Fara í innihald

Stafnesbóndinn

Úr Wikibókunum

Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.

Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita. Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu og varð enginn annar í bænum var við atburð þennan.

Leið nú haustið. En seint á jólaföstunni var enn barið að dyrum á Stafnesi á vökunni. Tvær stúlkur voru frammi í bænum að mala korn og gengu þær til dyra. Dimmt var mjög úti, en þó sáu þær, að kona ein stóð úti fyrir. Biður hún stúlkurnar að skila til húsbóndans, að hún vilji hafa tal af honum. Þær fara inn og flytja bónda tíðindin. Segir þá húsfreyja þeim að fara í humátt á eftir bónda og vita, hvert erindi kona þessi eigi við mann sinn. Þær gera svo, en er þær koma fram að bæjardyrunum, virðist þeim allt útlit konunnar gjörbreytt orðið, og hún vera hin ferlegasta ásýndum og afmynduð af reiði. Hún virðir bónda eigi viðlits, snýr vanga að honum og segir: "Ekki þarf eg að þakka, en fleirum skal sárna en þeim, sem húðstrýktir eru," - og gengur því næst burt. Bóndi sneri þegar aftur til baðstofu og var þá fölur sem nár. Biður húsfreyja þá stúlkurnar að fara og ná í konu þessa og biðja hana í guðs bænum að tala við sig. Stúlkurnar fara og sjá þær hilla undir konuna norður á túninu. Þær hlaupa á eftir henni og ná henni loks og færa henni orð húsfreyju. En hún er ákaflega fasmikil, lítur ekki við þeim og segir: "Eg hef skilað erindinu," - og endurtekur það. Stúlkurnar þorðu eigi lengur að fást við hana og hlupu skelkaðar heim.

- Líður nú fram yfir jól, fram á þorra, og allt er tíðindalaust. Í þorrabyrjun gerði ógæftir miklar, útsynning og brim. Rak þá á Stafnesi tré eitt mikið. Fór húsbóndi með vinnumenn sína til að bjarga trénu frá sjó. En svo vildi til, er þeir veltu upp trénu, að annar endi þess kom dálítið við hné bónda og meiddi hann eitthvað, en eigi svo, að hann gæti ekki gengið heim. En daginn eftir klæðist bóndi ekki og liggur upp frá því rúmfastur í samfleytt 17 ár í hnémeiðsi þessu. Að því búnu komst hann á fætur aftur alheill og óhaltur. Var það ætlun manna, að kona sú, er fyrr var frá sagt, myndi hafa lagt á hann þjáningar þessar fyrir meðferðina á drengnum.

RAUÐSKINNA I 26