Fara í innihald

Hnefatafl

Úr Wikibókunum

HNEFATAFL
Saga þess og spilareglur

Þessi handbók er ætluð öllum þeim sem áhuga hafa á spilum og að fræðast um og læra að spila þetta forna.

Bragi Halldórsson tók saman og byggði á wikipediagrein um Hnefatafl sem Salvör Gissurardóttir skrifaði


Spilaborð í hnefatafli, 13 x 13 reita.

Hnefatafl er borðspil sem spilað var á söguöld. Spilið er tveggja manna herkænskuleikur þar sem ráðist er á konung sem aftur á að reyna að koma sér í var. Líkist það að sumu leiti skák en einnig Kínverska spilinu Go.

Spilaborðinu var skipt í ferhyrnda reiti og voru jafnmargir reitir á hvern veg, líkt og á skákborði, nema að fjöldi reitanna var alltaf oddatala en ekki jöfn tala eins á skákborði. Nokkrar gerðir af spilaborðum eru til með mismarga reiti, allt frá 7x7 reitum upp í 19x19 reiti.

Leikmenn voru oftast kringlóttar plötur eða kúlur úr gleri eða steini. Þær voru í sitthvorum litnum til aðgreiningar, oftast ljósar og dökkar. Með töflunum var kóngur sem einnig var kallaður hnefi, var hann oftast mikið mun stærri en töflurnar og oft út skorinn. Teningakast virðist að minstakosti í einhverjum útgáfum spilsins hafa ráðið því hvernig leika skyldi og nefndist sá teningurinn húnn. Liðin voru ekki jafn fjölmenn. Það lið sem ekki var með kónginn var helmingi fjölmennara.

Spilareglur eru mismunandi, oftast ræðst það af stærð borðsins sem spilað er á og fjölda leikmanna, enda ekki sömu möguleikarnir á því að spila við þessar mismunandi aðstæður. Markmiðið er samt alltaf að kóngurinn með hjálp liðsmanna sinna komist út í horn eða að útjaðri borðsins, allt eftir því eftir hvaða reglum er spilað og hitt liðið að reyna að umkringja kónginn og þannig annaðhvort króa hann af svo hann kemst hvergi eða drepa hann.

Þær spilareglur sem spilað er eftir í dag eru aðalega samdar upp úr spilareglum sem fundist hafa í tveimur handritum sem eru frá því löngu eftir að hnefataflmennska lagðist af. Því er erfitt að vita hvort þær reglur eru réttar og ef ekki, geta sér til um hvernig spilið hafi mögulega verið spilað. Þó eru tvær útgáfur af spilareglum almennt notaðar. Önnur fyrir minni spilaborði og færri leikmenn en hin fyrir stærri borðin og fleiri spila menn.

Hér má sjá ýmis afbrigði af hnefatafli, mismunandi stærðir af borðum og byrjunar uppröðun leikmanna. Þau ganga undir ýmsum nöfnum sem vísar til hvaða heimildir eru til um þau. Til eru skráðar spilareglur eða einhverjar heimildir fyrir sum þeirra, en þó ekki öll.

Hnefatafl kemur fyrir í nokkrum fornaldarsögum og eins í frásögninnu um Ragnarrök. Þar er það alsstaðar kallað Tafl en nafnið Hnefatafl virðist hafa verið tekið upp þegar Norrænir menn fóru að tefla skák og kölluðu skákina tafl og þetta spil hnefatafl til aðgreiningar. Ekki koma fram í íslensku handritunum neinar vísbendingar um hvernig hnefatafl var spilað en af frásögnum þeirra má ráða að kunnátta og færni í að tefla hnefatafl hafi verið talin mikill mannkostur og eins í frásögninni um Ragnarrök þar sem eitt af því sem þau sem lifðu af Ragnarrök finna þegar jörð reis aftur úr sæ voru töflur úr hnefatafli.

Wikipedia hefur upp á að bjóða efni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: