Norræn goðafræði
Þetta námsefni er ætlað sem hluti af kennslu í norrænni goðafræði fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla.
Heimildir
[breyta]Norræn goðafræði er samnefni yfir goðafræði þeirra heiðnu trúarbragða sem voru áður fyrr iðkuð á Norðurlöndum öllum og áhrifasvæðum þeirra. Norræn goðafræði hafði aldrei neitt höfuðrit og átrúnaðurinn var líklega ekki mjög formfastur. Helstu heimildir um goðafræðina eru nokkur rit, flest rituð á Íslandi eftir að kristni var lögtekin. Það eru helst Eddukvæði, sem sagt er að Sæmundur fróði hafi tekið saman, en eru þó líklega mun eldri að uppruna (og þar með frá tímum þeim er trúin var iðkuð) og rit eftir Snorra Sturluson til dæmis Snorra-Edda.
Heimsmynd norrænna manna
[breyta]Lítið er vitað um heimsýn norrænna manna en margt bendir til að norrænir menn hafi talið jörðina hnöttótta. Jörðin var sögð sköpuð af Óðni, Vilja og Vé úr líkama jötunsins Ýmis. Himinkringlan var sköpuð úr höfuðkúpu hans, sjórinn úr blóði hans, fjöllin úr beinunum og þar fram eftir götunum. Í gegnum miðjan heiminn kom tréð Askur Yggdrasils. Ein rót þess var í Niflheim, sem voru eins konar undirheimar, þangað sem flestir fóru þegar þeir dóu. Þar var ríki Heljar. Önnur rót trésins var þar fyrir ofan, á jörðinni, með Miðgarði, ríki mannanna. Frá jörðinni lá regnbogabrú upp til himna, Bifröst. Þar var goðið Heimdallur tilbúinn að vara hin goðin við innrás. Uppi á himnum var aðsetur ása, Ásgarður og þriðja rót Yggdrasils.
Askur Yggdrasils
[breyta]Askur Yggdrasils er tré sem í norrænni goðafræði stendur upp í gegnum heiminn allan. Hver hlutur hans nær í hvern hluta heimsins. Brunnarnir þrír, sem rætur Asks Yggdrasils liggja ofan í, eru Urðarbrunnur í Ásgarði, Mímisbrunnur í Jötunheimum og Hvergelmir í Niflheimum en þar nagar Níðhöggur Ask Yggdrasils. Í Ásgarði var Askur vökvaður af skapanornunum Urði, Verðandi og Skuld sem ausa yfir tréð, einu sinni á dag, vatni sem á að halda trénu frá því að fúna eða visna. Í greinum Asks Yggdrasils er að finna margar skepnur, meðal annars örn, íkornann Ratatosk, hana og fleiri. Ekki er vitað með vissu hver merking nafnsins Yggdrasill er. En talið er helst að Yggdrasill þýði hestur eða hestur Óðins, því Yggur er eitt af dulnefnum Óðins og drasill annað orð yfir hestur (drösull). Ein kenning á veraldartrénu er hestur hengda mannsins. Þegar Óðinn vildi ráða leyndarmál rúna, og töfratákna sem skrift er runnin frá, þurfti hann að líða miklar þjáningar með því að hanga í snöru á grein trésins yfir ómælisdjúpinu í níu nætur. Að því loknu var leyndardómi rúnanna lokið upp fyrir honum.
Goð
[breyta]Goð skiptast í tvær fylkingar, æsi og vani. Ættfaðir ása er Óðinn, sonur Bors og Bestlu. Óðinn er æðstur guðanna, hann er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn er andinn og lífskrafturinn í öllu sem hann skapaði. Óðinn getur haft hamskipti hvenær sem er og sent anda sinn í fugls- eða dýrslíki í sinn stað hvert sem er. Óðinn getur ferðast til dauðraheims ef honum hentar og átti hann spjót sem gerði honum fært að ráða gangi bardaga og því var gott að heita á hann í stríði.
Óðinn ferðast á áttfættum hesti sem heitir Sleipnir og tveir úlfar fylgja honum, sem bera nöfnin Geri og Freki. Óðinn á einnig tvo hrafna Huginn og Muninn sem flytja honum tíðindi. Óðinn var sífellt að sækjast eftir meiri visku og fékk hann að drekka úr Mímisbrunni í skiptum fyrir annað auga sitt.
Þór
[breyta]Þór er sonur Jarðar og Óðins og er bæði sterkastur allra ása og mest dýrkaður. Þór er verndari bæði ása og manna. Hamar Þórs er tákn þrumu og eldinga og skulfu himnarnir þegar hann reið um himinhvolfið svo klettar og fjöll brustu. Kona Þórs er Sif og börn þeirra eru Þrúður og Móði en einnig á Þór soninn Magna með jötunmeynni Járnsöxu.
Þór á nokkra dýrgripi sem einkenna hann. Fyrst má nefna vagn sem hann ferðast á en hann er dreginn af tveimur höfrum sem heita Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Á ferðum sínum át Þór oft hafra sína til kvöldverðar, safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og það fylgja honum bæði þrumur og eldingar. Aðrir dýrgripir í eigu Þórs eru megingjörð, járnglófar og stafurinn Gríðarvölur sem hann fékk hjá gýginni Gríði. Merkasti gripurinn er þó hamarinn Mjölnir sem er máttugasta vopn hans í baráttunni við jötna og jafnframt tákn Þórs. Mjölnir eða Þórshamarinn er nú eitt helsta tákn heiðinna manna.
Æsir | Ásynjur | Vanir | Jötnar | Skepnur | Aðrar verur |
---|---|---|---|---|---|
Óðinn | Frigg | Njörður | Ýmir | Auðhumla | Askur og Embla |
Þór | Iðunn | Freyja | Bor | Fenrisúlfur | Urður, Verðandi og Skuld |
Baldur | Sif | Freyr | Bestla | Sleipnir | Dvergar |
Loki | Angurboða | Miðgarðsormur | Álfar | ||
Höður | Skaði | Heiðrún | |||
Bragi | Hel | Tanngnjóstur og Tanngrisnir | |||
Mímir | Ægir | Huginn og Muninn |
Spurningar
[breyta]- Í hvaða ritum er að finna helstu heimildir um norræna goðafræði og hverjir rituðu þær?
- Úr hverju var jörðin sköpuð samkvæmt norrænni goðafræði?
- Hvert er hlutverk róta í trénu Yggdrasil?
- Hvert var hlutverk Urðar, Verðandi og Skuldar?
- Hvað er talið að Yggdrasil þýðir?
- Hvaða skepnur átti Óðinn?
Krossapróf
[breyta]
Heimildir
[breyta]Norræn goðafræði - grein á wikipedia
Askur Yggdrasils - grein á wikipedia
Þrumuguðinn Þór - grein á wikipedia
Tenglar
[breyta]
Youtube myndbönd um norræna goðafræði á ensku:
- Norræn goðafræði - 1. hluti - Sköpunin
- Norræn goðafræði - 2. hluti - Hinir níu heimar
- Norræn goðafræði - 3. hluti - Vikudagarnir
- Norræn goðafræði - 4. hluti - Dauði Baldurs
- Norræn Goðafræði - 5. hluti - Börn Loka
- Norræn goðafræði - 6. hluti - Þór í líki kvenmanns
- Norræn goðafræði - 7. hluti - Brísingamen Freyju
- Norræn goðafræði - 8. hluti - Útgarða-Loki 1. hluti
- Norræn goðafræði - 9. hluti - Útgarða-Loki 2. hluti
- Norræn goðafræði - 10. hluti - Hefnd ásanna
- Norræn goðafræði - 11. hluti - Ragnarök