Unglingar í dag
Höfundur Greta Sverrisdóttir
Þetta er wikibók í vinnslu þar sem fjallað verður um félagslega stöðu unglinga í þjóðfélaginu í dag.
Unglingar og nám
[breyta]Samkvæmt lögum nr. 66/1995, um grunnskóla er grunnskólinn 10 ára skóli sem börnum og unglingum á aldrinum 6-16 ára er skylt að sækja. Lögin kveða m.a. á um skyldu foreldra til að sjá um að börn þeirra innritist og sæki skóla.
Frá árinu 1996 hafa sveitarfélög borið meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd grunnskólalaga. Hverju sveitarfélagi er skylt að sjá öllum börnum á aldrinum 6-16 ára, sem þar eiga lögheimili, fyrir skólavist. Veita skal nemendum í skyldunámi í opinberum skólum kennslu þeim að kostnaðarlausu. Allir sem lokið hafa skyldunámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eiga rétt á að hefja nám á framhaldsskólastigi sem að öllu jöfnu tekur til aldurshópsins 16-20 ára (http://www.menntamalaraduneyti.is/menntamal/).
Aldrei áður hafa unglingar haft eins mikið um að velja eins og í dag hvað varðar nám og framtíðarmöguleika. Í dag er 10.bekkurinn orðin að skólaskyldu og jafnvel þó að framhaldskólar séu valmöguleiki fyrir ungdóminn í dag þá eru kröfur þjóðfélagsins orðnar slíkar að það er næstum orðin skilyrði að vera með stúdentspróf þegar sótt er um starf. Áður fyrr var val um framhaldsnám einfaldara en í dag. Þá gátu unglingar valið um nokkra skóla, 1-3 menntaskóla og 1-2 iðnskóla en nú er staðan sú að árið 2005 voru 30 framhaldskólar á landinu og í þeim stunduðu 25.348 nemendur nám. Nú eru framhaldsskólar í öllum landshlutum þar sem áður stóð valið um að fara til Reykjavíkur eða kannski Akureyri. Margt hefur breyst á síðustu 40 árum og þá hvað mest á síðustu 20 árum.
Þetta gerir valið ekkert auðveldara fyrir unglingana á Íslandi í dag. Nú er mikið fleiri skóla um að velja, námsbrautunum er alltaf að fjölga og kröfurnar að aukast. Það er ekkert einfalt mál að vera unglingur í dag.
Félagsmiðstöðvar
[breyta]Félagsmiðstöðvar eru reknar af sveitarfélögum um land allt sem úrræði fyrir unglinga til að byggja sig upp félagslega. Með starfssemi félagsmiðsstöðva er verið að koma til móts við þarfir unglinga fyrir fjölbreytni í frítímastarfi og í samveru með jafnöldrum. Félagsmiðstöðvar vinna einnig að forvarnarstarfi með unglingunum á ýmsan hátt og eru í virku samstarfi við skóla, félagsyfirvöld og aðra sem málið viðkemur. Stefna félagsmiðstöðva er að bjóða upp á heilbrigðan valkost í frítímanum, á öruggum stað undir handleiðslu hæfra starfsmanna.
Í félagsmiðstöðvum er boðið upp á fjölbreytt starf svo sem opin hús þar sem unglingar hafa möguleika á því að hittast, spila billjard, borðtennis eða hlustað á tónlist og spjallað við félagana eða starfsmennina. Þetta gefur möguleikann á því að mynda og styrkja tengsl og svo einnig fyrir starfsfólk að kynnast og tengjast unglingunum.
Hópastarf er tvenns konar. Annars vegar er unnið í áhugahópum þar sem verið er að starfa í áhugamálun unglinanna, í kynjaskiptum hópum sem beina þá starfinu að því sem stelpur eða strákar hafa sérstakan áhuga á og er þá verið að vinna með óformlega fræðslu. Þetta geta verið hópar til lengri eða skemmri tíma. Hins vegar er unnið í svokölluðu sértæku hópastarfi þar sem verið er að vinna gagngert með minni hópa að ákveðnu verkefni og er þetta oft gert til að hjálpa einstaklingum við að styrkja samskiptahæfni sína eða að kenna unglingunum hvað það er að vinna í hóp.
