Skíðasvæði við Eyjafjörð

Úr Wikibókunum

Höfundur: Kristín Irene Valdemarsdóttir

Eyjafjörður er staðsettur á norðanverðu Íslandi á milli Skagafjarðar og Þingeyjarsýslu. Fjörðurinn stendur við rætur Tröllaskaga og við hann stendur Akureyri sem er stærsta bæjarfélagið á þessum slóðum. Við fjörðinn standa auk þess smærri þorp til dæmis Dalvík, Grenivík, Svalbarðseyri, Ólafsfjörður og Siglufjörður. Staðsetning fjarðarins veldur því að oft á tíðum gerir veturinn snemma vart við sig og snjóa leysir seint að vori. Íbúar hafa því þurft að gera veturinn og vetraríþróttir að lífstíl til að lifa af þennan kaldasta og dimmasta tíma ársins.

Við Eyjafjörð eru nokkur spennandi skíðasvæði sem bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir fólk sem stundar skíði, bretti og vetraríþróttir. Svæðin eru fjölbreytt og henta öllum vel aldurshópum vel.

Hlíðarfjall Akureyri[breyta]

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli í fallegri kvöldlýsingu.

Hlíðarfjall er stærsta skíðasvæðið á Norðurlandi og er staðsett vestan fjarðar við Akureyri. Þar eru átta lyftur sem henta byrjendum og lengra komnum. Á góðum degi er hægt að velja úr 24 skíðaleiðum og fallhæð svæðisins er um 500 metrar. Auk þess er við skíðasvæðið úrvals aðstaða til gönguskíðaiðkunar.

Á skíðasvæðinu er starfrækt skíðaleiga þar sem hægt er að leigja búnað. Auk þess er veitingasala á tveimur stöðum á svæðinu, annarsvegar við bílastæði og hinsvegar í Strýtuskála við lyftuenda stólalyftunnar. Þá fer mjög gott orð af skíðasvæðinu og helgast það helst af þeirri fjölbreytni sem það hefur upp á að bjóða.

Á síðustu tveimur árum hefur auk þess verið standsett hjólabraut á skíðasvæðinu yfir sumartímann og hefur það framtak mælst vel fyrir hjá fjallahjólurum.

Skíðasvæði Dalvíkur[breyta]

Lyftugleði á skíðasvæðinu á Dalvík.

Skíðasvæðið á Dalvík er staðsett í Böggvisstaðafjalli við bæjardyr Dalvíkur. Þar eru tvær toglyftur starfræktar, auk þess er gönguskíðabraut opin á svæðinu þegar þannig viðrar. Á vorin þegar aðstæður eru góðar hefur verið boðið upp á ferðir með snjótroðara upp á efsta hluta fjallsins og skíðagestir svo rennt sér niður. Hægt er að kaupa mat og hressingu í veitingaskála á svæðinu og margir nýta sér það að fara í sund í Sundlaug Dalvíkur eftir góðan skíðadag.


Fjallabyggð skíðasvæði við Ólafsfjörð[breyta]

Fjörðurinn fagri, Ólafsfjörður.

Á Ólafsfirði er huggulegt skíðasvæði sem er opið þegar aðstæður leyfa. Þar eru kjöraðstæður til vetraríþrótta. Hægt er að fara í vélsleðaferðir og aðstaða til skíðaiðkunar er afar góð. Á skíðasvæðinu í Tindaöxl eru skíðalyfta og góðar svigbrautir. Hægt er að kaupa veitingar í glæsilegum skíðaskála Skíðafélagsins og í skálanum er svefnloft þar sem u.þ.b. 25 manns geta gist í svefnpokum.

Skíðasvæðið Skarðsdal Siglufirði[breyta]

Stólalyfta að vetri.

Skíðasvæðið í Skarðsdal er staðsett á Siglufirði og er að margra mati með bestu skíðasvæðum landsins. Á svæðinu eru þrjár lyftur. Efri endi lyftunnar er í rúmlega 650 metra hæð yfir sjó. Í Skarðsdal er að finna einhverjar bestu alhliða brekkur landsins. Nýlega var reistur glæsilegur skíðaskáli þar sem aðstaða fyrir gesti er öll til fyrirmyndar. Góð flóðlýsing er á skíðasvæðinu og því upplagt að skíða þar á kvöldin.


Gildi vetraríþrótta fyrir mannssálina[breyta]

Vetrartöfrar.

