Fara í innihald

Hindúismi

Úr Wikibókunum
Brahma Vishnu Mahesh

Höfundur: Margrét Stefánsdóttir

Þetta kennsluefni er gefið út með afnotaleyfi Creative Commons CC BY 4.0 sem þýðir að hver sem er má endurnýta það að hluta til eða alveg, breyta, dreifa, textagreina og búa til afleidd verk í hvaða miðli sem er með því skilyrði að upprunalegra höfunda sé getið.

Hér er fjallað um helstu trúarhátíðir í hindúisma á Indlandi ásamt brúðkaupssiðum. Þetta er efni ætlað nemendum í framhaldsskólum.

Meirihluti íbúa á Indlandi og í Nepal aðhyllast hindúisma og eru þetta þriðju fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir kristni og íslam. Ólíkt flestum öðrum trúarbrögðum þá er enginn stofnandi, ekkert eitt trúarrit og engar ákveðnar kenningar.


Brúðkaupssiðir

[breyta]
Brúðhjón og hinn heilagi eldur Mynd:Psoni2402

Sakramentin hjá hindú eru kölluð sanskars og er hjónabandið eitt af sakramentunum og er hjónavígslan kölluð vivah sanskars. Þetta sanskar (sakrament) markar upphafið af einu mikilvægasta stigi lífsins sem kallast Grihistha Ashrama sem þýðir að stofna nýja fjölskyldueiningu. Tveir einstaklingar sem passa vel saman mynda ævilangt samstarf við þessa athöfn þar sem ábyrgð og skyldur heimilisins eru útskýrðar. Það getur verið mismunandi hvernig helgiathöfn brúðkaupssins fer fram eftir því hvar á Indlandi þær fara fram og einnig er misjafnt hversu langan tíma þær taka. Geta tekið nokkra klukktíma eða jafnvel nokkra daga.

Nokkur atriði hindú brúðkaups eru þó sameiginleg og verða þau útskýrð hér nánar:

Vara Yatra - Brúðguminn og fjölskyldan hans koma í athöfnina, tekið er á móti þeim með miklum söng og dans. Þar sem þeim er sérstaklega fagnað af brúðurinni og fjölskyldu hennar.

Grahashanti - Níu plánetur eru ákallaðar og blessanir berast frá hverri plánetu.

Kanyadan – Brúðurin er leidd af bróður eða frænda. Foreldrar brúðarinnar bíða með brúðgumanum að bjóða dóttur sinni í hjónabandið. Foreldrar þvo fætur brúðarinnar og brúðgumans.

Hastamilap - Hægri hendur brúðarinnar og brúðgumans eru vafinn þétt saman með bómullarbandi. Mörg lög gera það sterkt, sem táknar sterkt hjónaband og órjúfanlega heild og helgi hjónabandssins. Í athöfninni sitja brúðhjónin fyrir framan heilagan eld og fjölskyldumeðlimir færa Agnan guði eldsins matarfórnir. Brúðurin og brúðguminn ganga sjö sinnum í kringum eldinn og eftir hvern hring lofa þau hvort öðru einhverju. Þegar þau eru búin að ganga alla sjö hringina eru þau orðin hjón. Síðan er farið með fleiri bænir og gestirnir færa nýju hjónunum gjafir.

Dhruvadarshan – Nýgiftu hjónin eiga að beina sjónum sínu til norðurs og horfa á norðurstjörnuna með ósk um að hjónabandið verði jafnt stöðugt og norðurstjarnan.

Hjónavígslan í hindú fer ýmist fram á heimili brúðarinnar, í samkomusal eða musteri. Brúðurinn klæðist rauðum eða gulllituðum sari. Hendur hennar og fætur eru skreyttir með rauðbrúnu dufti sem heitir henna, það merkir að guðin Brahman er nærstaddur.

Trúarhátíðir

[breyta]

Í hindú eru haldnar fjölmargar trúarhátíðir ár hvert og er það mismunandi eftir trúarhópum innan hindú og svæða á Indlandi hvernig það er gert og hvaða hátíðir eru mikilvægastar. Það eru um 12 trúarhátíðir sem eru hvað vinsælastar og útbreiddastar í hindú.

Diwali hátíðin

[breyta]
Rangoli og ljóslampar Mynd:Soumendrak

Ein vinsælasta hátíð hindúa og er oft kölluð hátíð ljóssins. Hún er haldin í október/nóvember. Hindúar undirbúa Diwali í marga daga og jafnvel vikur. Þetta er fimm daga trúarhátíð þar sem Diwali er á þriðja degi. Fólk fylgir yfirleitt ákveðum hefðum og venjum fyrir hvern dag hátíðarinnar. Kveikt er á olíulömpum úr leir og ljósið táknar sigur hins góða yfir því illa. Hindúar fagna líka sigri ljóssins á myrkrinu, sigri þekkingu á fáfræði og von yfir örvæntingu. Hindúar skreyta hús sín ljósum og kertum bæði innan- og utandyra ásamt því að skreyta gólf í litskrúðugum mynstrum (rangoli) úr sandi.

