Iðngreinar

Úr Wikibókunum

Höfundar: Haraldur Örn Arnarson, prentsmíðameistari og Rósa Dögg Þórsdóttir, hárgreiðslumeistari

Iðnaður er sá hluti efnahagslífsins sem framleiðir vörur og veitir þjónustu. Iðnaður eins og við þekkjum hann í dag varð til í iðnbyltingunni á 19. öld. Venja er að flokka iðngreinar í fernt: Frumvinnslugreinar eru greinar þar sem náttúruauðlindum er breytt í vörur eins og námuvinnsla, skógarhögg og landbúnaður. Framleiðslugreinar eru greinar þar sem hráefnum er breytt í vörur eins og bílaiðnaður og matvælaiðnaður. Þjónustugreinar eru greinar eins og snyri-, matvæla- og framreiðslu. Þekkingargreinar eru síðan greinar sem fást við rannsóknir, hönnun og þróun sem leitt geta til breytinga og tækniframfara. Stundum er fimmta flokknum, stjórnunargreinum, bætt við. Þessi flokkun iðngreina hefur verið notuð sem undirstaða annarra flokkunarkerfa. Þannig hafa þróunarlönd verið skilgreind sem lönd með efnahag sem byggist á fyrsta og öðrum flokki, en þróuð lönd skilgreind sem lönd þar sem meiri áhersla er lögð á á þriðja og fjórða flokkinn. Á sama hátt hefur verið talað um foriðnvæðingu, klassíska iðnvæðingu og eftiriðnvæðingu, eftir því hvaða geiri er ríkjandi á hvaða tíma. Sumir höfundar hafa hneigst til að hafna þessari skiptingu alveg.

Iðn- og verkgreinar á íslandi[breyta]

Fleiri kvennmenn sækjast í iðnnám heldur en áður þekktist

Bílgreinar[breyta]

Bifreiðasmíði, Starfið felst í að rétta og gera við bíla eftir árekstur,skipta um íhluti og einnig að breyta yfirbyggingu bíla. Tæknin er alltaf að breyta starfinu eins og í öðrum iðngreinum og er t.d oftar skipt um íhluti í dag heldur en að gera við þá, ný og betri efni i bíla en áður og öryggiskröfur hafa aukist. Bifvélavirkjun, Verkefni bifvélavirkja tengjast viðgerðum og viðhaldi á ökutækjum og oft er um að ræða sérhæfingu í bílatekundum eða vélarhlutum. Sérsvið í greininni tengjast rafmagni, vélum og stórum bifreiðum. Bílamálun Starfið felst í að sprauta og mála bíla ásamt því að gera við skemmda plasthluta bifreiða. Bílaspratun krefst mikils undirbúningsvinnu við að hreinsa burt óhreinindi af yfirborði bílanna og ryðverja.

Byggingagreinar[breyta]

Húsgagnabólstrun, Helsta viðfangsefnið er að bólstra og klæða húsgögn, fastar innréttingar, lausa veggi og skilrúm. Húsasmíði, Helstu viðfangsefni í náminu er áhersla á fjölbreytt smíðaverkefni á verkstæði og við innréttingar, úti- og innivinnu á byggingastað og vinnu við viðgerðir og breytingar. Húsgagnasmíði, Í náminu er lögð áhersla á fjölbreytileika í verkefnum sem tengjast smíðum og viðgerðum á húsgögnum og innréttingum. Einnig er fjallað um hönnun og ýmsar sérsmíði. Málaraiðn, Miklu leyti verklegt þar sem er kennd húsamálun og skrautmálun. Múraraiðn, Miklu leyti verklegt við steypuvinnu, hleðslu, múrhúðun, gólflagnir og gólfslípun auk steinhleðslu og steinlögn úti og inni. Pípulagnir, Námið er byggt upp á lagningu hita-, neysluvatns- og frárennslikerfa, uppsetningu tækja og búnaðar auk viðhaldsvinnu. Skrúðgarðyrkja, Í náminu er kennd uppbygging og viðhald í görðum, pallasmíði, hleðslur og hellulagnir ásamt því að gróðursetja, rækta plöntur og veita ráðgjöf. Tækniteiknun, Hagnýtt nám þar sem helstu forrit til hönnunnar mannvirkja eru kennd. Farið er í gerð teikninga og ýmiss konar hönnunarvinnu. Veggfóðrun – Dúkalögn Í náminu lærir nemandi að leggja ýmis konar gólfefni á gólf og stiga, veggdúka á loft og veggi og skrautlagnir.

