Fara í innihald

Stelpan að Býarskerjum

Úr Wikibókunum

Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. "Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir," sagði hún. En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.

Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu "ónáttúrlegu". Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út. Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu. Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: "Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því." Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við. Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.

SIGFÚS III 142