Fara í innihald

Héraðsskólinn á Laugarvatni

Úr Wikibókunum
Húsnæði Héraðsskólans á Laugarvatni

Höfundur: Sævar Logi Ólafsson, sagnfræðingur.

Staðsetning valin[breyta]

Frá því að stjórnarskráin tók gildi árið 1874 var farið að ræða um alþýðufræðslu og stofnun skóla á suðurlandi austan Hellisheiðar. Barnaskólinn á Eyrarbakka hafði verið stofnaður 1852 og á næstu árum eftir 1874 voru reist barnaskólahús á Þingvöllum og Kröggólfsstöðum í Ölfusi en lítið annað gerðist næstu árin. Farið var að tala um Héraðsskóla nokkuð uppúr aldamótum og stóð til að reisa sameiginlegan skóla fyrir Árnessýslu og Rangárvallarsýslu.  Það kom þó aldrei til vegna ágreinings um staðsetningu og fyrirkomulag slíks skóla á milli fulltrúa hvorrar sýslu fyrir sig. Árið 1924 kaus sýslunefndin í Árnessýslu nefnd til að vinna í skólamálinu og fékk þessi nefnd húsameistara ríkisins Guðjón Samúelsson til að skoða álitlega staði í sýslunni fyrir skólasetur, en jarðhiti var skilyrði fyrir vali staðarins. Sjö staðir voru skoðaðir en það voru: Hveraheiði í Hrunamannahreppi, Laug, Haukadalur, Reykholt, Skálholt og Syðri-Reyki í Biskupstungum auk Laugarvatns. Húsameistarinn lagði fram skýrslu um ferð sína í lok september 1924 og var niðurstaða hennar að Laugarvatn væri álitlegasti staðurinn fyrir skólasetur í Árnessýslu og 1926 samþykkti sýslunefndin Laugarvatn með 13 atkvæðum á móti tveimur, þó svo að ýmislegt hefði átt eftir að breytast á undirbúningsferlinu og Hveraheiði í Hrunamannahreppi varð um tíma ofar á blaði sökum þess hve Laugarvatn var afskekkt og miklar vegleysur á leiðinni þangað. Rangvellingar voru enn að blanda sér í skólamálið og kosið var milli Hveraheiði í Árnessýslu og Árbæjar í Holtum árið 1927. Þegar allt var á suðupunkti kom nýskipaður dóms- og kennslumálaráðherra Jónas Jónsson frá Hriflu og hjó hnútinn og tók þá ákvörðun að Laugarvatn yrði fyrir valinu og studdist hann meðal annars við mat húsameistara ríkisins. Ákvörðun hafði verið tekið á æðstu stöðum, Laugarvatn skildi verða skólasetur fyrir sunnlenskan æskulýð.

Stofnun og fyrstu starfsárin           [breyta]

Strax og ákvörðun um skóla á Laugavatni var staðreynd var farið í að stofna byggingarnefnd til að reisa skólahús og kaus fundurinn Böðvar Magnússon sem formann nefndarinnar. Guðjón Samúelsson var fenginn til að hanna skólabygginguna og sumarið 1928 voru reistar tvær burstir en vorið eftir voru reistar fjórar burstir til viðbótar auk sundlaugar fyrir austan húsið, en fyrsta veturinn var sundlaugin í kjallaranum þar sem síðar varð borðstofa. Skólahúsnæðið var búið fjórum kennslustofum á aðalhæð, rúmgóðu anddyri og forsal auk 23 íbúðarherbergja og þremur snyrtiherbergjum með böðum á tveimur hæðum.

