Fara í innihald

Orðflokkagreining

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Dagný Bolladóttir.

Þessi lexía um orðflokkagreiningu í íslensku hentar bæði sem náms- eða ítarefni fyrir nemendur 7. og 8. bekkjar grunnskóla en einnig sem upprifjunarefni fyrir fólk á öllum aldri. Í lexíunni er fjallað um grunnhugtök í íslenskri málfræði, orðflokkarnir kynntir og einkennum þeirra lýst.

Hvað er orðflokkur?

[breyta]

Orðflokkur er flokkur orða sem hafa sömu einkenni og er þá átt við;

  • merkingarleg einkenni, þ.e. hvers konar merkingu orðin hafa
  • beygingarleg einkenni, þ.e hvernig orðin beygjast (einnig kallað formseinkenni)
  • setningarleg einkenni, þ.e. með hvaða orðum þau geta staðið

Skipta má orðaforða málsins í þrjá meginflokka:

  1. Fallorð: þ.e. orð sem fallbeygjast
  2. Sagnorð: þ.e. orð sem tíðbeygjast
  3. Smáorð: þ.e. orð sem hvorki tíðbeygjast né fallbeygjast

Orðflokkarnir í íslensku er 11 talsins og skiptast á eftirfarandi hátt eftir formseinkennum:

  • Orð sem fallbeygjast:
    • Nafnorð
    • Lýsingarorð
    • Fornöfn
    • Greinir
    • Töluorð
  • Orð sem tíðbeygjast:
    • Sagnorð
  • Orð sem beygjast ekki:
    • Atviksorð
    • Forsetningar
    • Samtengingar
    • Nafnháttarmerki
    • Upphrópun

Opnir og lokaðir orðflokkar

[breyta]

Opnir orðflokkar kallast þeir orðflokkar sem geta bætt við sig nýjum orðum. Þessi orð gegna ákveðnu merkingarhlutverki í setningu (einnig kölluð inntaksorð) og gefa henni inntak. Opnir orðflokkar eru líkt og í nafninu felst opnir fyrir nýjum orðum, svo sem nýyrðum og eru ný orð sífellt að bætast við eftir því sem orðaforði okkar eykst. Andstæða opnu orðflokkanna eru lokaðir orðflokkar. Við lokuðu orðflokkana bætast ekki ný orð en orð þessarra flokka kallast einnig kerfisorð.

  • Til opnu orðflokkanna teljast; nafnorð, sagnir (nema hjálparsagnir), lýsingarorð og háttaratviksorð.
  • Til lokuðu orðflokkanna teljast; fornöfn, hjálparsagnir, atviksorð (nema háttaratviksorð), forsetningar, töluorð og samtengingar.

Nafnorð

[breyta]

Nafnorð eru fallorð og beygjast því í föllum. Föllin í íslensku eru fjögur; nefnifall, þolfall, þágufall og eignarfall. Nefnifall er gjarnan nefnt aðalfall en hin föllin aukaföll. Dæmi:

  • Nf. (hér er) dagur
  • Þf. (um) dag
  • Þgf. (frá) degi
  • Ef. (til) dags

Flest fallorð eru til í eintölu og fleirtölu (tölubeyging). Dæmi:

  • Et. dagur
  • Ft. dagar

Til eru orð í málinu sem eingöngu eru notuð í annarri tölunni. Dæmi:

  • Eintöluorð: Sykur
  • Fleirtöluorð: Buxur

Sérhvert nafnorð hefur ákveðið kyn, þ.e. málfræðilegt kyn. Í íslensku er þrjú kyn: karlkyn , kvenkyn og hvorugkyn. Dæmi:

  • Kk. dagur
  • Kvk. nótt
  • Hk. ljós

Nafnorð teljast til opnu orðflokkanna eða inntaksorða. Með því er átt að nafnorð gegna ákveðnu merkingarhlutverki í setningu og gefa henni inntak.

Langflest nafnorð geta bætt við sig greini. Dæmi:

  • dagur (án greinis)
  • dagur -inn (með ákveðnum greini)

Samantekt um einkenni nafnorða:

  • Setningarleg einkenni:Nafnorð geta haft mismunandi setningarstöðu en hafa þó oftast stöðu frumlags eða andlags í setningu.
  • Merkingarleg einkenni:Nafnorð eru heiti einhvers.
  • Beygingarleg einkenni:Nafnorð beygjast í kyni, tölu, föllum og bæta við sig viðskeyttum greini.

