Þanghesturinn frá Refshalakot (Stafnes, Básendar, Lodda)

Úr Wikibókunum

Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum mikil jörð og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan í Geirfuglasker á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnessbóndann, auk Bátsenda er einnig voru í landi hans. Þá er Stafnes varð kóngsjörð urðu hjáleigubændurnir fyrir ýmsum kvöðum af hendi Bessastaðamanna. Urðu þeir að annast flutninga frá Bátsendakaupmönnum til Bessastaða endurgjaldslaust og fæða sig að auki.

Ein af hjáleigum Stafnessbóndans hét Refshalakot; var þar lítilfjörleg grasnyt og afgjaldið goldið í fiski. Sagt er að eitt sinn hafi búið maður sá í Refshalakoti er Þórólfur hét. Var hann vanur og veðurglöggur formaður, harðgerr mjög og stórlyndur, ef því var að skipta. Eigi hafði hann búið lengi í Refshalakoti er úfar risu milli hans og Stafnessbóndans út af leigunum. Galt Þórólfur venjulegar leigur eftir kotið en heimabóndi sagði að fylgja ætti þurr og vel verkaður þanghestur að auki. Eigi vildi Þórólfur ganga að því. Eitt sinn er Þórólfur var að heiman, skrapp Stafnessbóndinn heim að Refshalakoti og lét greipar sópa um þangbirgðir þær er voru í kotinu. Kom Þórólfur nokkuru síðar heim; sárnaði honum mjög tiltæki bónda en fékkst þó eigi neitt frekar um það.

Haust eitt, nokkuru eftir Mikaelsmessu, vildu Bátsendakaupmenn flytja ýmsar vörur til Bessastaða og heimtu þá sem fyrr leiguliðana í för þessa. Skyldi Þórólfur vera formaðurinn. Morgun þann, er fara átti, vaknar Þórólfur snemma; var þá andi af vestri, móða á jöklinum, og þyngsli mikil í sjó. Þótti Þórólfi illt útlit og vildi hvergi fara en þorði þó eigi annað en hlýða, sökum ofríkis og hótana kaupmanna. Var þá settur fram teinæringur einn mikill, er staðið hafði í naustum frá vertíðarlokum og gisnað nokkuð af sól um sumarið. Var nú borinn flutningur á skip og héldu þeir að því búnu af stað. Voru á skipi þessu margir leiguliðar Stafnessbóndans og þénarar kaupmanna. Var skipið lítt búið seglum og er inn fyrir Skaga kom, gjörði ofsarok af norðvestri, svo að þá hrakti inn allan Garðsjó og bar þá loks undir Vogastapa og týndist skipið þar með öllu. En nóttina eftir gerðust reimleikar miklir hjá kaupmönnum á Bátsendum. Voru einkum mikil brögð að því í verzlunarhúsunum og var bæði lýsi og brennivíni spillt, skreið hent víðsvegar og leirkönnur brotnar úr búðarhillum. Voru svo mikil brögð að þessu að menn héldust eigi við í búðunum er rökkva tók. Þóttust menn sjá að þar væri kominn Þórólfur formaður. Sótti hann að einum kaupmanna svo mikið að vaka varð yfir honum á nóttum; var oft slegið blautum sjóvettling í rúm hans og þótti þeim sem sáu formann hann skælbrosa um leið og hann gekk út.

Þá bjó í Loddustofu maður sá, er Brandur hét. Var Lodda ein af hjáleigunum frá Stafnesi. Brandur þessi var risi mikill og hraustmenni, óþjáll og stirðlyndur en ótrauður til allra verka ef "betaling var í boði". Höfðu þeir dönsku beyg af honum vegna afls hans og slapp hann því við ýmsa snúninga og kvaðir hjá þeim. Mann þennan fékk nú hinn áður nefndi kaupmaður til að vaka hjá sér. Kemur Brandur til kaupmanns um kvöldið; er honum vísað til rúms eins í svefnstofu kaupmanns, og skyldi hann halda vörð þaðan um nóttina. Háttar kaupmaður snemma og sofnar þegar. En er liðið er nokkuð fram yfir miðnætti heyrir Brandur frammi í bænum umferð og núningshljóð, eins og þá menn ganga snúðugast skinnklæddir; nálgast þetta svefnstofu kaupmanns; en jafnframt finnur Brandur, að úr sér dregur mátt allan og stenst það svo á að þegar lokið er upp hurðinni að svefnstofunni er Brandur orðinn svo aflvana að hann má sig hvergi hræra né gefa hljóð frá sér. Birta var mjög dauf en þó sér hann að inn kemur Þórólfur formaður; er hann ófrýnn mjög og alskinnklæddur; heyrir Brandur gutla í brók hans og leka niður af honum bleytuna; jafnframt finnur Brandur lýsislykt og reykjarlykt, því að formaður hafði hengt skinnklæði sín í eldhús til verkunar en tekið þau niður daginn sem fara skyldi til Bessastaða. Sér Brandur að formaður hefur sjóvettling í hendi, rennblautan og heldur í totuna og gengur rakleitt að rúmi kaupmanns og slær hann rokna kjaftshögg með blautum laskanum. Hrökk þá kaupmaður upp með hljóðum miklum en svo var þá af Brandi dregið að hann gat enga björg sér veitt fyrr en kveikt hafði verið ljós og hann hafði jafnað sig. Þaut hann þá heim til sín og fékkst eigi til að vera stundinni lengur, hvorki með loforðum né hótunum. Lifði ljós það sem eftir var nætur og var svefninn lítill hjá kaupmanni. Sótti formaður áfram að kaupmanni, þótt viðskipta þeirra sé eigi frekar getið.

