Fara í innihald

Upplýsingatækni/Að nota paint.net

Úr Wikibókunum

Hvað er paint.net

[breyta]

Paint.net er ókeypis myndvinnslu- og teikniforrit sem hægt er að nota á öllum tölvum sem að nota Windows. Auðvelt er að sækja sér forritið á netinu og það er afar einfalt í notkun. Forritið býður upp á ótal möguleika í myndvinnslu og auðvelt er að læra á það. Forritið er oft borið saman við Photoshop, Paint Shop pro og GIMP enda býður forritið upp á svipaða hluti og þessi forrit og hefur svipaða eiginleika.

Notkunarleiðbeiningar

[breyta]

Að sækja forritið Fyrst þarf að sækja forritið og niðurhala því í tölvuna sína. Hægt er að sækja forritið á síðunni getpaint.net – þar er að finna nánari leiðbeiningar þar sem maður er leiddur í gegnum ferlið skref fyrir skref þar til paint.net er komið í tölvuna þína.

Að vista mynd Til að hefja myndvinnslu í paint.net er best að opna skrá í forritinu eða afrita mynd beint inn í forritið. Þegar myndin sem vinna á með er opin er best að vista hana strax. Myndir, sem unnar eru í Paint.net er hægt að vista á marga vegu. Í fyrsta lagi er hægt að vista á sniði hugbúnaðarins (.pdn). Þá er einnig hægt að vista myndina sem jpg, tiff, bmp o.fl. Það fer eftir þeirri skrá sem unnið er með hverju sinni á hvaða sniði er best að vinna hana. Best er að nota jpeg fyrir stafrænar myndir. tiff hentar hinsvegar betur fyrir mjög stórar myndir.

Tækjastikan Í paint.net er flestum aðgerðum stjórnað með tækjastikunni sem er efst til vinstri inn í aðalvalmyndinni. Tækjastikan er því mikilvægasta tólið í forritinu og nauðsynlegt að læra vel á hana til að geta notað forritið með sem skilvirkustum hætti. Hægt er að velja mismunandi verkfæri í tækjastikunni sem hjálpa manni að framkvæma helstu aðgerðir. Hér eru helsti verkfærin í tækjastikunni kynnt til sögunnar.

  • Ferningur- hjálpar manni að klippa ferning út úr myndinni. T.d. ef maður vill klippa mynd af einu andliti út úr hópmynd
  • Snaran- hjálpar manni að klippa svæði úr myndinni handvirkt. Þá getur maður t.d. klippt út útlínur
  • Hringur- hjálpar manni að klippa hring út úr myndinni.
  • Töfrasproti – dregur fram liti á ákveðnum svæðum sem valin eru á mynd
  • Málningarfata – litar valin svæði á myndinni
  • Pensill- litar og teiknar inn á myndina
  • Blýantur- litar og teiknar inn á myndina- öðruvísi áferð en á pensli
  • Stimpill- hjálpar manni að velja einn lit úr myndinni og nota hann annars staðar
  • Texti- hjálpar manni að setja inn texta
  • Flugdrekar- hjálpa manni til að færa til hluta af myndinni
  • Stækkunargler – stækkar myndina á skjá
  • Hendi- færir til myndina
  • Strokleður- strokar út
  • Tilraunaglas- litatæki

Í paint.net er einnig hægt að velja úr mörgum mismunandi áhrifum til að setja á myndirnar. Í valstikunni hefst er valið glugginn effecs og þar er hægt að velja um margt mismunandi. Þar er t.d. hægt að taka út rauð augu, gera myndir svarthvítar, brúntóna, breyta ljósmynd í málverk, setja ramma á mynd og margt fleira sem flestir kannast við úr öðrum myndvinnsluforritum.

Hvernig má nota paint.net í námi og kennslu

[breyta]

Paint.net getur gagnast bæði nemendum og kennurum í öllu skólastarfi. Skólar geta í fyrsta lagi sparað sér stórfé með því að nota paint.net í stað þess að kaupa rándýran aðgang að sambærilegum forritum. Þá er það hagnýtt að kenna nemendum að nýta hugbúnað sem kostar ekkert. Við vinnslu á einföldum verkefnum er sjaldnast þörf fyrir flóknara forrit en paint.net sem þar að auki er mjög aðgengilegt og notendavænt. Nemendur geta nýtt sér forritið þegar þeir eru að vinna verkefni sem þarfnast myndvinnslu af ýmsu tagi. Bæði á þetta við um hefðbundin verkefnaskil þar sem að myndir eru notaðar og sérhæfðari verkefni í t.d. landafræði þegar gott er að geta merkt inn á kort. Kennarar geta notað forritið til að myndskreyta glærur og búa til skýringamyndir. Þá geta nemendur og kennarar nálgast leiðbeiningar og aðstoð á síðunni Paint.net án endurgjalds og þar geta þeir einnig horft á myndbönd þar sem kennt er á forritið.

Heimildir

[breyta]

http://www.getpaint.net/