Ferming

Úr Wikibókunum

Höfundur: Carlos Ferrer, prestur og kennari. Staða: 50% (þann {{{2}}})

Þessi wikibók er tilraun til þess að setja saman kennslubók fyrir fermingarfræðslu í upphafi 21. aldar. Hún er eign allra þeirra sem nota hana, nemenda jafnt sem kennara, allir mega leggja hönd á plóginn og móta þetta verk. Markmiðið er ekki að eltast við "rétt" og "rangt" í trúmálum heldur miklu fremur að skoða hvaðan við komum og hvert við viljum stefna. Að þessu sögðu er bókin miðuð við það að nýtast fermingarfræðurum og -börnum íslensku þjóðkirkjunnar og leitast við að fylgja námsskrá fermingarfræðslu kirkjunnar.

Hvaðan komum við? Biblían - við lesum í biblíunni til þess að komast að því hvaðan við sækjum trú okkar og hvert við getum beint henni. Kjarni hennar hefur verið kallaður litla biblían.

Boðorð biblíunnar - sérstaklega tvíþætta kærleiksboðið, gullna reglan og almenn mannréttindi endurspegla kjarna kristins siðgæðis.

Trúarjátning - við lærum postullegu trúarjátninguna til þess að halda okkur við það sem skiptir okkar kirkju mestu máli.

Helgihald og bæn - sérstaklega bæn Drottins einning kölluð "faðir vor", miskunnarbæn og þekktar bænir gefa okkur hugmynd um hvað trúað fólk hefur hugsað og rætt við Guð.

Hvert stefnum við?

Við viljum verða myndug - fullorðin í trú okkar. Það felur í sér að við verðum sterkari einstaklingar, getum tekið okkar eigin ákvarðanir og verðum meðvituð um það í hverju trú okkar felst. Við viljum líka þekkja okkur betur sjálf, hvaðan við komum og hvert við viljum stefna í lífi okkar.

Taka þátt í kirkjustarfi þannig að kirkjan mín verði kirkjan mín.

Inngangur og upphaf[breyta]

Kauptu þér þykka glósubók, línustrikaða, stærð A5 eða A4 og innbundin (minnst 200 bls. Þetta verður aðalbókin þín í vetur, ferilmappa. Þú átt eftir að skrifa í hana og líma úrklippur, myndir, kannski áttu eftir að rífa úr henni … nú, þú ræður hvað þú gerir við hana. Kannski höfðar til þín að gera úrklippibók til að halda utan um allt fermingarnámið í vetur.

Hér eru verkefni fyrsta tímans (þú mátt gera þetta fyrir tímann, í tímanum eða eftir tímann):

1. Leitaðu á netinu eftir orðunum "ferming" “ferma”, “fermast” og prentaðu út 3 síður sem þér líst vel á og límdu eða heftaðu í bókina þína. Leita nú.

2. Finndu myndir á netinu sem fjalla um fermingu. Leita nú.

3. Skrifaðu hjá þér allar spurningar, t.d. í bloggi sem þú vilt fá svarað um kristna trú, kirkjuna, ferminguna og spurðu þær í tíma. Þegar þú færð svar, skrifaðu það hjá þér (ekki víst að það gerist í fyrsta tíma)

4. Skrifaðu nokkrar línur um það hvað þú vilt að gerist í vetur í lífi þínu, fjölskyldu þinnar, skólanum, vinahópnum, kirkjunni … og límdu mynd af þér eins og þú ert núna í bókina. Síðan skaltu taka 1 A4 blað, brjóta það í miðjunni og hefta yfir blaðsíðuna þannig að þú sjáir ekki hvað stendur á síðunni. Þegar þú ert búinn að fermast, þá skaltu opna fyrir síðuna og sjá hvað hefur ræst og hvað ekki.

Trú - að trúa[breyta]

2+2=4

Ég þarf ekki að trúa þessu, það er hægt að telja tvo og tvo putta.

Ísinn á tjörninni er mannheldur.
Foreldrar mínir elska mig.
Kennari minn er sanngjarn.
Presturinn segir satt.

Þessu má trúa - eða ekki.

Guð er til - eða ekki.
Ef Guð er til er hann/hún góð/ur, því heimurinn er svo fallegur og fínn.
Ef Guð er til, þá er hann/hún vond/ur, af því að ýmislegt gerist sem veldur sársauka og dauða.

Þessu má trúa - eða ekki.

Vísindin kenna okkur að heimurinn getur hafa orðið til fyrir tilviljun. Það þarf ekki að trúa á Guð til þess að skilja það hvernig heimurinn varð til. Það þarf heldur ekki að útskýra það að góðir hlutir gerast með því að tala um kraftaverk, eða að vondir hlutir gerast með því að segja að Guð hafi refsað. Hægt er að sanna það, að flestir hlutir gerast af náttúrulegum völdum. Við skulum taka mark á því sem vísindin hafa kennt okkur og draga tvær ályktanir:

Ef Guð skapaði heiminn, þá hefur hann falið fingraför sín.
Ef Guð passar heiminn og okkur, þá ráðum við því ekki hvernig hann gerir það.

Það sem þessar staðhæfingar eiga sameiginlegt, er að þær tala um trúna sem gerist þegar við hugsum. Að trúin er eins og viðhorf sem við eigum um lífið og tilveruna.

Ætli trúin sé meira en það? Hvað heldur þú?


Smásaga um trú:

Mamma hrópaði hátt á barnið sitt: Komdu stax!

Barninu brá svolítið því að það þekkti tóninn, það var ótti og áhyggja í rödd móðurinnar. Það sleppti boltanum sem það lék sér með og hljóp inn í húsið. Augnabliki síðar hljóp stór, svartur hundur, stökk á hurðina og krafsaði í hana, urrandi og reiður.

Trú er ekki bara eitthvað sem við hugsum, hún er líka traust, eins og það þegar barn hlýðir eða gerir eitthvað óvanalegt, af því að það veit að foreldrið eða vinur vill því vel. Að trúa er einnig að treysta.

Hverjum treystir þú? Af hverju?


Biblíusaga um trú:

Guð freistaði Abrahams og mælti til hans: "Abraham!"
Hann svaraði: "Hér er ég."
Hann sagði: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til."

Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar.

Þá sagði Abraham við sveina sína: "Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur."

Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman.

Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: "Faðir minn!"
Hann svaraði: "Hér er ég, sonur minn!"
Hann mælti: "Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?"
Og Abraham sagði: "Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn."

Og svo gengu þeir báðir saman. En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn. Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.

Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: "Abraham! Abraham!"
Hann svaraði: "Hér er ég."
Hann sagði: "Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn."

Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns. Og Abraham kallaði þennan stað "Drottinn sér," svo að það er máltæki allt til þessa dags: "Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist." Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams og mælti: "Ég sver við sjálfan mig," segir Drottinn, "að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu."

Hvernig finnst þér Guð vera í þessari sögu? Réttlátur, ranglátur, góður, vondur?
En Abraham? Hvað finnst þér að Ísak hefði átt að gera?
Hefur þú nokkurn tímann verið í sömu stöðu og Ísak? (1. Mósebók 22)


Orðið TRÚ nær yfir þrennt:

1. Að halda að eitthvað sé satt (t.d. 2+2=4).
2. Að treysta (t.d. Pabba þykir vænt um mig).
3. Að reiða sig á að það sem maður treystir, muni reynast traustsins vert (t.d. pabbi myndi aldrei skaða mig).

Þetta síðasta er kannski erfiðast. Eins og Abraham gat ekki vitað, að Guð mundi hlífa syninum Ísak, vitum við ekki alltaf, hvort Guð er máttugur eða góður, sérstaklega þegar okkur líður illa, eða þegar við höfum misst. Eins og Ísak, vitum við ekki alltaf hvort foreldrar okkar eða aðrir sem ráða yfir okkur vilji það besta fyrir okkur.

Alveg eins og við getum byggt traust okkar á reynslu okkar af fólki sem við þekkjum og elskum, getum við byggt traust okkar á Guði á reynslu okkar af því að trúa, vera innan um fólk sem trúir og reynist okkur vel.

Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. (Hebreabréfið 11.1)

Um hvað ertu viss? Nefndu þrjá hluti.
Hvað vonar þú? Nefndu tvo hluti.
Hvað er til en þú getur ekki séð eða fundið fyrir? Nefndu eitt.


Lífsskoðun og trú[breyta]

Lífsskoðun eða lífsviðhorf eru orð sem ná yfir margt, eins og orðið "trú". Við getum látið þessi orð ná yfir skoðanir okkar á félagsmálum, málefnum samfélagsins, hugmyndir okkar um gott líf og á hvað eða hvern við trúum. Við tökum þessar skoðanir "í arf" frá foreldrum okkar, látum umhverfi okkar (vini, kennara, fjölskyldu) hafa áhrif á okkur og þá sérstaklega fjölmiðla, s.s. sjónvarp, útvarp, tónlist, kvikmyndir, auglýsingar og annað sem heldur að okkur ýmsum viðhorfum um það hvernig sé best að lifa og láta. Við getum skilið þessi viðhorf en það er ekki sjálfgefið að við erum sammála þeim. Jóhann Björnsson, heimspekingur segir:

"Þó lífsskoðanir séu að einhverju leiti fengnar í arf frá fyrri kynslóðum og menningarlegu ástandi samfélagsins þá mótum við að stórum hluta okkar eigin viðhorf allt okkar líf. Við skynjum umhverfi okkar og annað fólk og þurfum sífellt að taka afstöðu til ýmissa mála." (Borgaraleg ferming, námskeið, bls. 3)

Allir hafa lífsviðhorf, en menn eru misjafnlega meðvitaðir um þær. Fermingarundirbúningurinn er tækifæri fyrir þig til þess að skoða lífsskoðun þína, kristna trú og leggja út í andlegt ferðalag þar sem þú leyfir þér að skoða umhverfi þitt með opnum hug og með umburðarlyndi, vegna þess að við erum öll í sömu ferð. Af hverju á ég að sýna lífsskoðun annars fólks virðingu?

Virðing fyrir lífsskoðunum

Þegar talað er um trú og trúleysi þá snýst málið oftast um það hvort til sé Guð sem stýrir þessum heimi. Þeir sem trúa eru þá kallaðir guðstrúar en þeir sem hafna því að guð standi að baki þessum veruleika eða eru skoðanalausir kalla sig sumir trúlausa eða guðlausa. Skoðum það sem Siggi pönk, hjúkrunarfræðingur og tónlistarmaður hefur að segja um trú og guðleysi:

"Hugtakið guð er mynd utanum þann innri styrk sem einstaklingurinn býr yfir. Þá er átt við persónulegan guð sem lifir og deyr með sínum skapara. "Guð" er sá persónulegi kraftur og sá vilji sem viðkomandi einstaklingur býr yfir en áttar sig ekki alltaf á, því hugmyndin um guð skyggir á. Guð er þá mynd utanum þann innri styrk sem einstaklingurinn býr yfir ... Í stuttu máli þá getur guð verið hvað það sem þú vilt. Styrkur, von, kærleikur, sjálfstæði en það er aldrei raunverulegt. En þú getur líka verið hvað sem þú vilt og sama þó manneskjan sé breysk þá er nærtækara að byggja eigið sjálfstæði á því sem maður þekkir best ... Guðleysinginn hefur trú á sjálfum sér milliliðalaust." [1]

Þegar menn tala um trú er trúin oftast tengd einhverjum guði. En sumir, eins og Siggi Pönk trúa ekki á Guð eða guði af neinu tagi.

Á Íslandi er réttur manna til þess að trúa á það sem þeir vilja verndaður með stjórnarskránni og með lögum landsins. Það gerir okkur skylt að virða trú annarra. Af hverju? Svarið tengist því hvernig á því stendur á hvað við trúum. Trúin er eins og ástin eitt af því innilegasta sem við upplífum. Við reynum að vernda það sem okkur er heilagt, með því móti sýnum við okkur sjálfum virðingu og þar með öðrum.

Trúin er svar okkar við því hvernig okkur finnst best að haga lífi okkar. Með trúnni segjum við: Hér er ÉG, svona ER ég.

Franski heimspekingurinn Jean-Jaques Rousseau sagði eitt sinn: "Ég fyrirlít skoðanir þínar, en er reiðubúinn til þess að láta líf mitt til þess að þú megir láta þær í ljós." Með þessu sagði hann að eitt skuli yfir alla menn ganga, við erum á sama báti. Ef þú mátt ekki trúa því sem þú trúir, er líklegt að ég megi heldur ekki eiga mína trú.