Veturinn 1928-1929 var séra Jakob Lárusson prestur í Holti undir Eyjafjöllum skólastjóri og Guðmundur Ólafsson frá Sörlastöðum í Fnjóskadal var fastur Kennari en 24 nemendur voru við nám fyrsta skólaárið sem var sett 1. nóvember.  Jakob sagði af sér vorið 1929 og Bjarni Bjarnason var ráðinn skólastjóri síðla sumars en 83 nemendur höfðu fengið inngöngu í skólann en húsnæðið var vart fokhelt. Drengirnir voru látnir gista í stórum sal á flatsæng en þegar líða tók á veturinn fóru herbergin að verða afþiljuð þannig að hægt var að flytja inn í þau. Ásamt Bjarna voru ráðnir þrír nýir fastakennarar og tveir stundakennarar. Skólinn var settur 4. október og húsið vígt. Nemendur skólans unnu hörðum höndum að því að gera skólahúsið tilbúið að innan með því að berja múrslettur af gólfum til að hægt yrði að dúkleggja gólfin auk þess sem eitt aðalmarkmið vetrarins var bygging sundlaugarinnar þar sem markmiðið var að allir nemendur gætu synt fyrir jólin og tókst það ætlunarverk. Sumarið eftir sá byggingarnefndin til þess að skólahúsið væri klárað að innan sem utan auk þess sem hafin var bygging á nýju einbýlishúsi skammt frá aðalbyggingunni. Nýja húsið var einlyft með manngengu risi og kjallara undir hluta hússins og hafði á að skipa 12 svefnherbergjum ætluðum fyrir nemendur. Um haustið 1930 var nýja húsið ekki orðið íbúðarhæft og því urðu 40 skólapiltar að gista í einni kennslustofunni þar til nýja húsið yrði tilbúið en þennan vetur voru 123 nemendur við skólann. Flutt var inn í nýja húsið í byrjun árs 1931 og hlaut það nafnið Björk.  Veturinn 1931-1932 festi skólinn kaup á sýningarskálum frá þjóðhátíðinni 1930 og sáu nemendur um að taka niður sýningarskálann og flytja hann austur á Laugarvatn þar sem þurfti að setja hann saman aftur. Skálinn var keyptur í nóvember og í febrúar var hann tekinn í notkun sem nýtt íþróttahús en einn þekktasti og lærðasti fimleikakennari landsins Björn Jakobsson frá Narfastöðum hafði bæst í kennaraliðið fyrir veturinn og því var bætt íþróttaðstaða kærkomin viðbót en Björn átti eftir að verða aðal driffjöðrin í stofnun íþróttakennaraskólans árið 1942. Ekki má gleyma því að við Laugarvatnsskólann var rekið öflugt mötuneyti sem er að mörgum talið undirstaða góðs skóla.

Vorið 1932 var samið við Ragnar Ásgeirsson hjá Búnaðarfélagi Íslands til að setja upp tilraunastöð í garðyrkju við skólann en Ragnar byggði sér hús og gróðurhús á Laugarvatni auk þess sem hann gróðursetti tré og plantaði blómum meðfram öllum gangstígum til að auka snyrtimennsku en Hús Ragnars hlaut nafnið Hlíð.  Uppbyggingu á Laugarvatni var haldið áfram en í stað stórra húsa var ákveðið að reisa nokkur minni hús sem yrðu kennarabústaðir til helmings við heimavist fyrir nemendur. Áður höfðu verið reist húsin Björk og Lind en síðan voru reist Hlíð 1944, Mörk 1945 og Grund 1947-1948. Auk þess sem sundlaugin var endurbætt árið 1944, bætt var við álmu með 10 svefnherbergjum í Lind og hafist var handa við að byggja nýtt íþróttahús.

Kennslufyrirkomulag           [breyta]

Frá stofnun Héraðsskólans árið 1928 og til vorsins 1945 var kennt í tveimur deildum, yngrideild og eldri deild. Yngrideildin veitti rétt til áframhalds í eldri deildina, en henni lauk síðan með svokölluðu héraðsskólaprófi sem var að stærstum hluta lagt til jafns við gagnfræðipróf. Lög um héraðsskóla voru afnumin 1939 og ný fræðslulög tóku gildi 1946 sem olli því að aldurtakmarkið við héraðsskólann var lækkað. Um vorið 1945 var ákveðið að hefja iðnnám við skólann auk þess sem komið var á laggirnar þriðja bekk sem ætti að útskrifa nemendur með gagnfræðipróf til að þess að nemendur kæmust beint inn í lærdómsdeild menntaskóla. Vorið 1946 þreyttu 21 nemandi próf upp úr þriðja bekk. Með nýju fræðslulögunum 1946 var sett á svokallað landspróf við lok þriðja bekkjar sem kom í staðinn fyrir inntökupróf í menntaskólum og þurfti nemandi að ná að lágmarki 6,0 í einkunn til að eiga rétt á námi í menntaskóla eða kennaraskóla. Veturinn 1946-1947 voru 18 nemendur í þriðja bekknum, tíu þeirra luku landsprófi, þar af níu sem náðu lágmarkseinkunn en átta luku gagnfræðiprófi. Á fundi skólanefndar 18. apríl 1947 var farið að ræða um að koma á framhaldsdeild við Laugarvatnsskólann, einskonar menntaskóla sem tæki við nemendum úr sveitinni sem lokið hefðu landsprófi.

Bjarni Bjarnason skólastjóri lýsir lífinu í skólanum  á þennan hátt: //Við héraðsskólann hófst kennsla klukkan 8 að morgni og stóð til 17, suma daga þó með frístundum inn á milli. Milli 17 og 19 var lestrartími þar sem reynt var að hafa hljótt, en ekki alltaf er það fyrirhafnarlaust. Brýnt er fyrir unga fólkinu að koma snyrtilega í skólann, en nokkuð gengur misjafnlega að rækja þau fyrirmæli. Breyting á klæðnaði er svo annað mál. Stúlkur í skólum viðast ætla að leggja niður pilsið, en taka upp buxur eins og drengir ganga í, sokkar hverfa sem daglegur klæðnaður kvenna. Skólafólið á nóg af hlýjum fötum, fáist það til að nota  þau, reynast hlý föt besti heilsugjafinn. Við héraðsskólann fá umsækjendur aðeins skólavist ef þeir neyti ekki tóbaks meðan þeir séu í skólanum auk þess sem áfengi er óleyft. Ekki ættu þetta að vera flóknar eða óeðlilegar reglur þar sem í hlut eiga 13-16 ára unglingar. Námsefnið er í föstum skorðum og kennarar nokkuð bundnir af því og opinberum prófum  og á það sama við um verknám og íþróttir. Námsmeyjar eru bundnar af skyldustykkjum í byrjun og drengirnir verða að ganga í gegnum allskonar eldraunir áður en þeir fá að leggja í vandasama smíðisgripi. Þó er meira frelsi í þessu námi en bóknáminu. Þó nær fræðslan samt nokkuð útyfir lexíurnar sjálfar  og að sjálfsögðu fræðir skólinn nemendur sína um siðsamlega daglega hætti og temja nemendum sínum að tileinka sér hollar lífsreglur.

Bruninn 1947[breyta]

17. ágúst 1947 varð atburður sem átti eftir að hafa mikil áhrif á sögu héraðsskólans en þann dag brann aðalhús héraðsskólans og með því mikil verðmæti. Listaverk ýmis sem skólanum hafði verið færð að gjöf auk þess sem gistihúsið sem þar var rekið á sumrin tapaði mikið af rúmum, rúmfötum, borðdúkum og fleiri hlutum en starfskonur gistihússins töpuðu margar aleigu sinni. Ein starfsstúlka slasaðist mikið en aðrir ekki svo teljandi væri. Allir sem staddir voru á Laugarvatni þennan dag gerðu það sem mest þeir máttu til að bjarga því sem bjargað yrði, en slökkvilið frá Selfossi og Reykjavík kom síðan og náði að slökkva eldinn, en þá var nánast allt brunnið sem brunnið gat og einungis austasta burstin stóð eftir enda liðnir tæplega þrjár klukkustundir frá því að eldsins varð vart og þar til aðstoð kom frá Selfossi og þá var rúm klukkustund þar til slökkvilið úr Reykjavík kæmi á vettvang[1].

Ákveðið var strax í kjölfar brunans að setja bráðabirgðar þak á húsið og farið var að vinna í því að undirbúa skólann fyrir komandi vetur en í samráði við héraðslækni, landlækni og fræðslumálaskóla var reiknað út rúmmál herbergja og hversu marga nemendur væri forsvaranlegt að hafa í hverju herbergi. Bjarni sendi síðan bréf til þeirra 195 nemenda sem sækja ætluðu skólann um veturinn og skýrði út stöðu mála og bauð þeim að sætta sig við þrengslin eða hætta við skólavistina en aðeins 2 nemendur hættu við skólagönguna og því voru 193 nemendur við Héraðsskólann þennan veturinn. Sumarið 1948 hafði skólanefndin undirbúið byggingu nýs skólahúsnæðis á þeim stað þar sem fyrsti Laugarvatnsbóndinn hafði valið bæ sínum stað. Reist var stórhýsi á þremur hæðum sem síðan var ákveðið að nýstofnaður menntaskóli fengi  ef af stofnun hans yrði og Héraðsskólinn myndi þá endurreisa gamla húsið í burstastíl. Einnig kom upp sú hugmynd að íþróttakennaraskólinn myndi endurgera gamla héraðsskólahúsið fyrir sína þágu, en það þótti sýnt að hann yrði þá ekki reistur aftur með burstastílnum og því fékk Íþróttakennaraskóli Íslands land til sinna athafna.

Frístundir[breyta]

Við héraðsskólann var margt gert til dundurs yfir vetrarmánuðina en sú venja komst á að fara á hverju ári til Reykjavíkur síðari hluta vetrar þar sem ætlast er til að nemendur fari í leikhús, helst á tvær sýningar og skoði söfn. Meðan allir bjuggu í aðalhúsinu var ætluð ein stund daglega til útiveru og stuttra gönguferða en auk þess eru jafnan skiplagðar gönguferðir upp á Gullkistu Stóragil, Laugarvatnshelli og fleiri áhugaverða staði í nágrenninu. Ýmsir merkir menn hafa heimsótt skólann og má þar nefna Ásgeir Ásgeirsson þáverandi forseta Íslands, Vilhjálm Stefánsson landkönnuð auk Ásmundar Guðmundssonar og Sigurgeiri Sigurðssyni er þeir voru biskupar. Frá því um 1930 hefur skólafélag verið starfrækt við skólann sem stendur fyrir ýmsum skemmtunum og útgáfu skólablaðs. Annað hvert laugardagskvöld var haldin dansleikur sem stóð þó ekki lengur en til 11 eða 12 en hitt laugardagskvöldið er höfð kvöldvaka þar sem spilað er eða teflt. Á sunnudagskvöldum eru jafnan kvikmyndasýningar og á virkum kvöldum oft kepp í körfubolta eða sundi, leikrit sýnd eða spurningakeppnir. Árshátíð var haldin 1. Desember ár hvert og á útmánuðum var önnur skemmtun en báðar þessar skemmtanir voru fjáröflunarsamkomur. Söngkennsla og söngur var stundaður við Laugarvatnsskóla meira en í flestum öðrum skólum landsins og fyrstu ár skólans kenndi Þórður Kristleifsson söng sem var hafður inni í stundarskrá og prófað úr á vorin.

