Fara í innihald

Fölur er nú minn farfi (Básendar, Stafnes, Þemba, Kirkjuvogur)

Úr Wikibókunum

Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét Þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.

Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna. Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann.

Næsta vor var Þemba byggð manni einum dönskum, er vera skyldi aðstoðarmaður þeirra Básendakaupmanna. Eigi linnti drykkju og söng í Þembu, þó að Narfi væri farinn, og voru það nú Danir, sem höfðu þar drykkjusamkomur og ýmsan gleðskap. En það er frá Narfa að segja, að hann fluttist suður til Kirkjuvogs í Höfnum og dó þar snögglega eftir skamma dvöl. Var hann jarðsunginn þar. Narfi hafði átt góðhest einn steingráan, bæði fljótan og vakran. Hafði sá margan golþeysinginn farið, þegar jörð var setzt á vorum. Þennan hest hafði Narfi neyðzt til að slá af, þegar hann var hrakinn frá Þembu.

Á þrettánda dag jóla, vetur þann, er Narfi andaðist, voru Danir saman komnir í Þembu til drykkju. Þetta sama kvöld bar svo við í Kirkjuvogi, að stúlka nokkur gekk út í vökulok. Úti var veður mjög skuggalegt, en þó nokkur birta af tungli, útsuðurhiminninn sundurtættur af kolsvörtum skýjabólstrum með ljósum glufum á milli og urgur mikill í sjó. Varð þá stúlkunni litið til kirkjugarðsins. Sér hún þar standa mann nokkurn, er styður sig við apalgráan hest og heyrir hann kveða vísu þessa við raust:

Þembu að eg þeysi af stað, þar er mitt eftirlæti. Hleypi eg dyn því hófakyn hefi eg á fæti, hefi eg létt á fæti.

Vindur hann sér á bak hestinum og tók sá sprettinn, en hvorki heyrði hún jódyn né sá spor hans. Varð stúlkunni óglatt við sýn þessa og hljóp inn og sagði frá því, er fyrir hana hafði borið. Nú víkur sögunni að Þembu. Þar voru, sem fyrr segir, gleðilæti mikil. Er leið á kvöldið, urðu menn snögglega varir við, að kuldagust lagði um skálann og fylgdi því óþefur nokkur. Og er þeir litast um, sjá þeir, að ókenndur maður er kominn í hópinn. Hefur sá gripið eina brennivínsflöskuna og ber hana að vitum sér. Maður sá var bleikur sem bast, beinaber og brúnaþungur; glotti hann svo, að þeim stóð stuggur af. Rann þá nokkuð af þeim ölvíman. Varð kaupmaður fyrstur til að spyrja, hver hann væri. Svarar þá aðkomumaður:

Hér er kominn Narfi, hann hraktir þú frá starfi. Fölur er nú minn farfi, falli yfir þig stjarfi.

Bregður þá svo við, að kaupmaður féll sem dauður væri á gólfið, og í sama bili sýndist þeim, er inni voru, veggurinn opnast að baki Narfa og hann hverfa þar út. Stumra þeir yfir kaupmanni, en geta ekki vakið hann af dvalanum. Var hann færður heim að Básendum og hugðu hann allir dauðan. Lá hann lengi í dái þessu, en raknaði þó um síðir við, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta.

RAUÐSKINNA I 64