Fara í innihald

Verdaccio

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Bergþór Morthens

Þetta er wikilexía um verdaccio málunaraðferðina eða öllu heldur eina útgáfu þessarar undirmálunaraðferðar. Upprunalega verdaccio aðferðin var unnin í egg temperu en þessi sem ég ætla að segja frá er unnin í olíulitum. Þessi lexía hentar sem ítarefni með námskeiði þar sem farið er yfir það hvernig undirmálun virkar í myndlist.

Hvað er verdaccio

Verdaccio aðferðin byggir á fornri málunartækni sem kom fyrst fram á 13. öld í Egg tempera málverkum og endurreisnarmálarar tileinkuðu sér og ber þar helst að nefna Leonardo da Vinci sem beytti ekki ósvipaðri aðferð þegar hann málaði eitt þekktasta verk sitt Mona Lisa. Aðferðin er í raun og veru bara undirmálun sem er mjög gagnleg þegar reynt er að mála á raunsæjan hátt. Það eru í raun og veru til ótal útgáfur af þessarri aðferð eins og t.d. grisaille sem er kanski einna þekktust en sú sem ég kýs að nota er mjög einföld og þægileg útgáfa og hentar vel í kennslu á námskeiði. Unnin er monochrome mynd eða einlita mynd þar sem unnið er út frá grá-grænum litatóni sem fæst með blöndun tveggja lita, Mars svörtum og Chromoxid grænum sem er síðan blandaður í mismunandi hlutföllum með hvítum lit frá dökku yfir í ljóst. Þessi aðferð leggur mikla áherslu á teikningu þar sem myndin er fyrst unnin með viðarkolum á strigann og reynt að ná fram eins nákvæmri teikningu og mögulegt er. Þegar búið er að ná fram góðri og nákvæmri teikningu er hægt að byrja mála og nota teikninguna sem grunn til að byggja á, setja dökkan lit þar sem á við og svo ljósan o.s.frv. Markmiðið er svo að gera fullbúna monochrome (einlita) mynd nánast eins og svarthvíta ljósmynd sem getur alveg staðið sem fullbúið verk eða sem grunnur fyrir fleiri liti.

Leonardo da Vinci

Leonardo da Vinci (1452-1519) er talinn einn mesti listamaður sögunnar. Hann fæddist í smábænum á Ítalíu um miðja 15. öldina og hefur æ síðan verið við þann bæ kenndur. Leonardo hafði mikla þörf fyrir að skilja hlutina og leiddi það hann inn á ýmis mismunandi svið. Auk þess að vera málari fékkst hann við ýmislegt annað t.d. arkitektúr, líffærafræði, höggmyndalist, stærðfræði, eðlisfræði og verkfræði.

Saga aðferðarinnar

Verdaccio aðferðin eins og hún kemur fyrst fyrir var notuð í egg tempera málningu og má rekja aftur til þrettándu og fjórtándu aldar og þar ber helst að nefna flórenska málarann Giotto di Bondone (um 1267-1337) í því samhengi. Almennt er talið að mikil kaflaskipti verði í listasögu Vesturlanda þegar Giotto kemur fram á sjónarsviðið og er hann talinn hafa beitt þessarri aðferð í mörgum verka sinna. Stærsta byltingin kemur samt í kjölfar endurreisnarinnar eða Renaissance eins og það kallast á frönsku og þýðir endurfæðing eða endurreisn. Endurreisnartímabilið hefst á Ítalíu við lok miðalda þegar menn fóru að horfa aftur til klassískar menningar Forngrikkja og Rómverja og var hugmyndin um endurreisn nátengd hugmyndinni um endurfæðingu „Rómar, borgarinnar eilífu“. Á fyrstu áratugum 15. aldar tók hópur listamanna sig til og höfnuðu ríkjandi gildismati og byrjuðu að skapa nýja list byggða á grunni klassískrar fornmenningar.

Málverk unnin með undirmálunaraðferð

Mynd:IngresOdalisque.jpg
Odalisque in grisaille eftir Jean Auguste Dominique Ingres, máluð 1824-34
La Grande Odalisque eftir Jean Auguste Dominique Ingres, máluð 1814.

Hérna sjást tvær útgáfur af sama myndefninu eftir franska myndlistarmanninn Jean Aguste Dominique Ingres. Myndin á vinstri hliðinni er búin til með grisaille undirmálun og er ekki ósvipuð verdaccio aðferðinni og byggir í raun og veru á sömu grunnhugmyndum þar sem sem unnin er grátóna monochrome mynd sem stendur fyllilega sem fullklárað listaverk. Á myndinni á hægri hliðinni sem heitir La grande odalisque og geymd er í Louvre safninu í París hefur hann haldið lengra með myndina og bætt við litum þegar undirmálunin var tilbúin. La grande odalisque var máluð fyrr en Odalisque in grisaille myndin hans og hafa ýmsir leitt líkum að því að Ingres hafi notað grisaille myndina sýna sem máluð var einhvern tíman á árunum 1824 til 1834 sem kennslu í því hvernig ætti að geraundirmálunÞað er að sjálfsöðu gríðarlegur fjöldi mynda sem unnar hafa verið með undirmálunaraðferð og margar mismunandi útgáfur undirmálunar til.

