Kjalnesinga saga

Úr Wikibókunum, frjálsa kennslubókasafninu
Fara í flakk Fara í leit

Kjalnesinga saga er saga af landnámsmönnum Íslands. Hún hefst á því að Helgi Bjóla nemur land á Kjalarnesi og gengur að eiga Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar. Þau eignast Þorgrím og Arngrím. Helgi Bjóla er blótmaður lítill og tekur við Örlygi sem er kristinn og er að flýja land frá Írlandi. Örlygur byggir kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma til landsins og Helgi tekur við þeim. Kolli sest að í Kollafirði, Esja tekur við búi þar sem Örlygur býr, en hann er orðinn háaldraður, en það heitir síðan Esjuberg og Andríður dvelur veturlangt hjá Helga Bjólu þar sem að hann kynnist sonum hans og verður fóstbróðir þeirra. Helgi biður konu fyrir Andríð, Þuríðar systur Þormóðs í Þormóðssdal og Þorgrímur fær Arndísi á Skeggjastöðum. Það var svo haldið tvöfalt brúðkaup í Hofi en að því loknu tóku Andríður og Þuríður upp bú í Brautarholti. Þegar Helgi Bjóla deyr búa Þorgrímur og Arndís áfram í Hofi og eignast Þorstein en Arngrímur byggir Saurbæ og á hann synina Helga og Vakur. Andríður og Þuríður eignast Búa sem Esja fóstrar.

Helstu sögupersónur:[breyta]

  • Þorgrímur og sonur hans Þorsteinn.
  • Andríður fóstbróðir Þorgríms og sonur hans Búi.
  • Esja fóstra Búa en hún er talin forn í brögðum (göldrótt).
  • Ólöf dóttir Kolla í Kollafirði. Hún var kölluð Ólöf hin væna vegna fegurðar sinnar.
  • Kolfinnur sonur Þorgerðar á Vatni. Hann var mikill og ósýnilegur og lagðist í eldgróf og beit börk af steiktum viði.
  • Þorgerður móðir Kolfinns sem er talin forn í brögðum.
  • Korpúlfur móðurbróðir Kolfinns er forn í brögðum.

Atburðarrás[breyta]

Þegar Helgi Bjóla andast tekur Þorgrímur við sem höfðingi. Þorgrímur er blótmaður mikill og sættir sig ekki við ef menn blóta ekki. Búi sonur Andríðs og Þuríðar er ausinn vatni (skírður) og fóstraður af Esju í Esjubergi. Hann er einrænn, ber af öðrum mönnum bæði af styrk og fríðleik og neitar að bera vopn en ber á sér slöngu.

Búi neitar að blóta og lendir því upp á kannt við Þorgrím og son hans Þorstein sem er mikill blótmaður líkt og faðir sinn. Þorsteinn stefnir Búa fyrir rangan átrúnað og er Búi í kjölfarið dæmdur til skógargangs einungis 12 ára gamall. Búi virðir dóminn að vettugi og heldur áfram að heimsækja foreldra sína. Þetta þola þeir feðgar Þorgrímur og Þorsteinn ekki og ákveða að drepa Búa. Móðir hans fréttir af því að hann sé í hættu og varar hann við. Esja hjálpar Búa og spyr hann síðan hvort hann sé ekki þreyttur á því að Þorsteinn sé alltaf að elta hann. Hún hvetur hann til þess að gera eitthvað í þessu og fer Búi því af stað á eftir Þorsteini.

Þessum átökum lýkur með því að Búi drepur Þorstein og brennir hof Þorgríms. Þorgrímur reynir síðan að hefna sonar síns en Esja hjálpar Búa enn á ný með göldrum þannig að Þorgrímur kemst ekki að honum og drepur í staðinn Andríð fóstbróður sinn. Fréttir af dauða Andríðs hafa þó lítil áhrif á Búa.

Ástarsaga[breyta]

Í 6. kafla bókarinnar kemur Örn Austmaður til sögunnar. Hann er Norskur stýrimaður sem verður ástfanginn af Ólöfu Kolladóttur og er faðir hennar ánægður með það. Esja hefur aftur á móti aðrar áætlanir en hún vill að Búi fái Ólöfu. Honum er alveg sama en lýtur þó vilja Esju fer í Kollafjörð til að hitta Ólöfu. Í kjölfarið sitja bæði Örn og Búi um Ólöfu þannig að báðir heyrðu hvað hinn sagði. Þorgerður móðir Kolfinns ákveður nú að sonur hennar skuli bætast við í vonbiðlahóp Ólafar. Kolfinnur hlýðir móður sinni og fer til Kollafjarðar en neitar að klæða sig betur og vill ekki fá fylgdarlið.

