Japanskt letur/Hiragana, katakana og kanji
Japanskt letur Í japönsku eru notuð þrjú stafróf: hiragana, katakana og kanji. Í eina og sama textanum má sjá öll stafrófin notuð enda hefur hvert þeirra ákveðið hlutverk.
Hiragana og katakana
[breyta]Hiragana og katakana líkjast því stafrófi sem við þekkjum að því leiti að í þeim táknar hvert tákn ákveðið hljóð. Áður fyrr var hiragana fyrst og fremst notað af konum til ritunar og hafa mjúklegar línur hiragana stafrófsins þótt kvenlegar á meðan hvössu línur katakana starfrófsins ásamt kanji stafrófinu voru mest notaðar af karlmönnum. Nú til dags er hiragana notað til að rita japönsk orð og katakana notað til að rita tökuorð. Hiragana er einnig notað til að rita framburð kanji tákna og er þá kallað furigana í stað hiragana. Furigana er hiragana skrifað með smáu letri fyrir ofan kanji tákn. [1]
Kanji
[breyta]Kanji stafrófið var fengið frá Kína og í stað þess að hvert tákn standi fyrir tiltekið hljóð stendur það fyrir ákveðið orð. Kanji táknin geta verið flókin og læra þarf þýðingu og framburð hvers tákns utanbókar. Mörg kanji tákn eru þó myndræn eða samsett úr nokkrum einfaldari kanji táknum svo manneskja með góðan grunn í kanji táknum getur oft giskað á þýðingu óþekkts tákns út frá uppbyggingu þess. Hvert kanji má bera fram á a.m.k. tvo vegu: með on-framburði og kun-framburði. On-framburðurinn líkist kínverska framburðinum fyrir táknið og er oftast notað í samsettum orðum á meðan kun-framburðurinn kemur frá upphaflega japanska orðinu fyrir orðið sem kanjitáknið táknar og er oftast notað þegar táknið stendur eitt og sér.