Í gegnum tíðina hafa augu manna meðal annars beinst að því hversu miklu máli hreyfing skiptir í lífi og starfi hvers og eins. Þá hefur sumum reynst erfitt að nýta dimmasta tíma ársins til að hreyfa sig og ekki fundið þann kraft sem þarf til að drífa sig af stað í kulda og myrkur. Í þessu samhengi er mikilvægt að benda á hversu brýnt það er í hverju sveitarfélagi að gefa rými fyrir starfsemi sem lýtur að tómstunda- og íþróttaiðkun allan ársins hring. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt fram á hversu miklu máli þessi þáttur skiptir og ekki síður hvernig jákvætt og uppbyggilegt umtal í kringum íþróttamannvirki af þessu tagi hefur áhrif á nærumhverfið og þá sem þangað sækja[1].

Hreyfing og geðheilsa[breyta]

Bent hefur verið á að þrír þættir ákvarði heilsufar fólks. Í fyrsta lagi félagslegar aðstæður, allar rannsóknir hafa staðfest að þeir sem eru vel staddir félagslega, með góð tengslanet fjölskyldu og vina séu yfirleitt betri til heilsunnar en þeir sem ekki njóta slíkra forréttinda. Í öðru lagi skiptir máli hversu góðan aðgang fólk hefur að grænum náttúrulegum svæðum til að njóta útivistar. Í þriðja lagi þarf fólk að finna tilgang með því að hreyfa sig, annaðhvort með því að tengja hreyfinguna við vinnu, leik eða skemmtun. Hreyfingin verður að vera hluti af dagsins önn.

Heilbrigð sál í hraustum likama[breyta]

Útivera kallar fram gleði og hamingju.

Á síðari árum hafa rannsóknir leitt í ljós hversu miklu máli útivera og hreyfing hefur í lífi fólks. Hér er ekki einungis átt við ungt fólk, heldur líka þá sem eru miðaldra og komnir á fullorðins ár. Krafan um bætt lífsgæði verður stöðugt háværari. Mikilvægi þess að halda heilsu skiptir grundvallarmáli. Sífellt eldra fólk stundar líkamsrækt af einhverju tagi. Vaxandi þekking á tengslunum milli líkamlegrar og andlegar heilsu skapar hvöt almennings til að stunda líkamlega virkni. Þá hefur það sýnt sig að græn svæði og útivera skipta hér grundvallarmáli. Allt helst þetta í hendur og þarf að skapa grundvöll fyrir heilbrigðari lífi og heilbrigðara samfélagi[2].


Aldrei of seint að byrja![breyta]

Á skíðasvæðunum við Eyjafjörð er boðið upp á skíða- og brettakennslu fyrir byrjendur og lengra komna. Skíðaíþróttin tók miklum stakkaskiptum á árunum 2020 til 2021 þegar COVID-19 sett svip sinn á heimsbyggðina. Þá töldu margir að fólk héldi sig til hlés og léti vart sjá sig úti við, en staðan varð önnur og almenningur fjölmennti á skíðavæðin, þrátt fyrir lokun. Þá voru nýtt öll tækifæri sem gáfust. Sjaldan eða aldrei seldir skíðabúnaður jafn vel og námskeið fyrir byrjendur á svigskíðum og gönguskíðum seldust eins og heitar lummur. Þá þótti markverðast að fólk sem aldrei hafði prófað að skíða áður lét slag standa og skellti sér á skíði og í skíðakennslu.

Tenglar[breyta]

Eyjafjörður

Skagafjörður

Tröllaskagi

Dalvík

Siglufjörður

Þingeyjarsýsla

Svalbarðseyri

Grenivík

Hlíðarfjall Akureyri

Fjallahjól

Sundlaug Dalvíkur

Heimildir[breyta]

Hávar Sigurjónsson. 2012. Hreyfingin verður að vera skemmtileg reynsla. Læknablaðið. (5)98.

Ritrýndar greinar[breyta]

  1. Reitsamer, Bernd Frederik; Brunner-Sperdin, Alexandra (2017–01). „Tourist destination perception and well-being: What makes a destination attractive?“. Journal of Vacation Marketing (enska). 23 (1): 55–72. doi:10.1177/1356766715615914. ISSN 1356-7667.
  2. [DOI:10.12691/ajssm-6-3-3 „sciepub.com“].