Félagsmiðstöðvar vinna með hugmyndafræði sem kallast unglingalýðræði og er þar verið að tryggja að áhrif unglinganna á starfið í félagsmiðstöðinni. Rík áhersla er lögð á að unglingarnir setji sitt mark á starfið, móti það og framkvæmi undir leiðsögn starfsmanna. Kosið er í unglingaráð þar sem starfa einstaklingar sem hafa boðið sig fram til starfa og hafa áhuga á að styrkja starfið og móta það eftir áhuga unglingana. Markmið þessarar hugmyndafræði er að styrkja unglinga í sjálfstæðum ákvörðunum og að taka svo afleiðingum þeim sem fylgja. Þetta hjálpar unglingum að horfa á málin frá víðara samhengi, taka tillit til skoðana annara og læra hvernig lýðræðislegt þjóðfélag virkar. Í félagsmiðstöðvum eru oft settir upp stærrri viðburðir svo sem söng- og hæfileikakeppnir, böll og tónleikar, ferðalög eru farin og tekið er á móti unglingum úr öðrum félagsmiðstöðvum. Þetta eru tilvalin tækifæri fyrir unglingana að taka til hendinni, skipuleggja og bera ábyrgð á útkomu uppákomunar. (úrdráttur úr Starfsskrá skrifstofu tómstundamála ÍTR)
Forvarnir
[breyta]Mjög mikilvægt er að vinna að forvörnum með unglingum í dag. Þjóðfélagið er síbreytilegt og með hverjum áratugnum sem líður aukast hætturnar og líkurnar á því að unglingar lendi í óæskilegum aðstæðum stigmagnast. Í skólum er unnið með forvarnarstarf á ýmsan máta með forvarnarteymum og reglulegri fræðslu frá lögreglu og öðrum sem málið varðar. Unnið er í samvinnu við foreldra með foreldrarölti um helgar, félagsmiðstöðvar eru með hverfarölt og ýmisleg átaksverkefni á vegum margvíslega samtaka í þjóðfélaginu eru sett á laggirnar.
Fastur útivistartími hefur verið lögfestur á Íslandi til að koma í veg fyrir að börn og unglingar séu úti á óheppilegum tíma á kvöldi og til að þau fái næga hvíld til að stunda nám.
Stofnuð hafa verið samtök sem vinna gagngert að forvörnum fyrir börn og unglinga og kallast þau SAMAN-hópurinn. SAMAN-hópurinn vekur m.a. athygli á hættum sem ógna börnum og unglingum, hvetur til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar og vekur athygli foreldra á að þeir beri ábyrgð á börnum sínum allt til 18 ára aldurs. Því er beint til foreldra að virða reglur um útivistartíma, kaupa ekki eða bjóða unglingum áfengi sem og að leyfa ekki eftirlitslaus partý. Einnig er bent á atburði þar sem líklegt er að vímuefna verði neytt. Dæmi um slíka atburði eru lok samræmdra prófa, 17. júní, útihátíðir um verslunarmannahelgi, menningarnótt og áramót. Skilaboðin eru alltaf skýr og jákvæð og meginstef þeirra er: ,,fjölskyldan saman”. Að þessum verkefnum hefur SAMAN-hópurinn unnið með því að birta auglýsingar í fjölmiðlum, á strætisvögnum og veggspjöldum, útbúa og senda póstkort í tilefni af lokum samræmdra prófa, áramótum og fleiru. Að SAMAN-hópnum standa: Áfengis – og vímuvarnaráð, Félagsþjónustan í Kópavogi, Félagsþjónustan í Reykjavík, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, Forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar, Heilsugæslan í Reykjavík, Heimili og skóli, I.O.G.T., Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, Lögreglan í Reykjavík, Ríkislögreglustjórinn, SAMFOK – samband foreldrafélaga og foreldraráða í grunnskólum Reykjavíkur, Vímulaus æska - Foreldrahús og Þjóðkirkjan. (tekið af vef Foreldrahússins.)
Hópþrýstingur
[breyta]Maðurinn er félagsvera sem sem hefur þörf fyrir samskipti í einkalífi og í frítíma. Einstaklingurinn sækir í öryggistilfinningu og hana fær hann í félagskap þeirra sem samþykkja hann, hvort heldur er í fjölskyldu eða hóp félaga. Mjög mikilvægt er fyrir manninn að finna það að hann eigi stað í hóp og að honum sé treyst í þeim hóp og er þetta lífsnauðsynlegt til að geta náð eðlilegum félagsþroska. Þegar einstaklingar safnast saman í hóp hafa þeir vissar væntingar til hvers annars og ætlast er til þess að þeir sem tilheyra hópnum hagi sér á vissan hátt. Ef mynstrið er brotið og hópmeðlimur fer út af venju þá á hópurinn til að útiloka þann sem breytir út af venjunni. Til að fá að halda áfram sem meðlimur þess hóps verður einstaklingurinn að sýna tillitsemi og laga hegðun sína að hegðun hópsins.
Hópur beitir þrýstingi á þá sem í honum eru og eru meðlimir hópsins yfirleitt sáttir við þann þrýsting svo lengi sem hann er réttlátur og jafn á alla aðlila. Það eru alltaf skilyrði sem fylgja því að vera í hóp og oft eru vissar kröfur um sérstaka hegðun ef einhver vill fá inngöngu í þann hóp. Ef einstaklingur hefur áhuga á að tilheyra hóp þá leitar hann yfirleitt hóps sem hefur svipaðar skoðanir og hann og er þá sama hvort er verið að tala um fjölskyldu eða félagsleg tengsl. Ef við víkjum mikið frá settum reglum, lendum við á skjön við umhverfið og getum átt á hættu að vera útilokuð frá þátttöku í hópnum.
Unglingar fara ekki varhluta af hópþrýstingi og á þessum aldri eru unglingar að reyna að uppgötva sitt eigið sjálf og getur þá neikvæður hópþrýstingur oft leitt þá út í að taka þátt í hlutum sem þeir myndi annars aldrei gera. Sumir leiðast út í drykkju, reykingar og vímuefnanotkun, aðrir fara að taka þátt í kynlífi áður en þeir eru tilbúnir og enn aðrir taka þátt í einelti gagnvart einstaklingum sem hópurinn samþykkir ekki. Mikilvægt er að leiðbeina unglingum á þessu tímabili í lífi þeirra og hjálpa þeim að sjá að stundum er nauðsynlegt að fara á móti þrýstingi hópsins og fylgja sinni eigin sannfæringu til að koma í veg fyrir afleiðingar óæskilegra ákvarðana
Ímynd unglingsins
[breyta]Sterk sjálfsmynd er besta veganestið sem unglingar fá út í lífið þar sem hún eykur velgengni og vellíðan. Með því að styrkja sjálfsmyndina er m.a unnið að forvörnum gegn óábyrgri áfengisneyslu, gegn vímuefnaneyslu, ótímabæru brottfalli úr skóla, ofbeldi, óábyrgu kynlífi, geðheilsubrestum s.s. þunglyndi og átröskunum, sjálfsvígum o.s.frv (http://www.hitthusid.is/category.aspx?catID=2160)
Ímynd sína fá unglingar oft af þeirri spegilmynd sem að þjóðfélagið sendir tilbaka í gegnum fjölmiðla, tískustrauma og hópþrýsting. Þetta er það tímabil í lífi unglinga þar sem þau vinna gagngert að því uppgötva sjálf sig og hver þau vilja vera. Eðlilegt er að þau horfi á fyrirmyndirnar í kringum sig og sjá eitthvað sem er spennandi og vilja líkjast því en gera sér ekki alltaf grein fyrir því hvað það ber í skauti sér. Sumar fyrirmyndir eru spennandi á yfirborðinu en svo þegar dýpra er litið eru þær kannski ekkert æskilegar að fylgja eftir og ekkert öruggari með sig en þeir sem fylgja á eftir.
Jafningjafræðslan hefur unnið mikið starf við að hjálpa unglingum að styrkja sjálfsmynd sína og er unnið með þessum einstaklingum út frá þeirra eigin forsendum. Reynt er að fá hugmyndir þeirra um það hvað þeim finnst sjálfsmynd vera og hvernig væri best að styrkja hana. Einnig er unnið með þetta í lifsleikni og er hún nú kennd við bæði grunnskóla og framhaldsskóla. Tilgangurinn með þessari kennslu er að örva tilfinningagreind nemenda. Tilfinningagreind er félagsleg og persónuleg hæfni til að þekkja sjálfan sig og aðra. Áherslan þar er lögð á að nemendur geti lært að örva tilfinningagreind sína. Tilfinningagreind er félagsleg og persónuleg hæfni til að þekkja sjálfan sig og aðra og með því að kynna okkur tilfinningagreind getum við skerpt getuna til að taka á þessum vandamálum og eflt bjartsýni, sjálfsvitund, einbeitingu, flæðitilfinningu við vinnu, góð samskipti, samkennd, vellíðan, sjálfstjórn og aga, jafnvægi og félagslega hæfni; eiginleika sem einkenna þá sem velgengni njóta.(http://www.doktor.is/hvadermalid/grein.asp?id_grein=1835&id_fl=511)