Sagnorð

[breyta]

Sagnorð tíðbeygjast og er það eitt skýrasta einkenni þeirra. Til að tákna liðinn tíma notum við þátíð en annars nútíð. Dæmi:

  • Hún fer (nútíð)
  • Hún fór (þátíð)

Sagnorð persónubeygjast einnig. Í íslensku eru þrjár persónur; 1. persóna, 2.persóna og 3. persóna í eintölu og fleirtölu. Dæmi:

  • 1.p. ég/við
  • 2.p. þú/þið
  • 3.p. hann,hún,það/þeir, þær, þau

Með persónubeygingu er átt að við að sagnorð taka á sig mismunandi form eftir því hvert frumlagið er (þ.e. hver er að verki). Dæmi:

  • ég fer
  • þú ferð
  • hann fer

Sagnorð tölubeygjast einnig, þ.e. þau hafa mismunandi form eftir því hvort frumlagið er í eintölu eða fleirtölu. Dæmi:

  • Eintala:
    • ég fer
    • þú ferð
    • hann 'fer
  • Fleirtala:
    • við förum
    • þið farið
    • þeir fara

Hættir sagnorða eru 6 talsins í íslensku; 3 persónuhættir og 3 fallhætir. Persónuhættir eru eftirfarandi:

  • Framsöguháttur (fh.)
    • Dæmi:
    • ég fer/ég fór
  • Viðtengingarháttur (vh.)
    • Dæmi:
    • ég fari/ég færi
  • Boðháttur (bh.)
    • farðu/farið

Fallhættir eru eftirfarandi:

  • Nafnháttur (nh.)
    • Dæmi:
    • að fara
  • Lýsingarháttur þátíðar (lh.þt.)
    • Dæmi:
    • hef farið/var farið
  • Lýsingarháttur nútíðar (lh.nt.)
    • Dæmi:
    • farandi

Sagnorð hafa ýmist veika eða sterka beygingu. Sagnorð sem hafa endinguna -ði-, -di-, -t- í þátíð eintölu 1. persónu eru veikar. Flest sagnorð í íslensku hafa veika beygingu. Dæmi:

  • ég keyrði
  • ég lamdi
  • ég sótti

Sterkar sagnir eru endingarlausar í þátíð 1. persónu et. Sterkar sagnir eru aðeins eitt atkvæði. Dæmi:

  • ég svaf
  • ég leit

Samantekt um einkenni sagnorða:

  • Setningarleg einkenni: Sagnorð skipa jafnan annað sætið í setningu, sé miðað við eðlilega orðaröð (FSA: fumlag-sögn-andlag).
  • Merkingarleg einkenni: Sagnorð lýsa verknaði eða ástandi.
  • Beygingarleg einkenni: Sagnorð tíðbeygjast en beygjast einnig í persónu, tölu og hætti.

Lýsingarorð

[breyta]

Lýsingarorð eru fallorð en beygjast að auki í kyni og tölu (et. og ft.) og stigbreytast. Lýsingarorð lýsa ástandi eða kveða nánar á um eiginleika einhvers. Lýsingarorð hafa ýmist sterka eða veika beygingu. Veikbeygt lýsingarorð endar á sérhljóði í öllum föllum et. og ft. Lýsingarorð sem standa með nafnorði með ákveðnum greini hafa oftast veika beygingu. Hins vegar hafa lýsingarorð sem standa með nafnorðum án greinis yfirleitt sterka beygingu. Dæmi:

  • Stóri maðurinn (veik beyging)
  • Stór maður (sterk beyging)

Stigbreyting nefnist það þegar lýsingarorð bæta við sig viðskeytum til að gefa til kynna mismunandi stig þess orðs sem þau tilgreina. Um þrjú stig er að ræða; frumstig, miðstig og efsta stig. Stigbreytingin er regluleg ef stigin eru mynduð af sama stofni líkt og i eftirfarandi dæmi. Dæmi:

