Fara í innihald

Upplýsingatækni/Google Sites

Úr Wikibókunum

Hvað er Google Sites?[breyta]

Google Sites gerir hverjum sem er kleift að búa til heimasíðu á fljótlegan og einfaldan hátt. Heimasíðan er svo hýst hjá google en á einfaldan hátt er hægt að tengja hana við vefsvæði sem notandi ræður yfir. Heimasíðu er hægt að nota í margvíslegum tilgangi, til dæmis er hægt að búa til heimasíðu fyrir námskeið, myndasíðu fyrir fjölskylduna eða bloggsíðu.

Hvernig er Google heimasíða búin til?[breyta]

Til þess að búa til Google heimasíðu þarf að fara á http://sites.google.com. Ef notandi er nú þegar með Google aðgang þá getur hann skráð sig inn á honum, annars þarf að búa til nýjan aðgang. Það kostar ekkert að fá aðgang og er mjög auðvelt, en ekki verður farið nánar út í það hér. Þegar notandi hefur skráð sig inn velur hann "Create new site". Þar velur hann síðan nafn á síðuna, vefslóð og getur valið úr mismunandi útlitum fyrir síðuna. Hér er einnig hægt að velja hvort að síðan á að vera aðgengileg öllum eða hvort hún á að vera einungis opin þeim sem er boðið að heimsækja hana. Stundum getur það verið æskilegt að vefsvæðið sé ekki opið öllum. Til dæmis ef nemendur eiga að búa til síðu og skila inn verkefnum á síðuna sína, þá getur sumum verið illa við að hver sem er geti skoðað verkefnin og hugsanlega umsagnir frá kennara.

Að nota Google Sites[breyta]

Google Sites býður upp á mjög þægilegt umhverfi til þess að breyta útliti heimasíðunnar og setja inn alls kyns efni. Til þess að búa til nýja undirsíðu velur notandi "Create page" og þá getur hann valið úr mismunandi tegundum af undirsíðum eða búið til sína eigin tegund. Þar velur notandi nafnið á nýju undirsíðuna og staðsetningu hennar, það er síðan auðvelt að setja tengil á nýju undirsíðuna af forsíðu. Ef notandi vill breyta síðu sem er þegar til þá fer hann inn á síðuna og velur "Edit page". Þá er hægt að vinna í textanum, breyta fyrirsögninni, bæta við tenglum, setja inn myndir eða myndbönd svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að setja inn myndir, myndbönd, glærusýningar og fleira með því að velja "Insert". Skemmtilegur valkostur að geta sett inn glærusýningu og fletta henni án þess að fara af síðunni. Einnig er hægt að horfa á myndbönd án þess að fara af síðunni. Upplýsingar um hvernig er hægt að setja inn mp3-spilarar má finna hér: http://designshack.co.uk/articles/html/four-quick-and-easy-ways-to-embed-mp3-files-into-your-site

Google Sites í kennslu[breyta]

Google Sites er mjög skemmtilegur kostur í þróun kennsluefnis. Það er boðið upp á að setja alls kyns efni inn á síðurnar, t.d. myndir, myndbönd, glærusýningar og fleira. Þannig er hægt að hafa kennsluefnið mjög fjölbreytt án þess að nemandinn þurfi að fara út af síðunni. Sem sagt er hægt að hafa allt á einum stað. Hægt er að hafa upplestur á námsefni með því að nota mp3 spilara, setja inn glærur með hjálp Google docs og svo framvegis. Auðvelt er að láta nemendur búa til sín eigin heimasvæði þar sem þeir hafa þá betra yfirlit yfir verkefni og annað sem tengist náminu.

Undirritaður er búinn að stofna síðu sem notuð verður í kennslu. Hægt er að horfa á myndbönd, hlusta á upplestur á textanum eða lesa hann sjálfur og skoða myndir. Síðuna er að finna á: http://sites.google.com/site/ibpsy11/bio/neurotransmission

Margir vinna að einni síðu[breyta]

Áður hefur komið fram að hægt er að loka síðunni þannig að einungis þeim sem er boðið geta heimsótt hana. Einnig er hægt að bjóða öðrum að vera meðeigendur eða samstarfsaðilar og geta þeir þá einnig unnið í síðunni. Til þess að bjóða fleirum að vera þátttakendur eða leyfa öðrum að sjá síðuna er valið "More actions" og "Share site". Þar er hægt að slá inn netföng þeirra sem á að bjóða á síðuna og tilgreina hvort þeir verða eigendur ("Owner"), samstarfsaðilar ("Collaborator") eða gestir ("Viewers").

Hjálp og frekari upplýsingar um Google Sites[breyta]

Fylgdu slóðinni til þess að finna tengla á ýmislegt gagnlegt efni í sambandi við Google Sites, hentar bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir: http://sites.google.com/support/?hl=en

30. apríl 2010. Hörður Ingi Björnsson. Háskólinn í Reykjavík, Kennslufræðideild. Kennsluæfingar.