Munur sterkra og veikra sagna í íslensku
Íslenskar sagnir skiptast í nokkra flokka. Þær skiptast líka í persónulegar og ópersónulegar sagnir.
Flokkar sagna eru:
Hér verður aðeins fjallað um veikar og sterkar sagnir og munur þessara flokka útskýrður.
Beyging sagna
[breyta]Þegar kemur að beygingu sagna er gjarnan talað um sagnbeygingu. Í því sambandi skiptir máli hvaða flokki sögnin tilheyrir. Það þarf líka að muna eftir ópersónulegu sögnunum sem beygjast ekki eftir persónum.
Þegar talað er um beygingu sagna er átt við tíð, persónu, tölu, hætti og mynd.
Hér verður aðeins talað um sagnir í framsöguhætti. Þær beygjast eftir:
- tíðum; nútíð og þátíð. Í hefðbundinni kennslu í málfræði er þetta kallað tíðbeyging sagna.
- persónum (1. persóna, 2. persóna, 3. persóna)
- og tölu (eintala og fleirtala)
Beygingarflokkar sterkra og veikra sagna
[breyta]- Hvað er það sem ræður því hvaða flokki sagnir tilheyra?
- Hvernig er hægt að finna út úr því hvort sögn er veik eða sterk?
Í grundvallaratriðum er munur sterkra og veikra sagna sá að veikar sagnir hafa endingu í 1. persónu, eintölu en sterkar hafa það ekki.
Hér er dæmi sem sýnir þetta en a-sagnir og i-sagnir eru veikar sagnir en 0-sagnir eru sterkar.
a-sagnir | i-sagnir | 0-sagnir | |
---|---|---|---|
Nútíð | ég skrifa | ég keyri | ég vinn |
Þátíð | ég skrifaði | ég keyrði | ég vann |
Það sem kemur fram í þessari töflu er skýrt betur hér á eftir.
Veikar sagnir
[breyta]Veikar sagnir skiptast í tvo undirflokka: a-sagnir og i-sagnir. Stundum kallaðir regla *1 og regla *2.
a-sagnir er mjög stór og reglulegur undirflokkur veikra sagna. Það er líka auðveldast að læra hann bæði fyrir börn á máltökustigi og fyrir þá sem eru að læra íslensku sem annað mál. Heitið er dregið af því að sagnirnar sem tilheyra þessum flokki enda á a í 1. persónu, eintölu í nútíð. Sagnir í þessum flokki hafa ekki aðeins reglulega beygingu í nútíð heldur er þátíðarabeygingin líka mjög regluleg.
Tíðbeygingin er eitt af meginein
Nútíð | Þátíð | |
---|---|---|
Eintala | ||
ég | skrifa | skrifaði |
þú | skrifar | skrifaðir |
hann/hún/það | skrifar | skrifaði |
Fleirtala | ||
við | skrifum | skrifuðum |
þið | skrifið | skrifuðuð |
þeir/þær/þau | skrifa | skrifuðu |
i-sagnir er líka nokkuð stór undirflokkur veikra sagna en vegna þátíðarinnar er hann ekki jafn auðveldur. Flokkurinn er kallaður i-sagnir vegna þess að sagnirnar sem tilheyra honum enda á i í 1, persónu, eintölu í nútíð.
Þátíðarendingarnar eru -ði, -di og -ti og fer það eftir stofni sagnorðsins hver þátíðarendingin er. Stofn sagna finnst í nafnhætti. Nafnháttur sagnarinnar ég keyri er að keyra. Stofn hennar finnst með því að taka a aftan af nafnhættinum. Stofn hennar endar því á r sem gerir það að verkum að þátíðarending hennar er -ði
Nútíð | Þátíð | |
---|---|---|
Eintala | ||
ég | keyri | keyrði |
þú | keyrir | keyrðir |
hann/hún/það | keyrir | keyrði |
Fleirtala | ||
við | keyrum | keyrðum |
þið | keyrið | keyrðuð |
þeir/þær/þau | keyra | keyrðu |
Þátíð i-sagna
[breyta]Börn sem læra íslensku á máltökuskeiði gætu ef til vill sagt að einhver "keyraði" út í búð í gær. Hins vegar er ólíklegt að þau segðu "keyrdi" eða "keyrti". Það getur aftur á móti verið mjög ruglingslegt fyrir þann sem er að læra íslensku sem annað mál að átta sig á því hvenær á að nota þátíðarendinguna -ði, -di og -ti. Það er kannski ólílegt að vandamálið komi upp í sambandi við sögnina að keyra þar sem hún er það algeng í tungumálinu. Þar af leiðandi heyrir sá sem er að læra tungumálið orðið svo oft að það er ólíklegra að hann eigi í erfiðleikum með að tileinka sér rétta beygingu þess.
