Upplýsingatækni/Soundcloud
Inngangur
[breyta]Soundcloud.com er vefur sem býður notendum að hlaða upp hljóðskrám. Þegar hljóðskráin er komin á vefin er hægt að spila hana sem straum beint af vefnum (Stream) eða sækja sem skjal. Vefurinn nýtist því helst tónlistarfólki og öðrum sem vinna með hljóð en gæti verið spennandi kostur fyrir fólk í margmiðlunarnámi og auglýsingagerð. Soundcloud.com er mjög gagnvirkur vefur og að vissu leyti samfélagsvefur þrátt fyrir að vera ekki lokaður nema að litlu leyti fyrir óskráða notendur.
Dæmi um notkun í skólastarfi
[breyta]Dæmi um notkun í skólastarfi gætu t.d. verið fyrir hljóðfæranám, tónsmíðar eða margmiðlunarnám (s.s. auglýsingagerð fyrir útvarp, hlaðvarpsgerð (Podcast) eða allt annað sem tengist vinnu með hljóð). Þá gæti Souncloud.com nýst sérstaklega vel í fjarkennslu eða þar sem ábendingar annara nemenda á verkefni skipta máli. Athugasemdakerfi vefsins bíður meðal annars upp á tímatengdar athugasemdir (Timed Comments) þar sem hægt er að gera athugasemdir við einstök atriði þeirrar hljóðskrár sem hlustað er á. Notendur geta svo valið saman tengiliði sem hafa aðgang að efninu sem viðkomandi gerir aðgengilegt (tengiliðalistinn gæti verið bekkjarfélagar eða kennarar).
Innskráning
[breyta]Innskráning er framkvæmd í vinstra efra horni upphafssíðunar, hvort sem um er að ræða nýja notendur (sem velja Register) eða notendur með notendanafn og lykilorð (sem velja Log In). Þegar skráningarferlinu er lokið í fyrsta sinn fær notandi persónulega undirsíðu (dæmi væri www.soundcloud.com/heiti_notanda).
Helstu aðgerðir
[breyta]Að hlaða upp skrám
[breyta]Að hlaða upp skrám er einfalt og vefurinn tekur við flestum algengum gerðum hljóðskráa (s.s. Mp3, Wav, Flac, Aiff). Hægt er að gera skrána sýnilega öllum þeim sem heimsækja síðuna þína eða velja þá notendur sem geta skoðað skrána. Einnig er hægt að veita öllum, engum eða völdum aðilum leyfi til að sækja efnið þitt í upprunalegum hljómgæðum. Upprunaleg gæði fara þá eftir því í hvaða gæðum efnið var sett á vefinn til að byrja með.
Að fylgjast með og að láta fylgjast með sér
[breyta]Hægt er að velja sér notendur til þess að fylgjast með og aðrir notendur geta sömuleiðis fylgst með þér. Til þess að fylgjast með aðgerðum og uppfærslum annara notenda er einfaldlega smellt á follow hnappinn á síðu viðkomandi. Eftir það færð þú áminningar þegar viðkomandi notandi uppfærir síðuna sína og gerir opinberar athugasemdir á síðum annara.
Hópar
[breyta]Soundcloud.com er að hluta samfélagsvefur. Að ganga í hóp (Group) eða stofna hóp er eitt af þeim tólum sem hægt er að nota. Hópur getur t.d. innihaldið notendur sem sinna ákveðinni gerð tónlistar og því verið lifandi vettvangur líkt þenkjandi notenda. Hópurinn er opinber og hvaða notandi sem er getur gengið í hvaða hóp sem er.
Tengiliðir
[breyta]Notendur geta valið saman hóp annara notenda sem þeir fylgist með og bætt í sinn eigin tengiliðahóp (Contacts). Þar væri tilgangurinn hugsanlega sá að velja þá notendur sem hafa óheftann aðgang að þínu efni. Dæmi gæti verið listi af útgáfufyrirtækjum eða samstarfshópur í námi. Tengiliðalistinn er persónulegur listi notenda og ekki sýnilegur öðrum.
Tímatengdar athugasemdir
[breyta]Tímatengdar athugasemdir (Timed Comments) er tól sem notendur geta nýtt til þess að gera athugasemdir við eigin verk eða annara á völdum stöðum á tímalínu lags/hljóðskrár. Einnig er hægt að gera athugasemdir við hljóðskrá óháð tíma og birtist athugasemdin þá á svæðinu fyrir neðan viðkomandi skrá.
Spjallveggur
[breyta]Spjallveggur (Forum) Soundcloud.com er hefðbundinn og opin öllum notendum. Hann er flokkaður í eftirfarandi undirflokka: Announcements (tilkynningar), Music (tónlist), Gear & Studio (tæki & stúdíóbúnaður), Collaborations (samstarfsverkefni), Gigs & Concerts (tónleikar og uppákomur), Remix Competitions & Contests (Endurhljóðblöndunarkeppnir).
Birting efnis á ótengdum vefsíðum
[breyta]Soundcloud bíður notendum upp á að birta opinbert efni af síðunni á öðrum vefsíðum (Embedding). Sem dæmi væri mögulegt að birta nýjustu hljóðskránna þína á Facebook síðunni þinni eða á bloggum í því grafíska útliti sem Soundcloud bíður upp á. Þessu mætti líkja við svipaðan möguleika á Youtube.com.
Kennslumyndbönd
[breyta]Hér er hægt að nálgast nokkur stutt myndbönd sem renna í gegnum þá ýmsu möguleika sem vefurinn bíður upp á.