Falsfréttir

Úr Wikibókunum

höfundur: Heiða Rúnarsdóttir, grunnskólakennari og bókasafns- og upplýsingafræðingur


Tilgangur síðunnar er að efla skilning ungs fólks á falsfréttum.

  • Það geti áttað sig á áhrifum falsfrétta.
  • Verði meðvitaðra um umfangi og útbreiðslu falskra frétta í samfélaginu.
  • Því er ráðlagt hvernig best er að varast falskar fréttir.

Hvað eru falskar fréttir?[breyta]

Gosi


Falsfréttir er hugtak sem er notað yfir vafasamar upplýsingar, lygar, á frétta- og samfélagsmiðlum. Orðið "Fake news" falskar fréttir er talið hafa birst fyrst í bandarísku blaði árið 1890 [1] . Ýmsar persónur, leikendur og lifandi, hafa orðið frægar í gegnum tíðina fyrir lygar. Í Barnabókmenntum birtist Gosi sem hafði ríka tilhneygingu til að hagræða sannleikanum. Gosi laug eins og hann var langur til og virkaði nefið á honum sem einskonar lygamælir og lengdist í takt við lygina sem valt upp úr honum. Það væri óskandi ef það væri svo auðvelt að greina falsfréttir á netinu.

Við segjum stundum að sannleikurinn geti verið lyginni líkastur. Það er oft erfitt að greina þarna á milli. Falskar fréttir birtast allt í kringum okkur í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Falsfréttir eru upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þær eru skrifaðar til að blekkja. Stundum fá falskar fréttir byr undir báða vængi, þá er þeim deilt áfram um netið af fólki sem veit ekki betur og telur sig vera að vitna í sannar fréttir.

Hefur fallið fyrir eða komið af stað falskri frétt?[breyta]

Sennilega hefur þú einhverntíman látið gabbast. Daglega skellur á okkur endalaust magn upplýsinga. Við viljum vita hvað er í gangi en gefum okkur ekki alltaf tíma til að skoða hlutina nægilega vel. Margir renna aðeins yfir fyrirsagnir sem eru settar fram í upphrópunarstíl til að fanga athygli. Ef þú gefur þér ekki tíma í ítarlegan lestur getur þú í hita leiksins óaðvitandi með tjáningu þinni, munnlega eða skriflega, skyndilega orðið uppspretta falsfréttar.

Fólk misskilur stundum það sem það les og er fljótt að bregðast við og segja skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Falsfréttir eru í einu hendingskasti komnar í loftið og berast eins og eldur í sinu um netið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að falsfréttir geta farið mun hraðar um samfélagsmiðla en sannar fréttir. Sittu á þér með að deila frétt þar til þú hefur gefið þér tíma til að lesa hana vandlega og kannað uppruna hennar. Bandarísk rannsókn á dreifingu falsfrétta, yfir 10 ára tímabil, á Twitter sýndi að 7 af hverjum 10 fréttum á samfélagsmiðlinum voru falskar. Ætla má að magn falsfrétta á öðrum samfélagsmiðlum sé sambærilegt.[2]

Í hvaða tilgangi eru falsfréttir skrifaðar?[breyta]

Falskar fréttir eru búnar til með misjafnan tilgang í huga.

Grín og gabb[breyta]

Falskar fréttir geta verið góðlátlegt grín eða gabb. Fjölmiðlar hafa lengi stundað það að skrifa falskar fréttir 1. apríl. Fyrsta íslenska aprílgabbið heyrðist í Ríkisútvarpinu árið 1957 og fjallaði um skip sem sigldi upp Öflusána á leið sinni til Selfoss.[3] Fjölmiðlar sameinast stundum um að semja aprílgabb til að gera það trúverðugra því fólk er sérlega varkárt á þessum degi. Þá leitar fólk í vafa að sömu frétt á fleiri en einum miðli. Það hefur meiri trú á að fréttin sé sönn ef það finnur hana á fleiri stöðum. Það er góð regla að leita að frétt á öðrum miðlum ef þú efast um að hún sé sönn. Nú eru margir fjölmiðlar farnir að hugsa sinn gang og eru hættir að taka þátt í 1. apríl gabbi. Þeir vilja ekki veikja trú almennings á sinn miðil með því að skapa falsfréttir sem auðtrúa lesendur deila áfram sem sannleika á samfélagsmiðlum.[4]

Óvönduð vinnubrögð[breyta]

