Fossvogur

Úr Wikibókunum

Inngangur[breyta]

Þessi bók er um Fossvogsdal, landssvæðið sem skilur að Reykjavík og Kópavog.


Náttúrufar[breyta]

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal. Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar. Í skóginum er mikið fuglalíf.

Austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936.


Árið 1937 var úthlutað nýbýli í Fossvogsdal. Nýbýlið hlaut nafnið Birkihlíð (Digranesblettur 7) og ábúendur voru Jóhann Schröder garðyrkjumaður og Jakobína kona hans. Bústofn höfðu þau engan en ræktuðu grænmeti sem selt var til Reykjavíkur. Árið 1949 keyptu Einar E. Sæmundsen, skógfræðingur og mágur hans Loftur Þór Einarsson, húsasmíðameistari helming lands Jóhanns Schröder. Þeir byggðu hvor sitt húsið fyrir fjölskyldur sínar vestan Birkihlíðar. Um líkt leyti byggði Eilif Lönning og kona hans, Guðný Sverrisdóttir Lönning hús sunnan megin við Nýbýlaveginn, á móts við Birkihlíð. Allt þetta fólk ræktaði garða sína og nærliggjandi holt við erfiðar aðstæður og eru þeir í dag vöxtulegir trjálundir beggja vegna Nýbýlavegarins. Mest áberandi eru sitkagreni og alaskaaspir og eru mörg trén meðal hæstu trjáa sinnar tegundar í Kópavogi. Einnig eru þar fágætari tegundir og þar á meðal stærsta evrópulerki í Kópavogi.

Í Fossvogi eru gróskumiklar, grýttar þangfjörur og leirur sem fuglarnir nýta. Vegna yls í Fossvogslæk helst ósinn jafnan íslaus á veturna. Það kunna ýmsir fuglar að meta í frosthörkum, t.d. tjaldur, stokkönd, skúfönd, rauðhöfði og álft. Í Fossvogi finnst sjávarset, svokölluð Fossvogslög, með steingerðum skeljum og kuðungum. Lindýrin eru um 11 þúsund ára gömul. Ofan á Fossvogslögunum er þunnur jökulruðningur eftir skriðjökulinn sem síðast gekk fram Fossvogsdal fyrir nær 10 þúsund árum. Öll lindýrin í Fossvogslögunum lifa enn í dag umhverfis Ísland. Má þar nefna hallloku, kúskel, smyrsling og nákuðung. Áhugavert er að skoða Fossvogslögin en ekki má hrófla við þeim.

Dýralíf[breyta]

Saga[breyta]