Fara í innihald

Glerblástur

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Salvör Gissurardóttir

Þetta er wikibók um sögu og aðferðir í glerblæstri. Hún hentar sem ítarefni með námskeiði í glervinnslu eða sem hluti af námsefni í tækni eða iðnsögu. Þetta er einnig sýnishorn af wikibók og hluti af námsefni um hvernig á að gera wikibækur.

Hvað er gler?[breyta]

Gler getur orðið til í náttúrunni þegar eldingu slær niður í sand eða við viss skilyrði i eldgosum. Hrafntinna er gler. Grunnefnið í gleri er sandur sem er bráðinn og snöggkólnar án þess að mynda krystalla. Rúðugler(flotgler) er oftast ekki það sama og gler sem er notað við blástur eða það sem mótað er á einhvern hátt í skúlptúra. Rúðugler harðnar mjög fljótt og þess vegna er erfitt að móta það með blæstri, en er orðin ein algengasta glertegundin við mótun glers á leir og riðfríum stálmótum. Hægt er að bæta ýmsum efnum við glerið til að lengja þann tíma sem það tekur að harðna og til þess að ná fram litbrigðum í glerið. Á tímabili var blý notað í það en það er ekki lengur gert í svo stórum stíl sem áður þar sem það getur haft mengandi áhrif á umhverfið.

Glerið sem er notað í heimilisglugga er nefnt flotgler, því eftir að glermassinn hefur verið bræddur og blandaður er honum fleitt út á fljótandi málmblöndu sem er eðlisþyngri en glerið. Þar flýtur glermassinn á meðan það myndar yfirborðsspennu. Vegna þess að glerið storknar á fljótandi efnið er það jafn slétt og raun ber vitni.

Saga glergerðar[breyta]

Glerblástur um árið 800

Mótun glers er mörg þúsund ára gömul iðn en mótun með því að blása í pípur er frá fyrstu öld fyrir krist í Sýrlandi. Líklegt er að gler hafi í fyrstu verið notað til að glerja leirmuni.

Áður hafði notkun á gleri verið í skartgripi og skreytingar en nú var mögulegt að búa til nytjahluti. Fundist hafa glerílát og aðrir hlutir í rústum Pompeii.

Glergerð í Murano[breyta]

Feneyjar urðu miðstöð glergerðar. Í kringum árið 1200 var stofnað gildi glergerðarmanna í Feneyjum og árið 1291 voru allir glergerðarmenn neyddir til að flytja til eyjunnar Murano. Það var vegna eldhættu í Feneyjum út af öllum glerbrennsluofnunum og vegna þess að Murano var í passlegri fjarlægð frá borginni og samt svo einangruð að hægt var að fylgjast með ferðum þaðan. Mikil leynd hvíldi yfir glergerðinni og glergerðarmennirnir máttu ekki fara frá Murano til að tryggja að þekking þeirra breiddist ekki út. Ýmis konar glergerðartækni þróaðist í Murano, þar voru gerðir fyrstu speglarnir sem ekki voru úr málmi.

Glergerð í Evrópu[breyta]

Glergerðarhús um 1865

Á 17. öld var gefin út bókin L’Arte Vetraria eftir Antonio Neri. Þar var í fyrsta skipti leyndardómnum við glergerð lýst, hvernig ætti að búa til gler, hvaða hráefni þyrfti, hvaða verkfæri þyrfti og hvernig ætti að blása gler. Á endurreisnartímanum óx upp glergerð víðar í Evrópu m.a. á Spáni, í Frakklandi, Þýskalandi, Niðurlöndum, á Englandi og í Svíþjóð. Glergerðin fór fram í glergerðarhúsum í skógum og þar var notað hráefni frá skógunum — viðaraska eða pottaska sem var hreinsuð og blönduð með koparoxíð þannig að glerið varð fölgrænt og gjáandi. Glergerðarhúsin í skógunum framleiddu gler aðallega fyrir drykkjarílát og glugga. Árið 1676 fann maður að nafni George Ravenscroft upp aðferð til að nota blý í ger og þá var hægt var hægt að vinna miklu lengur með glerið og auðveldara að móta það.

Iðnvæðing[breyta]

Í kringum aldamótin 1900 verða miklar framfarir í glergerð í verksmiðum, það koma á sjónarsviðið sjálfvirkar vélar sem geta framleitt flöskur og ljósaperur.

Glerbræðsla[breyta]

Gler er búið þannig til að hráefni eru brædd við hátt hitastig. Hráefnin eru sandur, kalksteinn (limestone), þvottasódi (Sodium carbonate), pottaska og fleiri efni. Þau eru brædd í ofni sem hitaður er langt upp fyrir 1100°C og þá verður glerið appelsínugult og loftbólur fara úr glerinu. Svo er glerið hitað í 1100°C. Þó ná vissar glertegundir blöndunarmarki við lægra hitastig svo sem bullsaey gler og flotgler.

Við vinnslu handunninna glermuna eru oftast notaðir þrír brennsluofnar í dag, fyrst ofn til að bræða glerið, síðan ofn með opi (glory hole) til að endurhita hlut með því að stinga honum aftur í ofninn á meðan unnið er með hann og hann mótaður. Þriðji ofninn er til að kæla hlutinn niður nógu hægt því glerið gæti sprungið við snögga kælingu. Fyrr á öldum var aðeins notaður einn ofn og fyrir þá sem ætla sér aðeins að framleiða eitt til tvö stykki í einu er nóg að hafa einn ofn.

Glerblástur[breyta]

Blásarinn heldur á fjögurra feta löngu holu málmröri sem hann dýfir í bráðinn glermassa og safnar upp gleri eins og sýrópi. Glerið er svo mótað t.d. með blautum trébolum, blautum dagblöðum, töngum og málmi milli þess sem blásið er í rörið. Það er nauðsynlegt að endurhita glerið á meðan það er mótað því það kólnar.

Glerblástur á Íslandi[breyta]

Í Bergvík á Kjalarnesi er rekin listasmiðja með gler. Gler í Bergvík var fyrsta glerblástursverkstæðið á Íslandi en það var stofnað af Sigrúnu Ó. Einarsdóttur og Sören S. Larsen árið 1982 og hefur Sigrún rekið það ein frá því að Sören lést árið 2003. Sjá má myndir af verkum Sigrúnar og Sörens á vefnum Gler í Bergvík

Við smábátahöfnina í Reykjanesbæ rekur Guðlaug Brynjarsdóttir glerblástursverkstæðið Iceglass ásamt syni sínum Lárusi Guðmundssyni. Þar eru fimm brennsluofnar og móta og blása Guðlaug og Lárus muni úr flæðandi gleri sem kemur úr 1.00 gráðu heitum ofni.

Spurningar[breyta]

  1. Hvað er aðalefnið í gleri
  2. Hvað einkennir gler?
  3. Hvenær og hvar var fyrst farið að blása gler?
  4. Hvar var miðstöð glergerðar í Evrópu?
  5. Hvers vegna voru glergerðarhús í skógum og til hvers # var pottaska notuð?
  6. Hvaða hráefni eru í gleri?
  7. Hvaða ofna þarf við glerblástur?


Krossapróf[breyta]

1 Hvað er talið að gler hafi fyrst verið notað í?

Í glugga í kirkjum
Blómavasa
fiskabúr
glerung á leirmuni

2 Hvað er rétt fullyrðing glerblásara um Murano?

Glerblásarar í Murano gerðu spegla úr málmplötum
Glerblásarar í Murano máttu ekki fara í burtu
Glerblásarar í Murano fundu upp ljósaperur
Glerið í Murano var allt rautt á litinn

3 Gler er búið til úr

sandi og fleiri efnum sem hafa snöggkólnað án þess að mynda kristalla.
silfurbergi og flögugrjóti
þurrkuðum kolamolum
brennsluefni sem finnst í mýrum

4 Hvað af eftirfarandi efnum er EKKI hráefni í glergerð?

sandur
þvottasódi
lyftiduft
pottaska

5 Fyrsta glerblástursverkstæðið á Íslandi var

glersmiðja í fyrirtækinu Laugarnesleir
listasmiðjan Ískurl á Súgandafirði
eldsmiðja Iðnskólans í Reykjavík
verkstæði Sigrúnar og Sörens á Kjalarnesi


Heimildir[breyta]

Tengt efni[breyta]

Tenglar[breyta]

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:

Myndbönd á youtube.com