Kvöld eitt kom að Bátsendum maður innan frá Kirkjubóli; var þá þénari einn sendur út í búðirnar að mæla honum brennivín. En er þangað kom heyrir hann hávaða mikinn; lýkur hann þá upp gluggahlera einum og sér þá að búðin er full af skinnklæddum mönnum og allt er þar á ferð og flugi en einn manninn sér hann handleika "hevert" einn mikinn og sí og æ stinga honum ofan í eina ámuna og heyrði hann jafnframt kveðnar þessar hendingar:

Drekkjum og dýfum þeim dönsku í djúp, dáum ekki, drengir, þ eirra dyggðahjúp.

Fór maðurinn sem skjótast af glugganum og var ekki til brennivínsins tekið það kvöldið. Nokkru síðar kom dugga ein að Bátsendum; var þá verzlunarhúsunum lokað og Danir allir fóru á brott um veturinn. En er fram á jólaföstuna leið sáu menn sem gengu til skipa á nóttu reyki mikla frá eldhúsi Stafnessbóndans og jafnframt tóku heimamenn þeir á Stafnesi er til róðra gengu á nóttu að heyra snark mikið er fram til eldhússins kom. Logaði þá eldur glatt í hlóðum og var þang vel að borið en ekkert var yfir eldinum né maður nokkur sjáanlegur. Gekk þetta nokkrar nætur og voru svo mikil brögð að eyðslunni að þangbirgðir allar virtust ætla að ganga til þurrðar. Lét bóndi þá vaka í bænum; bar þá eigi neitt til tíðinda í eldhúsinu, en í þangkofanum heyrðist skrjáf mikið, sem gengið væri eftir þangköstunum og nýju þangi væri hlaðið ofan á þá og troðið duglega innundir súðirnar, lamið saman reipahögldum og fleira.

Nokkru síðar bar svo til að kona ein af næsta bæ kom að Stafnesi; dvaldist henni lengi fram eftir kvöldinu og fór þaðan eigi fyrr en í vökulok. Þegar hún var komin út fyrir túngarðinn, sér hún mann einn koma móti sér, sem henni virtist teyma hest með böggum. Snjór hafði verið í nokkra daga en nýlega hlánað, svo að krap var mikið á jörðu og skreipt í spori. Miðar manni þessum drjúgum í áttina til hennar og finnst henni það furðu sæta, hve lítið ganghljóð hún heyrir til þeirra félaga. Víkur hún því úr vegi fyrir þeim. Sér hún þá, að maður þessi er skinnklæddur og þunglamalegur mjög í gangi, svo sem væri hann brókarfullur; slamsast hann áfram og heggur með höfðinu í hverju spori, en skepnu þá, er hann teymir, getur hún ekki greint, en henni sýnist hún vera múlbundin með reiptagli og á baki hennar er heljarstór reiðingur og reiðir maðurinn á honum tvo þá ferlegustu þangbagga, er konan hafði nokkurn tíma séð og marrar gríðar mikið í silunum. En um leið og maður þessi fer fram hjá henni, heyrir hún, að hann kveður vísu þessa með gömlu kvæðalagi:

Frá Refshalakoti eg reidda tel reipafylli þanga, brenni nú og braki vel blöðkuklóin langa.

Endurtekur hann síðustu hendingarnar svo lengi sem konan heyrir til og sér hún það síðast til hans að hann hverfur heim að Stafnesi. Nótt þessa var eigi vakað á Stafnesi, en er heimamenn reru, þá logaði eldur í hlóðum sem fyrr. Brá bóndi sé þá daginn eftir inn að Bæjarskerjum og var hann þar allan daginn. Morguninn eftir lét hann með birtu heimamenn sína binda hverja einustu þangkló, sem til var á Stafnesi og reiða heim til ekkjunnar í Refshalakoti; jafnframt lét hann ætíð á vökunni hita eldhússskörunginn og gera með honum hvítglóandi krossmark milli hlóðarsteinanna og mátti enginn ganga til eldhúss eftir það. Hurfu skjótt öll undur við þessar aðgerðir bónda; en talið var að hann hefði þar fylgt ráðum Bæjarskerjabóndans. En aldrei var goldinn þanghestur frá Refshalakoti eftir það.

GRÁSKINNA I 201