Fara í innihald

Félagsmótun

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Helga Rúna Þorsteinsdóttir

Félagsmótun er þau samskipti sem móta persónuleika fólks og lifnaðarhætti. Félagsmótun er eins konar líftaug á milli manns og samfélags og án hennar fær hvorugt þrifist. Markmiðið með þessari Wikibók er að skoða félagsmótun almennt og skoða þá sem hafa mest áhrif á félagsmótun.


Hugtakið

[breyta]

Hugtakið félagsmótun er eitt af mikilvægustu hugtökum félagsfræðinnar. Til þess að skilja þær leikreglur sem tíðkast í hinum ólíku samfélögum og samskipti á milli fólks innan þeirra er nauðsynlegt að skoða þetta hugtak nánar.

Félagsmótun hefst strax tið fæðingu

Strax við fæðingu stöndum við frammi fyrir löngu og flóknu námsferli sem kallast félagsmótun en í því felst að ómálga barn verður að nýtun þjóðfélagsþegni. Námsefnið er meðal annars tungumál, venjur, siðir og fleira sem tengist menningu þess samfélags sem við búum í. Þó að við séum ólík að eðlisfari er okkur kennt að lifa í ákveðnu samfélagi. Lifnaðarháttum okkar er stýrt í samskiptum við annað fólk þar sem við lærum að gera greinamun á réttu og röngu, fallegu og ljótu, viðeigandi og óviðeigandi sem þýðir að við getum ekki hegðað okkur eins og við viljum.


Ævilangt ferli

[breyta]
Félagsmótun tengist menningu samfélagsins

Félagsmótun er ævilangt ferli sem hefst á fæðingardeildinni og henni lýkur aldrei, því við erum jú alltaf að læra eitthvað nýtt. Mikilvægasta tímabil félagsmótunar er á fyrstu æviárum einstaklingsins. Smám saman öðlumst við reynslu og þekkingu sem gerir okkur kleift að taka þátt í daglegu lífi innan samfélags.

Engir tveir eru hins vegar mótaðir alveg eins, því félagsmótun er breytileg eftir stað og stund. Það þýðir að félagsmótun er ólík eftir löndum en einnig að það er munur á félagsmótun eftir því hvort einstaklingur er úr þéttbýli eða úr dreifbýli. Félagsmótun er líka mismunandi eftir fjölskyldum þrátt fyrir að þær séu á sama svæði. Annað sem hefur áhrif á félagsmótun er tími og það má best sjá með því að bera félagsmótun okkar við þá sem afi okkar og amma fengu.

Frummótun/síðmótun

[breyta]

Venjulega er félagsmótun flokkuð í frummótun og síðmótun. Við frummótun lærir einstaklingurinn undirstöðureglur samfélagsins, þannig að hann geti átt samskipti við annað fólk og sé hæfur meðal manna. Þessi félagsmótun á sér helst stað innan fjölskyldunar. Síðmótun verður síðan þegar við vöxum úr grasi og höldum út í lífið. Hún gerist einkum innan skólans og vinnunnar, þótt ótal aðrir þættir komi einnig við sögu, svo sem félagar, íþróttafélög, fjölmiðlar og fleira.


Áhrifavaldar

[breyta]

Fjölskyldan: Hún er jafnan talin mikilvægast aðilinn í félagsmótun. Hjá henni er lagður grunnur að öryggiskennd og sjálfstrausti barnsins en þessir þættir hafa afgerandi áhrifa á hvernig einstaklingur þroskast sem sjálfstæður einstaklingur. Foreldrar eru oftast fyrirmyndir barna sinna bæði hvað varðar góða og slæma siði og á unga aldri læra börn meðal annars að líkja eða herma eftir fyrirmyndum sínum.

Skólinn: Eftir því sem börn eldast því stærra hlutverk spilar skólinn á móti fjölskyldunni í félagsmótuninni. Hlutverk skólans er meðal annars að miðla hugmyndum og gildum sem eru ríkjandi á hverjum tíma og kenna okkur færni og þekkingu. Þessir þættir endurspegla kröfur samfélagsins um hvað sé nauðsynlegt að kunna til að geta orðið nýtir samfélagsþegnar.

Félagar: Þegar á líður verða það síðan félagarnir eða vinahópurinn sem verður sífellt mikilvægari félagsmótunaraðili. Á unglingsárum skipta viðhorf og háttarlag jafnaldra ekki síður miklu máli en viðhorf og háttarlag þeirra fullorðnu. Á unglingsárunum breytist margt hjá einstaklingnum, unglingurinn reynir að losa sig undan áhrifum fjölskyldu sinnarsem hefur fram að þessu verið kjölfestan í lífi hans. Breytingarnar sem tengjast auknu sjálfstæði fela í sér mikla möguleika en geta einnig leitt til óöryggis og áhyggna í lífi unglingsins. Í samskiptum við aðra prófar og kynnist unglingurinn mismunandi hliðum á sjálfum sér við ólíkar aðstæður og í vinahópnum fær hann tækifæri til að reyna mismunandi hegðun og viðhorf. Reynsla hópsins verður sameiginleg, ýmsar leiðir eru reyndar, viðurkenndar eða þá að þeim er hafnað. Innan vinahóps gilda oft sérstakar reglur, skoðanir og hegðun sem stangast á við skoðanir eða hugmyndir fullorðinna. Það er þó mikilvægt að vita að á þessu óróleikatímabili þarf unglingurinn á miklum stuðningi fjölskyldunnar að halda, þó hann geri sér ef til vill ekki alltaf grein fyrir því .

Vinátta skiptir miklu máli í félagsmótun

Vinátta: Á unglingsárunum skiptir fjölskyldan minna máli en vinirnir. Fram að unglingsárum er vináttan fremur óstöðug og byggist fremur á fámennum hópi leikfélaga af sama kyni. Smám saman verða vinatengslin síðan sterkari og við lok unglingsáranna hafa flestir myndað sterk og varanleg vináttusambönd.

Vinátta er öllum mjög mikilvæg en hins vegar er mikill munur á vináttusamböndum milli stelpna annars vegar og stráka hins vegar. Algengast er að stúlkur myndi eitt eða tvö náin trúnaðarsambönd og í þeim er öllum hugsunum og tilfinningum deilt með vinkonum. Öðrum er ekki veittur aðgangur að þessum trúnaðarsamböndum og því er það þannig að margar stúlkur verða mjög viðkvæmar fyrir því að vinkonan “svíkur þær” til dæmis með því að eignast kærasta. Vinahópur stráka er yfirleitt mun stærri en hjá stelpum og því verða vináttubönd milli þeirra ekki eins náin. Þeim finnst oftast mikilvægara að vera viðurkenndir innan hópsins en að eiga einhvern besta vin. Eitt af því sem unglingar óttast hvað mest er að falla ekki inn í félagahópinn eða klíkuna. Í vinahópnum ræða unglingarnir sameiginleg viðmið í hegðun og skoðunum og þar er ákvarðað hverjir séu viðurkenndir og hverjir útilokaðir úr hópnum. Þeir sem hegða sér ekki rétt eða hafa önnur viðhorf en þau sem gilda í hópnum er fljótlega hafnað. Aukið sjálfstraust og öryggi fylgir því að vera viðurkenndur af hópi og því reyna margir unglingar að sýna á einhvern hátt að þeir tilheyri hópi til dæmis með fötum eða öðrum tískufyrirbærum.

Fjölmiðlar: Í öllum samfélögum nema þeim frumstæðustu eru fjölmiðlar og þeir hafa áhrif á einstaklinginn. Sumir telja meira að segja að fjölmiðlar séu mikilvægustu aðilar í félagsmótun í okkar samfélagi því þeir miðli væntingum, skoðunum og hugmyndum til fólks. Fjölmiðlar gera það kleift að dreifa boðskap til mjög margra samtímis. Áhrif fjölmiðla eru ópersónuleg vegna þess að sendandi og móttakandi eru ekki í beinum persónulegum tengslum við hvor annan, fjölmiðillinn er á milli þeirra. Sendandinn veit ekki nákvæmlega hver móttakandinn er og móttakandinn hefur takmarkaða möguleika á að láta heyra í sér. Áhrifamesti fjölmiðillinn er án efa sjónvarp en af öðrum miðlum má nefna dagblöð, tímarit, bækur, útvarp, myndbönd, kvikmyndir eða geisladiskar.

Spurningar

[breyta]

1. Hvenær hefst félagsmótun?

2. Hvað er mikilvægasta tímabil félagsmótunar?

3. Í hvað er félagmótun venjulega flokkuð?

4. Hverjir eru helstu áhrifavaldar félagsmótunar?

5. Hver er helsti munurinn á félagsmótun stráka og stelpna á unglingsárunum?

6. Hvaða fjölmiðill er áhrifamestur í félagsmótun?

7. Félagsmótun fjölmiðla er ópersónuleg, Hvað er átt við með því?

Heimildir

[breyta]
  • Garðar Gíslason. 1997. Félagsfræði: Einstaklingur og samfélag. Mál og menning. Reykjavík

Ítarefni

[breyta]