Upplýsingatækni/Að nota Open office ritvinnsla
Um OpenOffice.org
[breyta]OpenOffice eru ókeypis forrit sem fást hjá OpenOffice.org. OpenOffice er unnið með svokölluðum opnum aðgangi, eða open Source og mega allir hlaða forritinu niður af netinu og nota það án endurgjalds. OpenOffice er pakki sem inniheldur nokkur forrit og er ókeypis valmöguleiki í staðinn fyrir Microsoft office eða álíka forritapakka. Forritin eru til á mörgum tungumálum og til eru útgáfur af OpenOffice bæði fyrir Windows, Macintosh, Linux og fleiri stýrikerfi. Ekki er búið að þýða viðmót OpenOffice á íslensku og eru þessar leiðbeiningar fyrir ensku útgáfuna.
OpenOffice 3 pakkinn inniheldur eftirfarandi forrit::
- Writer (ritvinnsla)
- Calc (töflureiknir)
- Impress (glærugerðarforrit)
- Draw (teikniforrit)
- Base (gagnagrunnur)
- Math (formúluritill)
Hvar getur þú sótt OpenOffice?
[breyta]OpenOffice fæst á vefsíðunni OpenOffice.org. OpenOffice pakkinn er 15 - 40 mb að stærð eftir því hvaða útgáfa forritanna er valin. Það tekur nokkrar mínútur að hlaða niður forritapakkanum. Nánari upplýsingar um uppsetningu forritsins á íslensku má finna hér.
Að nota Openoffice.org ritvinnslu
[breyta]OpenOffice ritvinnsluforritið (writer) er í grundvallaratriðum mjög svipað í notkun og Microsoft Word forritið. Sjálfgefið skjalform í OpenOffice ritvinnslunni er Open Document Format eða .odf, en einnig er hægt að vista ritvinnsluskjöl sem html, rich text, text, PDF, í ýmsum útgáfum Microsoft Word (.doc) og í fleiri útgáfum. Skjöl sem eru geymd sem .doc er hægt að opna í Microsoft Word hvort sem er á PC eða makka. Hægt er að setja inn í ritvinnsluna myndir, töflur og önnur atriði úr öðrum OpenOffice forritum.
Að búa til nýtt skjal og vista
[breyta]Byrjað er á því að opna OpenOffice og opna nýtt skjal annað hvort með því að smella tvisvar á táknið fyrir ritvinnslu (text document) eða fara í File vinstra megin í valmyndalínunni sem birtist efst, velja New og velja síðan text document. Þá opnast ritvinnsluskjal sem hægt er að skrifa inn í.
Þegar bendillinn á tölvunni er inni í skjalinu birtist valmyndalína efst á tölvunni þar sem hægt er að velja ýmsa möguleika til þess að vinna með skjalið. Til þess að vista skjalið er farið í File vinstra megin og valið Save. Síðan ritarðu nafn skjalsins og athugar hvort að gerð skjalsins sé rétt. Sjálfgefið skjalform er .odt en ef þú vilt vista skjalið á einhverju öðru formi, til dæmis sem Word skjal, velur þú rétt form í felliglugganum undir File type og síðan Save. Til þess að geyma skjalið sem PDF er valið File og Export as PDF.
Til þess að prenta skjal er valið File og Print.
Að vinna með skjal
[breyta]Undir valmyndinni Edit í valmyndalínunni efst eru ýmsar breytingaskiptanir, eins og fyrir aðgerðirnar að klippa (cut), afrita (copy) og líma (paste) texta, þar sem hægt er að velja texta með músinni og færa hann til í skjalinu eða taka hann út. Þessar skipanir er einnig að finna í Standard stikunni.
Valmyndin View býður upp á ýmsa möguleika til að skoða skjalið og þar er einnig hægt að velja hvaða stikur (tool bars) eru sjáanlegar efst í skjalinu. Algengustu stikurnar eru Standard og Formatting. Undir valmyndinni Insert er hægt að setja inn síðuskil með því að velja Insert - Manual Break og síðan Page Break.
Valmyndin Format býður upp á ýmsa möguleika til að breyta textanum og uppsetningu skjalsins. Til dæmis er hægt að breyta leturgerð og stærð með því að fara í Format - Character, en þessum atriðum er einnig hægt að breyta á stikunni efst í skjalinu sjálfu, ef valið er að vera með Formatting stikuna sjáanlega. Þá er hægt að velja línubil og fleiri atriði varðandi uppsetningu í Format - Paragraph. Einnig er hægt að setja inn númeralista og hnappalista (bullets), búa til dálka (columns) og færa til hluti í skjalinu.
Valmyndin Table býður upp á að settar séu töflur inn í skjalið og unnið með þær. Í valmyndinni er hægt að merkja textann ákveðnu tungumáli, telja orð í skjalinu og fleira. Síðan er valmyndin Window til þess að búa til nýjan glugga og valmyndin Help vísar í hjálparglugga á ensku, þar sem hægt er að leita svara varðandi forritið.
Að opna eldra skjal
[breyta]Hægt er að velja File á valmyndalínunni og Open. Þá opnast valgluggi, þar sem hægt að er leita að skjalinu. Ef ekki er vitað hvar skjalið var vistað er hægt að fækka möguleikunum með því að velja formgerð skjalsins. Þá er valin sú formgerð sem leitað er að í File type í valglugganum, t.d. text document, ODF text document eða Word skjal. Ef nýlega var unnið með skjalið er einnig hægt að finna það í File - Recent documents og velja nafn þess þar.
Helstu kostir OpenOffice.org ritvinnslu
[breyta]Einn helsti kostur OpenOffice hugbúnaðarins er að hann er ókeypis og hægt að nálgast hann á netinu. Ef hugbúnaður frá OpenOffice.org er notaður í skólum, er það án efa kostur að ekki er verið að krefjast þess að nemendur fjárfesti í dýrum hugbúnaði til þess að vinna heima, heldur er hugbúnaðurinn ókeypis og öllum frjálst að nota hann. Einnig er það kostur hversu skjöl úr OpenOffice forritunum ganga auðveldlega á milli mismunandi tölva og hvað það er hægt að vista þau á margan hátt. Þá taka OpenOffice skjöl oft minna pláss en skjöl unnin í sambærilegum forritum.
Nánari upplýsingar
[breyta]Nánari upplýsingar um ritvinnsluforritið frá OpenOffice.org á íslensku má finna í ritvinnslukafla íslenskrar heimasíðu OpenOffice.is.