Falskar fréttir geta komið til vegna óvandaðra vinnubragða. Mikil samkeppni og hraði er á fjölmiðlamarkaði um að vera fyrstir með fréttirnar. Það er auðvelt að verða á og minniháttar villur til afdrífaríkra mistaka geta dulist í fréttagreinum. í byrjun 21. aldarinnar var rannsókn gerð á trúverðugleika frétta í bandarískum dagblöðum. Niðurstöðurnar voru skelfilegar en villur leyndust í ríflega helmingi fréttatexta. Í kjölfar rannsóknarinnar var farið yfir vinnubrögð og reynt að draga úr mistökum.[5] Þegar einstaklingar hafa einu sinni komið auga á falska frétt í fjölmiðlum glatar miðillinn trausti lesandans. Könnun á trausti einstaklinga á íslenskum fjölmiðlamarkaði framkvæmd af Markaðs- og miðlarannsóknum í desember 2016 sýndi að flestir lesendur, 67-69%, treystu Fréttastofu RÚV og Ruv.is en fæstir treystu DV og DV.is, einungis 7-8% þátttakenda.[6]

Áhrif á skoðanir[breyta]

Falskar fréttir sem eru settar fram til að hafa áhrif á viðhorf okkar geta ógnað öryggi þjóðfélagshópa, sérstaklega minnihlutahópa, ef þær beinast gegn þeim. Falsfréttir sem níða niður frambjóðendur eru áberandi í aðdraganda kosninga. Þær geta ráðið úrslitum um það hverjir komast til valda í lýðræðisríkjum.[7] Þeir sem skrifa fölsk ummæli um aðra, eru með leiðindi, eyðileggja umræðu eða efna til illinda meðal fólks gera það yfirleitt nafnlaust eða undir dulnefni. Þessir einstaklingar hafa fengið viðurnefnið tröll eða „nettröll“.[8]

Hvernig get ég varast falskar fréttir?[breyta]

Það er yfirleitt auðveldara að átta sig á áreiðanleika prentaðs efnis en greina á netinu. Það geta allir sett efni á netið. Mikilvægt að vera alltaf vakandi yfir því að meta áreiðanleika upplýsinga sem verða á vegi okkar.

Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Hvar er fréttin skráð? Er þetta viðurkenndur fréttamiðill?
  • Er höfundur skráður fyrir fréttinni? Ef svo er kannaðu þá, fræðasvið hans og hvort þú finnur fleiri greinar eftir hann. Greinar án höfundar eiga að vekja grunsemdir.
  • Byggist fréttin á staðreyndum eða ertu fyrst og fremst að lesa skoðanir höfundar?
  • Lestu meira en bara fyrirsögnina. Fyrirsagnir eru oft gerðar til að vekja athygli svo fólk smelli frekar á fréttina.
  • Er fréttin um stórt mál sem ekki er fjallað um á öðrum miðlum? Prófaðu að gera leit að efni fréttarinnar og athugaðu hvort þú finnur sambærilegar fréttir. Ef enginn annar er að fjalla um málið gæti fréttin verið fölsk.
  • Er vísað í heimildir í fréttinni? Skoðaðu þá heimildirnar og sjáðu hvort þær styðja við fréttina.
  • Kemur skýrt fram hvenær fréttin var skrifuð? Það kemur reglulega fyrir að gamlar fréttir séu túlkaðar sem nýjar og fara í dreifingu á samfélagsmiðum.[9] [10]
Gátlisti

Spurningar[breyta]

  • Hvaða áhrif geta falsfréttir haft á samfélagið?
  • Hvernig breiðast falskar fréttir út?
  • Hvernig er best að varast falskar fréttir?

Krossapróf[breyta]

1 Hvaða fullyrðing passar ekki við falsfréttir?

Falsfréttir eru skrifaðar til að blekkja lesandann.
Þeir sem dreifa falsfréttum vita alltaf hvað þeir eru að gera.
Falsfréttir berast hraðar um samfélagsmiðla en sannar fréttir.
Það eru miklar líkur á því að finna falsfréttir á samfélagsmiðlum.

2 Þegar þú lest fréttir á samfélagsmiðlum ...

eru litlar líkur á að þú rekist á falsfréttir.
getur þú treyst því að fréttir sem vinir þínir dreifa eru sannar.
eru allar fréttirnar nýlegar.
getur þú átt erfitt með að greina sannar fréttir frá fölskum.

3 Til að draga úr útbreiðslu falsfrétta er mikilvægt að ...

kanna vel fyrirsagnir í fjölmiðlum.
lesa nákvæmlega og kanna uppruna frétta áður þeim er deilt áfram.
vera alltaf kurteis þegar maður deilir fréttum.
treysta fréttum sem birtast í dagblöðum frekar en á netinu.

4 Hvað eru "nettröll"?

Þeir sem eru mikið á netinu.
Einhverjir sem þú getur treyst.
Þeir sem sem koma af stað illindum á netinu.
Hjálpa þér með tæknierfiðleika á netinu.

5 Til að varast falsfréttir er gott að ...

meta fréttina án hlutdrægni.
leggja ekki trú á skemmtilegar fréttir.
lesa aðeins nýlegar fréttir.
lesa fyrirsögn fréttarinnar vandlega.

6 Greindu á milli staðreynda og skoðana. Finndu staðreyndina?

Skyr er betra en jógúrt.
Þú verður að nota rjóma út á skyr.
Skyr er mikilvæg mjólkurafurð.
Kalk styrkir tennur og bein.