Hönnun og handverk[breyta]

Gull- og Silfursmíði, Námið snýst um hönnun og smíði skartgripa og unnið með góðmálma og eðalsteina. Einnig er hugmyndavinna, ráðgjöf og markaðsmál stór hluti vinnu gull- og silfursmíða. Kjólasaumur og Klæðskurður, Námið felst í ýmis konar fagvinnu á borð við sérsaum, búningasaum og sniðgerð. Þekkja eiginleika mismunandi efna sem notuð er við gerð fatnaðar auk mismunandi saumatækni. Skósmíði, Námið felst í viðgerðum og viðhaldi á skóm og leðurvörum. Söðlasmíði, Felst í viðgerðum og viðhaldi á reiðtygjum og annarri leðurvöru sem tengist hestamennsku.

Málm- og véltækni[breyta]

Blikksmíði, Blikksmiðir vinna mikið með ál og aðra þunnmálma,setja upp klæðningar og loftræstikerfi. Starfið felst einnig í að sérsmíða ýmissa nytjahluta eins og tengivagna og eldvarnarhurðar. Málmsuða, Námið felst í að læra pinnasuðu, logsuðu, TIG-suðu og MIG-MAG-suðu. Netagerð, Námið felst í viðgerðum á veiðafærum, hönnun þeirra og framleiðslu. Rennismíði, Vinnan fer mikið fram í tölvustýrðum vélum þar sem hvort tveggja er smíðað úr málmum og málmblöndum en einnig er unnið með önnur efni. Stálsmíði, Verkefni stálsmiða felst í málmsmíði,stálskipasmíði, mannvirkjasmíði eða smíða véla og vélahluta. Vélstjórn, Skiptist í fjögur stighækkandi réttindi frá A-D. Vélstjórar starfa hvort tveggja til sjós eða lands eða alls staðar þar sem störfin krefjast þekkingar á vél og tæknibúnaði. Vélvirkjun, Verkefni vélvirkja eru uppsetningar, viðgerðir, og viðhald á vélbúnaði og er mikið atriði að hafa víðtæka þekkingu á uppbyggingu og viðhaldi véla, kælikerfa og loftstýringa.

Matvæli og þjónusta[breyta]

Bakaraiðn, Í starfi bakara er oftast fylgt uppskriftum en einnig þarf að geta breytt þeim og valið vinnuaðferðir best henta hvort sem er verið að baka brauð eða kökur, búa til konfekt eða gera eftirrétti. Framreiðsla, Starfinu fylgir mikil samskipti við gesti og starfsfólk og mjög mikilvægt að geta tekið á móti og þjónustað fjölbreyttan hóp viðskiptavina og ólikar óskir. Kjötiðn, Verkefni kjötiðnaðarfólks felst í því að koma alls kyns kjöti og kjötréttum í pakkningar til neytenda. Geta sett upp kjötborð, afgreiða og ráðleggja um meðferð hráefna, matseld og val á meðlæti. Matartækni, Starfið felst i skipulagi innkaupa, setja saman matseðla,búa til hátíðarmat og huga vel að hollustu og passa upp á næringargildi matarins. Matreiðsla, Starfið felur í sér að matreiðslufólk geti sinnt sígildri og nútíma matargerð á sem fjölbreytastan hátt, bæði heimilislegum hversdagsmat eða margrétta veislumats. Þekkja matreiðsluaðferðir, fylgjast með nýjungum og geta unnið með fjölbreytt hráefni og eldað fyrir fjölbreytta hópa. Matsveinn, í starfinu felst að þjónustu daglegum matargestum, skipuleggja matseðla og matreiða fæði fyrir þá sem eru haldnir fæðuofnæmi og óþoli.

Prent og miðlun[breyta]

Bókband, Námið felst í frágangi á prentuðu efni, hvort tveggja aðferðir eins og að sauma bækur saman í höndum og þær sem eru nútímalegri eða stórar tölvustýrðar bókbandsvélar. Grafísk Miðlun (Prentsmíð), Námið felst í hönnun, myndvinnslu og umbroti verkefna við prentverk og margmiðlun. Myndefni og texta er mikið unnið með ásamt mismunandi leturgerð og útlitshönnun, þekking á tölvuforritum er nauðsynleg í starfi prentsmiðs. Ljósmyndun, Vinna og verkefni geta verið mjög fjölbreytt. Algengur starfsvettvangur auk ljósmyndastofu eru fjölmiðlar og auglýsingastofur. Námið felst í að læra eldri filmutækni en einnig nýjum aðferðum. Prentun, Verkefni prentara eru fjölbreytt t.d prentun á umbúðum, merkimiðum til stórra upplaga bóka, blaða og tímarita.

