Hárlitun

Úr Wikibókunum
Í dag er hægt að hafa hárið í hvaða lit sem er!
Í dag er hægt að hafa hárið í hvaða lit sem er!

Hár býr yfir þeim eiginleika að geta breytt lit sínum. Líkt og húðin getur litur breyst aðeins með því að vera mikið úti í sólinni, hárið lýsist en húðin dökknar. Margar aðrar leiðir eru í boði nú í dag til þess að breyta hárlit sínum. Í dag eru til ýmsar gerðir af litum sem hægt er að leika sér með fram og til baka til þess að fá þá útkomu sem ætlast er til.

Uppbygging hárs[breyta]

Hárlögin þrjú

Aðal uppbyggingarefni hárs er prótein. Í hársrótinni fer fram flókið ferli þar sem frumur verða að keratínpróteini sem myndar hárið.

Hverju hári er hægt að skipta í þrjú lög.

  1. Ysta lag (Cuticle) - Það lag sem við sjáum
  2. Börkur (Cortex) - Stærsta og mikilvægasta lag hársins
  3. Kjarni (Medulla) - Innsta lag hársins

Ysta lag[breyta]

Ysta lag hársins er það lag sem er sýnilegt okkur og ástand þess sést á því hvort hárið glansar eða ekki. Ef hárið glansar er ysta lag hársins í fínu lagi en ef ekki þá getur hárið litið út eins og það sé með útstætt hreistur ef litið er á hárið í smásjá.

Börkur[breyta]

Börkur hársins hefur tvennskonar eiginleika. Hann segir til um styrkleika hársins og hefur að geyma melanín efni hársins. Melanín er litarefni hárs og húðar. Til þess að breyta hárlit þarf annaðhvort að taka melanín efnin úr hárinu eða bæta fleiri eða öðruvísi melanín efni í það.

Kjarni[breyta]

Ekki er vitað hvaða eiginleikum kjarninn býr yfir eða hver tilgangur hans er.

100% litur[breyta]

Þegar 100% litur, eða permanent color, er borinn í hárið byrjar efnið að taka melanín efni úr hárinu og festir nýjan lit í hárinu. Þetta litarefni festist vel í hárinu og smígur alveg inn að kjarna hársins og erfitt getur reynst að ná litnum aftur úr hárinu ef breyta á um lit, þá sérstaklega ef lýsa á hárið. Einnig getur 100% litur lýst hárið um 3 tóna, jafnvel 5 þegar notaðir eru sérstakir high-lift litir. Hins vegar þarf alltaf að bera lit reglulega í rótina til þess að viðhalda jöfnum lit í hárinu. 100% litur er alltaf oxandi litur sem þýðir að honum er alltaf blandað við festi, en einnig þýðir það þegar litnum hefur verið blandað við festinn þá fer hann að virka. Það þýðir að hársnyrtir þarf að vera snöggur að bera hann í hárið vegna þess að virknin fer dvínandi eftir því sem litablandan liggur lengur í skálinni.

Skol[breyta]

Þegar um skol er að ræða eru bæði til semi- permanent litur og demi-permanent litur. Semi-permanent litur fer aðeins inn í ysta lag hársins, fjarlægir engin litarefni sem eru fyrir í hárinu og þvæst úr á 4-12 þvottum. Demi-permanent litur fer lengra inn í hárið, yfirtekur þó ekki alveg börk hársins, en fjarlægir þó ekki náttúrulegu litarefnin í hárinu og endist lengur, eða 12-20 þvotta. Þar sem skol getur ekki fjarlægt melanín litarefnin úr hárinu, eins og 100% litur gerir, þá verður hárið aftur eins og það var þegar skolið hefur dofnað úr hárinu.

Oxandi skol[breyta]

Oxandi skol eru þessi sem lýst er hér fyrir ofan. Þessum skolum þarf alltaf að vera blandað við festi og geta bæði verið semi- og demi permanent litir. Oxandi skol er yfirleitt notað sem tóner eftir strípur eða aflitun.

Afoxandi skol[breyta]

Afoxandi skol eru aldrei blönduð með festi eins og 100% litur er alltaf. Þessir litir geta til dæmis verið litasprey, litasjampó og næringar, litafroður og gel. Einnig eru litir eins og crazy color og þess háttar litir undir þessum kafla þar sem þeir eru aldrei blandaðir með festi og eru hálfvaranlegir.

Aflitun[breyta]

Aflitunarefni er að frábrugðið hinum ofangreindum litarefnum að því leyti að aflitun tekur melanín úr hárinu en setur ekkert melanín inn í hárið í staðinn. Þegar hár lýsist fer það frá því að vera dökkt, síðan appelsínugult, svo gult þar til að það verður alveg hvítt. Þegar hárið er komið á það stig að vera hvítt er það mjög nálægt því að vera ónýtt. Þess vegna er yfirleitt sett skol (tóner) yfir hárið eftir að það er lýst með aflitun, svo hægt sé að leiðrétta litinn.

Aðrar tegundir[breyta]

Þetta hár hefur verið litað með henna lit

Allt frá því að tíska varð fyrirbæri hefur fólk fundið leiðir til þess að lita hár sitt. Til dæmis er hægt að nota sítrónu safa til þess að lýsa hárið. Kaffi og salvía getur dekkt hárið. Meira að segja er hægt að nota rauðrófusafa til þess að fá rauðan tón á hárið. Henna býður þó upp á fleiri möguleika þegar kemur að öðruvísi hárlitun eins og mismunandi brúna, rauða og rauðbrúna liti eftir því hvernig liturinn er blandaður.

Spurningar[breyta]

  1. Hvað heita hárlögin þrjú?
  2. Í hvaða aðstæðum er best að nota 100% lit?
  3. Hvenær er best að nota skol?
  4. Veistu um fleiri aðferðir til þess að breyta hárlit?

Krossapróf[breyta]

1 Hvað er mikilvægasta lag hársins?

Ysta lag (Cuticle)
Börkur (Cortex)
Kjarni (Medulla)

2 Hvað er melanín?

Prótein
Gerð af henna lit
Litarefni hárs og húðar

3 Hvers konar litur tekur ekki melanín úr hárinu?

100% litur
Skol
Aflitun

4 Hvers konar litur setur ekki melanín aftur í hárið?

100% litur
Skol
Aflitun

5 Er festir blandaður í afoxandi litablöndu?

Nei


Heimildir og ítarefni[breyta]