Handverk

Úr Wikibókunum

Hvað er handverk?

Öll formleg og hugsuð störf manna eru handverk. Sum handverk eru hönnuð formlega önnur óformlega, önnur samin eða ort og enn önnur flutt. Öll verða þau að vera höndlanleg í sinni birtingamynd. Þ.e.a.s. snertanleg, heyranleg, sýnileg, læsileg, flytjanleg og manngerð. Öll eru þau unnin eftir undirbúning, öll eru þau hugverk í framkvæmd, byggð á þekkingu, færni og viðhorfum um rétt og röng vinnubrögð. Til þess að þau geti verið “góð” liggur fagleg vandvirkni að baki. Sumt handverk er viðurkennt sem góð list, annað sem einföld handavinna eftir forskrift. Handverkið sveiflast þarna á milli ystu póla. Bak við handverk verður að liggja eitthvert hugverk þess sem framkvæmir það, einnig verða að vera viðhorf um gæði o.s.frv. Það fer ekkert eftir því hversu fullkomin tækin eða verkfærin eru sem hand-verksmaðurinn vinnur með. Handverk er og verður aldrei aðeins eðlislæg athöfn án hugsunar, eða ákveðin líkamsbeiting eða aðeins vinna með einföldum handverkfærum sem ekki nota rafmagn. Því fullkomnari sem tækin eða verkfærin eru og tækniþekkingin er meiri, því meira hugverk er handverkið. Viðhorf um gæði og hvað sé rétt eða rangt breytist ekki við ný tæki. Það í sjálfu sér, breytir engu um, hvort eitthvað sem er gert, er handverk og eða listaverk. Gott dæmi er tónlistamaðurinn sem leikur á hið fullkomnasta kirkjuorgel sem til er meira og minna tölvustýrt. Viðhorf hans um gæði, um hvað er rétt eða rangt, sköpunarmáttur hans og túlkun, kunnátta eða þekking, færni og tæknikunnátta gerir hann að góðum handverksmanni jafnvel listamanni. Breytir þá engu um hvort hann leikur á einfalda flautu eða tölvustýrt orgel. Engin getur leikið það eftir býflugunni að byggja býflugnabú og svo listilega sem hún vinnur verkið. Ekki einu sinni færasti handverksmaður. Hún vinnur sitt verk með eðlislægum hætti vegna þess að hún er býfluga. Maðurinn verður að undirbúa sitt verk og hugsa það hvernig hann framkvæmir til að geta búið eitthvað til. M.ö.o. handverk en ekki eins og eðlislæg iðja kóngulóarinnar. (Sjá ritgerðina “Með opnum huga”) Spurningin er því, hvenær verður handverk “listaverk”? Getur lélegt handverk verið listaverk ? Getur verið til listaverk án handverks? Í þessum hugleiðingum er gengið út frá því að svo geti ekki verið, vandinn geti verið fólginn í því að skilgreina í hverju handverkið felst og í hverju listin. A.m.k. eitt virðist spyrða þau saman, þau virðast öll fjalla um sköpun er byggir á hugmynd. Breytir þá engu hvort sú sköpun er handgerð eða gerð með fullkomnum tækjum. Til þess að sköpunarverkið getur talist vera gott handverk verður birtingarmynd þess að vera viðurkennd sem góð fagmennska. Kristbjörn Árnason