Efni og áhöld

Það sem til þarf er strigi,kol,málning,pennslar og íblöndunarefni. Það er hægt að nota hvaða striga sem er svo lengi sem búið er að grunna hann. Til þess að gera teikningu á strigann þarf kolakrítar. Málningin sem notuð er samanstendur af litunum Krómoxíð grænn, Mars svörtum og blý hvítum. Best er að nota góða pennsla keypta af viðurkenndum aðila og íblöndunarefnið er blanda af balsam terpentínu og línolíu.

Framkvæmd

Grunnur að góðri mynd þar sem undirmálun er beitt er að teikningin sé góð í upphafi, ef teikningin er ekki góð í byrjun verður niðurstaðan ekki eitthvað meistaraverk. Fullvinna þarf teikningu á striga með kolum og þá fyrst er hægt að byrja að mála. Eins og áður hefur komið fram eru það litirnir Mars svartur, Chromoxid grænn og Blý hvítur sem notaðir eru í þessarri útgáfu af Verdaccio og er byrjað á því að búa til einn grunnlit sem er 50/50 blanda af svarta og græna litinum.

Þegar búið er að ná þessum grunnlit eru búnir til mismunandi litatónar frá einum sem er grunnliturinn og dekkstur yfir í 9 sem er ljósastur. Þessir litatónar eru svo notaðir til þess að mála yfir teikninguna á striganum og dökki liturinn fer þar dekkstu skuggarnir eru o.s.frv. Ef vel tekst til ætti að vera tilbúin mynd sem er ekki ósvipuð svarthvítri ljósmynd og gæti staðið fullkláruð sem slík eða sem grunnur fyrir fleiri liti sem ekki verður farið nánar út í hérna.

Tilkoma ljósmynda

Tilkoma ljósmynda hafði miki áhrif á vestræna list, rannsóknir hafa reyndar sýnt fram á það að hinir miklu meistarar endurreisnarinnar hafi nýtt sér linsur og spegla til þess að ná fram sem raunsæjustum myndum, listamenn eins og Caravaggio, Vélasques, Van Eyck, Holbein, Ingres og fleiri til notuðu allir brellur til þess að ná fram raunsæjum myndum. Þessu heldur enski listamaðurinn David Hockney fram í bók sinni Secret Knowledge.

Með tilkomu fyrstu almennu ljósmyndanna árið 1839 eða daguerreotype eins og það kallast eftir franska listamanninum og efnafræðingnum Louis J.M. Daguerre breyttist hlutverk myndlistamanna og þeir hættu að leitast eftir fullkomnlega raunsæjum myndum, ljósmyndavélin hafði tekið við því hlutverki og módernisminn ruddi sér til rúms í myndlist.

Krossapróf

1 Hvenær byrjuðu menn að nota þessa aðferð

13. - 14. öld
14. - 15. öld
15. - 16. öld
16. - 17. öld

2 Hver þessarra lita passar ekki

Mars svartur
Chromoxid grænn
Blý hvítur
Zinc hvítur

3 Í hvernig málunaraðferð kom Verdaccio fyrst fram

Vatnslitun
Olíu
Egg tempera
Akrýl


Sama krossapróf á Hot Potatos formi

Spurningar

Hvaða þrjá liti þarf að nota í þessarri aðferð ?

Til hvaða fornu menninga horfðu endurreisnarmenn til ?

Hvað er monochrome mynd ?

Hvaða atburður varð til þess að módernisminn ruddi sér til rúms ?

Hver er lykillinn að góðri mynd sem unnin er með þessarri aðferð ?

Nefnið fimm listamenn sem taldir eru upp í þessarri wikibók.

Heimildir

Hockney,David.(2006).Secret knowledge. Rediscovering the lost techniques of the old masters. London : Thames&Hudson

Wikipedia.Daguerrotype http://en.wikipedia.org/wiki/Daguerreotype Vefslóð sótt 21 mars 2007

Wikipedia. Verdaccio http://en.wikipedia.org/wiki/Verdaccio Vefslóð sótt ?? mars 2007

Gombrich.E.H.(1997)Saga listarinnar.Halldór Björn Runólfsson(þýðandi) London: phaidon Press ltd.

Groveart.Tempera http://www.groveart.com/shared/views/article.html?from=search&session_search_id=160527700&hitnum=6&section=art.083694.1.1 Vefslóð sótt 22.mars 2007

Ítarefni