Tilvísanir og Heimildir (APA)[breyta]

  1. [Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Þórgnýr Einar Albertsson. (2017, 1. apríl). Falsfréttir dreifast um heiminn. Visir.is. Sótt 17. febrúar 2019 af http://www.visir.is/g/2017170339689]
  2. [Lovísa Arnardóttir. (2018, 9. maí). Falsfréttir fara sex sinnum hraðar og dreifast víðar. Fréttablaðið.Sótt 16. febrúar 2019 af https://www.frettabladid.is/frettir/falsfrettir-dreifast-sex-sinnum-hraar-og-fara-viar]
  3. [Unnar Árnason. (2003, 1. apríl). Hvers vegna er það siður að „gabba“ fólk fyrsta apríl? Vísindavefurinn. Sótt 16. febrúar 2019 af http://visindavefur.is/svar.php?id=3302]
  4. [Björn Malmquist. (2017, 31. mars). Ætla að sleppa aprílgabbi vegna falsfrétta. Ruv.is. Sótt 16. febrúar 2019 af http://www.ruv.is/frett/aetla-ad-sleppa-aprilgabbi-vegna-falsfretta]
  5. [Guðbjörg Hildur Kolbeins. (2008, 1. apríl). Hversu áreiðanlegir eru fjölmiðlar? Vísindavefurinn. Sótt 15. febrúar 2019 af http://visindavefur.is/svar.php?id=7268]
  6. [Markaðs og miðlarannsóknir, MMR. [2016]. Traust til fjölmiðla. Sótt 16. febrúar 2019 af https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/588-traust-til-fjolmidla]
  7. [Áttavitinn. (2019, 25. janúar). Falskar fréttir. Sótt 15. febrúar 2019 af https://attavitinn.is/samfelagid/fritimi/falskar-frettir/]
  8. [Orðabókin. (2018, 3. júlí). Tröll.Sótt 17. febrúar 2019 af http://ordabokin.is/ord/troll/]
  9. [Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. (2011). Heimir. Handbók um heimildaritun. Kópavogur: Menntamálastofnun.]
  10. [Áttavitinn. (2019, 25. janúar). Falskar fréttir. Sótt 15. febrúar 2019 af https://attavitinn.is/samfelagid/fritimi/falskar-frettir/]

Áttavitinn. (2019, 25. janúar). Falskar fréttir. Sótt 15. febrúar 2019 af https://attavitinn.is/samfelagid/fritimi/falskar-frettir/

Björn Malmquist. (2017, 31. mars). Ætla að sleppa aprílgabbi vegna falsfrétta. Ruv.is. Sótt 16. febrúar 2019 af http://www.ruv.is/frett/aetla-ad-sleppa-aprilgabbi-vegna-falsfretta

Guðbjörg Hildur Kolbeins. (2008, 1. apríl). Hversu áreiðanlegir eru fjölmiðlar? Vísindavefurinn. Sótt 15. febrúar 2019 af http://visindavefur.is/svar.php?id=7268

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Þórgnýr Einar Albertsson. (2017, 1. apríl). Falsfréttir dreifast um heiminn. Visir.is. Sótt 17. febrúar 2019 af http://www.visir.is/g/2017170339689

Lovísa Arnardóttir. (2018, 9. maí). Falsfréttir fara sex sinnum hraðar og dreifast víðar. Fréttablaðið.Sótt 16. febrúar 2019 af https://www.frettabladid.is/frettir/falsfrettir-dreifast-sex-sinnum-hraar-og-fara-viar

Markaðs og miðlarannsóknir, MMR. [2016]. Traust til fjölmiðla. Sótt 16. febrúar 2019 af https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/588-traust-til-fjolmidla

Orðabókin. (2018, 3. júlí). Tröll.Sótt 17. febrúar 2019 af http://ordabokin.is/ord/troll/

Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. (2011). Heimir. Handbók um heimildaritun. Kópavogur: Menntamálastofnun.

Unnar Árnason. (2003, 1. apríl). Hvers vegna er það siður að „gabba“ fólk fyrsta apríl? Vísindavefurinn. Sótt 16. febrúar 2019 af http://visindavefur.is/svar.php?id=3302

Ítarefni[breyta]

Ráð til að meta og skilja efni á netinu: http://saft.is/wp-content/uploads/2018/09/rad_til_ad_meta_og_skilja_efni_af_netinu.pdf

Verkefni sem þjálfar einstaklinga í að varast falsfréttir. Að meta og skilja efni á netinu http://saft.is/wp-content/uploads/2018/09/ad_meta_og_skilja_efni_af_netinu.pdf

Áreiðanleiki heimilda – Leit á neti - höfundur https://vefir.mms.is/tolvufaerni2/#

Áreiðanleiki heimilda – Leit á neti - ýmis atriði https://vefir.mms.is/tolvufaerni2/#