Kosningaréttur íslenskra kvenna

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Gunnhildur Sigurhansdóttir

Þetta er wikilexía um sögu kosningaréttar íslenskra kvenna. Hún hentar vel sem ítarefni í námskeiði um Íslandssögu 19. og 20. aldar.

Bresk skopmynd frá 1869 um kosningarétt kvenna

Fyrsti kosningarétturinn 1882[breyta]

Árið 1882 fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt.

Konur í Reykjavík og Hafnarfirði - fyrsta framboðið[breyta]

Árið 1907 fengu konur í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna í Reykjavík og Hafnarfirði. Kosningarétturinn var bundinn sömu skilyrðum og kosningaréttur karla.

Snemma árs 1908 ákváðu fjórar forvígiskonur í kvenréttindafélögum í Reykjavík að stofna kvennaframboð og bjóða sig fram til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Framboðið var ákveðið með tveggja vikna fyrirvara og kosningaherferð þeirra var mjög skipulögð. Framboðið náði frábærum árangri, það fékk flest atkvæði allra framboðanna og allar konurnar á listanum komust í bæjarstjórn Reykjavíkur. Konurnar sem voru í framboði voru: Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Guðrún Björnsdóttir, mjólkursölukona og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstýra kvennablaðsins og formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Sveitastjórnir[breyta]

Árið 1909 voru samþykkt lög um kosningarétt og kjörgengi í málefnum hreppsfélaga og kaupstaða. Í þessum lögum kom m.a. fram að konur fengju kosningarétt ef þær hefðu lögheimili á staðnum, óflekkað mannorð, væru fjár síns ráðandi, stæðu ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiddu gjald í bæjarsjóð eða hreppsjóð. Giftar konur höfðu einnig kosningarétt og kjörgengi hafði hver sá sem hafði kosningarétt og var ekki vistráðið hjú. Í þessum lögum kom einnig fram að konur mættu skorast undan kosningu en á þessum tíma var hægt að kjósa hvern sem var og karlar máttu ekki skorast undan kosningunni.

Alþingi[breyta]

Árið 1915 fengu konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Aldursmarkið átti að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Lögunum var þó breytt eftir 5 ár því árið 1920 fengu konur og vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.

Krossapróf[breyta]

1 Hvaða ár fengu konur fyrst takmarkaðan kosningarétt

1700
1743
1882
1918

2 Í lögum frá 1909 var tekið fram að konur hefðu kosningarétt til sveitarstjórna ef þær

voru vistráðin hjú
höfðu ekki fengið sveitarstyrk
voru fæddar í Reykjavík
hétu ættarnöfnum

3 Árið 1920 fengu konur og vinnuhjú

full pólitísk réttindi við 25 ára aldur
1000 kr. fjárframlag úr ríkissjóði
5 fulltrúa í nefnd Alþingis
kosningarrétt ef eign þeirra var meira en 15 kúgildi

4 Fyrsta kvennaframboðið í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908 skilaði

4 konum í bæjarstjórn
6 konum í bæjarstjórn
hagnaði
ríkissjóði auknum skatttekjum


Ítarefni[breyta]