Meðganga

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Anna Ósk Ómarsdóttir

Þetta er wikibók um meðgöngu þar sem fjallað er um þroskaferil barns í móðurkviði, næringu og mataræði á meðgöngu og algeng óþægindi sem geta hrjáð hina verðandi móður. Námsefnið hentar vel sem viðbótarefni við líffræðikennslu, þroskasálfræði auk þess sem það er gagnleg fræðsla fyrir verðandi mæður.

Þunguð kona

Fósturþroski[breyta]

Fyrstu 4 vikurnar[breyta]

1. mánuður
5 daga fóstur

Dökkur blettur myndast á bakhlið fósturs sem seinna verður að hryggsúlu og hjartað byrjar að slá. Öll meiriháttar líffæri byrja að myndast og getur því tóbak, vímuefni og smitsjúkdómar haft skaðleg áhrif á fóstrið. Vissar frumur leggja drög að myndum húðar, vöðva og æða. Í lok 4. viku er fóstrið um 4 mm að lengd og minna en 1 gramm að þyngd.


5. til 8. vika[breyta]

2. mánuður
6 vikna fóstur

Hjartsláttur fóstursins er 140-150 slög á mínútu. Líkaminn fer að lengjast og réttast en höfuðið er mun stærra en líkaminn. Öll líffæri eru komin í ljós og fóstrið bregst við snertingu. Hendur hafa sundfit og vísir að eyrum sést. Í lok 8. viku er fóstrið um 2,5 sm að lengd (mælt frá hvirfli að rassi) og 3 grömm að þyngd.


9. til 12. vika[breyta]

3. mánuður
10 vikna fóstur

Fóstrið hefur tekið á sig mannsmynd, beinvefur kemur í stað brjósks og komnir eru vísar að 32 fullorðinstönnum. Hjartað fullmótast. Fóstrið kippist til, það hreyfir útlimi og fær stundum hiksta. Augnlok, og innri kynfæri byrja að myndast. Fingur og tær fara að líkjast höndum og fótum auk þess sem nasir og táragöng verða til. Innri og ytri eyru mótast. Tær og fingur missa sundfitin. Í lok 12. viku er fóstrið um 9 sm að lengd og 48 grömm að þyngd.


13. til 16. vika[breyta]

4. mánuður
Sónarmynd af 16 vikna fóstri

Barnið er farið að sjúga, kyngja og gera öndunaræfingar. Æðar og bein sjást því húð barnsins er gegnsæ. Bragðlaukar byrja að myndast og eyrun eru orðin fullsköpuð. Lungun byrja að þroskast þar sem barnið ,,andar" að sér legvatninu. Barnið er komið með neglur, eitthvað hár og andlitsdrættir farnir að skýrast. Barnið getur hreyft fingur og tær, fósturhár byrja að vaxa á líkama og táneglur myndast. Í lok 16. viku er barnið um 13,5 sm að lengd og 180 grömm að þyngd.


21. til 24. vika[breyta]

6. mánuður

Lungnapípur þroskast og vísir að heilabylgjum koma fram sem sýna einkenni svefns og vöku. Barnið heyrir hljóð að utan en augu þess eru ennþá lokuð. Augabrúnir eru komnar á höfuðið. Barnið hreyfir sig mikið og getur farið í kollhnís. Skilningarvit barnsins vakna til lífsins. Ef barnið fæðist á þessu stigi, hefur það litla lífsmöguleika. Í lok 24. viku er barnið 25 cm að lengd og tæpt 1 kíló að þyngd.


25. til 28. vika[breyta]

7. mánuður

Barnið fer að samsvara sér vel og líkist nýfæddu barni. Það er búið að koma sér upp sínu eigin svefnmynstri. Barnið nær stjórn á eigin líkamshita, hvít fita hleðst upp undir húðinni. Barnið getur fundið lykt og greint birtu í gegnum augnlokin. Í lok 28. viku byrja augun að opnast. Í lok 28. viku er barnið um 28 sm að lengd og vegur 1,5 kíló.


29. til 32. vika[breyta]

8. mánuður

Barnið hefur bætt á sig og verður bústnara. Hikstinn verður meira áberandi. Það skorðar sig, getur fest sjónir á hlutum og deplað augunum. Lungun eru enn að þroskast og ef barnið myndi fæðast myndi það eiga í öndunarerfiðleikum þrátt fyrir góða lífsmöguleika. Í lok 32. viku er barnið 32 sm að lengd og 2,5 kg að þyngd.


