Eldgos

Úr Wikibókunum

Þessi Wikibók er hugsuð fyrir nemendur í 3. - 4. bekk og er fylgiefni með bókinni Komdu og skoðaðu eldgos. Markmiðið með þessari Wikibók er að nemendur kynnist nokkrum eldfjöllum og hvað er inni í hnettinum jörð.


Jörðin[breyta]

Jörðin frá gervihnettinum Suomi NPP

Jörðin er næstum því kúlulaga og er lagskipt en það þýðir að hún er búin til úr nokkrum lögum. Innst í jörðinni er risastór eldhnöttur sem er kallaður kjarni og hann skiptist í tvo hluta sem eru innri og ytri kjarni. Utan um kjarnann er síða möttull og utan um allt þetta er jarðskorpan en hún er eins og eggjaskurn sem er sprungin í sjö hluta og kallast þessir hlutar flekar eða jarðskorpuflekar.

Inni í jörðinni


Kjarninn sem er innst í jörðinni er risastór eldhnöttur og getur hitinn í honum orðið um 7000° á celsíus. Utan um kjarnann er síðan möttullinn og þar sem kjarni og möttull mætast getur hitinn orðið um 5000° celsíus. Þetta eru rosalega háar tölur og ef við berum saman hitann á sólinni og jörðinni þá er hitinn á yfirborði sólarinnar 5500° á celsíus. En sólin er samt miklu heitari að innan en á yfirborðinu.


Ísland[breyta]

Ísland frá gervitungli

Ísland er eldfjallaeyja sem varð til úr mörgum stórum eldgosum á löngum tíma eða mörgum tugum milljónum ára. Landið varð samt til eftir að risaeðlurnar voru útdauðar því það byrjaði að myndast fyrir um það bil 60 milljón árum en risaeðlurnar voru útdauðar fyrir um 65 milljón árum.

Inni í jörðinni er eldglóandi kvika. Þessi kvika kemur oftar upp á yfirborðið á Íslandi en annarsstaðar því að undir Íslandi er það sem kallað er heitur reitur. Heitur reitur þýðir að það er mikill jarðhiti og mikil eldvirkni á staðnum. Það eru um 20 - 30 heitir reitir á jörðinni allri.


Eldgos[breyta]

Eldgos eru algeng á Íslandi, það kemur gos á nokkurra ára fresti. Það hafa verið meira en 200 eldgos á Íslandi síðan landið byggðist. Á síðustu árum hafa verið nokkur eldgos á Íslandi og þekktasta eldgosið er líklega gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 því það vakti heimsathygli, það stóð yfir í 39 daga. Helstu afleiðingar gossins voru að flugsamgöngur röskuðust víða því það fór aska úr gosinu alla leið til Evrópu og askan lagðist líka yfir bæina á stóru landsvæði í kringum jökulinn. Ári seinna, 2011, gaus í Grímsvötnum og stóð það í sjö daga. Það hafði það mikil áhrif eins og sjá má í þessu viðtali hér.

Eldstöð nefnist staðurinn þar sem eldgos verður og hraun og aska, sem kallast gjóska, koma upp á yfirborðið í eldgosum. Þá er glóandi bergkvika að ryðjast upp á yfirborð jarðarinnar og slettist hún í allar áttir því það er svo mikill kraftur í kvikunni. Sletturnar kólna meðan þær eru að fljúga upp í loftið og kólna og breytast í gjósku. Gjóskan getur borist á allar áttir og afleiðingarnar geta verið miklar eins og sáust þegar gaus í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.

Það hafa orðið mörg eldgos á Íslandi því hún er eldfjallaeyja. í bókinni Komdu og skoðaðu eldgos er talað um Holuhraun, Heklu og Eldfell ásamt því að það er aðeins talað um Surtsey. Því er fjallað stuttlega um þau hér og vísað í frekari umfjöllun um þau fyrir mjög áhugasama.


Surtsey[breyta]

Surtsey, 1999

Surtsey er eyja sem varð til í eldgosi, neðansjávargosi, á árunum 1963 til 1967 við Vestmannaeyjar. Þetta er í fyrsta skipti sem vísindamenn gátu fylgst með því þegar það varð til eyja úr eldgosi, hvernig hún mótaðist af hafinu og vindum og hvernig lífverur námu land. Fyrsta plantan sem bar fræ og blóm í eynni var fjörukál og 1995 voru 35 plöntur sem lifðu á eynni. Nokkrir fuglar verpa á eynni og telja vísindamenn að fræ frá plöntum hafi komið með þeim.


Heimaey - Eldfell[breyta]

23. janúar 1973 um nóttina byrjaði eldgos í Heimaey í Vestmannaeyjum og stóð gosið alveg fram til 3. júlí sama ár. Gosið byrjaði seint að kvöldi því það vakti heimamenn af svefni, og voru heimamenn mjög heppnir að það voru flestir fiskibátar í höfn þannig að hægt var að nota bátana til að flytja heimamenn yfir á meginlandið, burtu frá gosinu. Það var hægt að flytja meirihlutann af fólkinu af eynni með skipum, bátum og flugvélum, mjög fljótt. Næstu vikur fóru í það að bjarga eignum fólks, flytja þær í burtu með skipum.

Heimaey

Afleiðingarnar af gosinu urðu mjög miklar í Vestmannaeyjum því um helmingur húsanna fóru undir hraun. Það er einn maður sem dó því hann fékk koldíoxíðeitrun en þannig eitrun verður þegar lífshættulegar lofttegundir koma upp úr jörðinni í eldgosi, með gjósku og vikri. Það var heppni að það voru ekki fleiri sem dóu því gosið var bara nokkrum metrum frá húsunum sem voru næst gosinu.