Rafiðngreinar[breyta]

Hljóðtækni, Í náminu er áhersla lögð á upptökutækni, hljóðvinnslu og hljóðsetningu ásamt ýmsu hagnýtu sem tengist hljóði og stafrænni tækni. Kvikmyndatækni, Í náminu eru allar hliðar kvikmyndagerðar koma við sögu, undibúningur, framkvæmd og eftirvinnsla. Rafeindavirkjun, Unnið er við hönnun, smíði og forritun rafeinda og stýrilása og gott að þekkja vel til í tölvuheimum eins og vélbúnaðar, hugbúnaðar og netbúnaðar. Störf rafeindavirkja tengjast oft fjarskiptakerfum, tölvubúnaði, rafeindabúnaði bifreiða, flugvéla og skipa. Rafveituvirkjun, Starfið felst í að setja upp, gera við og viðhalda háspennulögnum og öðrum búnaði sem notaður er við flutningu raforku. Fjölbreytt starf enda mikið um raflagnir og háspennulínur um allt. Rafvélavirkjun, Aðallega er unnið með vélbúnað, rafmótora, rafala, stýribúnað og tölvur. Vinna fer oft fram í iðnfyrirtækjum við uppsetningu, viðhald og viðgerðir á rafbúnaði. Rafvirkjun, Rafmagn spilar stóru hlutverki í lífi okkar og rafvirkjar starfa við að setja upp, gera við eða sinna eftirliti með rafbúnaði. Unnið er með raflagnaefni, raftæki, rafvélar, stýribúnað og forritanleg raflagnakerfi.

Snyrtigreinar[breyta]

Hársnyrtiiðn, Starfið/námið felst í að taka ákvarðanir í samráði við viðskiptavini, þvo hár, klippa, lita og greiða hár. Snyrtifræði, Starfið felst í verkefnum við að hreinsa, nudda og snyrta, hvort tveggja andlit og aðra líkamshluta. Andlitsförðun er hluti af starfinu ásamt því að veita ráðgjöf um val á snyrtivörum. Margir snyrtifræðingar starfa í tengslum vð leikhús, sjónvarp eða kvikmyndir.

Tölvur og tækni[breyta]

Stafræn Hönnun, Viðbótarnám á framhaldsskólastigi lýkur með diplómagráðu, unnið er með þrívíddarhönnun, tæknibrellur, tölvuleikja- og teiknimyndagerð ásamt eftirvinnslu kvikmynda. Tæknibrautir, Námið er skipulagt sem undibúningur fyrir háskólanám innan tækni og vísinda. Tölvubrautir, Veita grunnþekkingu á mörgum sviðum tölvutækni auk undirbúnings í almennum bóklegum greinum. Tölvuleikjagerð, Í tölvuleikjagerð eru nemendur undirbúnir undir áframhaldandi nám á háskólastigi í greinum sem tengjast gerð tölvuleikja.

Þegar fólk sér fyrir sér iðngreinar á það ekki alltaf við um það sé erfiðisvinna

Iðnám[breyta]

Segja má að nám skiptist í tvennt, bóklegt og verklegt. Iðnnám er nám í löggiltum iðngreinum og fellur undir starfsnám samkvæmt Aðalnámskrá framhaldskóla. Námið undirbýr einstakling fyrir ákveðið starf. Iðnnám fer fram í framhaldsskóla að hluta til og einnig á vinnustað undir leiðsögn iðnmeistara. Lokapróf, burtfarapróf er skipulagt af kennurum á viðkomandi námsbrautum og er viðmiðið tekið af hæfniviðmiðum aðalnámskráar og námsbrautarlýsingum. Þegar nemar hafa lokið samningsbundnu vinnustaðarnámi og burtfaraprófi frá þeim framhaldsskóla sem þeir hafa lært iðngreinina getur nemandi sótt um að þreyta sveinspróf. Sveinsprófið er sjálfstætt próf á vegum atvinnulífsins og veitir prófið lögvernduð starfsréttindi í viðkomandi grein. Löggild réttindi fást eingöngu með því að þreyta sveinspróf.

Námssamningur[breyta]

Nemandi sem hefur lokið prófi í sínu skóla gerir viðkomandi námssamning við vinnustað um starfsnám. Starfsnám í er mislangt eftir iðnlögum. Um leið og neminn hefur ráðið sig til vinnu sækir hann um vinnustaðanáms samning. Neminn getur tekið vinnustaðanám á einum vinnustað eða skipt því á milli fleiri vinnustaða. Þegar vinnustaðanáminu er skipt á milli vinnustaða þarf að gera nýjan samning. Í ferilbók eru þeir verkþættir skráðir sem neminn lærir á námstímanum.

