Augað

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Sigríður Elsa Vilmundardóttir

Þetta er wikibók um augað, byggingu þess og tilgang. Hún hentar sem ítarefni í líffræði mannsins í miðbekkjum grunnskóla.


Hvað er auga?[breyta]

Mannsauga

Auga er líffæri sem þróast hefur í þeim tilgangi að skynja ljós. Augu eru margbreytileg eftir lífverum og einföldustu augu skynja eingöngu hvort umhverfið er dimmt eða bjart, en flóknari augu geta greint form og liti. Mörg dýr, hafa 2 augu þar sem sjónsviðið skarast að mestu og er þetta til þess að ná fram betri dýptarskynjun. Hjá öðrum dýrum eru augun staðsett þannig að sjónsviðið skarist sem minnst og þá hafa þau víðara sjónsvið.

Hæfileikinn til að sjá byggist á því hvernig nokkrir byggingahlutar í og í kringum augasteininn virka.

Bygging augans[breyta]

Augun eru viðkvæm og aðeins hluti þeirra sést með berum augum. Auga mannsins er hnöttur, 2,5 cm í þvermál og er stór hluti þess fellt inn í augntóftirnar á höfuðkúpunni.

Augnknötturinn, bulbus oculi, er myndaður úr þremur hjúpum:

  • Trefjahjúp, tunica fibrosa, sem er ysta lag augans og er myndaður úr tveimur hlutum:
    • Glæran einnig nefnd hornhimna, cornea, er fremst á auganu. Hún er gagnsæ hetta sem hylur augasteininn og er kúptari en aðrir hlutar þess.
    • Augnhvítan, sclera, er í beinu framhaldi af glærunni. Augnhvítan er hvít og ávöl og umlykur augað. Augnhvítan er bandvefur fylltur af collagen próteininu sem bæði verndar og heldur formi augans.
  • Æðuhjúp, tunica vasculosa er miðlag augans og samanstendur af tveimur lögum:
    • Æðu, choroidea er gerð úr sortufrumum sem draga til sín ljósgeisla.
    • Lita eða lithimna, iris og er hún bakvið glæruna. Lithimnan er litaði hluti augans. Hún er ýmist blá, græn eða brún, allt eftir litkornamagni. Liturinn gerir lithimnuna ógegnsæja svo ljós kemst aðeins inn í augað í gegnum svartan blett í miðju lithimnunnar sem kallast sjáaldrið, pupilla. Í lithimnunni eru tveir vöðvar, annar minnkar sjáaldrið, hinn víkkar það og fer það eftir birtuástandi og líkams- og/eða hugarástandi hversu stórt sjáaldrið er. Í mikilli birtu þrengist sjáaldrið en í daufu ljósi víkkar það.

Aftan við lithimnuna og sjáaldrið er augasteinninn, lens. Augasteinninn getur breytt um lögun eftir því hvort horft er á nálægan eða fjarlægan hlut. Þegar horft er á fjarlægan hlut verður augasteinninn þunnur og flatur. Þegar horft er á nálægan hlut verður augasteininn þykkari og kúptari. Lítill vöðvi gefur augasteininum rétta lögun.

Aftan við augasteininn er meginhol augans. Það er fyllt af hlaupkenndu, glæru efni sem kallast glerhlaup.

Sjónhimnan, retina, er í augnbotninum. Sjónhimnan samanstendur af ljósnæmum taugafrumum sem kallast stafir ogkeilur. Beint aftan við augasteininn er sjónhimnan þétt setin af keilufrumum og sjá þær um að greina liti og gera það að verkum að hægt er að sjá hluti mjög nákvæmlega. Stafirnir eru til hliðana og greina þær frumur svart hvíta liti. Í sjónhimnunni er einnig blindur blettur, en þar kemur sjóntaugin úr heila inn í augað og tengist taugafrumunum þar inn í.


Mannsauga

Hvernig virkar augað?[breyta]

Ljósgeislar lenda á sjónhimnu augans

Þegar þú horfir á tiltekin hlut, endurspeglast ljósgeislar af hlutnum á hornhimnu augans. Ljósgeislarnir fara í gegnum hornhimnuna, sjáaldrið og þaðan í gegnum augasteininn, sem brýtur þá og fókusera ljósgeislana svo þeir lendi skarpir á sjónhimnu] augans. Sjónhimnan er lag af ljósnæmum skynfrumum. Myndin sem lendir á sjónhimnunni er á hvolfi. Þegar ljósgeislarnir lenda á skynfrumum senda þær frá sér taugaboð sem berst eftir sjóntauginni og aftur í heila. Heilinn túlkar svo úr öllum þessum boðum og vinnur úr þeim mynd sem snýr rétt, af því sem fyrir augað ber.

Gallar í sjón[breyta]

Til þess að myndin á sjónhimnunni verði skörp og greinileg verður bilið frá augasteini að sjónu að vera nákvæmlega rétt. Ef bilið er of langt eða of stutt verður myndin óskýr. Ef augun eru of löng verða menn nærsýnir þar sem skarpa myndin lendir fyrir framan sjónhimnuna. Þeir sem eru nærsýnir sjá vel nálægt sér en illa það sem er fjær. Ef augun eru of stutt veldur það fjarsýni þar sem skarpa myndin lendir fyrir aftan sjónhimnuna. Fjarsýnir sjá vel það sem er langt í burtu en illa það sem er nær. Auðvelt er að leiðrétta þetta með gleraugum eð snertilinsum. Nú er einnig hægt að fara í aðgerð þar sem er skorið af hornhimnu augans með lasergeislum og á þann hátt fá fullkomna sjón.

  • Sjónskekkja veldur einnig óskýrri sjón. Þá er hornhimna augans ekki jafnt sveigð til allra átta og veldur því að myndin lendir ekki skörp á sjónhimnunni. Þetta er hægt að laga á sama hátt og nær- og fjarsýni.

Sumir menn geta ekki greint alla liti og eru því sagðir litblindir. Algengasta gerð af litblindu er þegar menn blanda saman rauðu og grænu. Í stað þessara lita, sérstaklega ef þeir eru daufir eða blandaðir öðrum litum, sér hinn litblindi ýmis blæbrigði af gráu. Ástæðan er að í augnum eru of fáar keilur sem greina rautt eða grænt. Alger litblinda, þar sem menn sjá alls enga liti er afar sjaldgæf.

Talað er um að sjá sem ekkert sér sé blindur. Meðfæddar veilur á auga eða í sjóntaug geta valdið sjónskerðingu eða blindu. Algengasta orsök þess að ung fólk verður blint eru slys. Aldraðir missa oftar sjón vegna sjúkdóma.

Spurningar[breyta]

1. Lýstu leið ljósgeisla og sjónboðs frá auga?

2. Hvaða hluti augans getur breytt lögun sinni?

3. Hver er munurinn á nærsýni og fjarsýni?

4. Hvert er hlutverk augasteinsins?

Krossapróf um augað[1]

Heimildir[breyta]

Berth Andréasson og Lennart Edqvist. 1998. Líkami mannsins. Örnólfur Thorlacius þýddi og staðfærði. Reykjavík. Námsgagnastofnun.

Ítarefni[breyta]

  • Auga íslenska wikipedia
  • Auga enska wikipedia
  • Íslenska wikiorðabókin hefur grein um auga
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: