Upplýsingatækni/minesweeper

Úr Wikibókunum

Minesweeper.

Leikurinn minesweeper er hugarleikfimi og snýst um að finna jarðsprengjur og þaðan er nafnið á leiknum komið. Leikurinn er þannig uppbyggður að það er ákveðin fjöldi jarðsprengja sem á að finna. Í upphafi þegar leikur hefst er stór tafla með ákveðnum fjölda reita, allt eftir styrkleika leiksins sem valið er – en styrkleika er hægt að velja áður en leikur hefst. Styrkleikar sem hægt er að velja um eru „beginner“ „Intermediate“ og „expert“. Eftir því sem styrkleikur eykst þá eykst fjöldi reita og jarðsprengja sem á að finna á því svæði. Í upphafi leiks þá eru semsagt reitir sem eru óopnaðir, t.d eru í „beginner“ 81 óopnaðir reitir og 10 sprengjur sem þarf að finna – til að vinna leikinn þá þarftu að opna alla reiti sem eru ekki með jarðsprengjum og merkja þá reiti sem eru með jarðsprengjum – til að merkja sprengju þá er hægrismellt á mús en viljirðu opna reit þá er vinstrismellt á mús.

Í byrjun leiks verður leikmaður að reyna að finna einhvern grundvöll til að byrja á – því þegar allir reitir eru óopnaðir þá auðvitað er ómögulegt að vita hvar jarðsprengjur eru og hvar ekki – því byrjar leikmaður á að finna nokkur svæði þar sem engar jarðsprengjur er að finna – ef hann lendir á sprengju verður hann að byrja uppá nýtt. Til að hefja nýjan leik er smellt á gula broskarlinn fyrir miðju. Þegar leikmaður er búinn að finna svæði þar sem engar jarðsprengjur eru þá er hann búinn að verða sér úti um“ vinnusvæði“ eins og ég kýs að kalla það.

Þegar komið er vinnusvæði þá er hægt að hefjast handa við leikinn, eins og sjá má þá eru tölur við suma reiti – þessar tölur geta verið allt frá einum og uppí átta . Þessar tölur segja til um hversu margar sprengjur þessi reitur er tengdur við – einn reitur getur, eins og sést, verið tengdur við átta aðra reiti – og þetta eru einu upplýsingarnar sem leikmanni er gefinn til að finna allar jarðsprengjur í leiknum. Til að finna allar sprengjur verður að nota útilokunaraðferðina – til dæmis ef einn reitur, sem er búið að opna, er með tölunni „1“ og er með eina sprengju tengda við sig sem búið er að finna, þá þýðir það að hann er með einungis með eina jarðsprengju tengda við sinn reit, með þessar upplýsingar þá veit leikmaður að allir aðrir óopnaðir reitir sem eru tengdir við þennan „1“ reit, að því gefnu að það sé búið að finna jarðsprengjuna sem tengist þessum reit, eru ekki með jarðsprengjur því þessi tiltekni reitur er einungis með eina sprengju tengda sínum reit – eins er það þannig líka að ef opnaður reitur hefur töluna 3 og einungis eru 3 óopnaðir reitir tengdir þessum reit þá veit leikmaður að þessir þrír óopnuðu reitir eru allir með jarðsprengju. Með þessari tækni er spólað sig í gegnum þennan leik og allar jarðsprengjur fundnar með útilokunaraðferð – stundum gerist það að ógjörningur er að nota útilokunaraðferð og þá verður að giska – en það á einungis við um erfiðari styrkleika.

Einnig ber að hafa í huga að þessi leikur krefst gríðarlega mikillar æfingar til að ná upp hraða og vera fljótur að finna sprengjur – þannig að þolinmæði er besta meðalið fyrst um sinn á meðan leikurinn er að lærast, enda er þetta kallað hugarleikfimi – þessi leikur þjálfar hugann að bregðast við breyttum aðstæðum og vinna sig útúr þeim aðstæðum miðað við upplýsingarnar sem liggja fyrir það og það skiptið.