Intersex
Höfundur: Gerður Bjarnadóttir
Þetta námsefni er ætlað 16 - 18 ára nemendum í framhaldsskóla. Áfanginn er kynjafræði.
Hvað er Intersex?
[breyta]Intersex er hugtak sem nær yfir einstaklinga með ódæmigerð, líffræðileg kyneinkenni. Þetta á við líkamleg einkenni: hormónastarfsemi, litninga, kynfæri og önnur líkamleg kyneinkenni. Það að vera intersex er meðfætt. Talið er að 1,7% fólks geti talist intersex.
Gott íslenskt orð vantar fyrir intersex. Hér áður var orðið hermafródíta notað yfir intersex fólk. Orðið er úrelt og ekki lengur notað. Millikyn hefur heyrst notað en engin ánægja er með það. Intersex fólk er mjög fjölbreytilegur hópur sem ekki er hægt að segja að tilheyri einu kyni. Samtök intersex fólks á Íslandi nota orðið: intersex.
Nánar um Intersex
[breyta]Stelpa eða strákur verður til
[breyta]Litningar erfðaefnisins eru í pörum þar sem annar litningurinn er frá móður en hinn frá föður. Litningapörin eru alls 23 en par númer 23 eru kynlitningarnir. Þeir eru táknaðir með X og Y. Kona er með XX en karl er með XY. Kona lætur afkvæmum sínum í té X litning en karl lætur dóttur í té X en syni Y. Þannig er það faðirinn sem ræður kyni barnsins. Á fyrstu sjö vikum meðgöngunnar þroskast kynkirtill og lagður er grunnur að kynfærum. Í áttundu viku breytist kynkirtillinn í eistu ef Y litningur er í frumunum. Ef enginn Y litningur er í frumunum myndast eggjastokkar. Eistu og eggjastokkar gefa svo frá sér hormón sem stjórna framhaldinu. Í fyllingu tímans fæðist svo barn sem er annaðhvort með typpi eða píku og samsvarandi innri kynfæri. Ljósmóðirin á ekki í erfiðleikum með að tilkynna spenntum ættingjum hvort barnið er stúlka eða drengur.
Ódæmigerð kyneinkenni
[breyta]Það kemur fyrir að barn fæðist með ódæmigerð kyneinkenni og ekki er hægt að ákvarða kyn þess með vissu. Í sumum tilvikum sést það strax við fæðingu að barn er intersex en hjá öðrum kemur það í ljós síðar á ævinni t.d. þegar einstaklingurinn vill eignast barn og leitar læknis vegna ófrjósemi. Einnig er ljóst að til eru intersex einstaklingar sem aldrei komast að því að þeir eru intersex.
Ódæmigerð kyneinkenni hjá intersex fólki geta verið margskonar, sýnileg og/eða ósýnileg. Breytileiki í litningum og hormónum geta valdið sýnilegum frávikum á eistum, getnaðarlim, eggjastokkum, sníp, sköpum og svo framvegis. Sem dæmi má nefna t.d stóran sníp sem líkist getnaðarlim eða pung sem er klofinn og líkist þá skapabörmum. Þekkt er stökkbreyting á X litningi sem veldur því að intersex einstaklingur sem flokkaður er sem kona (eftir ytri kynfærum við fæðingu) reynist hafa kynlitningana XY og ætti því að vera karl skv. forskrift genanna. Hið stökkbreytta gen veldur því að karlhormónin eru óvirk og einstaklingurinn fær öll ytri einkenni konu: kvenlegt útlit, píku og brjóst.
Kynlitningarnir sem venjulega eru XX hjá konu og XY hjá karli geta birst í fleiri útgáfum, t.d: XO, XXX, XYY, XXY. Þessi frávik hafa í för með sér ýmis konar breytileika á kyneinkennum.
Náttúran og kynjaskalinn
[breyta]Í náttúrunni ríkir fjölbreytileiki. Enginn maður er nákvæmlega eins og annar. Hæð manna er eins og margir aðrir eiginleikar á einhverskonar skala þar sem flestir eru í meðaltalinu í miðjunni en svo fækkar eftir því sem utar dregur til beggja hliða. Líffræðilegt kyn manna er eins og flestir eiginleikar manna breytilegt. Intersex einstaklingur er sá sem hefur likamleg kyneinkenni sem fara út fyrir þann ramma sem við höfum sett um það hvað er kona og hvað er karl. Hann/hún/hán er einhvers staðar á skala eða rófi milli pólanna: karl/kona.
Intersex er ekki sjúkdómur, heldur náttúrulegur breytileiki.
Mannréttindi intersex fólks
[breyta]Í samfélagi okkar skiptir kyn miklu máli. Það er ekki nóg með að líkamar karla og kvenna séu ólíkir. Við höfum upphafið mismuninn og gert úr honum miklu meira en efni standa til. Raunverulegiur eða ímyndaður munur á eiginleikum kynjanna er undirstrikaður við hvert tækifæri. Kyneinkenni eru dregin fram og fordómar eru og hafa verið miklir gagnvart þeim sem ekki falla í kynjamótin. Intersex fólk hefur orðð fyrir miklum fordómum og á því hefur verið brotið. Það hefur sætt þöggun og ekki átt sér tilvist í vitund almennings. Þetta er eitthvað sem hvíslað hefur verið um, þrungið skömm. Börn sem fæðst hafa með ódæmigerð kynfæri hafa verið sett undir hnífinn og reynt hefur verið að breyta þeim svo þau falli að því sem telst eðlilegt fyrir hvort kyn.
Þar til nýlega hefur samfélagið litið á intersex sem sjúkdóm eða vansköpun sem þurfi að lækna eða lagfæra. Læknar hafa reynt að lagfæra börnin með skurðaðgerðum og hormónameðferðum sem leitt hafa til þess að einstaklingi með órætt kyn er breytt í átt til kvenkyns eða karlkyns áður en komið er í ljós hvað barnið vill. Barninu hefur þá kannski verið breytt í rangt kyn. Margir intersex einstaklingar hafa tjáð sig um þessar aðgerðir og líkt þeim við limlestingu. Ung börn geta ekki veitt samþykki sitt fyrir þessum aðgerðum sem oftast eru ónauðsynlegar. þessar aðgerðir eru brot á mannréttindum intersex fólks.
Kitty Andersen sem er formaður Intersex Ísland sagði í útvarpsviðtali (Rúv, þann 16. feb. 2018) að það væri öfugsnúið að lagfæra kynfæri barna að nauðsynjalausu til að passa inn í væntingar samfélagsins. Það sé samfélagið og viðhorf þess sem þurfi að breytast.
Verkefni
[breyta]Lestu grein á Vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=72172 Svaraðu svo eftirfarandi spurningum.
- Hvað er Klinefelter heilkenni?
- Í Dómínikanska lýðveldinu breytast sum stúlkubörn í drengi við 12 ára aldur. Hvað er þar á seyði?
- Hvað er líffræðilegt kynjaróf?
- Veltu fyrir þér aðgerðum sem gerðar eru á intersex börnum? Finndu röksemdir bæði með og á móti slíkum aðgerðum ef hægt er.
Krossapróf
[breyta]
Heimildir
[breyta]- Erna Ýr Öldudóttir. (2018, 17. febrúar). Málþing um intersex málefni. Mbl, bls. 20.
- Áttavitinn frá A - Ö
- Vísindavefurinn - Geta menn verið af millikyni?
- Intersex Society of North America
- Intersex Ísland
- WHO Alþjóða heilbrigðismálastofnunin