33. til 38. vika[breyta]

9. mánuður
Fóstur 40 vikna

Barnið er reiðubúið til fæðingar, lungun eru orðin fullþroskuð og öll brún fita er horfin. Eistu sveinbarna eru gengin niður en eggjastokkar meybarna þokast á sinn endanlega stað eftir fæðingu. Barnið fer að undirbúa sig fyrir lífið utan legsins: það æfir sig að sjúga, gerir öndunaræfingar, snýr höfðinu, tekur utan um það sem það nær í og réttir úr fótunum. Fósturhárin detta af. Í lok 38. viku er barnið um 35-37 sm að lengd og vegur 3-4 kíló.


Algeng óþægindi[breyta]

Morgunógleði[breyta]

Lasleiki og ógleði sem veldur stundum uppköstum. Einkennin koma helst fram á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar. Orsökina má rekja til lágs blóðsykurs auk þess sem meðgönguhormón geta ert magann og valdið ógleði.

Bakverkur[breyta]

Óþægindi neðarlega í mjóhrygg sem stundum leiðir niður í rass og fætur. Orsökina er að finna í mikilli framleiðslu prógesterons (meðgönguhormón) sem hefur þann tilgang að mýkja liðbönd í mjaðmagrind til að auðvelda fæðingu. Liðbönd hryggjarins slakna einnig sem veldur auknu álagi á bak og mjaðmir.

Brjóstsviði[breyta]

Sviðatilfinning rétt undir bringubeininu og oft fylgir súrt bragð í munni. Kemur oftast þegar maður liggur fyrir, hóstar eða rembist. Orsökina má rekja til þess að snemma á meðgöngu slaknar á hringvöðva við magaopið (vegna meðgönguhormóna). Þess vegna kemst súrt magainnihald upp í vélindað og veldur sviðatilfinningu. Á síðari hluta meðgöngunnar getur barnið þrýst innihaldi magans upp í vélindað.

Hár blóðþrýstingur[breyta]

Einkenni geta verið höfuðverkur, sjóntruflanir og uppköst. Vökvi safnast fyrir og bjúgur getur myndast á höndum, fótum og ökklum. Getur boðað fæðingarkrampa. Einkennin geta komið fram á öllum stigum meðgöngunnar. Orsökin er ekki að fullu kunn en hjá sumum konum framleiða frumur í fylgjunni efni sem veldur æðaþrengslum auk þess sem nýrun halda eftir salti sem aftur veldur vökvasöfnun í vefjum (bjúg).



Svefnleysi[breyta]

Andvökur á næturna, þreyta og pirringur á daginn. Getur þjakað ófrískar konur hvenær sem er á meðgöngu. Orsökina er að finna í efnaskiptum barnsins sem heldur áfram þó móðirin vilji sofa. Aðrar orsakir: nætursviti og tíðar klósettferðir.


Geðsveiflur[breyta]

Skapsveiflur sem eru ekki dæmigerðar fyrir viðkomandi. Oft óútskýranleg grát- og kvíðaköst. Algengastar á þriðja hluta meðgöngu. Orsökina má rekja til þess að hormónabreytingar geta haft þrúgandi áhrif á taugakerfið. Aðrar orsakir: breytt sjálfsímynd vegna meðgöngunnar.

Brjóstaeymsli[breyta]

Viðkvæm og sár brjóst ásamt þyngslakennd, óþægindum og stingjum í geirvörtum eru oft fyrstu einkenni þess að vera barnshafandi. Brjóstin eru viðkvæm alla meðgönguna. Ástæðan er sú að hormónin eru að undirbúa brjóstin fyrir mjólkurframleiðslu.

Sinadráttur[breyta]

Skyndilegur og sár verkur í fæti (læri eða kálfa) og oft vill eima lengi eftir af sársaukanum. Algengast á síðasta þriðjungi meðgöngu. Orsökina má finna í lágu kalkmagni í blóði eða saltleysi.

Hægðatregða[breyta]

Þurrar og harðar hægðir sem erfitt er að losa sig við. Getur komið á öllum stigum meðgöngu. Orsökina má finna í því að meðgönguhormón slaka á vöðvum í iðraveggjum þannig að samdrættirnir sem ýta fæðunni áfram í iðrunum verða færri og kraftminni. Vökvatap úr hægðunum verður því meira en vanalega sem gerir þær þurrari og harðari.


Næring og mataræði[breyta]

Eggjahvítuefni[breyta]

Eggjahvítuefni er eitt mikilvægasta næringarefni fyrir barnið. Það er aðalbyggingarefni frumna og vefja sem svo mynda bein, vöðva, bandvef og veggi margra líffæra. Besti eggjahvítugjafinn er kjöt, fiskur og kjúklingur.

Kolvetni[breyta]

|

Hitaeiningaþörf móður eykst um 300-500 kalóríur á dag á meðgöngu og ætti móðirin að fá þær úr vel völdu fæði. Sykur er einfalt kolvetni sem fer fljótt út í blóðið og veitir orku með skjótum hætti. Kolvetni er einnig hægt að fá úr sterkju sem er samsett kolvetni sem finnst í kornvörum, kartöflum, baunum og ertum.


Vítamín[breyta]

Vítamín og málmsölt fást helst úr grænmeti og ávöxum og eru nauðsynleg fyrir heilsuna. Grænmetisblöð, gult og rautt grænmeti og ávextir eru rík af járni, sinki, magnesium og A, E og B6 vítamínum. Auk þess er gott að borða brokkolí, spínat, gulrætur, tómata, banana, apríkósur og kirsuber. A-vítamínrík fæða: nýmjólk, smjör, ostur, eggjarauða, fiskur, innmatur, grænir og gulir ávextir og grænmeti. B1 vítamínrík fæða: Hýðishrísgrjón, hnetur, belgávextir, innmatur, svínakjöt, ölger, hveitikím. B2 vítamínrík fæða: Ölger, hveitikím, hýðishrísgrjón, grænt grænmeti, mjólk, ostur, egg. B3 vítamínrík fæða: Ölger, grjón með hýði, hveitikím, innmatur, grænmeti, feitur fiskur, egg, mjólk, hnetur. B5 vítamín: innmatur, egg, jarðhnetur, hýðishrísgrjón, ostur. B6 vítamín: Ölger, hýðishrísgrjón, soyjamjöl, innmatur, hveitikím, sveppir, kartöflur, avókadó. B12 vítamín: kjöt, innmatur, fiskur, mjólk, egg. Fólínsýra: hrá grænmetisblöð, belgbaunir, sojamjöl, appelsínur, bananar, valhnetur. C vítamín: Paprika, appelsínur, sítrónur, vínber, sólber, tómatar, nýjar kartöflur. D vítamín: nýmjólk, feitur fiskur, egg, smjör. E vítamín: hveitikím, eggjarauða, jarðhnetur, fræ, jurtaolía, brokkolí.


Steinefni[breyta]

Járn og kalk þarf að neyta í ríkulegu magni til þess að barnið geti þroskast. Járn er nauðsynlegt fyrir myndum blóðrauða sem flytur súrefni til frumna og kalk er nauðsynlegt fyrir myndum beina fósturs. Járnrík fæða: nýru, fiskur, eggjarauður, vöðvakjöt, kornmeti, apríkósur, garðbaunir. Kalkrík fæða: mjólk, mysa, ostur, smáfiskur, jarðhnetur, sólblómafræ, soya, jógúrt, brokkolí. Sínk: hveitiklíð, egg, hnetur, laukur, skelfiskur, sólblómafræ, hveitikím, heilhveiti.

Vökvi[breyta]

Á meðgöngu er nauðsynlegt að móðirin fái nægilegan vökva því á meögöngutímanum tvöfaldast rúmtak blóðs og annarra líkamsvessa. Vatnið er besti drykkurinn.


Krossapróf:[breyta]

1 Á hvaða viku bregst fóstrið við snertingu?

1. til 4. viku
5. til 8. viku
9. til 12. viku
13. til 16. viku

2 Hvenær eru kynfæri orðin fullmynduð?

5. til 8. viku
9. til 12. viku
13. til 16. viku
17. til 20. vika

3 Morgunógleði er gjarnan til staðar

Fyrstu 4 vikurnar
Fyrstu 8 vikurnar
Fyrstu 12 vikurnar
Alla meðgönguna

4 Hver er helsta orsök sinadráttar?

Lágt kalkmagn eða saltleysi
Álag á taugakerfið
Framleiðsla meðgönguhormóna
Lágur blóðsykur og framleiðsla meðgönguhormóna

5 Hitaeiningaþörf á meðgöngu eykst um:

0 kaloríur
100-200 kaloríur
300-500 kaloríur
600-800 kaloríur

6 Eggjahvítuefni

Er orkugjafi
Myndar blóðrauða
Stuðlar að frumuskiptingu
Er byggingarefni frumna og vefja


Sama próf á Hot Potatos formi: Krossapróf

Heimildir[breyta]

  • Miriam Stoppard (2003). Að eignast barn (Guðsteinn Þengilsson þýddi). London: A Dorling Kindersley Book.

Ítarefni[breyta]

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: