (byggt 1883) er byggt úr þessu timbri. Húsið hefur verið endurbyggt af félögum í Lionsklúbbi Sandgerðis. Sögur segja að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum missti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir hair klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Sigurvon er elsta slysavarnasveitin í landinu.

Hvalneskirkja að sumarlagi

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður en þar var fyrst reist kirkja um aldamótin 1200. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið hafi sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum

Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vettvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara, bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum, Margrét slapp þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson, höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans, myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

Þjóðsögur sem tengjast Sandgerði

[breyta]

Ítarefni

[breyta]

Heimildir

[breyta]

Sandgerði

Krossapróf:

[breyta]

Hvaða ár fæddist Snorri Sturluson?

1 Hvað heiti listaverkið sem stendur við þjóðveginn til Sandgerðis?

Álög
Aldan
Örlög

2 Hvenær fékk Sandgerðisbær kaupstaðarréttindi?

1890
1980
1990

3 Hvað búa margir í Sandgerði?

Um 1400
Um 1500
Um 1600

4 Hvað var Jamestown?

Lítið þorp rétt hjá Sandgerði
Verstöð
Þekkt skip sem strandaði við Hafnir

5 Hvað er Fræðasetrið?

Bókasafn
Umhverfistengt sýnasafn og Háskólasetur Suðurnesja.
Upplýsingamiðstöð námsmanna

6 Hvað þýðir Pourquoi pas?

Hvers vegna ekki?
Sérðu ekki?
Skilurðu ekki?

7 Jean-Babtiste Charcot er þekktur fyrir rannsóknir sínar á

botndýrum
mávum
hvölum

8 Hvar var fjölmennasta verstöð landsins á 17. og 18. öld ásamt því að þar var konungsútgerð?

Í Þórshöfn
Að Hafurbjarnastöðum
Á Stafnesi

9 Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður og hafa þar setið ýmsir þekktir prestar. Einn er þó vafalaust frægastur. Hver er var það?

Steingrímur Hermannsson
Hallgrímur Pétursson
Össur Skarphéðinsson

10 Árið 1868 fannst kumlteigur frá 10. öld úr heiðni og er talinn einn merkasti fornleifafundur Íslandssögunnar. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafi Íslands. Hvað fundust þessi kuml?

Að Hafurbjarnastöðum
Að Kirkjubóli
Á Bæjarskerum


Þetta krossapróf er einnig á Hot Potatos formi:

Spurningar úr kaflanum