Fara í innihald

Kynlegur farþegi (Kronhúsið)

Úr Wikibókunum

Einn dag í febrúar árið 1940 ók bílstjóri nokkur fullfermi af olíu í Sandgerði. Gekk þá á með krapahryðjum en þurrt á milli, jörð auð að mestu og mikið slabb og bleyta en ekki kalt í veðri. Þegar hann hafði stöðvað bílinn kom til hans kona, á að gizka milli fimmtugs og sextugs, frekar lág vexti en þrekin. Hún gekk til bílstjórans og spyr hvort hann geti lofað stúlku að sitja í bílnum til Reykjavíkur um kvöldið. Það var auðsótt mál. Þá biður hún hann að flauta á planinu fyrir framan Kronhúsið er hann fari, en hann gat ekki sagt henni ákveðið um hve snemma það yrði. Síðan kvaddi konan og hvarf upp fyrir íbúðarhús kaupmannsins.

Bílstjórinn starfaði allan daginn við að koma olíunni í báta við bryggjuna. Þegar klukkan er svo langt gengin ellefu nam hann staðar og flautaði á planinu fyrir framan Kronhúsið og opnaði bílhurðina. Þá kemur kvenmaður inn í bílinn og sest við hlið hans. Hún gaf ekki frá sér neitt hljóð, en ekki man hann hvort hún kinkaði til hans kolli. Hún var fremur hávaxin og grönn, hvítleit í andliti og í fríðara lagi. Hún var í dökkri kápu og berhöfðuð, berhent og hafði ekkert handa millum, ekki einu sinni kventösku. Hún virtist vera 25 til 30 ára. Þegar þau lögðu af stað fór hann að spyrja hana um hitt og þetta en hún svaraði engu, sat þegjandi og keik í sætinu og horfði beint fram. Bílstjórinn var þó að ávarpa hana öðru hverju, allt að því hálfa leiðina til Reykjavíkur, en hún ansaði aldrei. Þá var hann farinn að halda að þetta mundi vera mállaus manneskja eða heyrnarlaus eða hvort tveggja og hætti að ávarpa hana, lét hana afskiptalausa þar til þau voru komin inn í Öskjuhlíðarháls, þar sem sést til bæjarins. Þá gerði hann síðustu tilraun til að tala við hana og spyr hvert hún ætli í bæinn. Hún situr eins og fyrr hreyfingarlaus í sæti sínu og gefur ekkert hljóð frá sér. En tæpri hálfri mínútu seinna er hann orðinn einn í bílnum. Honum varð hálfvegis hverft við, en þó ekki meira en svo að hann myndi flytja þennan kvenmann aftur sunnan úr Sandgerði ef hún beiddist þess.

GRÁSKINNA II 168, GRÍMA HIN NÝJA IV 234, BERGMÁL 95