Erni Austmanni fer að leiðast það að deila Ólöfu með hinum tveim. Hann spyr Kolla föður hennar ráða og segir Kolli að hann verði að gera það sem hann telur rétt. Örn ákveður því að sitja fyrir Kolfinni og drepa hann en þeim bardaga lýkur með dauða Arnar en Kolfinnur særist. Hann leitar þá til móðurbróður síns, Korpúlfs á Korpúlfsstöðum sem er forn í brögðum og hjúkrar honum.

Eftir dauða Arnar Austmanns vill Esja að Búi sé vopnaður og gefur hún honum loðkápu, skyrtu sem engin vopn bíta á og sax sem klýfur allt sem á vegi þess verður. Meðan Kolfinnur dvelur á Korpúlfsstöðum situr Búi einn að Ólöfu.

Þegar Kolfinnur er orðinn hress hvetur Korpúlfur hann til að vopnast líkt og Búi. Hann gefur honum klæði fín og vopn. Kolfinnur vill Búa út úr myndinni og býður honum að hætta að hitta Ólöfu eða að ganga á hólm við sig sem að móðir hans ráðleggur honum að gera ekki vegna þess að hún veit hversu öflun Esja er. Búi samþykkir hólmgönguna sem lýkur þegar Búi særir Kolfinn. Búi fer þá til Kollafjarðar og sækir Ólöfu og fer með hana í hellinn sinn. Ólöf er ekkert sérstaklega glöð og segir að faðir sinn verði ekki ánægður með þetta.

Kolfinnur ákveður að fara og drepa Búa þegar honum eru gróin sárin. Hann fer ásamt 15 mönnum til hellis búa en þeir komast ekki að hellinum. Til að koma í veg fyrir að Búi yfirgefi hellinn sendir Esja honum augnverk þannig að hann sér ekki og fer því ekki úr hellinum. Það verður því enginn bardagi en Esja vill nú að Búi fari úr landi og er ákveðið að Ólöf fari til föður síns og bíði þar í 3 ár eftir Búa.

Búi fer utan[breyta]

Þegar það er ákveðið að Búi fari úr landi útbýr Esja hann til fararinnar. Helgi og Vakur Arngrímssynir frétta af þessu og sitja fyrir Búa ásamt 10 mönnum sinna. Búi verst vel og særir bræðurna og drepur marga menn þeirra. Búi heldur til Orkneyja og gengur til liðs við Einar jarl Rögvaldsson og dvelur hjá honum veturlangt. Á meðan halda Helgi og Vakur til Noregs á fund Haralds konungs Hárfagra. Þeir segja honum frá Búa og hans gjörðum heima á Íslandi. Haraldur er ekki hrifinn af gjörðum Búa en telur verst af öllu að hann hafi brennt hofið. Þegar Búi síðan kemur til Noregs frá Orkneyjum heldur hann á fund Haralds konungs. Helgi og Vakur vilja fá að drepa Búa en fá það ekki vegna þess að Haraldur ákveður að hlífa Búa þar sem að hann hafði gengið sjálfviljugur á hans fund.

Sendiför Búa[breyta]

Haraldur fær Búa það verkefni að sækja fyrir hann tafl til Dofra konungs í Dofrafjalli en enginn sem hafði áður verið sendur í slíka för hafði snúið lifandi aftur. Á leið sinni í Dofrafjall dvelur Búi hjá Rauði bónda og tekur hann við af Esju sem vendari Búa. Rauður segir Búa frá því að konungur hafi áður sent menn í slíka ferð en enginn snúið aftur úr henni. Hann telur að konungur vilji með þessu senda Búa í dauðann. Rauður bendir Búa á bústað Dofra konungs og gefur Búa fingurgull (hring).

Búi bankar á bergið og Fríður, dóttir Dofra, tekur á móti honum, býður honum inn og spyr hann hverra erinda hann sé. Búi segir Fríði sannleikann um ferðir sínar og segir hún honum að það hafi aðrir menn komin í sömu erindagjörðum en faðir hennar hafi drepið þá. Hún muni hins vegar hjálpa honum fyrst hann sagði henni af hverju hann kom. Fríður býður Búa að sofa í sínu herbergi um nóttina og skemmta þau sér vel og takast ástir með þeim. Búi dvelur hjá þeim feðginum allan veturinn og skemmta hann og Fríður sér vel. Við lok vetrar biður Búi Fríði um að aðstoða sig við að fá taflið og hún segir honum að hún sé ólétt. Dofri lætur Búa fá taflið að beiðni Fríðar og þegar þau kveðjast minnir hún hann á að hún sé með barni. Sé barnið stúlka skuli það dveljast hjá henni en sé það drengur muni hún senda hann til föður síns tólf vetra gamlan og yrði Búi þá að taka vel á móti honum því að annars færi ílla fyrir honum.

Á leið til konungs kemur Búi aftur við hjá Rauði sem segir honum að konungur muni leggja aðra þraut fyrir hann, glímu við blámann (tröll). Rauður fær Búa stakk til að verjast krumlum tröllsins. Þegar Búi gengur á fund konungs fær hann honum taflið og allt gengur eftir líkt og Rauður hafði spáð. Búi semur við konung um að ef hann nái að sigra tröllið fái hann að fara óáreittur heim til Íslands. Fyrir bardagann klæðir Búi sig bæði í skyrtuna sem Esja gaf honum og í stakkinn frá Rauði og sigrar tröllið. Búi heldur heim.

Á Íslandi[breyta]

Á meðan Búi er utan fæðir Ólöf honum dóttur, Þuríði að nafni. Esja býðst til að fóstra hana og þekkjast Ólöf og Kolli faðir hennar það boð. Helgi og Vakur snúa aftur frá Noregi og segja að Búi sé dauður. Kolfinnur fer því í Kollafjörð og tekur Ólöfu nauðuga með sér. Búi snýr aftur sumarið eftir þessa atburði og ræðst Kolfinnur að honum við tólfta mann. Búi vill fá að berjast við einn mann í einu og drepur sex og einnig Kolfinn. Hinum gefur hann grið. Þá fer Búi að Vatni og sækir Ólöfu, fer með hana aftur til föður hennar og segist ekki vilja hana vegna þess að hún sé spillt af Kolfinni.

Búi heldur svo til Esjubergs og er vel tekið það. Þorgrímur er orðinn gamall maður og koma menn á sáttum milli hans og Búa og Búi kvænist Helgu dóttur Þorgríms. Helgi Arngrímsson kvænist Ólöfu Kolladóttur og er haldi tvöfalt brúðkaup að Hofi líkt og þegar Andríður og Þorgrímur kvæntust sínum konum. Skömmu síðar deyr Esja en eftir dauða hennar setjast Búi og Helga að á Esjubergi og eignast 3 börn. Vakur Arngrímsson kvænist Þuríði dóttur Búa og Ólafar. Búi er orðinn höfðingi og ræður öllu í héraðinu.

Jökull Búason[breyta]

Skip kemur til Eyjafjarðar og um borð er Jökull sonur Búa og Fríðar Dofradóttur. Búi neitar að gangast við honum þannig að Jökull særir föður sinn dauðasári í bardaga. Búi telur að þarna hafi Fríður aðstoðað son sinn við að drepa sig. Jökull tók verknaðinn svo nærri sér að hann heldur utan aftur um leið. Búi er grafinn undir kirkjuveggnum á Esjubergi.

Kjalnesinga sögu lýkur.

Krossapróf[breyta]

<quiz display=simple>

{Hverjir eru kristnir? |type="()"}

- Þorgrímur, Andríður og Arngrímur - Helgi, Andríður og Örlygur + Örlygur, Andríður og Búi - Þorsteinn, Helgi og Vakur

{Hvað er að vera forn í brögðum? |type="()"}

- Góður bardagamaður + Göldróttur - Blótmaður mikill - Skyggn

{Hvern vildi Kolli sem eiginmann fyrir dóttur sína? |type="()"}

- Búa Andríðsson - Þorstein Þorgrímsson + Örn Austmann - Kolfinn Þorgerðarson

{Hvað á Ólöf að bíða lengi eftir Búa? |type="()"}

- 1 vetur - 5 ár + 3 ár - veturlangt

{Hvers vegna sendir Haraldur konungur Hárfagri Búa eftir taflinu? |type="()"}

- Hann vildi verðlauna hann + Hann vildi drepa hann fyrir að brenna hofið - Til að refsa honum fyrir að drepa Þorstein - Hann vildi kanna hvort að hann væri hliðhollur konungi

{Hvað segir Fríður við Búa þegar hann fer? |type="()"}

+ Ef barnið er stúlka verður hún hjá mér en ef þetta er drengur kemur hann til þín tólf vetra gamall - Ég elska þig - Farðu varlega - Ef barnið er stúlka kemur hún til þí tólf vetra gömul og þú skalt taka vel á móti henni eða hljóta verra af

{Hvers vegna skilaði Búi Ólöfu til föður síns? |type="()"}

- Hann elskaði hana ekki - Hann vildi ekki mennska konu eftir að hafa elskað Fríði - Af því að hann ætlaði að gifstast annarri + Af því að hún hafði verið með Kolfinni líka

{Hverjum kvæntist Þuríður Búadóttir? |type="()"}

- Helga Arngrímssyni - Þorsteini Þorgrímssyni + Vaki Arngrímssyni - Hún giftist ekki

Heimildir:[breyta]

Kjalnesinga saga. Skólaútgáfa með skýringum. Forlagið - Iðnú.