Lífræn ræktun

Úr Wikibókunum, frjálsa kennslubókasafninu
Jump to navigation Jump to search

Umfjöllunin hér að neðan snýr að lífrænni ræktun, þá aðallega sem hægt er að stunda heima fyrir, og er hugsað sem námsefni fyrir nemendur á unglingastigi í grunnskóla þar sem komið er inn á matarframleiðslu og sjálfbærni. Efnið getur þó einnig nýst öllum áhugasömum sem hafa hug á því að prófa lífræna ræktun og vilja fræðast meira.

Þegar átt er við lífræna ræktun er í raun ekki verið að tala um nýjan og framandi mat eða nýjar aðferðir við matjurtarækt, heldur er eingöngu verið að tala um ræktun þar sem ekki eru notuð kemísk efni. Lífrænt ræktaður matur er framleiddur úr lífrænu hráefni og strangari kröfur eru gerðar til framleiðslunnar og þeirra efna sem notuð eru [1]. Við lífræna ræktun skiptir því máli að áburður sé lífrænn í grunninn og ferlið sé sem vistvænast. Nánar verður farið í atriði hér sem snúa að þessu.

Sögulegt samhengi[breyta]

Kartöflurækt snemma á 20. öld

Fyrir þúsundum ára þegar ræktun matjurta var að hefjast voru eingöngu notuð lífræn efni til að græða og auka uppskeru. Það er ekki langt síðan breytingar urðu á en það var á 20. öldinni sem tilbúinn áburður og verksmiðjuframleiðsla á ólífrænum efnum til matrækar fór að líta dagsins ljós [2]. Matvælaiðnaðnum fór að nota kemísk efni sem þróuð höfðu verið fyrir herinn á stríðsárunum til matframleiðslu. Markmiðið á þessum tíma var að reyna gera matvælaframleiðslu hraðari og ódýrari, án þess að huga nægilega að næringagildi, hollustu og langtímaáhrifum sem geta hlotist af notkun ólífrænna efna. [1]

Helstu ókostir þess að nota ólífræn efni við matarræktun er að mikilvæg skordýr drepast, bragð og ending matarins verður heldur ekki eins gott. Sem dæmi má nefna að þar sem matjurtir eru ræktaðar í mold þar sem fjölbreyttum örverum er leyft að vera verður næringin fjölbreyttari í matnum. Plönturnar geta hins vegar vaxið hægar þar sem ekki eru notuð ólífræn efni eða einhverskonar sterar, en markmiðið er líka að halda í sem mestu hollustuna og næringuna en ekki rækta sem hraðast. [1] [2]

Á Íslandi, eins og víða annarsstaðar í heiminum, hefur lífræn ræktun verið að koma aftur fram í dagsljósið undanfarin ár. Sem dæmi má nefna þá hefur lífræn ræktun verið iðkuð á Sólheimum í Grímsnesi í nokkra áratugi og sama er hægt að segja um Heilsustofnuninni NLFÍ í Hveragerði sem rekur í dag eina elstu lífrænu garðyrkjustöðina á landinu [3].

Lífrænn áburður og mold[breyta]

Margir hafa áhuga á því að rækta sínar eigin matjurtir heima fyrir og vilja gera það á lífrænan hátt. Hægt er að fara nokkrar leiðir að því að búa til lífrænan áburð, mold og jarðveg sem hentar vel til ræktunar matjurta heima fyrir. Við þessa heimaframleiðslu á lífrænum áburð eða mold minnkar magn úrgangs sem þyrfti annars að fara til förgunar og því til viðbótar við lífrænu áhersluna hefur mikið gildi fyrir umhverfisvernd.

Safnkassar[breyta]

Safnkassa er auðveldlega hægt að smíða sér sjálfur eða kaupa tilbúna. Yfirleitt eru þeir þrískiptir úr rimlum eða með net á milli og henta vel til notkunar heima fyrir. Í safnkassana er til að mynda hægt að setja plöntuleifar og tekur að venju um þrjú sumur að myndast gróðurmold. Æskilegt hitastig í safnkössum er á milli 35 til 40 gráður þó það geti verið breytilegt, og á hann ekki að lykta illa. [2] Það sem myndast í þessum safnkössum kallast oftast molta og er hún góð og næringarík til ræktunar matjurta [4].