Tafla með yfirliti yfir þátíðarendingar i-sagna eftir stofni þeirra
-ði | -di | -ti |
---|---|---|
Ø (strá,trúa) | ð (klæða, veiða) | rð (herða, virða) |
f (horfa,æfa) | nd (senda) | nd (henda, synda) |
g/gg (segja, byggja) | ng (hengja, hringja) | nn (nenna) |
r (læra, gera) | m/mm (geyma, skemma) | rn (spyrna) |
n/nn (reyna, brenna) | k/kk (kveikja, þekkja) | |
l/ll (hvíla/fella) | ll (hella) | |
gl (sigla/negla) | p/pp (kaupa, klippa) | |
fl (tefla) | s/ss (brosa,kyssa) | |
t (mæta, skreyta) | ||
st/ft (hrista, lyfta) |
Þó þessi talfa geti verið gagnleg gefur hún ekki tæmandi yfirlit né útskýrir allt sem viðkemur þátíð i-sagna. Hér eru nokkrar ástæður:
- Í mörgum tilfellum er þátíðarendingin -ti borin fram eins og -di.
- Einstaka sögn er eins í nútíð og þátíð og á því til dæmis við um sagnirnar að senda og að fletta.
- Það eru líka til sangir sem eru sterkar í nútíð en beygjast eins og i-sagnir í þátíð. Dæmi um slíka sögn er sögnin að flytja.
Sterkar sagnir
[breyta]Þó sterkar sagnir hafi enga endingu í 1. persónu þá eru þær flóknari. Ástæðan eru svokallaðar hljóðbreytingum, sem eru annars vegar hljóðvarp og hins vegar hljóðskipti, sem koma fram í kennimyndum sterkra sagna. Þessar hljóðbreytingar þýða það að sérhljóðið í stofni sagnarinnar breytist.
Sumar sterkar sagnir eru auðlærðari af því að stofnsérhljóðið heldur sér í nútíðinni. Þetta á til dæmis við um sagnirnar sem hafa i, í, e og æ í stofninum. Sem dæmi eru sagninar að vinna, að bíða, að lesa og að hlæja. Það sem flækir málin, að minnsta kosti fyrir þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál, er að þegar kemur að 2. og 3. persónu í eintölunni er beyging sterkra sagna ekki alveg eins. Til að aðgreina þessar mismunandi beygingarendingar er sterkum sögnum gjarnan skipt niður í reglu *3, *4 og *5 í kennslu íslensku sem annars máls.
*3 | *4 | *5 | |
---|---|---|---|
ég | vinn | hlæ | spyr/les |
þú | vinnur | hlærð | spyrð/lest |
hann/hún/það | vinnur | hlær | spyr/les |
Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan er eintölubeyging sterkra sagna í nútíð fjölbreyttari en svo að það verði gerð grein fyrir henni á einfaldari hátt.
Hljóðbreytingar sterkra sagna í nútíð
[breyta]Eitt af megineinkennum sterkra sagna er það að stofnsérhljóðið breytist við beygingu. Hljóðbreytingin sem kemur fram í nútíðinni er kölluð i-hljóðvarp í málfræðinni.
Sum þeirra eru mjög algeng eins og að a>e eins og í sögninni að fara*5 sem verður ég fer í nútíðinni. Önnur eru sjaldgæfari og jafnvel einstök eins og o>æ eins og í sögninni að þvo*4 sem verður ég þvæ í nútíðinni.
Þátíð sterkra sagna
[breyta]Það hefur þegar verið bent á tvö atriði sem greina sterkar sagnir frá þeim veiku. Þegar kemur að þátíðinni bætist það þriðja við. Einkennin sterku sagnanna eru að:
- þær hafa enga endingu í 1. persónu
- stofnsérhlóðið breytist gjarnan í eintölu, nútíð (hljóðvarp)
- hljóðbreytingar verða líka í þátíðinni (hljóðskipti)
Eins og bent var á hér á undan þá breytast sterku sagnirnar sem hafa i, í, e og æ í stofni ekkert í nútíðinni. Stofnsérhljóð þeirra og allra annarra sterkra sagna breytast hins vegar í þátíðinni. Þessar hljóðbreytingar eru kallaðar hljóðskipti og hafa verið settar fram í því sem er kallað hljóðskiptaraðir. Þeim hefur síðan verið skipað í flokka með tilliti til þess hversu algengar þær eru; það er hversu margar sagnir eru í hverri hljóðskiptaröð. Það er best að gera sér grein fyrir því við hvað er átt með því að skoða það sem er kallað kennimyndir sterkra sagna.
nafnháttur | þátíð eintölu | þátíð fleirtölu | lýsingarháttur þátíðar | ||
---|---|---|---|---|---|
Númer | hljóðskipti | að | ég ... í gær | við ... í gær | ég hef |
1 | í-ei-i-i/e | líta | leit | litum | litið |
bíða | beið | biðum | beðið | ||
2 | jó/jú-au-u-o | bjóða | bauð | buðum | boðið |
fljúga | flaug | flugum | flogið | ||
3 | e/i-a-u-u/o | detta | datt | duttum | dottið |
vinna | vann | unnum | unnið | ||
4 | e/o-a-á-o | bera | bar | bárum | borið |
sofa | svaf | sváfum | sofið | ||
5 | e/i-a-á-e | gefa | gaf | gáfum | gefið |
sitja | sat | sátum | setið | ||
6 | a-ó-ó-a/e | fara | fór | fórum | farið |
taka | tók | tókum | tekið | ||
7 | é-é | halda | hélt | héldum | haldið |
gráta | grét | grétum | grátið | ||
leika | lék | lékum | leikið |
Þó hér séu talin sjö dæmi um hljóðskipti þá gera þau ekki grein fyrir öllum hljóðskiptum sem verða í sterkum sögnum. Þar má meðal annara nefna sagnirnar: að hlaupa, að búa, og að syngja.
Spurningar
[breyta]- Hvað greinir veikar og sterkar sagnir í sundur?
- Hvað er átt við þegar talað er um tölu sagna?
- Hvaða sagnorðabeygingu er auðveldast að læra?
- Hvers vegna er þátíð i-sagna erfiðari en a-sagna?
- Nefndu a.m.k. fimm mismunandi dæmi um hljóðbreytingar (hljóðvarp eða hljóðskipti) sem verða í sterkum sögnum.
Krossapróf
[breyta]
Heimildir
[breyta]- Björn Guðfinnsson. (1989). Íslensk málfræði. Reykjavík, Námsgagnastofnun.
- Svanhildur Kr. Sverrisdóttir (2014). Málfinnur. Reykjavík, Málborg.
- Kristján Árnason. (1982). Íslensk málfræði. Reykjavík, Iðunn.
- Valtýr Guðmundsson. (1922). Islandsk Grammatik. Kaupmannahöfn, H. Hagerups Forlag.
- Þórunn Blöndal. (1990). Almenn málfræði. Reykjavík, Mál og menning.
Tengt efni
[breyta]Gagnlegir tenglar og myndbönd
[breyta]- Birna Arnbjörnsdóttir. (2009) Hver er besta aðferðin fyrir fullorðna sem vilja læra önnur tungumál? Vísindavefurinn
- Höskuldur Þráinsson (2014) Hvernig er best að kenna málfræði? Vísindavefurinn
- Ragnar Þór Pétursson (2012) Kennimyndir. You Tube
- Skólavefurinn. Hugtakasafn - Málfræði
- Stoðkennarinn. Nám og kennsla á netinu
- Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. (Ritsjóri: Kristín Bjarnadóttir)
(Höfundur: Rakel Sigurgeirsdóttir)