Fara í innihald

Gullfiskur

Úr Wikibókunum

Gullfiskar eru strangt til tekið aðeins ein tegund, Carassius auratus, en sú venja hefur skapast að kalla alla gulllitaða fiska í fiskabúrum og tjörnum þessu nafni. Gullfiskar tilheyra ætt karpa (Cyprinidae) og upprunalega lifa þeir villtir í vötnum og ám í Austur-Asíu.

Náttúrulegir gullfiskar eru ekki gylltir heldur er algengast að þeir séu grænbrúnir og steingráir. Breytileiki í lit gullfiska er þó mikill og átti það sinn þátt í að menn fóru að rækta upp hin ólíku litarafbrigði meðal þeirra. Talið er að Kínverjar hafi fyrstir manna farið að halda gullfiska í tjörnum sér til yndisauka, líklega ekki seinna en á valdatíma Sung ættarinnar (960 - 1279).

Margra alda kerfisbundin ræktun hefur nú skapað meira en 120 ólík afbrigði gullfiska sem hægt er að kaupa í gæludýraverslunum um allan heim. Þessi mikli breytileiki gullfiska nær ekki aðeins til litafars heldur líka til líkamslögunar þeirra.

Víða um heim hafa gullfiskar sloppið úr garðtjörnum og pollum og tekið upp hið gamla villta líferni. Það sem er merkilegt í því sambandi er að þessi ræktunarafbrigði hafa smám saman tekið upp gamla litarfarið og stækkað upp í náttúrulega stærð sem getur verið allt að 30 cm. Gullfiskar í búrum og tjörnum eru hins vegar venjulega aðeins 5-10 cm á lengd. Augljóst er að hið sterka náttúruval er hér að verki.

Gullfiskar eru alætur. Þeir éta þörunga, ferskvatnsplöntur, ýmis smádýr, svo sem krabbadýr og ýmsar skordýralirfur, til dæmis lirfu moskítóflugunnar.

Fiskabúrið

[breyta]

Þekking á hugsun og tilfinningalífi dýra er takmörkuð en þó er vitað að mörg dýr geta leikið sér og haft gaman af því. Ekki er þó vitað hvenær eða hvernig dýr þróuðu með sér þennan hæfileika að geta leikið sér og haft af því gaman. Gullfiskaeigendur setja ýmislegt dót í búrið fyrst og fremst kannski til að gera fiskabúrið meira aðlaðandi til að horfa á. Skrautlegar sjávarhallir og glitrandi fjársjóðir í kistum gera það skemmtilegra fyrir okkur að fylgjast með fiskunum synda um en engin leið er að segja til um það hvort líðan fiskanna breytist eitthvað við það að hafa dótið í kringum sig. Ef margar ólíkar fiskategundir eru saman í fiskabúri er algengt að fiskarnir marki sér svæði í búrinu og dót í fiskabúrinu getur auðveldað fiskum að helga sér svæði.


Sýrustig og vatnsharka

Vatnið inniheldur sölt af ýmsum gerðum. Þau algengustu eru kalsíumbíkarbónat og kalsíumsúlfat. Vatn sem inniheldur mikið af slíkum kalksöltum er sagt vera „hart“. Mikið samspil á sér stað milli áðurnefndra salta og sýruefnanna koltvíoxíð (CO2) og kolsýru (H2CO3). Mikilvægt er að hafa þessa samsetningu í huga þegar stilla þarf af þessa umhverfisþætti í fiskabúrinu. Sýrustig (pH) skal vera kringum 7 í venjulegum fiskabúrum. Í slíku umhverfi er nær allt koldíoxýð á bundnu formi sem bíkarbónat. Hjá cíklíðum er aftur á móti eðlilegt að hafa sýrustig um eða yfir 9. Vatnsharka virkar inn á frumustarfsemi fiskanna jafnt sem starfsemi fruma gróðurs og örvera í búrinu. Flestir skrautfiskar þola vel þá vatnshörku sem er í venjulegu kranavatni hér á landi. Þess skal þó getið að cíklíður úr Malawí- og Tanganíuvatni þurfa öllu harðara vatn, þ.e.a.s. meira innihald af kalksöltum. Bakteríuflóran í búrinu


Nítursambönd

Nítursambönd eru mikilvægir þættir í uppbyggingu eggjahvítu líkamans. Í náttúrunni finnast þessi efnasambönd í mjög litlu magni og eru þar af leiðandi takmarkandi þáttur fyrir vöxt og viðkomu lífvera. Í fiskabúri er þessu öfugt farið. Við slíkar aðstæður er fiskum, gróðri og örverum haldið saman á mjög takmörkuðu svæði og getur nítur verið fljótt að magnast upp vegna niðurbrots á fóðurleifum, sauri og rotnandi lífverum í búrinu. Slíkt umhverfi getur hæglega orðið eitrað fiskinum. Það er því mikilvægt að halda fóðurgjöf skrautfiska í lágmarki á hverjum tíma.

Mikilvægustu og algengustu nítursamböndin eru ammóníak (NH3), ammóníum (NH4+) og nítrat (NO3-) sem myndast úr nítríti (NO2-). Þessi efnasambönd geta einungis myndast með hjálp súrefnis (O2). Við súrefnisskort eða þegar sýrustig vatnsins fer yfir 7 ganga þessi efnahvörf í þá átt að eiturefnið ammóníak myndast. Það sem gerir þetta efnasamband svo eitrað er að það á mun auðveldara með að komast yfir í blóð fiskanna í gegnum tálknin. Í lokuðu kerfi eins og í fiskabúri er hætta á að ammóníak safnist óhóflega upp, sérstaklega ef búrið er ofhlaðið fiski og gróðri. Við slíkar kringumstæður eykst einnig innihald koltvíoxíðs (CO2) og lífræns úrgangs. Allt þetta getur leitt til þess að bakteríur, sveppir og sníkjudýr fái kjöraðstæður til að fjölga sér og geta í raun blómstrað upp á örskömmum tíma. Þess verður þó að geta að aukið koltvíoxíð (CO2) í vatninu leiðir til lækkunar á sýrustigi vatnsins og þar með dregur úr eituráhrifum ammóníaks, en um leið aukast eituráhrif annarra efnasambanda í vatninu, s.s. súlfíða og cýaníða.


Góðar bakteríur

Við öll áðurnefnd efnahvörf koma „góðar“ bakteríur við sögu sem undirstrikar mikilvægi þess að gott jafnvægi ríki í umhverfisþáttum fiskabúrsins, s.s. sýrustig, bakteríuflóra og hitastig. Mikilvægustu bakteríurnar er Nítrósómas, sem vinna nítrít (NO2-) úr ammóníum og Nítróbakter sem vinna nítrat (NO3-) úr nítríti. Nítrat er mun minna eitrað en nítrít og er nítrít-eitrun ekki óalgeng í fiskabúrum.

Í nýjum fiskabúrum eru þessar „góðu“ bakteríur ekki alltaf til staðar í nægilegu magni til að byrja með. Mikilvægt er að gefa nýjum búrum svolítinn tíma áður en fiskum er sleppt út í. Einnig má setja lífhreinsi (fílter) eða botnefni úr gömlu búri í það nýja til að auðga það „nýju lífi“. Það getur tekið einhverja daga, jafnvel vikur, áður en æskilegt jafnvægi skapast í búrinu. Við skipti á vatni eða lífhreinsi í búrinu raskar maður þessu mikilvæga jafnvægi með því að fjarlægja og drepa nauðsynlega bakteríuflóru. Það er gullvæg regla að skipta aldrei um vatn og hreinsa lífhreinsi sama dag, best er að láta nokkrar vikur líða á milli. Einnig er mikilvægt að skipta fyrst um vatn og síðan um lífhreinsi.


Lýsing

Gróður þarf helst birtu í 12-14 klst. á sólarhring. Styrkur lýsingar skal vera um 1 watt miðað við hverja 2 lítra af vatni í búrinu.


Hitastig

Kjörhitastig fyrir flestar tegundir skrautfiska er á bilinu 24-26°C. Gullfiskar þrífast þó best á bilinu 16-22°C.


Lífhreinsir

Tilgangur slíks búnaðar er margþættur. Helst má nefna hreinsun vatnsins, viðhald „góðra“ baktería, koma hreyfingu á vatnið og auka súrefnisinnihald. Stærð lífhreinsa fer mikið eftir stærð fiskabúrsins, fjölda fiska o.s.frv., en þó má segja að því stærri því betri. Sem þumalfingursregla má segja að æskilegt sé að lífhreinsir dæli í gegnum sig og hreinsi u.þ.b. helming af vatnsmagni búrsins á hverri klst.


Lyfjanotkun og lífhreinsir

Lyfjagjöf í fiskabúr hefur neikvæð áhrif á lífræna virkni í lífhreinsinum. Þetta á sérstaklega við um notkun sýklalyfja. Ef nauðsynlegt er að grípa til slíkra aðgerða er góð grundvallarregla að skipta næstum öllu vatni út (5/6) að meðhöndlun lokinni. Einnig er góð regla að taka smá slatta af botnefni, og jafnvel hluta af lífhreinsinum, og geyma í íláti með vatni á meðan lyfjakúrinn stendur yfir. Eftir að hafa skipt út mestum hluta vatnsins er þetta síðan fært aftur í búrið.


Kúlubúr

Fiskar í kúlubúri geta orðið allt að 10 ára gamlir en það þarf að skipta um vatn á hverjum degi að sögn starfsmanns Dýraríkisins.


Vönduð umhirða lífhreinsis er hálfur leyndardómurinn á bakvið fallegt og ræktanlegt fiskabúr!



Heimildir

Dýraríkið

Vísindavefur Háskóla Íslands