Lok Héraðsskólans[breyta]

Frá því árið 1945 höfðu verið þrír bekkir við Héraðsskólann en á síðari hluta sjöunda áratugarins hafði orðið mikil uppbygging í menntakerfinu í Árnessýslu svo að mun færri þurftu að leita í neðri hluta gagnfræðistigs til Laugarvatns sem leiddi af sér að sumarið 1968 þótti ekki grundvöllur fyrir því að vera með 1. bekk (núverandi 7. bekk) og var hann ekki framar kenndur við Héraðsskólann. Vorið 1969 var fyrsta samræmda gagnfræðiprófið haldið og veturinn 1969-1970 var kennt í fyrsta sinn fjórða bekk í Héraðsskólanum, svo aftur voru komnir þrír bekkir við skólann, en aðeins tveir nemendur náðu að sitja í 1., 2., 3. og 4. bekk skólans en það voru Gunnar Vilmundarson frá Efstadal og Þórdís Pálmadóttir frá Hjálmastöðum í Laugardal. Uppúr 1970 var til umfjöllunar í þinginu nýtt frumvarp um menntamál sem var kallað Grunnskólafrumvarpið og árið 1974 tók það gildi. Grunnskólalögin gerðu það að verkum að gagnfræðiprófið og landsprófið voru sameinuð í eitt samræmt grunnskólapróf. en þá hafði fækkað mjög nemendum í Héraðsskólanum og þá aðallega úr Árnessýslu og veturinn 1977- 1978 voru aðeins starfandi 8. og 9. bekkur grunnskóla við skólann þar sem 54 nemendur hófu nám um haustið en árið áður höfðu 88 nemendur hafið nám um haustið og 94 veturinn 1975-1976.

Skólaveturinn í Héraðsskólanum náði vanalega frá byrjun október og þar til landsprófum var lokið í síðari hluta maí, en það er mun styttri tími en í flestum kaupstaðaskólunum. Það var hinsvegar réttlætt með því að kennt var 6 daga vikunnar. Félagslífið hafði stórlega minnkað síðustu árin, skólablað kom ekki út eftir 1969 og ekki var haldin nein árshátíð eftir 1973. Árlegar ferðir nemenda til Reykjavíkur í leikhús voru aflagðar auk þess sem ekki hefur verið farið í skólaferð að vori síðan 1972 en eftir að skólinn eignaðist sjónvarp árið 1970 hefur það verið helsta dægradvöl nemenda. Þó að félagslífið hafi hnignað töluvert, þá var ekki hægt að segja það sama um íþróttalífið en það var stundað af miklum áhuga. Áfram héldu breytingar á menntakerfinu og uppbygging grunnskóla í flestum sveitarfélögum þannig að fækkaði jafnt og þétt í héraðsskólanum og var hann endanlega lagður niður árið 1991.

Spurningar[breyta]

  1. Hvaða stjórnmálamaður var helsti hvatamaður þess að Héraðsskólinn endaði á Laugarvatni?
  2. Hver teiknaði hús Héraðsskólans á Laugarvatni?
  3. Hvaða ár var Héraðsskólinn stofnaður?
  4. Hvaða ár brann Héraðsskólinn?
  5. Hvað var Bjarni Bjarnason lengi skólastjóri?
  6. Hvað varð um húsnæðið sem var byrjað var að reisa 1948?
  7. Hvaða aðrir staðir komu til greina sem staðsetning á Héraðsskóla?

Heimildir[breyta]

Bjarni Bjarnason (1969). Suðri I. Þættir úr framfarasögu sunnlendinga frá Lómagnúp til Hellisheiðar. Bjarni Bjarnason frá Laugarvatni safnaði og gaf út

Sunnlenskar Byggðir III. Vesturhluti Árnessýslu (1983). Ritnefnd: Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson og Júlíus Jónsson. Búnaðarsamband Suðurlands.


  1. Laugarvatnsskólinn stórskemmist í eldi. (1947, 19. ágúst) bls. 1 og 12