Sveppir

Úr Wikibókunum
Matarsveppir

Þessi wikibók fjallar almennt um sveppi og er hugsað sem námsefni fyrir unglingastig grunnskóla. Markmiðið er að nemendur öðlist grundvallarþekkingu á sveppum og geti sagt frá helstu einkennum þeirra. Hér er skyggst inn í skemmtilega veröld sveppanna en þeir eru miklu áhugaverðari lífverur en halda mætti í fyrstu. Í upphafi er útskýrt hvað sveppir eru, síðan fjallað um fæðunám þeirra, næst útlit og ólíkar gerðir þeirra og að lokum fjölgun sveppa. Auk þess má finna neðar nokkrar spurningar og stutt krossapróf sem gott er svara að lesningu lokinni og eins verkefni, ýmsa tengla í gagnlegar slóðir og myndbönd fyrir fróðleiksfúsa.

Hvað eru sveppir?[breyta]

Berserkur, eitraður
Kúalubbi, matsveppur

Á Íslandi eru um 2100 tegundir sveppa þekktar en sveppir (fungi) eru áhugaverðar lífverur sem flestar eru fjölfruma en sumar eru einfrumungar. Oft er talið að þeir séu í hópi plantna en það er alls ekki raunin. Þeir eru raunar skyldari dýrum og eru reyndar sá hópur sem dýr eru skyldust af öllum öðrum lífverum. Sveppir mynda sér ríki því þeir hafa ýmsa eiginleika plantna og ýmsa eiginleika dýra en þó ekki alla og eru því alveg sér. Sveppir hafa t.d. ekki blaðgrænu eða grænukorn sem veldur því að þeir eru ekki frumbjarga eins og plöntur heldur ófrumbjarga eins og dýr. Aftur á móti hafa þeir frumuvegg í frumum sínum eins og plöntur en það hafa dýr ekki.
Sveppir eru fæða ýmissa dýra, t.d. snigla, maðka og manna. Margir sveppir eru hins vegar eitraðir og því ber að vara sig á þeim en aðra má vel borða og kallast þeir matsveppir. Berserkur og viðarkveif eru dæmi um eitraða sveppi og skal ekki borða. Aftur á móti eru kantarella, kúalubbi og lerkisveppur dæmi um fína matsveppi sem finnast á Íslandi.


Útlit og mismunandi gerðir sveppa[breyta]

Skálhnefla er ein gerð af fansveppi

Almennum stórsveppum er skipt niður í tvo meginhópa þó fleiri séu til: asksveppi sem eru annað hvort með holan hatt eða skállaga aldin og kólfsveppi. Kólfsveppum er síðan skipt niður í vanfönunga sem eru alls konar í laginu, belgsveppi sem eru hálfgerðar kúlur og hattsveppi sem við þekkjum líklegast best. Auk þess er sveppum skipt í hópa eins og broddsveppi, kóralsveppi og ásætusveppi.

Kóngssveppur ein gerð af pípusveppi

Hattsveppir skiptast svo í pípusveppi og fansveppi. Undir hatti pípusveppa myndast gróin í pípum, eins og t.d. hjá kóngssveppi en undir hatti fanasveppa myndast gróin í fönum. Hattsveppir eru þessir dæmigerðu sveppir sem við sjáum oft og skulum við útlit þeirra aðeins nánar. Þegar við hugsum um orðið sveppir þá sjáum við fyrir okkur þann hluta sveppsins sem við sjáum upp úr jörðinni. Sá hluti er aldin og jafnframt kynfæri sveppsins. Aldinið samanstendur af sveppahatti sem er umluktur hatthúð og staf en sumir hafa líka kraga eða skeið. Sveppurinn er samt miklu stærri en það sem við sjáum ofanjarðar því meginhluti sveppsins er hulinn. Undir yfirborði jarðar er nefnilega gífurlega stórt net svokallaðra sveppþráða (íma) sem í sameiningu heita mygli (mýsli). Myglið er það fyrsta sem myndast í nýjum sveppi og þegar aðstæður eru góðar, eins og á haustin þegar jarðvegur er rakur og hlýr, þá vex upp úr myglinu aldinið, það er sá hluti sveppsins sem við sjáum.

Gersveppir

Sveppir eru þó ótrúlega margvíslegir í laginu, því ekki eru eingöngu til þessir hefðbundnu stórsveppir sem hér hefur verið lýst. Í geri sem við notum í bakstur er að finna einfruma gersveppi sem sjá til þess að deigið þenst út en deyja svo í hitanum. Annar hópur sveppa sem ólíkir eru hinum hefðbundnu sveppum eru myglusveppir. Það er t.d. myglan sem sést í gömlu brauði og mygla í húsum sem skemma þau og geta veikt mennina sem í þeim búa.

Myglusveppir eru þó ekki alslæmir því pensilín er unnið úr ákveðinni tegund af myglusveppum á meðan önnur er notuð við gerð osta. Að lokum má nefna húðsveppi en þá er að finna á húð okkar og geta stundum verið skaðlegir eins og sá sem veldur fótsveppi.


Hvernig útvega sveppir sér fæðu?[breyta]

Sveppir sem lifa utan á tré

Fyrst sveppir eru ófrumbjarga og þurfa að fá næringu sína annars staðar, hvernig fara þeir að því? Sveppir geta fengið næringu sína á mismunandi hátt eftir um hvaða tegund er að ræða en þeir eiga það allir sameiginlegt að taka fæðu sína frá öðrum lífverum, dauðum eða lifandi.

Sveppir sem rotverur[breyta]

Í fyrsta lagi eru sveppir mikilvægur þáttur í vistkerfi jarðar og hringrás efna en langflestir eru þeir svokallaðar |rotverur eða sundrendur. Það þýðir að þeir að þeir fá næringu sína frá dauðum lífverum og úrgangi þeirra sem er virkilega mikilvægt því þannig breyta þeir leifum lífveranna í mold. Um leið losna næringarefni sem bundin voru í lífverunum og finnast nú í moldinni en þau næringarefni nota plönturnar sér til vaxtar og viðhalds.

Sveppir geta skotið upp rótum á fjölmörgum stöðum

Sveppir sem sníklar[breyta]

Í öðru lagi eru sumir sveppir eru aftur á móti sníkjusveppir sem þýðri að þeir eru sníklar á lifandi lífverum og er t.d. fótsveppur dæmi um þetta. Þá njóta sveppirnir góðs af á meðan hýsillinn, þ.e. lífveran sem sveppurinn sníkist á, skaðast.

Sveppir og samlífi[breyta]

Í þriðja lagi geta sveppir unnið með öðrum lífverum þannig báðir aðilar njóta góðs af og kallast svoleiðis fyrirkomulag samlífi. Þá hjálpar sveppurinn hinni lífverunni t.d. að fá vatn og steinefni á meðan hin lífveran gefur sveppnum næringu og vítamín.


Fjölgun sveppa[breyta]

Flestir sveppir fjölga sér með gróum en það er hlutverk sveppaldinanna að mynda gróin og dreifa þeim. Gróin sem myndast eru gífurlega mörg og mjög smá. Sveppir geta fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Þá ferðast gróin t.d. með lofti, vatni eða lífverum á annan stað, hafna þar í góðum jarðvegi og upp úr því vex nýtt mygli og loks nýtt sveppaldin.
Á myndinni hér fyrir neðan sjáum við hvernig kynæxlunin fer fram.

Kynæxlun sveppa
Kynæxlun sveppa


Spurningar[breyta]

  1. Hverjir eru helstu hlutar sveppa? Teiknaðu mynd.
  2. Hvernig fjölga sveppir sér?
  3. Hver er munurinn á sníkjulífi og samlífi?
  4. Af hverju eru sveppir háðir öðrum lífverum þegar kemur að næringu?
  5. Hvernig myndi jörðin líta út ef sveppir og aðrar rotverur væru ekki til? Myndi líf þrífast á jörðinni?

Krossapróf[breyta]

1 Hver er stærsti hluti sveppsins?

Aldinið
Stafurinn
Sveppahatturinn
Myglið

2 Hvernig fjölga sveppir sér?

Sveppir geta fjölgað sér eingöngu með kynlausri æxlun
Sveppir geta fjölgað sér bæði með kynlausri æxlun og kynæxlun
Sveppir fjölga sér eingöngu með kynæxlun
Sveppir fjölga sér ekki

3 Í hvaða tvo hluta skiptast mörg sveppaldin?

Sveppahatt og mygli
Sveppahatt og gró
Gró og staf
Sveppahatt og staf

4 Hvert af eftirfarandi er rétt um sveppi?

Sveppir eru frumbjarga
Sveppir fjölga sér með fræjum
Sveppir hafa ekki blaðgrænu
Sveppir eru allir eitraðir

5 Hvernig fá sveppir næringu sína?

Sumir sveppir fá næringu sína frá dauðum lífverum (rotverur)
Sumir sveppir geta unnið í samstarfi við aðrar lífverur til að fá næringu (samlífi)
Sumir sveppir lifa sem sníklar á lifandi lífverum (sníkjulífi)
Allir liðir eru réttir


Önnur verkefni[breyta]

Furusveppir eru algengir í skógum
  • Á haustin er að finna alls konar sveppi í skóglendi. Grípið Sveppahandbókina eftir Bjarna Diðrik Sigurðsson og skellið ykkur í göngutúr og leitið af sveppum. Takið ljósmyndir af sveppunum og nýtið bókina til að greina nokkar tegundir. Þið getið klárað að greina uppi í skóla með ljósmyndunum.
  • Finnið eina eða tvær tegundir af sveppum (helst eina tegund af pípusvepp og eina af fansvepp) og skoðið í víðsjá. Hvað sjáið þið? Teiknið upp það sem þið sjáið í víðsjánni og skoðið muninn á pípunum og fönunum.
  • Grípið með ykkur körfu, hníf, bursta og Sveppahandbókina hans Bjarna og farið út og tínið matsveppi. Góðir sveppir fyrir byrjendur eru furusveppur, kúalubbi og lerkisveppur en sjaldgæfari eru kantarella og kóngssveppur. Burstið rusl ofan af hattinum, skerið sveppinn neðst og kljúfið hann í tvennt til að kanna hvort hann sé nokkuð maðkaður. Setjið hann svo ofan í körfuna. Í heimilisfræðitíma er síðan hægt að nýta sveppina í matargerð.
  • Látið brauðsneið og tómatssneið mygla þannig vel sjáist. Skoðið nú brauðsneiðina og tómatssneiðina í víðsjá? Hvað sérðu? Teiknaðu upp það sem þú sérð, sérstaklega sveppaþræðina og gróin.


Heimildir[breyta]

  • Ása Margrét Ásgrímsdóttir. (2009). Matsveppir í náttúru Íslands. Reykjavík, Mál og menning.
  • Bjarni Diðrik Sigurðsson. (2015). Sveppahandbókin: 100 tegundir íslenskra villisveppa. Reykjavík, Mál og menning.
  • Fabricus, S., Holm, F., Martenson, R., Nilsson, A. og Nystrand, A. (2010). Lífheimurinn (Hálfdan Ómar Hálfdanarson þýddi). Reykjavík: Námsgagnastofnun.
  • Flóra Íslands - Sveppir.
  • Helgi Hallgrímsson. (2010). Sveppabókin. Íslenskir sveppir og sveppafræði. Reykjavík, Skrudda.

Tengt efni[breyta]

Gagnlegir tenglar og myndbönd[breyta]