Fjölskylda fagnar Diwali Mynd:Arnav

Þetta er helsti tími verslunar á Indlandi því ásamt því að kaupa smærri gjafir fyrir fjölskylduna kaupir fólk stærri hluti til heimilisins í kringum Diwali. Í augum Indverja er Diwali álíka merkileg og jól eru í hugum kristinna manna. Á meðan á þessari trúarhátíð stendur gera hindúar flest það sem kristnir menn aðhafast um jól. Þeir skiptast á Diwali-kortum, fá ný föt, borða veislumat, gefa gjafir, sprengja kínverja, rækta vináttuna og fjölskyldutengslin og slappa af og líta yfir farinn veg. Diwali merkir upphaf nýs árs hindúa. Sikhar, jainistar og hluti búddista halda Diwali einnig hátíðlega. Af þeim sökum sýna menn öðrum trúarbrögðum sérstaka góðmennsku og umburðarlyndi á þessari hátíð. Sem dæmi um það þá tíðkast það að hindúar gefi íslömskum landamæravörðum við Pakistan indverskt sætindi og landamæraverðirnir gefa sætindi frá Pakistan til baka.


Holi hátíðin

[breyta]
Karlar verjast barsmíðum kvenna Mynd:gkrishna38

Fjölþætt trúar- og menningarhátíð sem haldin er í febrúar/mars ár hvert og er einnig oft nefnd litahátíðin. Á meðan hátíðin stendur yfir fyllast hofin af fólki sem kemur þangað til bænagjörða og annarra trúarathafna. Haldnar eru hátíðir sem tileinkaðar eru ákveðnum guðum og gyðjum. Holi hátíðin hefst að kvöldi með varðeldum þar sem fólk syngur og dansar. Næsta morgun safnast fólk saman utandyra og kastar púðri eða dufti í margvíslegum litum á fólkið í kringum sig. Púðrið er blandað í vatn og má segja að þetta sé allsherjar vatnsslagur, bara með lituðu dufti. Allir sem eru utandyra eru með í leiknum og þeir einu sem ekki má kasta í er fólk sem er í dyragættum eða innandyra. Fólk dansar, borðar og drekkur þennan dag á götum úti. Á þessum degi er opinber frídagur á Indlandi og því eru það ekki bara hindúar sem halda trúarhátíð heldur einnig margir sem fagna vorinu, gleðjast og hitta aðra. Hátíðin einkennist af kærleika og er eina hátíðin þar sem Indverjar fagna og gleðjast saman, óháð kyni, aldri eða stétt. Hátíðin er vinsæl td. meðal ferðamanna sem heimsækja Indland. Áhrif þessarar litahátíðar hefur breiðst út og er litahlaupið (Colour Run) m.a. sprottið þaðan. Um kvöldið fer fólk í bað og heimsækir svo vini og ættingja og skipst er á litlum gjöfum (sætindum). Holi hátíðin er hátíð fyrirgefningar. Sums staðar í norðurhluta Indlands er Holi hátíðin í marga daga og m.a. er einn dagur þar sem konur berja karla með prikum og þeir verjast með því að bera fyrir sig skjöld. Þetta er táknrænt þannig að konurnar eru að þykjast berja karlanna. En þennan dag eiga karlarnir að taka við hvers konar “barsmíðum” af höndum kvennanna.

Verkefni

[breyta]
Nauðgunum mótmælt í Bangalore 2009 Mynd:Kiran Jonnalagadda

Skoðið eftirfarandi fréttir og svarið svo spurningum um þær hér að neðan.

https://www.rt.com/news/india-ritual-suicide-sati/

www.ruv.is/frett/indland-motmaeltu-ofbeldi-gegn-konum

www.visir.is/g/2014140619032

https://scroll.in/article/753496/crimes-against-women-reported-every-two-minutes-in-india

https://kjarninn.is/frettir/heimildarmynd-um-naudgun-og-mord-i-indlandi-bonnud/


Eftir að hafa skoðað fréttirnar hér að ofan veljið þið eina frétt og gerið grein fyrir um hvað hún fjallar. Hvers vegna völdu þið hana og hvað fannst ykkur athyglisverðast?

Hver ætli sé ástæðan fyrir þessu mikla ofbeldi gagnvart konum á Indlandi? Teljið þið að ástæðuna megi rekja til stéttaskiptingarinnar?

Hvað eru stjórnvöld á Indlandi að gera til að koma í veg fyrir þetta og hvað teljið þið að hægt sé að gera?


Krossapróf

[breyta]

1 Hvað kallast hjónavígsla í hindúisma?

Kanyadan
Vivah sanskars
Hastamilap
Vara Yatra

2 Brúðhjón enda hjónavígsluna á því að ganga í sjö hringi. Í kringum hvað ganga þau þessa sjö hringi?

Foreldra sína
Heilagan eld
Prestinn
Matarfórnir

3 Diwali hátíðin eða hátíð ljóssins er ein mesta hátíð hindúa. Hvert af eftirfarandi á við um Diwali?

Diwali markar upphaf nýs árs hindúa
Diwali er hátíð til að fagna vorinu
Diwali er helguð gyðjunni Saraswati
Diwali hátíðin einkennist af gulum lit

4 Hvaða hátíð er það sem Indverjar fagna og gleðjast allir saman óháð trú, kyni, aldri og stétt?

Diwali
Puja arti
Holi
Vasant Panchami

5 Hvað er rangoli og hvaða hátíð tengist rangoli?

Sætabrauð - Vasant Panchami
Ljós guðs - Puja arti
Litapúður - Holi
Litskrúðug mynstur úr sandi - Diwali




Heimildir og ítarefni

[breyta]

Das, Subhamoy,(janúar 2019). History and Significance of Diwali, the Festival of lights
The Heart of Hinduism. https://iskconeducationalservices.org/HoH/practice/festivals/
Hinduism (2014). BBC.
Prinja, Nawal K.(2009, ágúst). Weddings, BBC.
Ramayana:Story of Diwali. Myndband um goðsögnina á bak við Diwali.
Trúarbragðavefurinn
Wikipedia. Diwali
Wikipedia. Holi