Safnhaugar[breyta]

Safnhaugur


Safnhaugar eru haugar sem verða til þegar lífrænum afgöngum er safnað saman til moldar- eða áburðargerðar, einnig hjálpar til að setja fínan sand og vikur út í, en einnig getur skeljasandur gert blöndunni gott. Slíkan safnhaug ætti að hafa á skjólsælum stað þar sem helst jafn hiti í haugnum. Rotinn safnhaug er gott að nota við ræktun flestra grænmetistegunda, safnhaugur með miklum jurtaleifum virkar best í kartöflurækt meðan húsdýraáburður virkar betur á gulrætur og kál. Passa þarf að vökva safnhauginn ef þurrkar eru. [2]

Safngryfjur[breyta]

Safngryfja ofan í jörðu

Safngryfjur eru ef til vill einfaldast eða þægilegast þegar búa skal til lífræna mold eða áburð heima fyrir. Grafin er einfaldlega gryfja þar sem hentar á lóðinni og lífrænum úrgang síðan safnað þar ofan í. Oftast er sett gróft efni neðst og síðan mokað yfir með jarðveg. Svona safngryfjur nýtast vel sem næring og forði fyrir nærliggjandi tré eða runna. [2]


Krossapróf[breyta]

1 Í hverju felst lífræn ræktun?

Að nota nýjar aðferðir við ræktun á matjurtum
Að nota engin kemísk efni við ræktun
Að rækta eingöngu utandyra

2 Herjir eru helstu ókostir við ólífræna ræktun?

Mikilvæg skordýr drepast, bragð og ending matarins verður ekki eins gott
Ræktunin tekur lengri tíma
Ræktun á ólífrænum matjurtum er dýrari

3 Á 20. öldinni urðu breytingar á ræktun matjurta, hverjar voru þær?

Lífræn ræktun hófst
Byrjað var að nota tilbúinn áburð
Herinn byrjaði að rækta lífrænar matjurtir

4 Hvað er æskilegur hiti í safnkössum

25-30 gráður
30-35 gráður
35-40 gráður

5 Rotinn safnhaug er gott að nota við _______

Ræktun rósarunna
Ræktun flestra grænmetistegunda
Ræktun trjáa


Önnur verkefni[breyta]

a) Kennari og nemendur búa til safngryfju nálægt trjám eða runnum á skólalóðinni. Nemendur safna lífrænum úrgang heima frá sér og úr mötuneyti skólans til að setja í gryfjuna. Best er að byrja á þessari vinnu á haustdögum áður en vetur skellur á.


b) Nemendabekkur eða árgangur býr sér til safnkassa og væri hægt að samþætta verkefnið með smíðakennslu. Síðan safna þeir í hann lífrænum úrgangi úr mötuneyti skólans svo úr verði molta. Á vordögum gætu nemendur tekið moltuna sem þeir eru búnir að vera búa til yfir veturinn og dreift á gróður skólalóðarinnar.

Heimildir og ítarefni[breyta]

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1501 Vísindavefurinn: Er rétt að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi fyrir sorpurðun?

https://www.ruv.is/frett/lifraen-raektun-er-natturuvernd (myndskeið)

  1. 1,0 1,1 1,2 Oddný Anna Björnsdóttir. (2012). Lífrænn matur - Er hann þess virði og hver er munurinn?, Skoðað 3. mars 2020
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Steinn Kárason. (2011). Garðverkin. Hagnýt ráð um ræktunarstörf í görðum, gróðurhúsum og sumarbústaðarlöndum og leiðbeiningar um lífræna ræktun. Reykjavík: Garðyrkjumeistarinn.
  3. Heilsustofnun Náttúrulækningafélag Íslands NLFÍ, Skoðað 3. mars 2020.
  4. Cornelis Aart Meyles. 2004. Get ég ekki virkjað safnkassann minn og fengið metangas líkt og gert er á Álfsnesi?, Skoðað 4. mars 2020.