Fara í innihald

Sorg

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur er Ásta Krístín Gunnarsdóttir

Inngangur[breyta]

Sorg og áföll eru hluti af lífinu. Það má segja að lífið sé ferðalag um augnablik jákvæðrar upplifunar og sársaukafullrar reynslu sorgarinnar. Flest okkar þurfum við einhvern tíma á ævinni að glíma við sorgina. Sorgin og sárar tilfinningar hennar eru eðlileg viðbrögð við missi. Missir er ekki eingöngu bundinn við að einhver deyr, en þó mest eftir dauða þess sem við unnum. Missir getur líka tengst skilnaði, slysum, fötlun, veikindum eða ef fjölskyldumeðlimur verður fyrir árás eða ofbeldi og öðru mótlæti í lífinu.

Það er mjög einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við sorg. Aldur syrgjanda, lífsreynsla, trúarskoðun, kyn syrgjandans og tengsl við þann sem féll frá skiptir einnig máli. (Konur tjá sig oft meira um sorgina en karlar.) Sorgin er ekki atburður heldur ferli. Sorgin veldur breytingum á lífi þess sem syrgir eða alla fjölskylduna. Tilveran verður í sumum tilfellum ekki söm aftur. Flestir erum við þó sammála um að í sorgarferlinu sé flæði tilfinninga mikið og tilfinningasveiflur töluverðar. Þessar breytingar í tilfinningalífi syrgjandans gerir það að verkum að hann verður oft hræddur við eigin viðbrögð og því er mikilvægt að fá viðurkenningu, frá umhverfinu, á að þetta sé eðlileg viðbrögð við þeirri þungbæru reynslu sem missir er.

Sorgarviðbrögð[breyta]

Fyrir marga er hjálplegt að skilgreina sorgina út frá fjórum stigum tilfinninga. Röð stiganna og lengd er mismunandi á milli einstaklinga. Sumir upplifa eitt stig meira en annað og það upplifa ekki allir öll stigin. “Hver hefur sitt göngulag í sorginni.”


Áfall, doðatilfinning og afneitun[breyta]

Gerist yfirleitt strax á eftir missi. Syrgjandinn ímyndar sér að missirinn hafi ekki orðið. Syrgjandinn finnst hann vera áhofandi að lífinu en ekki þáttakandi. Doðatímabilið einkennist af því að syrgjendur heyra ekki það sem sagt er, skilja það ekki og sjá ekki samhengið. Þetta getur jafnvel varað í 3-4 mánuði. Þessi doðatilfinning er í raun vörn fyrir syrgjandann til að hjálpa honum að takast á við erfið verkefni, svo sem skipulag jarðarfarinnar og þeim breytingum sem óneitanlega fylgja í kjölfarið. Á þessu tímabili heyrir syrgjandinn gjarnan frá umhverfinu hvað hann standi sig vel. Afneitun er algeng að neita að horfast í augu við missinn. Hún gefur syrgjandanum færi á að ná áttum. Áfallið og afneitunin getur varað frá nokkrum klukkutímum í nokkra mánuði.

Reiði[breyta]

Reiði getur komið fram hjá syrgjandanum, út í hann sjálfan, hinn látna, annað fólk s.s. ættingja og heilbrigðisstarfsfólk og ekki má gleyma reiðinni sem beinist gegn Guði. Oft fylgir sektarkennd í kjölfar reiðinnar vegna þess sem sagt eða gert var og einnig yfir því sem ekki komst í verk að segja eða gera. Mikilvægt er að horfast í augu við reiðina og sýna þær tilfinningar sem við höfum í sorgarferlinu. Fólk sem geymir reiðina innra með sér getur upplifað seinna í lífinu, bæði líkamleg og streitutengd vandamál vegna þessara niðurbældu tilfinninga.

Þunglyndi[breyta]

Þunglyndi tengist oft söknuði og vonleysi í sorginni, jafnvel löngu eftir missinn Óbærilegur einmannaleiki þrengir sér inn í líf syrgjandans, hann upplifir sig ekki í tengslum, hvorki við annað fólk né umhverfi sitt og hefur ekki frumkvæði til að leita eftir samskiptum. Þunglyndi kemur stundum í kjölfar reiðinnar. Það einkennist af kvíða og örvæntingu. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á daglegt líf viðkomandi. Syrgjandinn hugsar minna um eigin heilsu, hann nærist illa og á minni samskipti við ættingja og vini. Syrgjandinn einangrar sig, kvíðir nýjum degi, er bjarglaus og á erfitt með að einbeita sér að nauðsynlegum verkefnum.

Sátt[breyta]

Eðlilegt er að upplifa allar ofantaldar tilfinningar og getur oft verið nauðsynlegt sorgarúrvinnslunni. En það er líka mikilvægt að geta unnið sig í gegnum þessar tilfinningar, sigrast á þeim, tekist á við raunveruleikann og öðlast sátt. Öll þessi einkenni eru merki um eðlileg sorgarviðbrögð og skyldi engan undra að syrgjandinn skuli breytast í samskiptum, með alla þessa byrgði á bakinu.

Sorgin og líkamleg einkenni[breyta]

Margir syrgjendur finna fyrir líkamlegum breytingum sem svipa til líkamlegra sjúkdóma. Og því er eðlilegt að syrgjendur hafi áhyggjur af því ofan á allt annað. Sorgin er ekki sjúkdómur heldur bregst líkaminn við sorginni á þennan hátt. Einkenni sem geta komið fram eru: Hjartsláttarköst, herpingur í brjósti, svimaköst, höfuðverkur, minnisleysi, orkuleysi, tárin streyma auðveldlega við ótrúlegustu aðstæður, hröð öndun, hármissir, meltingartruflanir s.s. óróleiki í maga, niðurgangur,hægðatregða, þyngdartap. Ekki er útilokað að um sjúkdóm sé að ræða og ætti syrgjandinn að leita læknis ef hann telur þess þurfa.


Góð ráð fyrir syrgjendur:[breyta]

Mikilvægt er að syrgjandinn geri sér grein fyrir að nauðsynlegt er að fækka öllum streituvöldum í umhverfinu. Og einfaldi líf sitt eins og hægt er.

 • Að nærast vel og reglulega, þrátt fyrir lystaleysi. Mundu eftir að taka lýsi og önnur vítamín.
 • Dragðu úr kaffidrykkju, drekka frekar róandi te eða vatn.
 • Mikilvægt er að hvílast vel og ná að slaka á, reyndu þó að þú eigir við svefntruflanir að stríða.
 • Reyndu að halda þig við ákveðið skipulag á hverjum degi, leggstu til svefns og vaknaðu á sama tíma.
 • Notaðu ekki vímugjafa (áfengi og lyf) slíkt frestar því að þú takir á tilfinningar þínar.
 • Leyfðu þér að gráta, gráturinn losar spennu og losar óttann. Leyfðu þér að gráta innan um aðra.
 • Ef þú ert spurður um líðan þína, skaltu svara hreinskilningslega.
 • Leitaðu samskipta við aðra sérstaklega þegar þér finnst sorgin hellast yfir þig. Félagsleg einangrun eykur á vanlíðan þína.
 • Leyfðu þér að gleðjast, það er ekki vanvirðing við þann látna.
 • Regluleg hreyfing er mikilvæg, sund, ganga úti eða sú hreyfing sem þér hentar best. Hreyfingin örvar myndun efna (endorfin) í líkamanum, sem minnka sársauka og streitu og auka vellíðan.
 • Reyndu að setja þér markmið að gera daginn í dag að betri degi en daginn í gær.
 • Hrósaðu sjálfum þér fyrir vel unnin störf, það er fullt starf að takast á við sorgina.Oftast vinnur syrgjandinn úr sorgarferlinu með tímanum án utanaðkomandi sérfræðihjálpar. En stundum þarf viðkomandi á hjálp að halda vegna erfileika að takast á við sorgina einn. Hægt er að leita hjálpar hjá fagfólki s.s. sálfræðingi, presti,félagsráðgjafa eða sorgarsamtakana “ Ný dögun..” www.sorg.is Sorg er hræðileg lífsreynsla sem við flest verðum fyrir á lífsleiðinni. En sorgin er hluti af lífinu og við þurfum öll,fyrr eða síðar að takast á við sorgina og komast í gegnum hana heil.

Þegar þú ert sorgmæddur Skoðaðu þá aftur huga þinn Og þú munt sjá að þú grætur Vegna þess sem var gleði þín. ( Úr Spámanninum )


Heimildir;[breyta]

 • Bragi Skúlason Von, bók um viðbrögð við missi. Hörpuútgáfan. 1992.
 • Björk Gylfadóttir Hjúkrunarfræðingur. Fræðslugrein fyrir Sjúkrahúsið á Akranesi 2004.
 • Kristín Eyjólfsdóttir Þroskaþjálfi og starfsmaður Nýrrar dögunar. Grein í doktor.is 2006.