  • Fst. sætur
  • Mst. sætari
  • Est. sætastur

Með óreglulegri stigbeygingu er átt við að miðstig og efsta stig er myndað af öðrum stofni en frumstig. Dæmi:

  • Fst. góður
  • Mst. betri
  • Est. bestur

Samantekt um einkenni lýsingarorða:

  • Setningarleg einkenni: Lýsingarorð standa sem ákvæðisorð með nafnorðum, sem einkunn eða sagnfylling.
  • Merkingarleg einkenni: Lýsingarorð lýsa ástandi eða eiginleikum.
  • Beygingarleg einkenni: Lýsingarorð beygjast í kyni, tölu og falli auk þess sem þau stigbreytast.

Fornöfn

[breyta]

Fornöfn eru fallorð og beygjast jafnan í kyni, tölu og falli. Þau koma gjarnan í stað nafna, nafnorða eða nafnliða. Þó hafa ekki allir flokkar fornafna þessi einkenni og er þeim skipt í eftirfarandi undirflokka eftir einkennum.

  • Persónufornöfn (pfn.).
    • Dæmi:
    • ég
    • þú
    • hann/hún/það
  • Ábendingarfornöfn (áfn.)
    • sá/sú/það
    • þessi/þessi/þetta
    • hinn/hin/hitt
  • Eignarfornöfn (efn.)
    • Dæmi:
    • minn/mín/mitt
    • þinn/þín/þitt
    • vor/vort/vort
  • Afturbeygð fornöfn (afn.)
    • Dæmi:
    • sig/sinn
    • sín/sitt
  • Spurnarfornöfn (spfn.)
    • hver/hver/hvert
    • hvor/hvor/hvort
    • hvaða
  • Óákveðin fornöfn (ófn.)
    • Dæmi:
    • annar
    • fáeinir
    • enginn
    • neinn
    • ýmsir
    • báðir
    • sérhver
    • hvorugur
    • sumur
    • hver
    • einn
    • hvor
    • nokkur
    • einhver

Samantekt um einkenni fornafna:

  • Setningarleg einkenni: Fornöfn standa gjarnan í sama hluta setninga og nafnorð, ýmist með þeim eða sér.
  • Merkingarleg einkenni: Þau eru mjög mismunandi eftir um hvaða fornafn ræðir.
  • Beygingarleg einkenni: Fornöfn beygjast í kyni, tölu og falli.

Atviksorð

[breyta]

Atviksorð beygjast ekki. Þau kveða nánar á um sagnorð, lýsingarorð og önnur atviksorð. Þau segja til um hvernig eitthvað er gert (háttaratviksorð), hvar eitthvað gerist (staðaratviksorð), hvenær það gerist (tíðaratviksorð) og eru notuð til áherslu (áhersluatviksorð). Spurnaratviksorð hefjast ávallt á hv-. Þau eru notuð í beinum og óbeinum spunarsetningum. Dæmi:

  • Háttaratviksorð.
    • Dæmi:
    • vel, illa, vandlega, hægt, svona.
  • Staðaratviksorð.
    • Dæmi:
    • heima, hérna (kyrrstaða).
    • hingað, þangað (stefna).
  • Tíðaratviksorð.
    • Dæmi:
    • nú, núna, síðar, oft.
  • Áhersluatviksorð.
    • Dæmi:
    • mjög, ógeðslega, rosalega.
  • Spurnaratviksorð.
    • Dæmi:
    • hvaðan, hvar, hvert, hvenær, hvaða, hvernig, hví, hversu.

Samantekt um einkenni atviksorða:

  • Setningarleg einkenni: Atviksorð minna gjarnan á lýsingarorð en hafa ólíka stöðu í setningu.
  • Merkingarleg einkenni: Atviksorð hafa misjafna merkingu eftir flokkum.
  • Beygingarleg einkenni: Atviksorð eru óbeygð.

Töluorð

[breyta]

Töluorð eru fallorð sem tákna tölu og skiptast í frumtölur og raðtölur. Dæmi:

  • Frumtölur:
    • einn
    • tveir
    • þrír

o.s.frv.