Sveinsbréf[breyta]

Þegar námstíma nema er lokið veitist honum réttur til að taka sveinspróf í faginu þegar það er næst haldið. Sveinspróf veita lögvernduð réttindi til að starfa sjálfstætt við iðngrein (iðnaðarlög nr. 42/1978). Þau eru þannig samfélagsleg skilgreining á þeirri verkþekkingu sem fagstétt á að búa yfir og mælikvarði á kunnáttu fagmanns í greininni

Meistarabréf[breyta]

​​Markmið meistaranámsins er að veita þeim sem lokið hafa sveinsprófi fræðslu og þjálfun til að stjórna verkum, kenna nýliðum fagleg vinnubrögð, öryggisreglur og iðnfræði. Eftir nám getur meistari ráðið til sín sveina í greininni og rekið eigið fyrirtæki. Iðnmeistarar vinna sem verktakar eða framleiðendur og gegna ólíkum störfum og hlutverkum. Þeir vinna við mismunandi aðstæður allt eftir eðli starfseminnar, stærð fyrirtækis og stöðu innan fyrirtækisins. Námið fer meira og minna fram sem fjarnám og mætir nemandinn einungis fjóra daga á önn í svokallaðar staðlotur. Það er hugsað þannig að neminn geti verið í fullri vinnu á meðan á náminu stendur. Eftir að námi lýkur er hægt að sækja um sjálft meistarabréfið. Nú er hægt að sækja um það í gegnum island.is eða hjá sýslumönnum. Eftirfarandi gögn þurfa að berast með umsókninni: Sveinspróf, vottorð/undirskrift um vinnutíma hjá meistara (eigi skemmri tími en eitt ár eftir útgáfu sveinsbréfs), prófskírteini úr meistaraskóla, búsforræðisvottorð sem sótt um hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, þ.e. ef einstaklingur er búsettur þar, og að lokum sakavottorð hjá Sýslumanni.

Iðnlögin[breyta]

​​Í stuttu máli eru Lög um handiðnað (áður iðnaðarlög) nr. 42/1978 talin vera til þess að vernda forgangsrétt iðnaðarmanna til vinnu og starfsheitis. Meginefni laganna er að skilgreina hvenær þarf leyfi til iðnrekstrar og skilyrði slíks leyfis og hverjir megi vinna í iðnaði á Íslandi. Enginn má reka handiðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi samkvæmt lögunum. Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð ráðherra skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst. Um 60 handiðngreinar eru löggiltar og lögverndaðar samkvæmt reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999. Rétt til iðnaðarstarfa í þessum löggiltu iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Heimilt er sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni. Einnig getur hver og einn unnið iðnaðarstörf fyrir sjálfan sig og heimili sitt, enn fremur fyrir opinbera stofnun eða fyrirtæki, sem hann vinnur hjá, ef um minniháttar viðhald á eignum þessara aðila er að ræða.

Starfsheiti iðnaðarmanna[breyta]

Samkvæmt 9. gr. hafa þeir einir rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni. Á grundvelli breytinga á 2. gr. iðnaðarlaga geta þó þeir sem hafa réttindi hér á landi á grundvelli EES-reglna kallað sig t.d. málara hér á landi en hins vegar ekki t.d. meistara án nánari tilgreiningar. Samkvæmt iðnaðarlögum er nemum í iðngreinum heimilt að kenna sig við iðngrein sína og kalla sig t.d. húsgagnasmíðanema.

Íslandsmót iðngreina[breyta]

Íslandsmót iðn- og verkgreina er haldið á tveggja ára fresti þar sem keppt er í tæplega 30 iðngreinum. Keppendur takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Tilgangur keppna af þessu tagi er að vekja áhuga grunnskólanema og annarra á iðn- og verknámi með því að láta ungt fólk sýna handbrögð og tækni sinnar greinar. Keppnisdagarnir eru þrír og hámarksaldur keppenda er 24 ár.

Krossapróf[breyta]

1 Hvað af þessum fögum er ekki með löggildingu sarnkvæmt núgildandi reglugerð iðnlaga?

Ljósmyndun
Bakari
Hattasaumun
Vefsmíði

2 lðnlögin eru gerð til að vernda löggildingu iðnfaga?

Rétt
Rangt

3 Síðan hvenær eru núverandi iðnlög?

1897
1944
1978
2001


Heimildir[breyta]

Sýslumenn. (2019). Meistarabréf í iðngrein.

Iðnaðarráðuneyti. (2007). Upplýsingar handa iðnaðarmönnum.

Tækniskólinn. (2020) Iðnmeist­aranám.

Stjórnarráðið. (2020). Iðnaður og löggiltar iðngreinar.

Guðfinna Guðmundsdóttir og Elsa Eiríksdóttir. (2020). Sveinspróf í iðnmenntakerfinu: Tímaskekkja eða réttmætt mat á hæfni?