Eldfell er fjall í Heimaey sem myndaðist í Heimaeyjargosinu. Hér má sjá þátt frá árinu 1993 um eldgosið.

Holuhraun[breyta]

Gos í Holuhrauni

Holuhraun er hluti af Bárðarbungu en Bárðarbunga er í Vatnajökli. Það varð lítið gos 29. ágúst 2014 í Holuhrauni sem var bara í fáeinar klukkustundir. En tveimur dögum seinna, 31. ágúst, byrjaði annað og mikið stærra gos sem varði í sex mánuði, því lauk 28. febrúar. Afleiðingarnar af þessu gosi voru ekki eins miklar og til dæmis gosinu í Heimaey því gosið var langt í burtu frá mannabústöðum.

Hekla[breyta]

Hekla

Þekktasta eldfjall Íslands er svokölluð drottning íslenskra eldfjalla, Hekla. Hekla er í Rangárvallasýslu, á suðurlandi. Árið 1104 var stórt og heimsfrægt gos í Heklu. Það er sagt að þá hafi margir bæir í Rangárvallasýslu lagst í eyði, öll byggð í Hrunamannaafrétti og Þjórsárdal, vegna gjóskufalls. Það er ýmis hjátrú tengd Heklu eins og að í henni séu annar af tveimur inngöngum í helvíti en hinn inngangurinn er í eldfjallaeyjunni Stromboli á Ítalíu. Árið 1300 varð annað stórt gos og þá skemmdust margir bæir í jarðskjálftunum sem urðu þá, fólk dó og það urðu harðindi en Hekla gaus í heilt ár. Síðasta stórgos í Heklu var 1947 og það var gos í 13 mánuði en Hekla gaus síðast árið 2000 og það gos varði í 10 daga.

Krossapróf[breyta]

1 Hvað eru jarðskorpuflekarnir margir?

Einn
Þrír
Fimm
Sjö

2 Hvernig myndaðist Surtsey?

Surtsey varð til því að fuglar flugu þangað
Surtsey varð til vegna eldgoss
Surtsey varð til því fólkið bjó eynna til
Surtsey er ekki til

3 Hvað er líklega þekktasta eldgosið á Íslandi?

Eldgosið í Grímsvötnum
Eldgosið í Þorbirni
Eldgosið í Vestmannaeyjum
Eldgosið í Eyjafjallajökli

4 Hvað er kjarni jarðarinnar heitur?

1000° á celsíus
3000° á celsíus
7000° á celsíus
9000° á celsíus

5 Hver er drottning íslenskra eldfjalla?

Jökla
Sunna
Katla
Hekla


Spurningar[breyta]

Þú átt að svara þessum spurningum og skrifa svörin í náttúrfræði stílabókina þína eða skila því í gegnum Google Classroom - náttúrufræði.

1. Hvenær gaus í Vestmannaeyjum og hverjar voru afleiðingar gossins?

2. Hvaða fjall er tengt hjátrú og hver er hjátrúin?

3. Segðu frá og teiknaðu mynd af því hvað er inni í jörðinni.


Tilraun[breyta]

Freyðandi eldfjall:

Í eldhúsinu getur þú fundið efni til að búa til eldfjall sem freyðir, þú þarft:

     2 msk matarsóda
     2 msk hveiti
     edik, fer eftir stærð á glasi
     Matarlit, þarf ekki en gaman að nota
     stórt glas
     bakki

Settu glasið á bakkann, helltu ediki í glasið þar til það er hálffullt. Settu hveiti og matarlit saman við og hrærðu. Nú setur þú matarsódann í glasið og sjáðu hvað gerist.

Það sem gerist

Nú á vökvinn í glasinu að byrja að freyða því þegar matarsódi og edik blandast saman verður efnahvarf og í því myndast m.a. koldíoxíð. Koldíoxíðið myndar loftbólur en hveitið herðir kúlurnar og lætur þær endast lengur.

Ástæðan fyrir að matarsódi og edik blandast svona vel saman er að matarsódinn er basi en edikið sýra, en sýrur og basar ganga mjög auðveldlega í efnahvarf. Efnin sem myndast í efnahvarfinu hafa meira rúmmál en þau sem fyrir voru og því freyðir upp úr glasinu.

Ítarefni[breyta]

Hekla:

http://eldgos.is/hekla/

https://www1.mms.is/jardfraedi/eldfjoll.php?id=365

http://eldgos.is/annall-heklugosa/


Heimaeyjargos:

http://www.heimaslod.is/index.php/Heimaeyjargosi%C3%B0

https://www1.mms.is/jardfraedi/eldfjoll.php?id=364

https://www.youtube.com/watch?v=YV1CJsGRXco


Holuhraun:

https://www.ruv.is/frett/eldgosid-i-holuhrauni-fra-upphafi-til-enda

https://www.ruv.is/frett/fimm-ar-fra-eldgosinu-i-holuhrauni

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=68656


Surtsey:

http://www.heimaslod.is/index.php/Surtsey

https://www1.mms.is/jardfraedi/eldfjoll.php?id=367

https://www.youtube.com/watch?v=HTd1CVusJ50

Heimildir[breyta]

Helgi Grímsson. (2014). Auðvitað - jörð í alheimi. Reykjavík. Menntamálastofnun.

Helgi Grímsson. (2001). Auðvitað - Bók 1. Reykjavík, Námsgagnastofnun.

Hilmar Egill Sveinbjörnsson. (2018). Ísland - Hér búum við. Reykjavík, Menntamálastofnun.

Ragnheiður Gestsdóttir. (2015). Komdu og skoðaðu eldgos. Reykjavík, Menntamálastofnun.

Sigurður Steinþórsson. (2000, 3. ágúst). Hvað er í miðju jarðar, hversu langt er þangað og hversu heitt er þar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=719