Vitjað ljósmóður (Býjarsker, Krossbrekka, Bárugerði)

Úr Wikibókunum

Þegar Þórunn Gísladóttir yfirsetukona var 14 ára, var hún hjá foreldrum sínum á Býjaskerjum á Miðnesi. Í túninu þar var klettur nokkur sem kallaður var Krossbrekka. Var það trú manna að þar byggi huldufólk. Til marks um það má segja að bóndinn á næsta bæ, Bárugerði, þóttist eigi sjaldan sjá konu bregða fyrir uppi hjá klettinum. Sýndist honum kona sín vera að hirða þar þvott; en þegar til kom, reyndist það missýning. Kýr þeirra hjóna, sem var hæluð upp við klettinn, var eigi sjaldan þurrmjólkuð að kvöldi og vissi enginn nokkurar líkur til að það væri af manna völdum. Gat er vestan á klettinum og hugðu menn það dyr vera. Þórunn og systkini hennar voru oft um þessar mundir á órökuðum kópskinnsskóm.

Einn morgun, er hún vaknar, saknar hún annars skós síns og þótti skaði, því að hann var nýr. Leitað var að skónum en hann fannst eigi; var það kennt vanhirðu Þórunnar að hún hefði látið hunda nema skóinn burt en hana minnti statt og stöðugt að hún hefði bundið skóna saman og hengt þá við rúmstokkinn um kvöldið. En þessa sömu nótt og skórinn hvarf dreymdi Þórunni að til hennar kæmu tvær stúlkur á hennar reki. Báðu þær hana að koma út með sér. Hún þóttist klæða sig og binda upp á sig skóna og fara með þeim. Þegar út kemur biðja þær hana að koma með sér upp að Krossbrekku. Leiða þær hana síðan að gati því er nefnt hefur verið og var á klettinum og biðja hana að koma inn, það liggi mikið við. Þórunn er treg til þess, því að hún hafði verið hrædd á klettinum. En svo fer að hún lætur til leiðast. Dettur henni þá í hug að hún hefði heyrt að vissara væri, þegar gengið er inn til huldufólks að skilja eftir eitthvað af sér utan dyra. Þykir henni því að hún leysi af sér annan skóinn og skilji hann eftir fyrir utan klettinn. Þegar inn kemur sér hún að þar liggur kona á gólfi. Fer hún höndum um hana og innan skamms verður konan léttari. Að því búnu mælti konan: "Nú máttu fara; ég ætla ekki að borga þér þetta neitt því að ekki er víst að hverju gagni þér kæmi það en vísast er að þér heppnist vel að hjálpa konum."

GRÁSKINNA I 181, SIGFÚS VIII 251