Fara í innihald

Tjörnes

Úr Wikibókunum

Tjörnes skagar til norðurs frá austanverðum Norðurhluta Íslands. Flóinn vestan við það nefnist Skjálfandi eða Skjálfandaflói en fjörðurinn austan við nesið heitir Öxarfjörður. Næsti skagi vestan við Skjálfandann á sér ekki neitt sérstakt heiti en hefur jafnvel verið nefndur Flateyjarskagi því Flatey á Skjálfanda er skammt undan landi, norðarlega við austanverðan skagann. Skaginn austan Öxarfjarðar heitir Melrakkaslétta en oft í daglegu tali eingöngu nefnd Slétta. Vestanvert á Tjörnesi nærri botni Skjálfandaflóans er Húsavík. Þar er samnefndur kaupstaður og hefur þar verið verslun um aldir. Um tíma á 17. öld og ef til vill fram á þá 18. var fluttur brennisteinn út frá Húsavík og þá voru svonefnd ,,Brennisteinshús" þar í plássinu en þau eru nú horfin. Eitt þekktasta húsið á Húsavík er kirkjan sem vígð var 1907 en hana teiknaði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Á Tjörnesi er (skrifað í mars 2007) sérstakt sveitarfélag en sveitarfélögin beggja vegna hafa nýlega sameinast í eitt sem heitir Norðurþing. Tjörneshreppur hinn forni náði frá bænum Máná nyrst á nesinu um vestanvert nesið og um mestan hluta grunns dals sem gengur til suðsuðausturs frá botni Skjálfandaflóa austanverðum og nefnt er Reykjahverfi. Syðsti hluti þess grunna dals tilheyrði hinum gamla Helgastaðahreppi og síðar Aðaldælahreppi. Syðstu bæirnir í hinum gamla Tjörneshreppi voru Stóru- og Litlu-Reykir og Brekknakot en í lanid þeirra jarða hafa síðan risið nokkur býli og íbúðarhús. Einhvern tíma á 18. eða 19. öld breyttist nafn hins gamla hrepps í Húsavíkurhrepp og hét sveitarfélagið það allt til 1912 þegar þéttbýlið í Húsavík var gert að sérstöku sveitarfélagi sem fékk Húsavíkurhreppsnafnið. Hinir tveir hreppshlutarnir hétu næstu árin eða til áramótanna 1932-33 Tjörneshreppur þangað til nefnd áramót að þeir voru gerðir að tveim sveitarfélögum, Tjörneshreppi, norðan Húsavíkur og Reykjahreppi, sunnan Húsavíkur. Nú eftir aldamótin 2000 sameinaðist Reykjahreppur Húsavík og 2006 sameinaðist það sveitarfélag fleiri sveitarfélögum og myndaði sveitarfélagið Norðurþing. Í því sveitarfélagi eru Reykjahreppur, Húsavíkurkaupstaður, Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur (eitt sinn Skinnastaðarhreppur), Presthólahreppur og Raufarhafnarhreppur svo dregin séu fram öll hreppaheiti sem til hafa verið innan þessa nýja sveitarfélags.