Upplýsingatækni/Að nota TypingMaster Pro

Úr Wikibókunum

Að nota TypingMaster Pro[breyta]

Hvað er TypingMaster Pro?[breyta]

TypingMaster Pro er vefforit sem gerir þér kleift að læra fingrasetningu á tölvuna á rafrænu námskeiði. Það er til í útgáfu fyrir Windows, Mac og Linux stýrikerfi. TypingMaster inniheldur fullkomið vélritunarnámskeið bæði fyrir stafalyklaborð og tölu og merkjaborð. Margar mismunandi æfingar eru í boði til að viðhalda áhuganum. Fingrasetningaæfingar, vélritunarpróf, leikir og tímasettar æfingar, allt með stuðningi við það sem verið er að læra hverju sinni. Frí prufuútgáfa með nokkrum æfingum en síðan er hægt að kaupa útgáfu bæði fyrir einstaklinga og eins fyrir stærri kerfi,eins og grunnskóla eða fyrirtæki.

Hvernig á að nálgast TypingMaster Pro?[breyta]

Ekki er nauðsynlegt að hlaða forritinu inn í tölvuna. Það er sótt jafnóðum á netið á vefslóðinni http://www.typingmaster.com/online/. Hins vegar er gott að setja það inn í favorites, sem er stjörnumerkt í vinstra horni tölvunnar fyrir neðan tækjastikuna. Þá þarf ekki að slá inn slóðina þegar forritið er sótt. Þú þarft að útbúa eigin aðgang með leyniorði til að komast inn á forritið. Það er gert fyrir þá sem hafa greitt fyrir forritið og virkjað aðganginn sinn. Kostirnir við að skrá aðganginn hverju sinni er að þú getur sótt forritið í hvaða tölvu sem er, þegar þig langar að vinna með það.Eftir að þú hefur skráð þig inn á forritið kemstu að æfingakerfunum.

Hvers vegna TypingMaster Pro?[breyta]

Forritið er sett upp á þann hátt að bæði fullorðnir og börn geta notað það. Í ókeypis útgáfunni eru þrettán æfingar fyrir fullorðna og fjórtán fyrir börn. Síðan eru sjö æfingar til að auka hraðann, tvær æfingar fyrir tölur á talnaborðinu og fjórar fyrir önnur merki.Sumar tölvur hafa einnig sérstakt lyklaborð hægra megin á tölvunni fyrir tölustafi og er boðið upp á þrjár æfingar til að læra að nota það borð. Að hólfa æfingakerfið svona niður gerir það auðveldara að einbeita sér að hverju atriði fyrir sig.

Kostirnir við að nota TypingMaster Pro[breyta]

Kostirnir eru augljósir. Að kunna að nota lyklaborðið á tölvunni sparar mikinn tíma. Ekki þarf að leita að hverjum staf fyrir sig.

Ætti ég að kaupa aðgang?[breyta]

Það er alltaf spurning hvort einstaklingur eigi að kaupa sér aðgang eða hvort hægt sé að komast inn á forritið gegnum skólann eða vinnustaðinn. Það er góð hugmynd að kanna fyrst hvort skólinn sé skráður fyrir aðgangi eða hvort vinnustaðurinn sé tilbúinn að fjárfesta í forritinu áður en það er keypt. Nauðsynlegt er að kunna fingrasetningu á lyklaborðið, þannig að ekki er hægt að mæla með öðru en að kaupa forritið ef ekki er hægt að fá aðgang að því í skólanum eða á vinnustaðnum. Slíkur er tímasparnaðurinn við að kunna að vélrita að forritið er fljótt að borga sig upp.