Villt íslensk landspendýr

Úr Wikibókunum

Hér verður fjallað um landspendýr sem lifa villt á Íslandi.

Þegar landnámsmennirnir komu fyrst til Íslands var eina villta spendýrið heimskautarefur en meðferðis voru þeir með sauðfé, hesta og nautgripi. Önnur villt spendýrdýr sem hafa komist hingað með farmi skipa eru t.d. rottur og mýs. Hreindýr og minkar voru svo innflutt til landsins (Pilkington, 1992).



Heimsskautsrefur (Vulpes lagopus)[breyta]

Íslensku refirnir eru flestir brúnleitir allt árið um kring en þó eru aðrir grábrúnir á sumrin og hvítir á veturna. Refurinn býr sér til greni í urð og gýtur þar afkvæmum sínum sem nefnast yrðlingar (Pilkington, 1992).

Refurinn vegur yfirleitt 21/2 til 41/2 kg sem er þó breytileg eftir árstíma og kyni. Lengd frá skottrót að trýni er 50-60 cm (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson, 1993).

Brúnrotta (Rattus norvegicus)[breyta]

Brúnrottan er oftast mórauð eða mógrá á bakinu en ljósgrá á kvið og háls. Eyrun eru með fíngerðum hárum og halinn ljós. Brúnrottan er 18-26 cm á lengd og þyngdin er 140-400 g (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson, 1993).

Brúnrottan dvelur helst neðanjarðar þar sem hún hefur lélega sjón, hún dvelur helst í holræsum og sorphaugum en einnig hjá mannabústöðum því þá getur hún náð sér í æti (Pilkington, 1992).


Hagamús (Apodemus sylvaticus)[breyta]

Hagamúsin er með svört skær augu, hringlaga eyru og stutt trýni. Helst dvelur hún í mannabústöðum en líka í högum, skógum og með fram ströndum. Hún borðar einkum fræ og aðra jurtafæðu en einnig skordýr. Hún geymir forðann sinn í holu nálægt greni sínu (Pilkington, 1992).

Hagamýs eru oftast grá- eða gulbrúnar að ofan og hvítgráar á kviði, yngri mýsnar eru dekkri. Lengd þeirra er 8 - 10,5 cm án hala en hann er svipaður á lengd og músin. Karlkynsmýsnar vega um 29-34 g en kvendýrin 24-31 g (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson, 1993).


Hreindýr (Rangifer tarandus)[breyta]

Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands árið 1771 frá Noregi. Hreindýrin halda sig oftast í hjörðum allt að hundruð dýra í einni hjörð. Kvenkyns hreindýrin eignast oftast einn kálf (Pilkington, 1992).

Hreindýrin tilheyra ættbálki klaufdýra og undirættbálki jórturdýra. Karlkyns hreindýrið getur vegið 50-120 kg en kvenkyns hreindýrið 25-60 kg. Á sumrin bera hreindýrin dökkbrúnt bak, lappir og haus en hálsinn hvítur og ljós hringur í kringum augun, á veturna lýsast þau heilmikið (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson, 1993).

Minkur (Mustela vison)[breyta]

Minkurinn var fluttur til landsins árið 1931 stofnuð voru minkabú en fljótlega fóru minkarnir að sleppa úr búrunum, reynt var að stöðva útbreiðsluna en án árangurs. Í dag lifir minkurinn alls staðar á Íslandi þar sem lífvænlegt er (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson, 1993).

Ástæðan fyrir því hve fljótur hann var að nema hér land er mikil aðlögunarhæfni hans t.d. hve fimur hann er að veiða bæði á landi og í vatni. Þrátt fyrir stuttar fætur er hann snöggur að hlaupa. Minkurinn er auk skotts 30-44 cm en karldýrin 38-48 cm á lengd (Pilkington, 1992).

Krossaspurningar[breyta]

1 Hvað nefnast afkvæmi Heimskautsrefsins?

yrðlingar
kálfar
mýs
jólasveinar

2 Brúnrottan dvelur helst?

á jöklum
neðanjarðar
í Kringlunni
ofanjarðar

3 Hagamúsin borðar m.a. skordýr, jurtafæðu og?

nammi
fræ
grjót
ál

4 Hreindýr voru flutt til Íslands árið?

1800
1771
2010
2045

5 Í dag lifir minkurinn?

í tjaldi
alls staðar á landinu
einungis í minkabúum
einungis á norður landi


Höfundur[breyta]

Þessi wikibók er verkefni fyrir áfangann Nám og kennsla á netinu í umsjón Salvöru Kristjönu Gissurardóttur

Höfundur

  • Elísa Einarsdóttir nemi í meistaranámi við Háskóla Íslands

Heimildir[breyta]

Páll Hersteinsson og Guttormur Sigurbjarnarson. (1993). Villt íslensk spendýr. Reykjavík, Hið íslenska Náttúrufræðifélag Landverk

Pilkington, Brian. (1992). Dýraríki Íslands: Undraheimur íslenskrar náttúru. Reykjavík: Iðunn