Upplýsingatækni/Að nota simple family tree
1. Hvað er Simple Family Tree?
[breyta]Simple Family Tree er forrit sem gerir fólki mögulegt að teikna upp ættartré einstaklinga og halda utan um upplýsingar um æviferil þeirra og mynd. Mörg ættfræðiforrit eru mjög stór og það getur verið erfitt að ná tökum á þeim. Það borgar sig oft ekki fyrir fólk sem bara vill teikna upp einfalda mynd af ættartré að leggja það á sig að ná tökum á slíkum forritum. Þetta forrit sem ég er að kynna hérna er svo einfalt í notkun að það tekur í reynd ekki nema 10 mínútur að ná tökum á því.
2. Möguleikar Simple Family Tree í kennslu?
[breyta]Í félagsliðanámi í menntaskólum er stundum verið að gera verkefni þar sem nauðsynlegt er að teikna upp ættartré einstaklinga/sjúklinga. Það er gert til að ná yfirsýn yfir fjölskylduna og meta veikleika hennar og styrkleika. Í slíkum verkefnum er þægilegt að nota svona einfalt forrit, þar sem heildarmarkmið félagsliðaverkefnisins myndi kannski ekki nást fram ef forritið til að teikna upp fjölskylduna er of flókið og allur tíminn færi í að læra á það.
Einnig má ímynda sér að hægt sé að nota þetta forrit á skemmtilegan hátt til að halda utan um allskonar upplýsingar, s.s. konungsfjölskyldur í sögutímum.
3. Hvernig notar maður Simple Family Tree?
[breyta]Í byrjun þarf að hala niður forritinu og hægt er að nálgast það með því að klikka á krækjuna hér að ofan. Forritið er afar einfalt í uppsetningu og með því að fara í gegnum uppsetningarferlið er forritið sett upp í Program files og það setur sjálft upp flýtileiðir.
3.1 Hvernig byrjar maður?
[breyta]Eftir að búið er að setja upp forritið og það er opnað sér maður bara auðan skjá. Þá þarf að velja File/open-create og er maður beðinn um að velja nafn á ættartréð sem búa á til, eða opna ættartré sem er þegar til. Ef við viljum t.d. búa til ætt í kringum Jón Jónsson þá er einfaldast að skýra ættina bara Jón Jónsson.
3.2 Búa til einstakling
[breyta]Eftir að hafa búið til “ættina” þá erum við bara með auðan skjá þar sem ekki er búið að teikna upp neitt enn. Að búa til einstakling er einfalt. Maður fer bara í valmyndina efst og klikkar á “New individual”. Þá kemur upp lítill gluggi sem leyfir að nafn, fæðingardagur og fæðingarstaður séu skráðir inn. Að því loknu er einfaldlega klikkað á “ok” og þá er kominn fyrsti einstaklingurinn á myndflötinn.
3.3 Tengja einstaklinga saman
[breyta]Ef við viljum t.d. bæta við dóttur þá er einstaklingur valinn og hægri smellt með músinni. Þá opnast gluggi. Í miðjunni er stórt svæði sem sýnir allt sem hefur verið sett inn í sambandi við einstaklinginn, t.d. glósur. Fyrir neðan það svæði er hægt að tengja valda einstaklinginn við föður, móður og börn og systkini. Hægt er að tengja við einstaklinga sem ekki eru til og opnast þá sami gluggi og þegar einstaklingur er frumskráður.
3.4. Aðrir möguleikar
[breyta]Hægt er að gera ýmislegt annað en hér hefur verið rætt svo sem setja inn mynd af einstaklingi og er það gert á sama hátt og þegar tengingar eru myndaðar. Valinn er einstaklingur sem á að setja inn mynd af og hægri smellt með músinni. Þar er valmöguleiki sem heitir “Link photo” og ef hann er valinn er hægt að benda forritinu á .jpg mynd sem það tengir við einstaklinginn.
Forritið er mjög sveigjanlegt þó það sé lítið. Gott dæmi um það er ef Jón Jónsson er kvæntur Jónu Jónsdóttur og maður velur að bæta við barni hjá Jóni þá spyr forritið hvort Jóna sé móðirinn. Ef ekki þá teiknar forritið tengslin upp eins og Jóna sé ekki tengd barninu.