  • Raðtölur:
    • fyrsti
    • annar
    • þriðji

Samantekt um einkenni töluorða:

  • Setningarleg einkenni: Töluorð geta staðið með nafnorðum eða sér.
  • Merkingarleg einkenni: Töluorð tákna tölu eða röð.
  • Beygingarleg einkenni: Töluorð fallbeygjast og sambeygjast því nafnorði sem þau standa með.

Greinir

[breyta]

Í íslensku er eingöngu til ákveðinn greinir og er hann oftast viðskeyttur og sambeygist nafnorðinu sem hann sendur með, í kyni, tölu og falli. Dæmi:

  • maður-inn (kk.)
  • kona-n (kvk.)
  • barn-ið (hk.)

Stundum er greinirinn laus og stendur þá á undan lýsingarorði sem er hliðstætt nafnorði (hinn-hin-hið). Dæmi:

  • hinn græni dalur
  • hin góða stúlka
  • hið fallega land

Forsetningar

[breyta]

Forsetningar eru óbeygjanlegar og taka því engum formbreytingum. Aðaleinkenni þeirra er að þær stýra falli á fallorðum sem þær standa með, eru stýriorð. Dæmi:

  • Hann kemur í dag.
  • Hún er hjá systur sinni.
  • Hann gengur upp stigann.

Sumar forsetningar geta stýrt tveimur föllum, annars vegar þolfalli og hins vegar þágufalli. Þegar um slíkt er að ræða er merkingarmunur á setningum eftir falli. Dæmi:

  • Stúlkan fer í bæinn (þf.)
  • Stúlkan er í bænum (þgf.)

Samantekt um einkenni forsetninga:

  • Setningarleg einkenni: Forsetningar stýra föllum.
  • Merkingarleg einkenni: Forsetningar hafa engin sérstök merkingarleg einkenni forsetninga en hins vegar skiptir gjarnan máli merkingarlega hvort forsetning stýrir þolfalli eða þágufalli, ef hvoru tveggja er mögulegt.
  • Beygingarleg einkenni: Forsetningar taka engum formbreytingum, þ.e. beygjast ekki.

Samtengingar

[breyta]

Líkt og í nafninu felst tengja samtengingar saman setningar eða setningarliði. Dæmi:

  • Ása og Dísa.
  • Gunna er dökkhærð en Sigga ljóshærð.

Samteningum er skipt í aðaltengingar og aukatengingar. Aðaltengingar tengja aðalsetningar, sbr. dæmin hér að ofan en aukatengingar tengja aukasetningar við móðursetningar sínar.

Dæmi um aukatengingar:

  • skýringartenging: að
  • tilvísunartenging: sem
  • skilyrðistenging: nema, ef
  • spurnartenging: hvort
  • tíðartenging: meðan, þegar

Nafnháttarmerki

[breyta]

Nafnháttarmerkið stendur einungis með nafnhætti sagnorða. Dæmi:

  • Hún ákvað fara.
  • Hann sagði mér ljúka við uppvaskið.

Krossapróf

[breyta]

1 Hvaða orðflokki tilheyrir „gesti“ í textanum?
Mér þykir gaman að fá gesti

Sagnorð
Samtenging
Nafnorð
Nafnháttarmerki

2 Hvert er eitt aðaleinkenni forsetninga?

Þær beygjast í föllum, kynjum og tölu.
Þær stýra falli.
Þær tíðbeygjast.
Þær lýsa alltaf verknaði.

3 Jón fer að hátta.
Í undanfarandi setningu er „að“:

Nafnháttarmerki
Samtenging
Límorð
Stýriorð

4 Hvaða orðflokki tilheyrir orðið „mjög“ í eftirfarandi setningu?:
Gunna er mjög dugleg að lesa.

Flokki nafnorða
Flokki sagnorða
Flokki fornafna
Flokki atviksorða

5 Þessi orð geta bætt við sig greini:

Sagnorð
Lýsingarorð
Forsetningar
Nafnorð


Sama Krossapróf á hot potatos formi

Heimildir

[breyta]
  • Björn Guðfinnsson, 1958. Íslensk málfræði, 5. útgafa. Reykjavík
  • Höskuldur Þráinsson, 1995. Handbók um málfræði. Reykjavík
  • Þórunn Blöndal, 1997. Almenn málfræði. Reykjavík.

Ítarefni

[breyta]