Fara í innihald

Selfoss

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Hildur Bjargmundsdóttir. Þetta er wikibók um Selfoss.Þetta getur hentað sem námsefni í landafræði á ýmsum stigum.

Sagan

[breyta]
Ölfusárbrú

Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 "undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá". Sumarið 1891 var fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar byggð hengibrú yfir Ölfusá hjá Selfossi. Hún var þá mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í. Með tilkomu brúarinnar urðu straumhvörf í þróun byggðar á Selfossi. Árið 1900 voru 40 íbúar í Selfossbyggð en árið 2006 voru íbúar bæjarins um 5700 og Selfoss þar með orðinn langstærsti bær á Suðurlandi. Árið 1890 reisti Tryggvi Gunnarsson skála fyrir brúarsmiðina sem síðar var við hann kenndur, Tryggvaskáli. Árið 1901 varð skálinn veitingastaður og gistiheimili. Í skálanum var sett upp símstöð árið 1909 og Landsbanki Íslands opnaði þar fyrsta bankaútibúið á Suðurlandi haustið 1918. Um 1930 tóku Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga til starfa og urðu burðarásar atvinnulífsins næstu áratugina. Á stríðsárunum höfðu Bretar nokkurt setulið á Selfossi til gæslu brúarinnar og einnig víðar á Suðurlandi

Mannlífið

[breyta]
Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi

Á Selfossi er fjölbreytt mannlíf. Stærsta menntasetur bæjarins er Fjölbrautaskóli Suðurlands. Í tengslum við hann er einnig starfrækt Fræðslunet Suðurlands. Tveir grunnskólar eru á Selfossi, skólavistun,leikskólar og Tónlistarskóli Árnesinga. Bókasafn og upplýsingamiðstöð eru Ráðhúsinu, en þar er að finna lítinn sýningarsal Listagjána, og héraðsskjalasafn Árnesinga er einnig í sama húsi. Á Selfossi er kvikmyndahús. Vinnustofur listamanna er að finna víða á Selfossi. Á Selfossi er blómlegt félagslíf. Í bænum eru starfandi fjöldi félaga og klúbba, leikfélag, kórar, íþróttafélög og aðrir hópar sem vinna markvisst að því að byggja upp samfélag þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íþróttastarfsemi á Selfossi er mjög öflug og hefur skilað sér í miklum áhuga á handbolta, en einnig eru aðrar greinar í örum vexti. Sundhöll Selfoss býður gestum upp á heita potta, gufubað, vaðlaug og rennibraut. Löglegur keppnisvöllur er fyrir hestaíþróttir. Á Selfossi er haldið hið árlega Brúarhlaup þar sem fólk alls staðar að af landinu tekur þátt.

Atvinnulífið

[breyta]

Upphaf farsællar atvinnusögu Selfoss var grundvölluð á byggingu brúarinnar á Ölfusá. Selfoss þróaðist í að verða miðstöð samgangna og þjónustu og síðar vettvangur öflugrar vinnslu á afurðum sunnlensks landbúnaðar og þjónustu við hann. Á Selfossi eru nokkur af framsæknustu fyrirtækjum landsins í framleiðslu á matvælum. Má þar nefna stærsta mjólkurbú landsins. Áratuga reynsla, þekking og fagmennska er m.a. ástæða hinnar miklu nýsköpunar og vöruþróunar sem á sér stað við vinnslu landbúnaðarafurða á Selfossi. Fjöldi bygginga- og verktakafyrirtækja staðfestir að á Selfossi er byggingariðnaður rótgróin atvinnugrein. Landsþekkt er framleiðsla á einingahúsum og sumarbústöðum. Annar iðnaður er einnig í mikilli sókn. Selfoss er miðstöð skóla, heilbrigðis- og bankaþjónustu ásamt opinberri stjórnsýslu á Suðurlandi. Vaxandi fjöldi fyrirtækja er einnig starfandi við margs konar þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Blómleg verslun er einn af hornsteinum þéttbýlismyndunar á Selfossi. Miðstöð verslunar á Suðurlandi er á Selfossi og fjölmargar verslanir eru starfandi á ýmsum sviðum.


Ferðaþjónusta

[breyta]

Grunnur að ferðaþjónustu á Selfossi var lagður með byggingu brúar yfir Ölfusá árið 1891 og byggingu Tryggvaskála árið áður. Síðan hefur verið rekin öflug ferðaþjónusta á Selfossi sem hefur vaxið og þróast í takt við breytta tíma. Selfoss er miðstöð verslunar, þjónustu og iðnaðar á Suðurlandi. Ýmsir gistimöguleikar eru í boði, má þar nefna hótel, gistihúsabyggð við tjaldsvæðið, tjald- og húsbílasvæði, íbúðahótel og heimagistingu. Á Selfossi er að finna fjölbreytt veitinga- og kaffihús, bar og skemmtistaði, auk rúmgóðra veislu- og ráðstefnusala. Á bökkum Ölfusár er glæsilegur 9 holu golfvöllur. Stutt er í góðar gönguleiðir, t.d. í Hellisskóg, þar sem útsýni er yfir Ölfusá og golfvöllinn eða ganga á Ingólfsfjall en þaðan sést vel yfir sléttur Suðurlands, fjallahringinn í norðri og austri og til Vestmannaeyja í suðri. Sundhöll Selfoss býður upp á bæði inni- og útilaug, vaðlaug fyrir börnin, gufuböð og ljósaböð. Á Selfossi er góð íþróttaaðstaða, íþróttahús við Sólvallaskóla og við Fjölbrautaskóla Suðurlands og víðáttumikið útivistarsvæði með íþróttavöllum. Brávellir er nýlegur reið- og keppnisvöllur fyrir hestamenn og reiðleiðir eru víða. Á Selfossi eru margs konar vinnustofur og gallerí, verslanir, bíóhús, leikhús, Bæjar- og héraðsbókasafn, sjúkrahús, tveir grunnskólar og Fjölbrautaskóli Suðurlands. Selfoss er helsta samgöngumiðstöð Suðurlands. Áætlunarferðir eru frá Selfossi til allra átta. Auk Reykjavíkur má þar nefna Gullfoss og Geysi og niður að ströndinni til Stokkseyrar, Eyrabakka og Þorlákshafnar. Á sumrin eru ferðir í Þórsmörk og Landmannalaugar, til Akureyrar og austur á land, auk margra annarra staða í byggð og óbyggð. Á Selfossi eru starfræktar nokkrar ferðaskrifstofur og þar er einnig upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn.


Krossapróf

[breyta]

1 Hvenær var fyrsta brúin byggð yfir Ölfusá

1890
1891
1892
1992

2 Hvað bjuggu margir á Selfossi árið 2006?

Um 9200
Um 2700
Um 5700
Um 3400


Heimildir

[breyta]

Sveitarfélagið Árborg

Ítarefni

[breyta]
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: