Að finna bók á bókasafni
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema |
Höfundur: Freydís Aradóttir
Þetta kennsluefni er ætlað til að auðvelda grunnskólanemum leit að bókum á bókasafni bæði til skemmtilestrar og verkefnavinnu.
Bækur á bókasafni
Bækurnar á bókasafninu skiptast í skáldrit og fræðirit. Skáldritunum er raðað í stafrófsröð eftir nafni höfundar en fræðiritunum eftir sérstöku kerfi sem heitir Dewey kerfi. Á kjalmiða bókar stendur hvar hún á að vera í hillu.
Skáldrit
Skáldrit eru bækur sem gerast ekki í raunveruleikanum heldur eru skáldaðar af höfundinum. Skáldrit skiptast í: skáldsögur, ævintýri, ljóð, leikrit og smásögur.
Dæmi um skáldsögur: Jón Oddur og Jón Bjarni, Beinagrind með gúmmíhanska, Harry Potter
Skáldsögum er raðað í hillurnar í stafrófsröð eftir nafni höfundar þeirra. Á kjalmiða þeirra eru þá fyrstu þrír stafirnir í nafni höfundar bókarinnar og fyrstu þrír stafirnir í heiti bókarinnar.
Íslenskum skáldsögum er raðað eftir skírnarnafni höfundar.
Dæmi: Týndu augun eftir Sigrúnu Eldjárn Á kjalmiðanum stendur þá
Sig
Týn
Erlendum skáldsögum er raðað eftir eftirnafni höfundar.
Dæmi: Eragon eftir Cristopher Paolini
Á kjalmiðanum stendur þá
Pao
Era
Fræðirit
Fræðirit eru bækur sem hafa að geyma fróðleik eða upplýsingar um eitthvert tiltekið efni t.d. íþróttir, dýr, listir, matreiðslu og margt fleira. Dæmi um bækur: Alfræðiorðabókin, Dýrapar, Skák og mát, Ströndin í náttúru Íslands
Á flestum bókasöfnum eru fræðirit flokkuð eftir kerfi sem heitir Dewey kerfi.
Kerfið heitir eftir höfundi þess sem hét Melvil Dewey (1851-1931) og var bandarískur bókavörður Kerfinu er skipt niður í tíu aðalflokka eftir efni.
Aðalflokkar Dewey kerfisins eru 10:
000 Tölvur, bókfræði og almenn heimildarrit
100 Heimspeki og sálfræði
200 Trúarbragðafræði
300 Félagsfræði
400 Tungumál
500 Raunvísindi
600 Tækni, framleiðsla og iðnaður
700 Listir og afþreying
800 Bókmenntir
900 Saga og landafræði
Hver aðalflokkur skiptist svo í 10 undirflokka
Hvaða bók á ég að velja?
Þegar bók er valin til skemmtilestrar eða sem lestrarbók er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga: Hvað finnst mér skemmtilegt? Draugasögur, ævintýri, sögur um dýr eða ástarsögur?
Hverju hef ég áhuga á? Íþróttum, dýrum, dularfullum fyrirbærum?
Passar bókin fyrir mig? Til þess að komast að því þarf að opna bókina og athuga: Hversu smátt er letrið? Er gott línubil? Hvað eru margar blaðsíður í bókinni? Er bókin of létt eða erfið? Til að komast að efni bókarinnar er oft best að lesa aftan á kápu bókarinnar þar kemur yfirleitt fram hverjar eru aðalpersónurnar og lýsing á söguþræði bókarinnar.
Krossapróf
Ítarefni
- Melvil Dewey
- Bókasöfn (enska wikipedia)
- Flokkunarkerfi á bókasöfnum (enska wikipedia)