Lækningajurtir
Höfundur Guðrún Anna Óskarsdóttir
Þessi wikibók fjallar um það hvernig má nýta algengar jurtir á Íslandi til lækninga og heilsubótar. Námsefnið er hugsað fyrir unglingastig grunnskóla, sem ítarefni um plöntur eða sem uppbrot í kennslu. Markmiðið er að kynna fyrir krökkum nokkrar algengar jurtir á Íslandi, hvernig þær héldu lífi í Íslendingum fyrr á öldum og hvernig má nýta þær í dag til heilsubóta.
Lækningajurtir
[breyta]Á Íslandi vaxa víða plöntur sem við sjáum á gönguferðum okkar um náttúruna en það sem við vitum kannski ekki er að flestar þessar plöntur má tína og nýta okkur til heilsubótar eða til lækninga við til dæmis hálsbólgu, kvefi, eða óþægindum í maga. Á Íslandi hefur söfnun og notkun á jurtum til lækninga verið stunduð allt frá landnámi og er hægt að lesa um það bæði í þjóðsögum og fornsögum. Kunnáttan barst með landnámsmönnum hingað til lands og fluttu sumir þeirra með sér til nýrra heimkynna jurtir sem þeir þekktu og nýttu mikið. Íslenskar lækningajurtir hafa verið nýttar til daglegra forvarna og hressinga og má oft finna samsvörun á því hvernig jurt er nýtt í dag og hvernig hún var nýtt fyrir um 200 árum enda hefur reynslan og trúin á jurtir varðveist manna á milli. Í harðindunum á 17. Og 18 öld urðu Íslendingar að nýta allt sem þeim datt í hug til matar og komust þá upp á lagið með að nota það sem landið gaf.
Söfnun jurta
[breyta]Best er að tína jurtir á sumrin, þegar þær eru kröftugastar. Oftast eru blóm og blöð nýtt en í sumum tilfellum er öll jurtin nýtt, líka ræturnar. Það er misjafnt eftir jurtum hvernær þær blómstra og þá skiptir veðurfarið líka máli, hvort það sé kalt eða hvort það hafi vorað snemma. Best er að skoða í bókum hvenær jurtirnar eru í blóma en þá eru þær kröftugastar.
Þegar á að safna jurtum er best að hafa bréfpoka, nælonpoka eða körfu og hníf eða lítil skæri meðferðis. Best er að tína jurtir þar sem nóg er af þeim, vegna þess að þá eru aðstæður góðar fyrir jurtina og hún því sterkari. Aldrei má hreinsa svæði alveg af jurtinni, það á alltaf að skilja eitthvað eftir svo hún geti fjölgað sér aftur. Þegar heim er komið þarf að þurrka jurtirnar, annað hvort að hengja þær upp eða leggja þær á dúk. Þurrkaðar jurtir má svo nota í te.
Birki
[breyta]Birki, Betula pubescens, myndar skóga og kjarr og er algengt um allt land.
Hægt er að safna birkilaufum á sumrin og þurrka og nýta í te. Birki er sagt hreinsa blóðið og er gott fyrir lifrina og nýrun. Það er líka hægt að búa til smyrsl úr soðnum birkilaufum og berki utan af trjánum sem er sagt mjög græðandi.
-
Birki - Betula pubescens
-
Birkilauf
Maríustakkur
[breyta]Maríustakkur, Alchemilla filicaulis, vex víða um land en oft má finna jurtina við lækjarbakka eða þar sem mikið er um gras í hliðum fjalla. Þessi jurt er tínd og þurrkuð og notuð í te. Hún er mikið notuð til lækninga og er sérstaklega góð fyrir konur. Hún minnkar túrverki og stoppar of miklar blæðingar.
Í gamla daga voru óléttar konur látnar drekka te af maríustakk reglulega til að koma í veg fyrir að þær misstu fóstrið.
Ætihvönn
[breyta]Ætihvönn, Angelica archangelica, er frekar algeng hér á landi en þessa jurt má til dæmis finna við lækjarbakka, í lautum og klettum.
Í gamla daga var þessi jurt mikið notuð og var öll jurtin nýtt, líka rótin. Jurtin þótti svo góð að hún var oft kölluð englajurt. Hvannarrætur og hvannaleggir voru nýtt til matar og oft borðað með fiski. Leggirnir voru borðaðir nýjir eða með súrmjólk og rjóma. Hvannaleggjataka var talin til hlunninda, það er að segja að ef mikið var af hvönn í bæjarlandinu gátu menn selt hvannarrætur. Þegar safnað var hvannarrótum var talað um að fara á "rótarfjall".
Hvönnin er notuð í dag gegn meltingartruflunum en hún linar krampa og vind. Jurtin er líka slímlosandi og því góð við asma og lungnakvefi. Fræin af hvönn eru talin góð gegn krabbameini.
Blóðberg
[breyta]Blóðberg, Thymus praecox, er mjög algengt um landið og eru melar, þurrt mólendi, hlíðar og klettaskorur kjörlendi jurtarinnar. Blóðberg er vinsæl jurt til lækninga og er öll jurtin, fyrir utan rótina nýtt.
Blóðberg í te er mest notað gegn flensu og kvefi en það er talið eyða sýklum og losa um slím. Blóðberg er mjög vinsæl kryddjurt og þykir mjög góð á lambakjöt.
Vallhumall
[breyta]Vallhumall, Achillea millefolium, er algeng jurt um mest allt land, í þurrum brekkum og vallendi.
Vallhumall er góð jurt til lækninga og eru blómin og blöðin notuð í te við flensu og kvefi. Jurtin er mjög græðandi og eru búin til smyrls úr blómunum til að græða sár.
-
Maríustakkur - Alchemilla filicaulis
-
Ætihvönn - Archangelica archangelica
-
Blóðberg - Thymus praecox
-
Vallhumall - Achillea millefolium
Fjallagrös
[breyta]Fjallagrös, Cetaria islandica, vaxa í mólendi og eru algeng um mest allt land, sérsaklega upp til fjalla.
Fjallagrös soðin með mjólk hafa haldið hreysti og heilsu manna lengur og betur en flestur annar matur og var grasagrautur, vel soðin í mjólk, þannig að hann varð að hlaupi, talin vera mjög nærandi og styrkjandi. Á 18 öld, í harðindunum, héldu fjallagrös lífi í fólki. Matur fátæklinga var fjallagrasagrautur soðinn í vatni og var talað um hann sem harðindamat oft nefnt grasalím.
Fjallagrös eru eitt albesta lyfið við sárum og bólgu í meltingarfærum og þau hafa mjög góð áhrif á öndunarfærin, sérstaklega þurran hósta. Við kvefi er gott að sjóða fjallgrös, smá engifer og sítrónu saman, bragðbæta með hunangi og drekka sem te.
Verkefni
[breyta]- Að sumri: prófið að fara út í náttúruna og tína nokkrar jurtir til að þurrka í te. Munið að gæta þess að tína ekki alla jurtina af því svæði sem þið eruð að tína. Hafið meðferðis bréfpoka, körfu eða nælonpoka, hníf eða lítil skæri. Einnig er gott að hafa meðferðis bók, Íslensku plöntuhandbók Harðar Kristinssonar eða Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu L. Jóhannsdóttur
- Verðið ykkur út um fjallagrös (það er stundum hægt að fá þau í heilsubúðum) og sjóðið fjallagrasa-mjólk. Það þarf þó að gæta þess að sjóða ekki fjallagrösin því þá verða þau mjög beisk á bragðið.
- Að greina plöntur. Farið á vefinn og lesið ykkur til um hvernig hægt er að greina plöntur. Þið getið æft ykkur yfir sumartímann að tína og greina plöntur.
- Útbúið smá kynningu fyrir bekkjarfélaga ykkar um eina lækningajurt sem ykkur finnst áhugaverð. Ath að hægt er að finna heimildir bæði á netinu en líka í bókum á bókasafninu.
Krossapróf
[breyta]
Tenglar
[breyta]- Vísindavefurinn - Hvaða jurtir voru notaðar til galdaverka og lækninga
- Vísindavefurinn - Hvað getið þið sagt mér um fjallagrös
- Í boði náttúrunnar - Eldhúsapótekið
- Flóra Íslands
- Plöntuvefurinn
Heimildir
[breyta]- Arnbjörg L. Jóhannsdóttir. (1998). Íslenskar lækningajurtir. Söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útgáfa). Reykjavík: Mál og menning (endurprentuð 2009).
- Hörður Kristinsson. (2010). Íslenska plöntuhandbókin - Blómplöntur og birkingar. (3. útgáfa). Reykjavík: Mál og menning.
- Jónas Jónasson frá Hrafnagili. (2011). Íslenskir þjóðhættir (4. útgáfa) Einar Ó. Sveinsson bjó undir prentun. Reykjavík: Bókaútgáfan Opna. (frumútgáfa 1934).