Okkur ber að virða hvert annað vegna þess að við eigum öll sama rétt til lífs, frelsis, trúar og skoðana. Það er ekki þar með sagt að öll trú og allar skoðanir séu jafn góðar eða jafn elskuverðar. Það er t.d. erfitt fyrir okkur sem ölumst upp í þeirri trú að allir menn hafi jafnan rétt til lífs og lífhamingju að samþykkja lífsskoðun þeirra sem halda því fram að fólk af ákveðnu kyni, litarhætti eða þjóðfélasstétt eigi að hafa minni rétt en annað fólk.

Hvar er Guð?[breyta]

Heimsmynd fornaldar var flöt jörð í miðju alheims. Hún reyndist lífsseig og það var ekki fyrr en með tilkomu sjónauka og stjarnfræðilegum rannsóknum að til varð önnur heimsmynd, sem gerir ráð fyrir miklahvelli, útvíkkandi massa og aragrúa stjörnuþoka sem fjarlægjast miðju alheimsins.

Með því að smella á myndirnar er hægt að stækka þær.

Postullega trúarjátningin, sem öll fermingarbörn eiga að læra utanbókar, hefur jarðmiðjukenninguna sem grunn til að byggja á. Enda þekkti fólk ekki nútíma heimsmynd þegar hún var samin. Teiknaðu kort af alheiminum miðað við það að jörðin er í miðjunni, himininn fyrir ofan og dauðaheimar (hel) fyrir neðan.

1. Gerðu tákn Guðs (þríhyrningur með auga í miðjunni) þar sem þú heldur að Guð eigi að vera miðað við kortið.

2. Gerðu kross og hauskúpu þangað sem það á við, miðað við það hvar Jesús dó og hvert hann fór.

3. Hvar endar saga Jesú? Teiknaðu fisk þar sem sagan um Jesú endar í trúarjátningunni.

4. Hvar er heilagur andi núna? Teiknaðu dúfu með útbreidda vængi þar sem trúarjátningin talar um að hann sé.


Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um það hvernig fólk talar um Guð og hvar hann er að finna.

Er Guð til eða ekki?

Már og sonur hans

Vísindavefurinn - fyrir grúskara og lengra komna

Biblían, Sálm 139

Veldu einn hlekk, prentaðu hann út og lestu það sem þar er að finna. Strikaðu undir það sem vekur athygli þína.

1. Hvað finnst þér gott og hvað finnst þér slæmt við það sem þú lest?

2. Hvaða spurning finnst þér best og hvaða svar finnst þér best? Af hverju?


Ljóð og sálmar

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.
Steingrímur Thorsteinsson


Hvar fannst Steingrími að Guð sé að finna?


Sigurbjörn Einarsson, biskup er eitt okkar helstu sálmaskálda. Í sálmi 22 talar hann um það hvar Guð er að finna.

Nefndu þrjá staði, sem Sigurbjörn tilgreinir að Guð sé í sálminum.


Biblíutextar

Hluti af sögu Elía spámanns:

11. Þá sagði Drottinn (við Elía): Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér. Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. 12. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. 13. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. (1.Konungabók 19)

Hvar fann Elía spámaður Guð? Hvernig brást hann við? Af hverju heldurðu að hann hafi gert það?

Hvernig er Guð?[breyta]

Þegar krakkar teikna Guð, er hann oft gamall, hvítur karlmaður með sítt hár og skegg. Hann er góður, réttlátur og máttugur - og alls staðar. Nú förum við og skoðum hvort þessi “staðalímynd” eigi sér fót í Biblíunni. Hér fyrir neðan eru nokkar af dæmisögum og frásögum Jesú sem við skulum skoða og meta, hvort þær gefa okkur aðra mynd af Guði.

Biblían

Lúkasarguðspjall 15 (þrjár sögur)


Hvað segir þessi saga um það, hvernig Guð er?

Góður  <——————–> Vondur
Réttlátur  <——————–> Ranglátur (óréttlátur)
Almáttugur <——————–> Vanmáttugur (getur ekki allt)


Lúkasarguðspjall 18, 1 - 30 (5 sögur)

Hvað segir þessi saga um það, hvernig Guð er?

Góður <——————–> Vondur
Réttlátur <——————–> Ranglátur (óréttlátur)
Almáttugur <——————–> Vanmáttugur (getur ekki allt)


Hvernig er ég?

Að taka hluti inn á sig (t.d. Umtal, athugasemdir, skot, gagnrýni, )

Að sýna fólki bara hluta af sjálfri/um sér (gríman mín, “raunveruleg(ur) ég)

Að sannfæra aðra (Ég hef rétt fyrir mér, þú ekki!)

Hver græðir á því ef ég verð reið(ur)?

Hvað græði ég á fýlu, hatri?

Hvernig lítur Guð á mig? Hvað sér Guð, þegar hann sér mig?

Fæðing Jesú - fæðing okkar[breyta]

Við lesum sögur um fæðingu Jesú í Biblíunni og skoðum einnig okkar sögur af fæðingu okkar. Veltum fyrir okkur stað okkar í fjölskyldunni, veltum fyrir okkur hvað er að elska, treysta og vera trygg(ur). Við skoðum það hvað það er að leika sér við tilfinningar annarra og pælum í því hvernig við getum varið okkur frá því að lenda í ástarsorg.

Biblíusögur

Mattheusarguðspjall 1, 18 - 25 Reyndu að segja söguna með því að setja þig í spor Jósefs. Byrjaðu söguna með þessum orðum: “Ég heiti Jósef, og ég er í klípu …”

Lúkasarguðspjall 1, 26-39, 2, 1-7 Litli asninn hennar Maríu hét Marteinn. Hún fékk hann í fermingargjöf og hún fór á honum hvenær sem hún þurfti að fara í ferðalag. Settu þig í spor Marteins og reyndu að segja söguna út frá því sem hann sér og skynjar.


Kafað dýpra - pælingar

Hvað veistu um það, þegar þú fæddist? Tók einhver mynd(ir)? Hefur einhver sagt þér sögur af fæðingu þinni? Hvernig finnst þér (fannst þér) að rifja þessar sögur upp?

Lestu 4. boðorðið og 16. og 26. grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna (um fjölskyldu og menntun). Prentaðu út þessi skjöl og klipptu út og límdu það sem þér finnst merkilegast í þeim í bókina þína. Svaraðu eftirfarandi spurningum:

1. Hvað þýðir “að heiðra” í boðorðinu? Af hverju er það mikilvægt?

2. Hvað sýnist þér vera ábyrgð foreldra í mannréttindasáttmálanum?

3. Hverjir ber ábyrgð á því að börn fái menntun í mannréttindasáttmálanum?


Sjálfstyrkingarverkefni

Teiknaðu fjölskylduna þína með litum, hvern með sínum lit ef þu vilt, eða alla með sama. Þetta er ekki teiknipróf, gerðu bara einfalda mynd.

Skoðaðu hana svo og athugaðu hvernig afstaða fólksins er, hver er stærstur, hver minnstur?

Ertu sjálf/ur á myndinni? Ertu í miðjunni eða úti í jaðri?

Veistu að enginn er eins og þú? Það er enginn þú nema þú? Stattu upp, andaðu djúpt og segðu róleg, skýrri röddu, svo að hópurinn þinn heyri: Ég heiti………. og það er enginn til eins og ég. Ég er alveg einstök (eða einstakur). Sestu svo niður aftur.

Biblíurallý[breyta]

Opnaðu Biblíu (ekki af netinu). Ef þú lendir í vanda, notaðu þá efnisyfirlitið í biblíunni þinni til að finna versin.

Biblían er frumheimild kristinnar trúar. Hún er samansafn hugsana orð frásagna þeirra trúmanna og trúkvenna, sem áttu trú á Guð á undan okkur. Trúin er breytileg eftir því hvernig lífið leikur okkur, en biblían er alltaf eins. Stundum, þegar kirkjur og lönd fjarlægjast uppruna sinn og grundvöll trúarinnar, þá hefur biblíulestur haft þau áhrif að draga trúna aftur til upprunans. Það gerðist m.a. þegar munkurinn Marteinn Lúther hóf að skrifa rit og bækur til að bæta ástand kirkjunnar á 16. öld og til varð umbótarhreyfing sem íslenska þjóðkirkjan er hluti af. Eitt biblíuvers, Jóhannesarguðspjall 3, 16 sagði hann vera svo mikilvægt, að hann kallaði það litlu biblíuna.

Hið íslenska biblíufélag sér um að þýða og gefa út biblíuna á íslensku. Öll kristin trúfélög á Íslandi eiga aðild að félaginu og útgáfa biblíunnar er mál sem varðar alla þjóðina, óháð því í hvaða kristna trúfélagi fólk er.

Lestu það sem stendur um biblíuna í litlu kveri um kristna trú eftir Karl Sigurbjörnsson, biskup. Nefndu þrennt sem þér finnst vera mikilvægt úr kaflanum.

Klemmusögur um ástina og samskiptin[breyta]

Kvikindislegt grín

Nikulás er alltaf góður og elskulegur við kærustuna sína, Fríðu, þegar þau eru tvö saman ein. Þegar hann hittir vini sína gerir hann hins vegar oft grín að henni á kvikindislegan hátt. Fríðu þykir þetta leiðinlegt jafnvel þótt hún viti að þetta sé allt sagt í gríni.

Hvað finnst ykkur að Fríða eigi að gera?


Að byrja með stelpu, bara til að prófa

Jói hefur aldrei verið á föstu þegar Sara segir honum að hún sé hrifin af honum. Jói er ekki skotinn í Söru en vill samt prófa að vera á föstu. Hann heldur kannski að hann geti orðið hrifinn af henni.

Hvernig finnst ykkur að hann ætti að svara?


Ástin er dauð

Hanna er ekki lengur hrifin af kærastanum en hún vill ekki vera ein. Þess vegna ákveður hún að halda áfram með honum meðan hún bíður eftir að kynnast einhverjum öðrum.

Hvað mynduð þið vilja segja við Hönnu?


Skírn Jesú - skírn mín[breyta]

Við skoðum það sem gerist þegar börn eru skírð. Lærum að skíra með “skemmri skírn”. Veltum því fyrir okkur hvað það þýðir, þegar við gefum Guði börnin okkar og þegar við segjum já við spurningunni: Viltu gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs þíns (=fermast). Veltum því fyrir okkur hvað það er að trúa, treysta, lifa samkvæmt því sem við trúum.


Biblían

Veldu einn af eftirfarandi textum:

Mattheusarguðspjall 3. kafli, Lúkasarguðspjall 3. kafli eða Jóhannesarguðspjall 1, 18-34

og segðu söguna af skírn Jesú frá sjónarhorni Jóhannesar skírara. Byrjaðu söguna á orðunum:

“Ég heiti Jóhannes. Guð sendi mig út á meðal fólks til þess að …”

Hvaða máli skipti skírn Jóhannesar? Af hverju þurfti Jesús að taka skírn? Hvaða orð má nota í stað orðsins skírn án þess að merking þess “að skírast” glatist?


Skírn þín

Hvenær varstu skírð(ur)? Hver hélt á þér? Af hverju varstu skírður (spurðu foreldra þína)? Komdu með eina mynd úr skírn þinni, ef hún er til.

Kirkjan og skírnin

Af hverju er fólk skírt? Lestu þennan texta og svaraðu spurningunni.

Karl Sigurbjörnsson, biskup segir um skírnina: Skírnin er tákn og sakramenti náðarinnar. Guð elskaði þig að fyrra bragði, segir skírnin. Áður en þú vaknaðir til vitundar um hann gerði hann náðarsáttmála við þig. Skírnin segir þér að þú ert Guðs barn, þú tilheyrir ríki hans, ríki náðarinnar, og ekkert það sem að ber eða til er getur breytt því. Guð gengur ekki á bak orða sinna. Þú ert minn, segir hann við þig. Skírnarkjólar eru gjarna síðir til að minna á að við eigum að vaxa upp í trúnni. Ævina alla eigum við að leitast við að vaxa upp til þeirrar trúar sem játuð er í skírninni. Lítið kver um kristna trú


Skemmri skírn

Lestu [sögu Ragnars Andra og Friðriks Antons].

Af hverju er skemmri skírn mikilvæg?


Flettu upp á skemmri skírn í sálmabókinni. Svaraðu eftirfarandi spurningum:

Hver má skíra skemmri skírn?
Hvað þarf að kunna, til þess að geta skírt skemmri skírn?


Skírn og ferming

Hugsunin með fermingunni okkar er (…) að fermingarbarnið er að lýsa því yfir opinberlega að það vill tilheyra Jesú Kristi, það vill að Jesús Kristur verði leiðtogi í sínu lífi. Guð þarf í raun ekki að staðfesta neitt við okkur. Hann hefur gert það í eitt skipti fyrir öll með krossdauða Jesú og upprisu. Þar staðfestir hann kærleika sinn til okkar. Í skírninni má segja að við séum ættleitt honum, foreldrar okkar bera okkur til skírnar skv. boði Jesú, afhenda okkur Guði og við verðum Guðs börn. Með fermingunni er tekið tillit til vilja okkar, hvort við viljum áfram vera Guðs börn. Guð elskar okkur og hefur alltaf gert og mun aldrei hætta því. (Sigurður Grétar Rúnarsson á [2])

Hvaða munur er á skírn og fermingu, sýnist þér?

Freistandi...[breyta]

Hvað er að freista? Hvað eru freistingar og hvað er freistari? Eru freistingar ekki bara til þess gerðar að við föllum fyrir þeim? Er það ekki “allt í lagi”? Er nokkur verri þótt hann eða hún láti undan freistingum?


Orðabókin

Að freista

1. reyna, gera tilraun, t.d. “við freistum þess að klífa fjallið á einum degi”.
2. vera eftirsóknarvert, tæla, t.d. “kakan freistaði mín, ég fékk mér eina sneið.”

Google

Farðu á [Google], sláðu inn orðið “freistingar” og veldu myndir. Prentaðu út þrjár myndir sem þér finnst lýsa orðinu best. Klipptu út og límdu í bókina þína.


Adam og Eva

1. Mósebók 2, 5-9, 15-25 og 3. kafli. Leikrit um freistingu, lygi og afleiðingar. Leiklesið í tíma eða í guðsþjónustu og umræður á eftir.

Orðskýringar:

Adam (hebreska): maður
Eva (hebreska): líf
jörð (á hebresku): adamah, mold


Freisting Jesú

Lestu Matt. 4,1-11. Skrifaðu hugrenningar þínar hjá þér og svaraðu eftirfarandi spurningum:

1) Er sagan líkleg til að vera sönn lýsing á 40 dögum í lífi Jesú? Þurfti Jesús að eiga við freistingar allt sitt líf eða "aðeins" í 40 daga? Rökstuddu svar þitt.
2) Hvernig hefði saga Jesú orðið, ef hann hefði látið undan freistingunum?
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:

Að langa og að gera

Búðu til plakat með því að klippa stafi úr dagblöðum og tímaritum. Plakatið á að fjalla um muninn á því að langa í eitthvað og að gera eitthvað. Efst á að standa: "Freistandi ..."

Klemmusögur um freistingar[breyta]

Brauðið dýra

Gamla vinnukonan lagði af stað með nýbakaða brauðið og hélt upp í sel. Þoka skall á og hún villtist. Hún gekk í hringi í þrjá daga þangað til að hún örmagnaðist og lagðist fyrir. Þegar leitarfólk fann hana hafði hún ekki snert á brauðinu. “Af hverju tókstu ekki brauðið,” spurðu þeir. “Af því að ég átti það ekki,” sagði hún. (Endursagt eftir Halldóri Laxness)

1. Hvað mundir þú gera.
2. Af hverju?
3. Hvað finnst þér um vinnukonuna og rök hennar?
4. Hvernig manneskja heldurðu að hún hafi verið?


Sýningin

Mikil og erfið sýning er framundan í skólanum, “Chicago”, hvorki meira né minna. Allir taka þátt. Þú ert með hlutverk sem skiptir máli, ekki aðalhlutverk en samt… tvær sýningar búnar, tvær eftir. Þú ert búin(n) á því, uppgefin(n). Þú brotnar niður eftir æfingu, það líður yfir þig, en sem betur fer er vinkona þín hjá þér og hjálpar þér heim. Þú hefur nokkra valkosti.

a) að segja leikstjóranum (og foreldrum frá því sem gerðist.
b) að þegja og gera ekki neitt, vona að allt verði gott
c) fara í lyfjaskápinn hjá Þóru og fá smá lyf til að geta klárað sýningarnar.


Ef þú velur a) er eins líklegt að leikstjórinn og foreldrarnir ákveði að láta þig hætta í sýningunni, fari með þig til læknis og þú færð að hvíla þig. Ef þú velur b) er ekki víst að þú hafir krafta til að klára dæmið, það gæti liðið yfir þig aftur, e.t.v. á sýningu. Ef þú velur c) færðu kannski kraft til að klára sýninguna en … þú veist ekki hvaða skaða lyfið gerir.

1. Hvað langar þig að gera?
2. Hvað er rétt að gera?
3. Hvað gerirðu?

Synd - iðrun - fyrirgefning - sekt - sakleysi[breyta]

Lestu Genesis 3, 1-7 "Syndin er lævís og lipur," sagði íslenskur höfundur eitt sinn. Með því er átt við það að við syndgum stundum án þess að vilja það. En hvað er synd?

Kristin trú skilgreinir synd sem vantrú, að vilja ekkert með Guð hafa að gera og það að reyna að vera eins og Guð. Synd er fyrst og fremst að vera svo upptekinn af sjálfum eða sjálfri sér að allt ekkert annað kemst að! Allt gott sem gerist er vegna þess að ÉG gerði það og allt sem gerist vont er öðrum að kenna! Syndarinn gleymir því að hann er sköpun Guðs og að hann er háður hlutum og kringumstæðum sem hann bjó ekki til sjálfur. Syndin veldur ótta, einmanaleika og mikilmennskubrjálæði og þess vegna leiðir hún til þess að lög eru brotin og trúnaður svikinn.

Synd er það sem þú veist að mátt ekki gera … en gerir samt.

Lestu: Mattheusarguðspjall 5, 20 - 30

Hvað segir þessi ræða Jesú okkur um möguleika okkar til þess að vera gott fólk? Hvað heldurðu að við getum gert til þess að berjast við það vonda sem við segjum og gerum? Hvernig tökumst við á við synd okkar?

Skrifaðu í reitinn hvað er

eftirsjá


syndajátning


iðrun


Fyrirgefning og sátt Lestu Mattheusarguðspjall 18, 21-35. Svaraðu eftirfarandi spurningum með hliðsjón af sögunni. Hvað er fyrirgefning?


Hvenær á að fyrirgefa?


Af hverju á að fyrirgefa?


Naflaskoðun: Við eigum stundum erfitt með að fyrirgefa öðrum þegar þeir gera á hlut okkar. Hvenær er ekki hægt að fyrirgefa?


� Af hverju ætli það sé?



Hvað gerum við þá?



Klemmusögur um afdrifaríkar ákvarðanir[breyta]

Hér koma nokkrar sögur til skemmtunar en líka til æfinga þess sem þú varst að læra.

1. Flugslysið Þú ert á ferð í bíl í miðri eyðimörkinni. Þú sérð þér til mikillar skelfingar að flugvél hefur brotlent á miðjum veginum og stendur í ljósum logum. Öðru megin við veginn liggur alvarlega slasaður maður sem þarf að komast strax undir læknishendur. Hinu megin við veginn liggja 5 særðir menn en þú ályktar í skyndi að það sé ekki lífshættulegt. Þú hefur 60 mínútur til að bjarga annað hvort einum mikið slösuðum eða fimm minna slösuðum. Hvað gerirðu? Svar:


Þórður á stofu 5 Þórður sefur á stofu 5 eftir botnlangaskurð. Fimm menn býða í næstu stofu eftir líffæraígræðslum, en líffærin vantar og mennirnir láta lífið á næstu mínútum fái þeir ekki líffærin. Einn er að bíða eftir hjarta, annar eftir lungum þriðji eftir nýrum o.s.frv. Nú sefur Þórður enn föstum svefni eftir botnlangaaðgerðina. Þú ert læknirinn hans og hefur val um að gefa sjúklingunum 5 líffæri Þórðar og láta Þórð deyja, ella horfa á 5 menn deyja næstu mínúturnar. Hvað gerirðu? Svar:


Járnbrautastöðin Þú stendur á járnbrautastöð og horfir á þegar viðgerðarmenn fara inn í tvenn neðanjarðargöng til að gera við teina. Einn maður fer í önnur göngin en fimm fara í hin. Eftir dágóða stund kemur lestin og stefnir í göngin með mönnunum fimm. Þú þarft að hugsa mjög hratt og veist að ef þú ýtir á takkann, skiptir lestin um teina og aðeins einn maður lætur lífið. Hvað gerirðu? Svar:


Fituhlunkurinn Þú stendur á brautarstöðinni og ert nýbúin(n) að jafna þig á fyrrgreindum atburði við brautarteinana, þar sem þú valdir að láta lestina skipta um teina og drepa aðeins einn mann í stað fimm. Þá sérðu hvar önnur lest kemur og stefnir í göng mannanna fimm. Þú hugsar eins hratt og heilinn þinn leifir og sérð þér til léttis að stór og mikill fituhlunkur stendur á brautarpallinum og er að éta hamborgara. Þú veist að þú getur bjargað öllum fimm mönnunum með því að ýta hlunknum fram af brautarpallinum. Þannig geturðu stöðvað lestina. Getirðu ekki hrint honum sjálfur, býðst þér að ýta á einn takka sem skýtur honum sjálfkrafa á teinana. Það vildi nefnilega svo til að hann stóð akkúrat á skotpalli. Hvað gerirðu? Svar:


Fórnin Rútubílstjóri nokkur var að sækja námumenn í fjalllendi á Indlandi. Hann var á gamalli rútu og bremsurnar voru orðnar mjög lélegar. Á leiðinni niður kemur hann auga á dreng sem stendur á miðjum vegi. Hvað á hann að gera? Keyra útaf? Aka á drenginn? Hann velur síðari kostinn. Keyrir síðan mennina í þorpið og fer aftur upp í fjöll að sækja drenginn. Er hann kemur til baka með látinn drenginn í fanginu, spyr læknirinn hann: - ,,Hvers vegna flautaðirðu ekki bara á hann?” Maðurinn svarraði: - ,,Vegna þess að hann er heyrnalaus.” - ,,Hvernig veistu það?” Spyr þá læknirinn. - ,,Vegna þess að hann er sonur minn.” Hvað hefðir þú gert? Svar:

Fordómar - við á móti ykkur[breyta]

Nokkar setningar, teknar úr greinum sem birtast á netinu fylgja hér á eftir.


Fordómar

“Held samt að fordómar gagnvart sænskri kvikmyndagerð lifi ennþá góðu lífi.”

“Í dagbókinni koma fram fordómar hans gegn Kínverjum og gremja hans yfir að þurfa að fljúga þangað.”

“FORDÓMAR GEGN FEITUM

Kerfið hefur lengi verið á móti þeim sem eru yfir kjörþyngd.”

1. Hvað eru fordómar?
2. Hvenær eiga fordómar rétt á sér?
3. Nefndu dæmi eða segðu sögu.


Sekt

“Fólk á að fá að njóta vafans þanngað til sekt er sönnuð.”

“En í þetta skiptið voru þeir allir dæmdir sekir !”

1. Hver má dæma fólk?
2. Fyrir hvað má dæma fólk?


Sakleysi

“… þess vegna taldi ég í sakleysi mínu að mér væri óhætt að koma hér”

“… telpan myndi bakka mig upp þegar ég færi að halda fram sakleysi mínu.”

“Hver dæmir um sekt og sakleysi einstakra manna?”

1. Hver er saklaus?
2. Hvenær hættir fólk að vera saklaust?


Biblían

Jóhannes 8. 2 - 11: Sek - sekari - sekust? Lestu söguna, ræddu og gerðu grein fyrir henni með því að endursegja hana. Svaraðu spurningunum hér fyrir neðan í endursögninni.

1. Hver er dæmir í sögunni?
2. Hver er dómurinn?
3. Hver fullnægir dómnum?
4. Hver ákærir?
5. Hver er verjandinn?
6. Hvernig endar sagan?


Matteus 7. 1 - 5: Dæmið ekki. Lestu orðin úr fjallræðunni, ræddu og gerðu grein fyrir þeim í endursögn. Veltu fyrir þér og svaraðu eftirfarandi spurningu: Hvað myndi gerast ef enginn dæmdi í neðangreindum aðstæðum?

1. Heimsmeistarakeppni.
2. Réttarhöld vegna líkamsárásar.
3. Nýr krakki í bekknum.
4. Þorgrímur farinn að reykja og drekka.


Lúkas 19. 1 - 10: Lítill, ríkur - - - og stelur! Lestu söguna, ræddu og gerðu grein fyrir henni með því að endursegja hana. Svaraðu spurningunum hér fyrir neðan í endursögninni.

1. Hverjir hafa fordóma í sögunni?
2. Eiga fordómarnir rétt á sér? Er Sakkeus sekur?
3. Af hverju vill Jesús gefa honum “annan séns”?
4. Hvernig bregst Sakkeus við, þegar Jesús gefur “annan séns”?

Þú

1. Hefur þú orðið fyrir fordómum? Lýstu einu dæmi.
2. Hefur þú gert þig seka(n)? Lýstu einu dæmi.
3. Hefur þér verið fyrirgefið? Lýstu einu dæmi.

Tilvitnanir fengnar af bloggum með leit í orðabók Háskólans

Sár og hefnd, fyrirgefning og sátt[breyta]

1. Mósebók 4. 23 - 24: Fyrirbyggjandi lífsspeki?

23. Lamek sagði við konur sínar:
Ada og Silla, heyrið orð mín,
konur Lameks, gefið gaum ræðu minni!
Mann drep ég fyrir hvert mitt sár
og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ.
24. Verði Kains hefnt sjö sinnum,
þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum!

Ljóðið hér fyrir ofan lýsir lífsspeki Lameks. Hvað finnst þér um hann? Notaðu þrjú orð til að lýsa honum.

1. Hvernig væri að eiga Lamek fyrir vin?

2. En sem óvin?

3. Ef þú ættir að segja sögu Lameks, hvernig mundi hún enda?


Matteusarguðspjall 5, 38 - 44: Auga fyrir auga?

1. Er rétt að fólk fái að hefna sín?

2. Má fólk sækja sér réttlæti, ef brotið hefur verið á því?

3. Er raunhæft hjá Jesú, að ætlast til þess að fólk hefni sín ekki?

4. Ætlast Jesús til þess að fólk sé varnarlaust gagnvart fólki sem vill meiða það? Rökstuddu svar þitt.

5. Er í lagi að vera reið(ur)? Rökstuddu svar þitt.


Matteusarguðspjall 18, 21 - 35: Fyrirgefa - eða ekki?

1. Hvað er fyrirgefning í dæmisögunni um konginn og þjónana?

2. Er raunhæft að fólk fyrirgefi?

3. Hvað þarf að gerast til þess að hægt sé að fyrirgefa?

4. Hvað merkja orðin “…fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum” í bæn Jesú?


Þú

1. Hefur þú þurft að biðjast fyrirgefningar síðustu 14 daga? Af hverju?

2. Hefur þú fyrirgefið einhverjum síðustu 14 daga? Af hverju?

Frá dauða til lífs[breyta]

Líf mitt og líf Jesú.

Hver er ég og hver vil ég vera? Að vera góður maður, góð kona. Að ganga með kross utan klæða, ekki bara í messu.

Að frelsast - frá vondu, þrældómi og til lífs með Guði

Dauði minn og dauði Jesú.

Missir, dauðinn og sorgin.

Vonin, hver er hún? Hvað er von og hvað er æðruleysi?

Jól, páskar og hvítasunna[breyta]

Dagbók safnaðarstarfs og messusóknar[breyta]

Við Guð erum vinir, við hittumst á hverjum degi.

Messublogg
Bænabók
Lýsing á kirkju, kirkjustarfi, myndir o.fl.
Þjóðkirkjan

Hvað er guðsþjónustan?

Guðsþjónustan er staðurinn þar sem við mætum Guði og hvert öðru. Guð talar við okkur, við tölum við Guð og við hvert annað. "Ef þú færir fórn þína í musterinu, og manst að þú átt sökótt við náunga þinn, skildu þá fórnina eftir, sættstu við náungann og komdu svo aftur," sagði Jesús. Hvað átti hann við?

Guðsþjónusta getur verið með ýmsu móti. Hefðbundin, full af leikreglum eða helgisiðum, sálmar eru sungnir, víxlsöngvar og víxllestrar, bænir, kyrrð en líka prédikun og lestur úr Biblíunni. Altarisganga, skírn og ferming, en líka brúðkaup og jarðarför. Allt er þetta guðsþjónusta, annað hvort almenn eða vegna sérstaks tilefnis.

[mynd úr kirkju eða samkomu]

Guðsþjónusta getur líka verið óhefðbundin, þá má búast við ... einhverju óvæntu, t.d. leikriti, dansi eða annarskonar listviðburði. Hún getur farið fram utan kirkjunnar, t.d. á gönguferð eða í skjólgóðri laut úti. Tónlistin er e.t.v. flutt af skólahljómsveitinni eða sálmar sungnir sem aldrei hafa heyrst áður.

[mynd úr óhefðbundinni messu]

En í grunninn er guðsþjónusta alltaf eins.

Inngangur

Við komum saman og búum okkur undir að hlusta á Guð tala til okkar. Það gerum við með sálmum, bænum og dýrðarsöng.

Oft byrja guðsþjónustur á því að við signum okkur, biðjum saman upphafsbænar eða hlustum á meðhjálpara eða prest flytja upphafsbæn.

[Dæmi um upphafsbæn, morgunbæn eða friðarbæn]

Hvað fær þig til að staldra við, kyrra hugann og hlusta á það sem aðrir vilja segja við þig?

Hvað gerir þú þegar þú þarft að "ræða málin á alvarlegu nótunum" við félaga þína?

Við hlustum á Guðs orð.

Þegar líður á guðsþjónustuna, heyrum við lestur úr Biblíunni og prédikun er flutt, oftast af presti en stundum sjá aðrir um að prédika.

Hvað þarf að gerast til þess að þú farir að hlusta? Er nóg að lesa fyrir þig texta? Er nóg að tala við þig, nefna þig með nafna? Þarftu að sjá myndir? Þarf að segja brandara? Er nóg að það sé alger þögn og allir hlusta? [gera lista með auðum reitum til að krossa við, hafa nokkrar línur til að fylla í texta frá eigin brjósti]

Við borðum saman.

Altarisgangan fer misoft fram í kirkjum. Í mörgum kirkjum er einnig kirkjukaffi. Þótt altarisgangan og kirkjukaffið er ekki það sama, þá eru þessar máltíðir líkar að því leyti að þær næra okkur og þær eru mótsstaðir þar sem við getum hittst.

Hvenær ertu ekki tilbúin(n) að setjast til borðs og njóta máltíðar með einhverjum eða einhverri?


Hvernig þarf máltíð og samvera að vera til þess að þú njótir hennar?


Við förum burt til starfa okkar.

Áður en við höldum heim, fáum við blessun og syngjum saman sálm til að hafa með okkur sem veganesti út í vikuna, svo að við tökum "framförum í kristilegu hugarfari og líferni", eins og segir í gömlu meðhjálparabæninni.

Það er auðvelt að skreyta sig með krossi þegar krossinn er skartgripur og í tísku. En hvað gerist þegar einhver spyr þig um trú þína, hvernig líður þér þá og hvað viltu segja?

Hugsaðu um leiðir til að sýna trú þína í verki og skráðu þær hér.


Röð messuliða (verkefni)

Taktu þér sálmabók og finndu messuskrána í henni. Raðaðu messuliðum í eftirfarandi flokka.


Inngangur


Þjónusta orðsins / hlusta á guðs orð


Altarisganga


Sending til starfa / messulok


Ef þú ættir að búa til messu með félögunum þínum, hvað mundir þú vilja hafa í henni? Nefndu þrjú atriði.


Ef þú ættir að búa til messu með félögum þínum, hvað mætti þá alls ekki vera í henni, að þínu mati?



Tjáning með og án orða

Í guðsþjónustunni eigum við í samskiptum, stundum með orðum og stundum án orða. Við tjáum okkur með því að biðja, annaðhvort í þögn eða með því að segja "amen", eða með því að lesa bæn saman, t.d. "Faðir vor". Sálmasöngur er líka tjáning, við syngjum fyrir Guð og hvert annað.

Líkamstjáning

Sum tjáskiptin eru án orða, t.d. þegar við stöndum á fætur þegar lesið er guðspjall, trúarjátning er flutt, dýrðarsöngur er sunginn eða blessun flutt. Hvað ætli við tjáum með því að standa á fætur?

Stundum er kropið í kirkju. T.d. þegar við göngum til altaris, þegar beðið er fyrir okkur í fermingu eða þegar hjón eru vígð. Hvað táknar það þegar við krjúpum?

Stundum er þögn í kirkju, t.d. þegar við höfum farið saman með syndajátningu eða þegar beðið er fyrir sjúku fólki, eða fólki sem er einmana og jafnvel deyjandi, í almennri kirkjubæn. Til hvers er þögnin?

Stundum borðum við saman í kirkjunni. Það er í altarisgöngunni fyrst og fremst, en líka þegar boðið er upp á súpu eða kaffi, djús og kex eftir guðsþjónustu. Hvað táknar það þegar fólk borðar saman?


Er munur á því þegar fjölskyldan borðar saman heima, eða þegar vinir fara út að borða? Í hverju felst munurinn?

Tákn og list

Kirkjur eru búnar ýmsum táknum, sem minna okkur á ýmislegt án þess að segja orð. Þannig minnir krossinn okkur á


Lamb með sigurfána er upprisutákn. Sérðu svoleiðis tákn í kirkjunni þinni?

Ef svarið var já, hvar er táknið að finna?

Lestu Jóhannesarguðspjall 1, 29. Hvað segir Jóhannes um Jesú í því versi?

Stafirnir IHS standa fyrir Iesus Hominem Salvator. Lestu 1. Jóhannesarbréf 4,14 og gettu hvað orðin þýða.


Fiskur er eitt algengasta táknið fyrir Jesú, og var notað áður en krossinn var notaður til þess að auðkenna kristið fólk. Táknið byggir á stafaleik, en orðið fiskur á grísku, IXÞUS getur staðið fyrir Iesus X(ch)ristos Þeou (H)Uios Soter = Jesús Kristur Guðs Sonur Frelsari. Sérðu þetta tákn í kirkjunni þinni?

Ef já, hvar er það að finna?


XP eru fyrstu stafirnir í Xristos, og þýða hinn smurði, konungur. Flettu upp á 1. Korintubréfinu 3,23 og skrifaðu hér hvað segir þar um Jesú.


Tákn guðspjallamannanna er að finna aftan á kr. 10 peningi. Settu pening undir þessa blaðsíðu og litaðu yfir peninginn þannig að myndin komi í ljós. Sérðu mynd af guðspjallamönnunum í kirkjunni þinni?

Risinn (engill) er tákn Mattheusar, nautið er Lúkas. Drekinn (ljónið) stendur fyrir Markús og örninn fyrir Jóhannes. Finndu fornsöguna um landvættina (t.d. með leit á internetinu, sláðu inn leitarorðin: landvættir, skjaldamerki Íslands) og skrifaðu hér fyrir neðan í hvaða líki sendimaður Danakonungs brá sér.


Lestu Jónas (um stórfiskinn) og (jónasartákn Jesú). Ef við berum saman söguna um landsvættina og ummæli Jesú hér fyrir ofan, fyrir hvað stendur dýrið, sem sendimaðurinn breytti sér í, að þínu mati?


Dúfan er tákn heilags anda Guðs, sem gefur okkur skilning, huggun, líf og trú. Sérðu táknið í kirkjunni þinni?

Hvað táknar hvít dúfa í daglegu lífi okkar, t.d. þegar hvítum dúfum er sleppt í opnunar- eða lokaathöfn Ólympíuleikanna eða hliðstæðra atburða?

Hvað á Jesús við þegar hann sagði við lærisveina sína að þeir ættu að vera slyngir sem höggormar en falslausir sem dúfur?

Altaristaflan í kirkju minni

Flestar íslenskar kirkjur skarta altaristöflu, hlutverk hennar er að beina huga okkar að tiltekinni sögu Biblíunnar og hjálpa okkur að íhuga erindi Guðs við okkur. Lýstu altaristöflunni í kirkjunni (eða nágrannakirku) þinni.

1 Samsetning Hvaða persónur eru á altaristöflunni og hvað gera þær? Hvaða tákn eru og hvernig eru þau samsett og lituð?


2 Merking Hvað segir taflan við þig, hvað áhrif hefur hún á þig? Af hverju?


3 Áhrif Hvað finnst þér gott og/eða vont við altaristöfluna? Hvað finnst þér hún segja við þig um Guð?

Tónlist

Tilgangur og markmið allrar tónlistar er að heiðra Guð og efla sálarlífið. Johan Sebastian Bach

Tónlistin í kirkjunni verður að vera góð, vönduð og vel flutt, sama hverrar tegundar hún er. Léleg, óvönduð tónlist á þar ekki heima. Hún er tæki til bæna, lofgjörðar og til þess að efla samkennd okkar, vellíðan. Hún hjálpar okkur að tjá gleði, sorg, hjálpar okkur að beina huga okkar á nýjar brautir.

(hér má svo koma með styttri umfjöllun um orgel og kór og bjóða upp á hugflæði um annars konar kirkjutónlist, t.d. afríska, suður ameríska, negra etc og gefa út tóndæmadísk með heftinu).


Kirkjan mín heitir ... þar er ýmislegt gert

Kirkja þjóðarinnar

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:

Önnur trúfélög

Kirkjur um víða veröld